sunnudagur, febrúar 26, 2012

Úr handraðanum

Blessað fólkið í landinu okkar er orðið svo gegnumsýrt af krepputali að það sér ekki til sólar þegar léttir til.

Ég sagði það og segi enn að landið okkar, þetta frábæra Ísland sem kraumar af auðlindum sem þjóðir heims öfunda okkur af, færir okkur fyrst allra þjóða upp úr kreppunni. Landið er okkar auðlind. Fólk sér frumkraftana sem mynduðu þennan heim myndbirtast í beinni útsendingu frá Íslandi og situr fast á flugvöllum um gjörvallan heim vegna litlu eyjunnar í norðri. Þessir frumkraftar sem allt mannkyn ber virðingu fyrir og litla þjóðin sem býr hér hefur á sér þennan sama stimpil og þykir hafa til að bera sömu frumkraftana og landið sjálft.

Við búum vel að hafa úr öllum þessum auðlindum að spila. Fiskurinn, varminn, orkan og nú síðast olían sem vísindamenn eru ekki lengur í vafa um að finnst á landgrunninu fyrir austan land eru gullnámur sem gefa vel og hagkerfið okkar er örsmátt svo það þarf ekki mikið.
Enda þegar litið er yfir sviðið þá eru hagtölur okkur hagfelldar, við sjáum mjög þokkalegan hagvöxt á árinu sem jafnast á við best settu þjóðir álfunnar. Fiskafurðir eru í hæstu hæðum og vöruskipti við útlönd eru hagstæð um tugmilljarða mánuðum saman. Hækkandi lánshæfimat okkar undirstrikar að við erum á réttri leið.

Gott fólk við höfum fulla ástæðu til að líta upp úr svartnættinu og láta þessar staðreyndir auka okkur bjartsýni og von til framtíðar.

Svo auðvitað gildir hið fornkveðna að "áhyggjur auka ekki spönn við aldurinn" svo þannig séð er það betra lífsmottó að líta bjartari hlið tilverunnar en þá svartari.

Njótið dagsins vinir.

sunnudagur, febrúar 12, 2012

Ómstríður kaflinn...

...um þessar mundir. Kallinn á kafi í verkefnum. Blogga ekki mikið undir álagi eins og dyggir lesendur mínir vita. Það fer gjarnan þannig ef hugurinn er á miklu flugi að ég gef mér ekki tíma til að setjast niður og skrifa.
Þessari vinnutörn á samt að ljúka í síðasta lagi 16. mars. Þá verður gott að setjast niður og bjóða frú Leti og fleiri góðum gestum í kaffi og jafnvel gistingu.

Þangað til... skulum við samt njóta daganna.

sunnudagur, febrúar 05, 2012

Á seinna fallinu

Ég get verið óttalegur morgunhani og á oftast erfitt með að "sofa út" í skilningi flestra þó ég haldi því reyndar fram að ég hljóti að "sofa út" ef ég vakna af sjálfsdáðum þótt klukkan sé í hugum sumra ennþá nótt. Það telst því til stórundra að ég sofi til klukkan níu eins og núna. Ég er því búinn að ganga aðeins á þennan stórkostlegasta tíma dagsins því morgnar eru minn tími.
Tíminn er eins og hraðlest með okkur um borð með umhverfið þjótandi framhjá á ógnarhraða. Daginn lengir hratt og maður sér orðið mikinn mun frá svartasta skammdeginu í desember, það er alltaf gott, hækkandi sól með birtu og yl kætir andann og efnið.

Dominos á Selfossi verkefnið er komið á fullt svo það verður mikið að gera næstu vikurnar. Verst að ekki tókst að opna ísbúðina áður en þetta tók við. Arkitektinn sem var að vinna fyrir okkur var engan veginn að skila sínu svo það endaði með að við fengum annan sem vinnur mun betur með okkur. Það verður gaman að opna aftur því búðin verður afar glæsileg.
Dominos hér verður líka lang flottasti Dominos staðurinn á Íslandi, mikið í hann lagt. Þetta er fyrsti staðurinn með veitingasal en Dominos í heiminum er að fara að breyta stöðunum sínum á þennan veg. Þetta er einn af fyrstu stöðunum í veröldinni sem verður með þessu sniði.

Dagurinn í dag lofar góðu, veðrið er eins og best gerist og vorið er framundan.
Njótið vel vinir.