sunnudagur, desember 31, 2006

Nú árið er liðið........


.........í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka........ Við Erla erum þakklát fyrir árið sem er að kveðja. Það hefur verið okkur afar gott og gefandi eins og flest árin okkar hafa verið. Árin bera auðvitað með sér misjafnlega góða hluti eins og gengur, hjá okkur eins og öðrum. Eins og þið hin stigum við inn í nýtt óskrifað ár um síðustu áramót með góðar væntingar til nýs árs. Þar bar einna hæst, útskrift mín úr lagadeild, vonir um gott og ferðaglatt sumar og kannski einhverja hugmynd um breytingu á húsnæðismálum án þess að neitt væri ákveðið í þeim efnum. Árið bar í farteski sínu allskyns tækifæri og hugmyndir sem við sum hver nýttum og önnur ekki.
Síðasta önnin í laganáminu var erfið og því vorum við mjög ánægð þegar öll próf voru í höfn og útséð að BA gráðan var orðin staðreynd.
Það var því hátíðarstund í Háskólabíói þann 10. júní við útskriftina sem var mjög skemmtileg. Ég bý svo vel að eiga svo frábærlega samhenta og góða fjölskyldu. Erla og dæturnar höfðu óvænt undirbúið kaffisamsæti heima hjá Írisi og Karlott þar sem samankomin voru systkini okkar beggja og örfáir vinir okkar, en þessi leyniveisla var punkturinn yfir i-ið þennan dag og gerði hann ógleymanlegan fyrir mig enda grunaði mig ekkert.

Eins og fram er komið vonuðum við að við gætum eitthvað gert í húsnæðismálum á nýju ári. Vesturbergsfléttan var hugsuð sem skólasjóður og því ekki fjarri lagi að kíkja hvað við gætum gert þegar hyllti í útskrift. Á vordögum með hækkandi sól og aukinni bjartsýni fórum við að skoða húsnæðimálin okkar.
Internetið færði okkur hugmyndina að "Húsinu við ána". Selfoss hafði ekkert verið sérstaklega í huga okkar (kannski aðeins hjá mér) en mynd af húsi með útsýni yfir Ölfusána kveikti áhuga sem endaði með kaupsamningi um húsið. Við kolféllum, eins og þið vitið, fyrir hvorttveggja húsinu og staðnum.

Daginn eftir útskrift eða 11. júní fluttum við svo á þennan stað sem við erum ennþá í skýjunum yfir. Húsið hefur tekið stakkaskiptum frá því að við keyptum það. Við vissum að það væri þreytt og taka þyrfti til hendinni enda var það forsenda fyrir afar hagstæðu verði hússins. Það hentaði okkur frábærlega vel þar sem ég er jú smiður og því hæg heimatökin. Núna í lok ársins tókum við eldhúsið í gegn en það var varla hægt að tala um eldhúsinnréttingu í húsinu. Nú er sem sé komin ný og falleg innrétting og frúin hlær í betra .... eldhúsi.
Við settum líka nýjan glugga á aðalútsýnishornið úr eldhúsinu svo nú erum við með síbreytilegt málverk af einhverju fallegasta útsýni sem hægt er að hugsa sér. Glugginn sannaði tilverurétt sinn núna réttt fyrir jólin þegar flóðið mikla kom í Ölfusá, því við höfðum þessar stórfenglegu hamfarir árinnar í beinni útsendingu á breiðtjaldi. Það var alveg magnað sjónarspil.

Lesendum þessarar síðu er kunnugt um að ekki eru húsamálin upptalin með “Húsinu við ána” því við fjárfestum líka í "kofa" á Fitinni. Hann er ekki stór eða 15 fermetrar en því notalegri. Erla er stakur snillingur að gera kósý í kringum okkur og sannast þar máltækið: "Maðurinn byggir húsið en konan gerir það að heimili". Við áttum góðar stundir þarna í Föðurlandi voru í okkar fjallakofa. Hugmyndin er að bæta kannski við það síðar, en næsta skref er að koma rafmagni í húsið svo það verði almennilega íveruhæft þótt kalt sé í veðri.

Ekki verður allt gert í einu. Í framhaldi af öllum þessum framkvæmdum ársins tók ég ákvörðun um að fresta mastersnáminu um eitt ár og reyna að safna aftur í sarpinn smá skólasjóði. Það varð þess vegna úr að við stofnuðum fyrirtækið LEXOR ehf. Markmiðið er að reka það með byggingarstarfsemi og lögfræðiþjónustu í bland. Verkefnin byggingamegin hlaðast upp hraðar en tönn á festir og lögfræðihliðin fylgir sígandi upp á við í kjölfarið, enda stækkar byggingastarfsemin snertiflötinn við þann markað sem ég stefndi á með mína lögfræðiþjónustu þ.e.a.s.byggingamarkaðinn. Nokkrir Pólverjar hafa verið ráðnir í byggingavinnu. Þeir eru harðduglegir og samviskusamir verkmenn sem gott virðist vera að hafa í vinnu.

Spurningunni um hvernig það er að keyra svona á milli Selfoss og Reykjavíkur er nokkurnveginn svarað þar sem nú er liðið hálft ár síðan við fluttum. Í ljós hefur komið að fjölskyldunni þykir þetta ekkert tiltökumál enda ekki nema hálftíma akstur að Rauðavatni, eða lítið lengri tími en tekur að ferðast milli borgarhluta á álagstímum. Þetta er reyndar bara góður tími til að slaka á eftir daginn.

Erla hefur stundað sína vinnu hjá bókhaldsþjónustunni Erninum í Nethylnum. Henni líkar þessi vinna afar vel þar sem hún er á heimavelli þegar kemur að því að fást við tölur. Talnaglöggvi hennar á sér fáa líka eins og þeir sem hana þekkja vita.
Nú í desember fórum við utan til Kaupmannahafnar í boði bókhaldsþjónustunnar. Þar kom fram hversu störf Erlu eru vel metin innan fyrirtækisins. Við gistum á Hótel Imperial, ágætishóteli rétt við Ráðhústorgið svo stutt var að ganga á alla helstu staðina. Köben er alltaf skemmtileg og þessi ferð var engin undantekning. Við fórum aftur á Reef and beef, það var upplifun eins og áður.

Það bættist við okkar ört stækkandi fjölskyldu á árinu. Björn Ingi Jónsson (kallaður Bjössi) giftist Eygló okkar þann 7. október. Athöfnin fór fram í Selfosskirkju og veislan var haldin að Básum undir Ingólfsfjalli. Veislan þótti skemmtileg og veisluföng afbragðsgóð. Það er gaman að geta þess að staðarhaldarar og starfsfólk þeirra kom því sérstaklega á framfæri við okkur hversu vel þeim þótti hafa tekist til. Þau sögðu þetta eina skemmtilegustu brúðkaupsveislu í 20 ára sögu staðarins. Okkur þótti gaman að heyra þetta enda fannst okkur sjálfum þetta vera stór og skemmtilegur dagur. Eygló og Bjössi búa í Vesturbergi 72, íbúðinni "okkar" en þau keyptu af okkur íbúðina þegar við fluttum á Selfoss. Þar una þau hag sínum vel, íbúðin falleg og vel rúmgóð fyrir þau.

Arna og Davíð slitu samvistum á árinu. Þeirra sambúð sannaði fyrir okkur að sumu fólki er ekki ætlað að búa saman. Örnu gengur hinsvegar vel að ná áttum og er afskaplega dugleg með sínar litlu blómarósir. Þær eru miklir hjartabræðarar litlu dömurnar og hafa afa sinn (og ömmu) algjörlega í rassvasanum.
Þau Davíð eru með sameiginlegt forræði yfir dömunum og skipta vikunum milli sín. það form gengur vel upp, allavega meðan Davíð býr í Reykjavík. Arna býr nú í Bláskógum í Seljahverfi, lítilli fallegri íbúð í tvíbýli. Henni líður vel þar með snúllurnar sínar.

Íris og Karlott búa í Háholtinu í Hafnarfirði ásamt litlu dömunum sínum. Þær hafa þetta sama bræðieðli og Örnudætur á okkur afann og ömmuna .
Karlott var keyptur frá Securitas til Landsbankans. Það sagði meira en mörg orð um ágæti hans. En Björgólfur gamli sá sjálfur um kaupin. Það þýddi auðvitað stökk í launum og viðurkenningu á störfum hans.
Íris er á fullri ferð í laganáminu og gengur það vel og þau hjónin samhent í að púsla saman barnauppeldi, heimilisstörfum, vinnu og námi. Henni hefur tekist að ná öllum prófum fram að þessu sem er afar gott í laganámi. Þau hjónin ætla að feta í fótspor okkar Erlu og vera ekkert að bíða með að koma sínum börnum í heiminn. Von er á nýju barni hjá þeim í lok maí á komandi ári. Það má segja að við Erla búum við blessað barnalán þar sem það verður 6. barnabarnið okkar. Enginn bilbugur er á Írisi hvað námið varðar, hún hefur þegar ákveðið hvernig náminu verður framhaldið.

Hrund hefur stundað nám í Kvennaskólanum. Það líkar henni afar vel enda er Kvennaskólinn góður skóli. Henni gengur námið vel sem fyrri daginn. Hún hefur ekki mikið fyrir því að ná góðum einkunnum. Hrund hefur stundað áhugamálin af kappi þetta árið. Söngurinn á hennar hug og hjarta. Hún fór í söngferðalag til Ítalíu í sumar með kórunum Vox femine, Vox junior og Gospelsystrum Reykjavíkur.
Hún hefur vakið athygli stjórnenda kórsins fyrir sterka og hljómmikla rödd ásamt því að vera mjög tónviss.

Þessi stutta yfirferð var auðvitað bara smá skautun á yfirborðinu. Árið var okkur afar viðburðaríkt í fjölmörgu öðru sem ekki er tiltekið hér. Verkefnin af misjöfnum toga en flest skemmtileg. Við hjónin þökkum Guði fyrir slysalaust ár innan fjölskyldunnar og biðjum ykkur vinum okkar og vandamönnum hins sama á komandi ári.
Við hlökkum til næsta árs sem okkur er fært sem óskrifað blað. Vonandi tekst okkur að skrifa söguna okkar áfram á þessum góðu nótum. Þess sama óskum við ykkur öllum.
Þetta eru fyrstu áramótin okkar hér á nýjum stað. Við borðuðum saman öll stórfjölskyldan áðan, áramótaskaupið var að klárast og nú er skothríðin byrjuð. Það verður gaman að upplifa áramót á nýjum stað.
Að lokum, takk fyrir góðar heimsóknir og skemmtilegar kveðjur hér á síðunni.

Guð blessi ykkur nýtt ár.

sunnudagur, desember 24, 2006

Góðilmur.

Jólin eru að ganga í garð. Það er ilmur af jólum í húsinu, ilmurinn af jólakjötinu og hrísgrjónagrautnum ásamt jólalögunum sem óma úr stofunni og kynda undir þessa stemningu sem er svo skemmtileg og framkallar svo góðar og ljúfar minningar. Það kyndir enn undir hátíðleikann að búa á svona stað. Nágranni okkar fór áðan út undir á að gefa hrafninum. Krummi mætti auðvitað í jólamatinn og lauk honum á stuttum tíma. Áin er óðum að jafna sig og er farin að líkjast sjálfri sér aftur. Ég kann nú betur við hana svona eins og hún á að sér að vera, þó svo að hún hafi verið stórbrotin í ham. En það sem ég átti við með “svona stað” er að kyrrðin og fallegt umhverfið eykur einhvernveginn á jólastemninguna. Það er eitthvað sem minnir á gamla tíð – sveitin, kyrrð og friður sem erfitt er að nálgast í stórborginni en á einhvernveginn heima hér.
Kannski sagan af fjárhirðunum í haga undir stjörnubjartri nóttinni kyndi undir þessa mynd að friði á jólum.

Hrund og Arna eru hér að stússast með okkur Erlu. Þær eru að pakka síðustu pökkunum inn og gera sig klárar fyrir hátíðina. Þær skreyttu jólatréð í gærkvöldi svo það stóð skreytt eins og venjulega á aðfangadagsmorgni.
Erla stendur við pottana núna og hrærir í grautnum. Grauturinn þessi er ómissandi þáttur í jólahaldinu. Hann kom með pabba inn í búskap þeirra mömmu. Var alltaf á borðum öll jól sem ég man eftir mér, og öll jól sem við Erla höfum síðan haldið saman. Stelpurnar hafa erft þessa hefð og geta ekki hugsað sér jól án grautsins. Ekkert venjulegur Risalamande – allt öðruvísi og miklu betri.

Ég keypti reykta nautatungu áðan sem núna sýður í potti. Nautatunga hljómar kannski ekkert vel sem matur, en er afar ljúffeng – góð á jólum.

Ég er semsagt undir áhrifum:
Friðar, góðrar stemningar, fjölskyldulífs sem umvefur mig, fallegs umhverfis og síðast en ekki síst, Jesúbarnsins sem fæddist - með ákveðinn tilgang, sem of oft gleymist, sérstaklega hjá kristnum lögmálskennendum.

Óska ykkur öllum lesendum síðunnar minnar gleðilegrar jólahátíðar og friðar.

föstudagur, desember 22, 2006

Sjóðandi vitlaus nágranni....!

Ég hélt að hún ætlaði að ganga af göflunum. Hún lætur engan stýra sér frekar en fyrri daginn. Ölfusá er búin að vera sjóðandi kolvitlaus undanfarið. Skapill sú gamla.
Að morgni dags fyrir tveimur dögum síðan varð mér litið niður að á og fannst hún eitthvað skrítin. Hafði orð á því við Erlu að hún væri eittthvað öðruvísi. Við gerðum okkur ferð niður að á í morgunskímunni. Í ljós kom að mikill jakaburður var í henni og hún miklu meiri að vöxtum en venjulega. Við fórum þá niður að kirkju og sáum þá að áin var í miklu stuði. Við vorum ein þarna á bakkanum fyrir utan einn ljósmyndara sem var að taka myndir af hamnum.

Jakaburðurinn var ofsalegur og líklegast að þetta hafi verið úr Stóru Laxá í hreppum en hún hafði rutt sig sólarhringnum á undan. Jakarnir voru ótrúlega stórir og þykkir. Þeir byltust í rótinu og risu og hnigu eins og stórhveli, sumir kolsvartir. Við kirkjuna er mikið dýpi (talið um 25 metrar) þar var eins og suðupottur. Klakarnir soguðust greinilega niður á mikið dýpi og komu svo æðandi upp í hvítfryssandi iðum og risu sumir 2 - 3 metra upp áður en þeir hnigu niður aftur. Þetta var magnað sjónarspil.

Eins og allir vita var flóð að byrja í ánni þarna um morguninn. Ég held að við höfum fattað það fyrst ;-/
Hún átti eftir að vaxa miklu meira. Við höfðum þessar hamfarir árinnar á breiðtjaldi út um nýja gluggann okkar á eldhúsinu. Það var stórbrotin sjón og varla hægt að lýsa hughrifunum. Við duttum bæði strax í þann gírinn að þykja þetta óskaplega magnþrungið. Við störðum dáleidd á þessa ógnarkrafta sem í ánni býr sem ekkert mannlegt getur hamið.
Hugsunin um hana sem fallega elfu í sumar sem fóstraði ógrynni fugla og fiska var mjög fjarri þegar maður sá hana í þessum ham.

Þetta er samt alveg frábært að hafa hana svona sem næsta nágranna og fylgjast með henni á hverjum degi. Hún steytir ekki skapi sínu oft á þennan hátt en á árunum 1930, 1948 og 1968 lét hún eitthvað líkt þessu.
Hún er núna að róast og er hætt að flæða yfir veginn hérna fyrir ofan.

Veðráttan er söm við sig samt og nú er von á nýju ofsaveðri í nótt. Það virðist vera að veðráttan sé að breytast ....kannski eru það gróðurhúsaáhrifin.

Skatan á morgun...ætla þó ekki að reyna við jafnsterka og í fyrra. Hún er betri passleg.
Og svo jólin handan hornsins enn einu sinni.....alltaf gaman þá.

mánudagur, desember 11, 2006

Wagyu...draumur

Liturinn, lyktin, bragðið og mýktin, algerlega fullkomið og steikingin eins og mögulega er hægt að gera hlutina vel. Ég hef lengi látið mig dreyma um að borða Wagyu naut. Óskin sú gekk í fyllingu sína nú um helgina í Kóngsins Köbenhavn.
Ég var svo heppinn að þessi gæði voru í boði bókhaldsþjónustunnar sem Erla vinnur hjá. Örn var grand á þessu og bauð sínu fólki og mökum til veislu á Reef and Beef sem við Erla heimsóttum síðast þegar við vorum í Kaupmannahöfn. Þessi staður datt í fyrsta sætið hjá okkur eftir krókódílasteikina, og kengúruna um daginn.
Wagyu nautin eru talin vera besta nautakjöt í heimi. Þau eru alin eftir kúnstarinnar reglum, nær eingöngu á mjólk og svo það furðulegasta að þau fara í nudd einu sinni á dag. Kílóverðið er nálægt 20 þúsundköllum og erfitt að fá þetta. Ég hafði lesið um þessi naut og einu sinni sá ég sjónvarpsþátt um þau, svo þetta var svona hálfgerð uppfylling drauma minna.
Það hlýtur að teljast að nautakjötsmaður eins og ég hafi náð toppnum á ferlinum þarna. Ég trúi ekki að það sé til kjöt af nauti sem kemst í hálfkvisti við þetta.
Eitt glas af sérvöldu rauðvíni til að hafa með Wagyu nauti, kórónaði steikina.
Hrár túnfiskur framreiddur með afar sérstöku kryddi og fersku grænmeti var afar góður forréttur fyrir þessa snilld.

Erla fékk reyktan lax í forrétt og Strút í aðalrétt sem hún sagði algjört lostæti. Held hún sé orðin útlærður sælkeri. Við tókum allt í einu eftir því bæði að allir voru búnir að borða, meðan við vorum bara hálfnuð, við vorum bara að njóta matarins. Okkar mottó, maður borðar góðan mat HÆGT.
Það er ekki hægt annað en mæla með þessum stað. Það þarf að hafa í huga að nauðsynlegt er að panta borð þarna því þetta er vinsæll staður.
Gæti nokkrum dottið í hug að mér þyki gaman að borða haha?

Við gerðum fleira, við fórum í gönguferð með Guðlaugi Arasyni rithöfundi um Íslendingaslóðir í gömlu Kaupmannahöfn. Þeim sem þykir sagan okkar forvitnileg og hvernig hún fléttast sögu Kaupmannahafnar ættu hiklaust að fara þessa göngu. Það var feikna gaman að sjá nákvæmlega umhverfi Jónasar Hallgrímssonar, Jóns Sigurðssonar og fleiri hetja Íslandssögunnar, fá söguna svona beint í æð á staðnum, ef svo má segja. Guðlaugur er fróðleikshaf þegar kemur að þessum fræðum. Hann hikstaði aldrei þó hann væri spurður nánar út í ýmis smáatriði sögunnar, mannanöfn, ártöl, staðhætti, allt á hreinu.

Jújú búðirnar voru líka heimsóttar. Þó það sé ekki mín uppáhaldsiðja er ég þó nógu nískur til að láta mig hafa það, ef hægt er að kaupa hagkvæmar inn, t.d. til jólagjafa. Þessvegna fórum við t.d. í Fields leiðangur og versluðum nokkrar jólagjafir og örkuðum Strikið uppúr og niðurúr...fewtimes. Það skal samt viðurkennast að frúin mín elskuleg hefur mjög náð áttum hvað búðir varðar. Þakka ég það tíðum loftsiglingum hennar um erlendar grundir og auknum þroska.
...... Í alvöru þá þoli ég ekki þann heimóttarskap að missa sig í eyðslufylleríi þótt stigið sé yfir landssteinana, búandi á Íslandi, landi allsnægtanna á sama verði.
Erlan mín er reyndar komin langan veg frá þessari lýsingu,sem betur fer, sálarheillar minnar vegna.
Við eyðum miklu meiri tíma í rölt, skoðun á mannlífinu, kaffihús, matsölustaði, söfn og annað sem gleður sálina í hversdagsleikanum og njótum þess bæði ....í tætlur.

Sem sagt Köben stóðst væntingar sem fyrri daginn og gott betur

miðvikudagur, desember 06, 2006

LEXOR ehf.

Það hefur margt á dagana drifið undanfarið, sem endranær. Titillinn hér að ofan er nafnið á nýja firmanu mínu. Þetta er félag með margþætta starfsemi. Fyrir það fyrsta er þetta lögfræðifirma enda nafnið samsett úr lögfræðitengdu orðunum LEX og OR. Lex táknar réttarheimildir og Or er byrjun á Orator.
Lexor er annarsvegar ráðgjafafyrirtæki á byggingamarkaði með áherslu á lögfræðiráðgjöf til verktaka en líka til viðskiptamanna þeirra.
Hin starfsemi firmans er byggingastarfsemi. Þar sem ég er líka byggingameistari var ekki úr vegi að næla sér í smá sneið af hasarnum sem ríkir á þeim markaði núna.
Hugmyndin kviknaði um daginn að fara af stað og reka þetta svona fram að mastersnáminu næsta haust og svo kannski meðfram náminu.
Ég er búinn að ráða nokkra Pólverja í vinnu og er kominn með verkefni fram á vor. Þeir eru afbragðs verkmenn og samviskusamir. Það skemmtilega við þetta allt er náttúrulega hasarinn og atið sem fylgir svona rekstri og líka sú staðreynd að snertiflöturinn stækkar og nú þegar eru lögfræðileg verkefni að detta inn á borð sem tengjast þessu öllu. Bara gaman að þessu.

Eins og lesendum síðunnar er kunnugt vorum við hjónakornin í Köben um daginn. Þeir sem okkur þekkja vita að borgin sú er í nokkru uppáhaldi hjá okkur. Ferðinni er enn heitið í gamla höfuðstaðinn. (Köben var einu sinni höfuðborg Íslands eins og allir vita)
Nú er um að ræða vinnustaðaferð hjá Erlu. Örninn er svona grand á því að bjóða starfsfólkinu í helgarferð til Köben. Við gistum á Hotel Imperial, lúxushóteli rétt við Ráðhústorgið.
Við þurfum að vakna snemma í nótt, svona ca. kl. 3. Tekur því varla að vera að leggja sig.
Eitthvað skemmtilegt eru þau búin að plana að gera svo maður getur farið að hlakka til. Ég hef reyndar eitthvað heyrt búðarhugtakið nefnt á nafn en lokað eyrunum jafnharðan fyrir því, og svarað fólkinu til að kannski ættum við að reyna að hittast eitthvað í Köben, því fyrir svo skemmtilega tilviljun yrðum við þarna um leið og þau.
Ég fæ svona létta gæsahúð niður hrygglengjuna við tilhugsunina um búðirnar..... ekki af tilhlökkun.

Ég er búinn að vera að dunda við að setja upp eldhús hér heima, en eins og þeir vita sem hafa heimsótt okkur var eiginlega engin eldhúsinnrétting í húsinu við ána. Það var því ekki hjá því komist að setja nýja innréttingu. Það er því að verða vistlegra hér með tímanum og sum rými hússins tilbúin.
Við erum jafnánægð hér sem fyrri daginn. Veturinn er fallegur og áin ærið breytileg eftir hvernig viðrar. Hún er skemmtilegur nágranni. Annar nágranni okkar bankaði hér upp á um daginn þegar ég var að hamast í eldhúsinu og sagðist vera búinn að sjá að hér væru framkvæmdir í gangi og spurði hvort hann mætti kíkja inn. Það var auðsótt og hafði ég gaman af heimsókninni. Þetta er heimilislegt og sveitó en svona er sveitin. Gott að búa hér. Ég er samt feginn að nágranni minn áin er ekkert að banka uppá..

Jæja ég ætla að fara að koma mér í ferðagírinn, sækja töskur upp á háaloft og horfa á Erlu pakka okkur niður (ekki einu sinni grín) Það er hennar deild, enda kvenmannsverk.
Hún vill hafa þetta svoleiðis – skil ekki afhverju. Hefur kannski eitthvað að gera með krumpur og svoleiðis.

Köbenhavn nu kommer vi...............