sunnudagur, febrúar 17, 2013

Draumanafn.

Í dýrtíðarfárinu sem nú geysar er einn hlutur sem kostar nákvæmlega það sama og áður en dollarinn féll. Það er jafn ókeypis að láta sig dreyma. Það vita nú orðið flestir innan ættar allavega að yngsta dóttirin bætti rós í hnappagatið sitt, lét gamlan draum rætast og breytti nafninu sínu í Hrefna Hrund.
Í gegnum tíðina hefur hún stundum haft á orði hvað hún hefði verið til i að heita Hrefna eins og amma hennar.

Það er kannski við hæfi að nefna það hér að þegar við stóðum í þeim sporum að finna henni nafn kom Hrefnu nafnið sterkt til greina en þar sem litlu eldri frænka hennar hafði fengið þetta nafn ekki svo löngu áður fannst mér ekki hæfa að koma með það aftur svo stuttu síðar.

Þegar ungfrúin óx úr grasi kom æ betur í ljós hversu vel hún hefði borið nafnið því hún líkist ömmu sinni mjög, bæði í útiti og karakter.
Ég vissi til margra ára að ég hafði gert mistök að gefa henni ekki þetta nafn í vöggugjöf og í mörg ár hef ég núið mér um nasir þeim mistökum.
Hún sagði mér svo ekki alls fyrir löngu að í mörg herrans ár hafði hana langað til að bæta nafninu við hennar eigið.
Að skipta um nafn eða bæta við það, er ekki og á ekki, að vera augnabliks ákvörðun. Ég hvatti hana til að hugsa málið vel til að hún anaði ekki að einhverju sem hún sæi hugsanlega eftir. Þegar hún sagði mér að hún hefði  hugsað þetta í tuttugu ár, sem flokkast varla undir "augnabliks", ákvað ég að segja henni mína hlið, að ég teldi mig hafa gert mistök að gefa henni ekki þetta nafn strax og að það væri mér mikill heiður ef hún væri til í að bæta þessu nafni mömmu við.
Það liðu ekki margir klukkutímar þangað til hún hafði gengið frá þessu og sent tilheyrandi gögn á tilheyrandi staði. Hrefna Hrund mín... til hamingju, nú er nafnið komið á "sinn" stað.

Þessi sunnudagur ætlar að enda sem frídagur, við ákváðum um miðjan dag þegar við höfðum ekki komið okkur af stað í vinnu að nota þá bara daginn til að slappa af. Það er því með góðri samvisku sem ég sit hér við tölvuna og læt gamminn geysa. Ætla að njóta samfélags við Erluna mína og frú Leti, jú henni var boðið í heimsókn í morgun og er þaulsetin eins og fyrri daginn ef henni er á annað borð helypt inn fyrir þröskuldinn.


sunnudagur, febrúar 10, 2013

Ár og dagar líða.

Alltaf er það mér jafnmikið umhugsunarefni hvað tíminn virðist flengjast hraðar og hraðar. Þetta virðist ekki bara vera aldurinn því krakkar í dag tala um það sama. Þegar ég var að alast upp var bernskan heil eilífð. Mér fannst ég vera í barnaskóla hálfa öld og í gagnfræðaskóla hinn helminginn. Núna líða mánuðirnir þannig að maður er varla farinn að átta sig á að nýr mánuður sé tekinn við þegar hann er búinn.
Þetta hlýtur að skrifast á hraðann sem er í þjóðfélaginu. Tölvuöld með netið í fararbroddi gæti verið hluti ástæðunnar. Allar upplýsingar sem manni vantar sækir maður á augabragði og miklu meiri upplýsingar en maður notar í raun.

Það er því tímahægjandi að skyggnast aðeins til fortíðar. Ég hef verið að lesa bækur sem gætu upplýst mig aðeins nánar um forfeður mína að vestan. Það er gaman að lesa bækurnar hans Guðmundar G. Hagalín því hann skrifar mikið af samtímalýsingum, bæði mannlýsingum og umhverfi sem og orðfæri manna frá þeim tíma sem forfeður mínir voru uppi.
Þetta tekur tíma og hann er af frekar skornum skammti þessi misserin. Ég er á kafi í stóru verkefni sem sér reyndar fyrir endann á, ég á til dæmis að vera að vinna núna þó ég stelist í að skrifa niður smá hugrenningar.

Maður má reyndar ekki vera svo fastur í vinnu að það verði út undan sem mikilvægast er, það er að njóta lífsins og lifa því lifandi. Ég er að gæla við að komast til Grænlands í sumar í veiðiferð með sama hópi veiðikalla og fóru með mér í Vatnamót síðasta haust. Grænland hefur verið draumur minn um árabil og mjög ofarlega á bucket listanum. Það væri draumur í dollu að framkvæma það loksins.

Talandi um bucket lista þá þýðir það auðvitað listi yfir það sem manni dreymir um að koma í verk á ævinni. Oftast eitthvað fjarlægt ævintýri sem stefnan er tekin á að láta rætast áður en það verður of seint.
Grænland er í mínum huga land ævintýranna, þar eru ótrúlegar víðáttur, þar er hafís inni á öllum fjörðum, menn ferðast um á bátum, náttúrufegurð með ólíkindum og þar er veitt... og veitt... og veitt... já svona er ég ruglaður, kannski eru þetta genin hans afa sem hræra svona í hausnum á mér.

En nú er tíminn farinn að banka og skyldan að gaspra í eyrað á mér. Ég verð að hlýða þessum hörðu húsbændum og sökkva mér ofan í vinnuskjöl. Ótækt hvað vinnan slítur alltaf í sundur dagana.
Ætla að skella í einn kaffibolla og lofa honum að veita mér félagsskap í vinnunni og njóta útsýnisins út um gluggann minn, ekkert amalegt við það eins og sést hér efst í pistlinum. (tekin fyrir nokkrum dögum).
Njótið dagsins.

sunnudagur, febrúar 03, 2013

Þeir vita það fyrir vestan

Það hefur alltaf truflað mig að vita jafn lítið um uppruna minn að vestan og raun ber vitni. Ég hef alltaf saknað þess að kunna ekki meiri deili á afa og ömmu að vestan og fólkinu sem ég er kominn af. Á ættarmótinu í sumar fékk ég smá samantekt eftir Stjána heitinn bróðir mömmu á búskaparháttum og tilurð þess að afi og amma fluttu í Botn í Geirþjófsfirði.
Það kallaði á meira því í samantekt sinni vitnaði Stjáni í bók eftir Guðmund G. Hagalín "Þeir vita það fyrir vestan" þar sem hann sagði Guðmund hafa komið í Botn og átt samskipti við afa og ömmu og ritað eitthvað um þau samskipti.
Ég hafði á orði að mig langaði í þessa bók og Erlan ljúfust gróf hana upp fyrir mig, henni líkt, og ég er búinn að finna þessa umfjöllun um þau heiðurshjón. Það var eins og að líta inn um glugga til fortíðar að lesa um orðaskipti afa og ömmu við gestinn og ferð afa með Guðmund til Bíldudals. Smá glefsa til fortíðar sem segir samt mikið.

Af bókinni má síðan ráða að Guðmundur hafi gefið út aðra bók sem heitir Mannleg náttúra. Það sem gerir hana spennandi í mínum huga er að svo virðist sem eitthvað i fari afa hafi orðið honum tilefni til að skrifa þá bók.
Afhverju held ég það?

Vilmundur Jónsson læknir virðist hafa átt frumkvæði að því að Guðmundur fór í Botn. Guðmundur vitnar í þennan vin sinn síðar þegar hann hafði gefið út bókina: - "Vilmundi þótti mest koma til "Gunnars á Mávabergi" sem hann kvað vera einhverja þá kostulegustu persónu sem hann hefði kynnzt í bókmenntum. En hann lét líka vel af Mannlegri náttúru og sagði að hann vildi gjarnan kynnast persónulega þeim manni sem hefði orðið mér tilefni þeirrar sögu, Svo hló hann og mælti: "Þú mátt sannarlega vera mér þakklátur fyrir ferðina í Geirþjófsfjörð og ég sé ekki betur en að íslenzkar nútíðarbókmenntir standi líka í þakkarskuld við mig." En Vilmundur hafði verið hvatamaður að þeir færu í Botn.
Mér finnst ég skilja á orðunum hér að ofan að afi og amma hafi verið tilefni sögunnar.

Guðmundur Hagalín gaf út margar bækur. Einn vinur hans sem var í námi í Þýskalandi skrifaði Guðmundi bréf þar sem hann kommentar á nokkrar bækur vinar síns, þar á meðal "Mannleg náttúra"

(Guðmundur segir frá)
"Honum þótti Einstæðingar vel gerð saga og athyglisverð og dáðist mikið af Gunnari á Mávabergi og samskiptum hans við hreppsnefndina..... En Mannleg náttúra - um hana ritaði hann langt mál og kvað upp þann dóm að hún ætti fáa sína líka að raunsæi á líftaug karlmannlegs eðlis og þá eigind þess sem örvaði kynþokka konunnar og yfirstigi hverskonar ísaldir sem mannkyninu kynnu að mæta, jafnt í eiginlegri sem óeiginegri merkingu."

Nú er ég búinn að finna eintak af þessari bók Mannleg náttúra og mun kaupa hana á morgun og lesa hana spjaldanna á milli. Það verður fróðleg lesning sérstaklega þegar ég veit hvaða einstaklingar eru fyrirmyndir sögunnar - afi og amma virðist vera.

Ég er nú búinn að sitja hér í nokkra klukkutíma enda klukkan að verða 11 á sunnudagsmorgni. Frúin mín ljúfust er fyrst að rumska eitthvað núna og þá er kominn tími á kaffibollann með henni. Við kaffibollinn erum reyndar búnir að eiga nokkur samskipti í morgun, mjög á góðu nótunum.

Njótið dagsins vinir.