Það er logn og bjart. Snjór yfir öllu, ásýndin köld en yfirmáta falleg. Þegar ég leit út um eldhúsgluggann í morgun sá ég að Ölfusáin var horfin......! Hún er nú ekki smávaxnasti nágranni sem ég hef átt, svo fyrr má nú rota en dauðrota.
En hún var gjörsamlega horfin og snjóhvítt teppi lá þar sem hún er vön að vera. Fyrsta sem ég hugsaði var hvort ána hefði virkilega getað lagt á einni nóttu. Og þetta væri jafnfallinn snjór. Ég dreif mig að klára það sem ég var að gera og ætlaði svo að fara niður að á með myndavélina. Þegar ég leit aftur á hana var hún aftur komin á sinn stað eins og ekkert hefði í skorist en skýjaslæða læddist upp eftir henni sem ég sá rétt í endann á.
Þetta var þá frostþoka sem lá yfir ánni, skjannahvít eins og snjórinn í kring og engin leið að sjá muninn hvar hún byrjaði eða endaði, hún var kannski metersþykk en svo þétt að það grillti ekki í gegn.
Ég hef óskaplega gaman af þessum nágranna mínum, síbreytileg og aldrei eins, en alltaf falleg.
Gærkvöldið var skemmtilegt. Heimsókn í Rauða húsið á Eyrarbakka var hlutskipti okkar ásamt vinum okkar Gylfa og Christinu. Þar snæddum við þennan fína mat í gamaldags og rómantísku umhverfi. Kokkurinn kom fram að spjalla við okkur og kanna hvernig okkur þætti maturinn. Ég held að hann hafi sérstaklega verið að kanna forréttinn sem var humarsoð. Hann sagði það mikið ferðalag fyrir bragðkirtlana að kanna þennan rétt. Það var rétt, þetta var afar sérstakt á bragðið og misjafnt hvað okkur þótti um.
Eftir góða máltíð ókum við heim og sátum svo fram á rauða nótt hér á herragarðinum við ána og spjölluðum um heima og geima.
Núna erum við svo búin að skreppa í bæinn að sækja dóttur og fósturdóttur, Hrund og Theu. Það var fallegt í Flóanum, hvernig frostþokan lá yfir eins og teppi. Og Hellisheiðin líka, hún var björt og falleg.
Núna meðan ég sit hér á skrifstofunni að skrifa þennan pistil er Erla að baka ...... jólaköku.
Mér varð á að segja henni um daginn að ég saknaði þess að hún hefði ekki bakað jólaköku svo lengi, en hún gerir þær allra bestu jólakökur sem ég hef smakkað. Það var henni líkt að láta það eftir mér.
Ég heyrði hana tauta áðan gegnum hrærivélasuðið, “ja ef ég er ekki orðin ekta sveitakona”
Fyrir mína parta, þá eru þetta notalegheit í hæsta klassa, hrein lífsgæði.
Ilmurinn í húsinu er indæll og bragðið er.... mmssssyndsamlega gott með ískaldri mjólk... nýmjólk, ekki undanrennu.
Ég elska þessa sveitakonu.....eins og Petra Rut segir "allan hringinn".
1 ummæli:
Ohhh, "allan hringinn" þið eruð svo sæt. Ég vona að ég eignist mann í framtíðinni sem elskar mig allan hringinn!!!! Hlakka til að smakka þessa frægu jólaköku. Og til hamingju með uppáhalds perluna þína á morgun:):) Arnan þín
Skrifa ummæli