laugardagur, ágúst 30, 2008

Nokkur orð í minningu mömmu

Það var bjartur morgunn með fyrirheit um góðan dag. Vindur lék í laufi trjánna í fallegum garði Vífilsstaða. Sólin reis í austri, þetta reyndist vera síðasta sólarupprásin í lífi móður minnar. Mamma átti orðið afkomendur á níunda tug. Allir vildu þeir svo gjarnan geta snúið við stundaglasi hennar sem tæmdist að Vífilsstöðum þennan morgun og fá að hafa hana lengur. En ekkert megnar að snúa við stundaglasi lífsins. Tíma okkar hér á jörð lýkur einn daginn og ekkert fær því breytt.

Eftir standa minningar. Minningar um „stóra“ konu sem fór frá okkur í litlum líkama. Konu sem gaf okkur allt sem hún átti, konu sem alltaf var skjöldur og hlíf, konu sem var okkur betri en best og stærri en stærst að innræti.
Konu sem sleit barnsskónum á vestfirskri grund varð síðan húsfrú og móðir átta barna í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Hún varð þetta stóra nafn “Mamma” sem leit á það sem æðsta hlutverk sitt að annast og umvefja.
Mamma var alltaf til staðar með vökul augu yfir velferð barna sinna. Klettur í hafi þegar gaf á bátinn. Lét sig alltaf varða um velferð annarra. Heillynd og sjálfri sér trú. Hreinskilin um menn og málefni og taldi sannleikann alltaf sagna bestan hvort sem undan sveið eða ekki.
Mamma lifði sínu trúarlífi á þann hátt að prédikun hennar situr eftir í hjörtum okkar sem eftir lifum. Prédikun sem sjaldnast var sett fram í orðum, heldur með verkum. Falslaus eins og dúfa en gat hvesst sig ef henni fannst hún eða börn hennar órétti beitt.

Mamma hafði aldrei góða sjón og síðustu árin var hún blind. Það breytti ekki þessu rótgróna innræti hennar eða móðurlegri umhyggju. Hún gerði alltaf eins og hún gat.
Líf hennar er okkur sem eftir lifum til eftirbreytni. Arfleifð hennar er okkar sómi.

Þegar sól rann þennan dag, var mamma farin í sína hinstu ferð. Þarna voru leiðarlok og við höfðum fengið tækifæri til að kveðja hana. Sólarlagið skartaði sínu fegursta og minnti okkur á að lífið heldur áfram og nýr dagur rís aftur að morgni.

Ég drúpi höfði í virðingu fyrir mömmu minni, þessari mikilfenglegu íslensku konu og er fullur þakklætis fyrir líf hennar.
Takk fyrir... mamma.

Minningargrein, birt í Mbl. 29 ágúst 2008

föstudagur, ágúst 15, 2008

Andlát

Mamma mín, ljúfust, lést í morgun.Falslaus eins og dúfa, gegnheill karakter...........!
Stærsti örlagavaldur í lífi heillar ættar. Betri en best, stærri en stærst ....að innræti.