þriðjudagur, desember 24, 2013

Jólin allsstaðar.

Enn einu sinni komin jól og við varla búin að pakka saman síðustu jólum. Ætli sé ekki hægt að senda jörðina aðeins stærri hring næst þannig að árið verði allavega 400 dagar þetta hefur nefnilega styst undanfarin ár.

Jólahefðirnar hafa alltaf verið í heiðri á þessum bæ og ekki mátt breyta út af venjunni. Nú ber nýrra við og við, þetta hefðarfólk, ætlum að bregða okkur af bæ á aðfangadagskvöld, trúðu mér eður ei.
Ég átti aldrei von á að þetta myndum við gera fyrr en í ellinni kannski, ööö nema hún sé farin að banka uppá hjá okkur. Nei það er nú fullsnemmt, ef hún ætlar að fara að kíkja á okkur svona snemma verður henni einfaldlega ekki svarað.
Það sem var kveikjan að því að við gáfum þessu séns er að barnabörnin okkar vaxa svo hratt úr grasi að við munum missa af því að fá að halda jólin með þeim ef við förum ekki að byrja á þessu.
Við verðum því hjá Örnu og Hafþóri þessi jól. Ég er samt búinn að elda grautinn og gera sírópið því við getum ekki sleppt þeirri hefð að fá hrísgrjónagraut með karamellusósu í eftirrétt. Þau hafa tekið þá stefnu að hafa grautinn í hádeginu, svo við reddum þessu svona ;-)

Ég hlakka til að prófa þetta því við höfum ekki verið að heiman á aðfangadagskvöld í yfir þrjátíu ár.
Hátíðarskapið er alveg á sínum stað og ég veit að jólin verða góð eins og alltaf.

Gleðileg jól elskurnar sem kíkið enn á bloggið mitt.