Liturinn, lyktin, bragðið og mýktin, algerlega fullkomið og steikingin eins og mögulega er hægt að gera hlutina vel. Ég hef lengi látið mig dreyma um að borða Wagyu naut. Óskin sú gekk í fyllingu sína nú um helgina í Kóngsins Köbenhavn.
Ég var svo heppinn að þessi gæði voru í boði bókhaldsþjónustunnar sem Erla vinnur hjá. Örn var grand á þessu og bauð sínu fólki og mökum til veislu á Reef and Beef sem við Erla heimsóttum síðast þegar við vorum í Kaupmannahöfn. Þessi staður datt í fyrsta sætið hjá okkur eftir krókódílasteikina, og kengúruna um daginn.
Wagyu nautin eru talin vera besta nautakjöt í heimi. Þau eru alin eftir kúnstarinnar reglum, nær eingöngu á mjólk og svo það furðulegasta að þau fara í nudd einu sinni á dag. Kílóverðið er nálægt 20 þúsundköllum og erfitt að fá þetta. Ég hafði lesið um þessi naut og einu sinni sá ég sjónvarpsþátt um þau, svo þetta var svona hálfgerð uppfylling drauma minna.
Það hlýtur að teljast að nautakjötsmaður eins og ég hafi náð toppnum á ferlinum þarna. Ég trúi ekki að það sé til kjöt af nauti sem kemst í hálfkvisti við þetta.
Eitt glas af sérvöldu rauðvíni til að hafa með Wagyu nauti, kórónaði steikina.
Hrár túnfiskur framreiddur með afar sérstöku kryddi og fersku grænmeti var afar góður forréttur fyrir þessa snilld.
Erla fékk reyktan lax í forrétt og Strút í aðalrétt sem hún sagði algjört lostæti. Held hún sé orðin útlærður sælkeri. Við tókum allt í einu eftir því bæði að allir voru búnir að borða, meðan við vorum bara hálfnuð, við vorum bara að njóta matarins. Okkar mottó, maður borðar góðan mat HÆGT.
Það er ekki hægt annað en mæla með þessum stað. Það þarf að hafa í huga að nauðsynlegt er að panta borð þarna því þetta er vinsæll staður.
Gæti nokkrum dottið í hug að mér þyki gaman að borða haha?
Við gerðum fleira, við fórum í gönguferð með Guðlaugi Arasyni rithöfundi um Íslendingaslóðir í gömlu Kaupmannahöfn. Þeim sem þykir sagan okkar forvitnileg og hvernig hún fléttast sögu Kaupmannahafnar ættu hiklaust að fara þessa göngu. Það var feikna gaman að sjá nákvæmlega umhverfi Jónasar Hallgrímssonar, Jóns Sigurðssonar og fleiri hetja Íslandssögunnar, fá söguna svona beint í æð á staðnum, ef svo má segja. Guðlaugur er fróðleikshaf þegar kemur að þessum fræðum. Hann hikstaði aldrei þó hann væri spurður nánar út í ýmis smáatriði sögunnar, mannanöfn, ártöl, staðhætti, allt á hreinu.
Jújú búðirnar voru líka heimsóttar. Þó það sé ekki mín uppáhaldsiðja er ég þó nógu nískur til að láta mig hafa það, ef hægt er að kaupa hagkvæmar inn, t.d. til jólagjafa. Þessvegna fórum við t.d. í Fields leiðangur og versluðum nokkrar jólagjafir og örkuðum Strikið uppúr og niðurúr...fewtimes. Það skal samt viðurkennast að frúin mín elskuleg hefur mjög náð áttum hvað búðir varðar. Þakka ég það tíðum loftsiglingum hennar um erlendar grundir og auknum þroska.
...... Í alvöru þá þoli ég ekki þann heimóttarskap að missa sig í eyðslufylleríi þótt stigið sé yfir landssteinana, búandi á Íslandi, landi allsnægtanna á sama verði.
Erlan mín er reyndar komin langan veg frá þessari lýsingu,sem betur fer, sálarheillar minnar vegna.
Við eyðum miklu meiri tíma í rölt, skoðun á mannlífinu, kaffihús, matsölustaði, söfn og annað sem gleður sálina í hversdagsleikanum og njótum þess bæði ....í tætlur.
Sem sagt Köben stóðst væntingar sem fyrri daginn og gott betur
3 ummæli:
Ji ÆÐISLEGT :) Það er alveg rosalega gaman að lesa bloggið þitt, þú segir svo skemmtilega frá :) Þetta hefur örugglega verið ofsalega skemmtileg ferð og þið greinilega notið hennar í botn, og fyndið með að nautin fari í nudd einu sinni á dag!! Bara fyndið! :) En hafðu það nú gott pabbi og við sjáumst nú vonandi sem fyrst! :) Þín hamingjusama Eygló :)
Frábært að lesa hvað þetta var frábært! Ég sé að maður verður að prufa þennan veitingastað sem þið eruð að tala um!!
Gaman að fá ykkur heim aftur og ég hlakka svaka til að koma í heimsókn til ykkar, alltof langt síðan síðast!
kv. Íris
Hey, næsta ár Íris mín, næsta ár:):):)Gott þið nutuð ferðarinnar, þið eruð orðin algerir lífskúnsterar þið mamma:):) Hlakka til að sjá þig næst, þín Arna
Skrifa ummæli