sunnudagur, febrúar 10, 2013

Ár og dagar líða.

Alltaf er það mér jafnmikið umhugsunarefni hvað tíminn virðist flengjast hraðar og hraðar. Þetta virðist ekki bara vera aldurinn því krakkar í dag tala um það sama. Þegar ég var að alast upp var bernskan heil eilífð. Mér fannst ég vera í barnaskóla hálfa öld og í gagnfræðaskóla hinn helminginn. Núna líða mánuðirnir þannig að maður er varla farinn að átta sig á að nýr mánuður sé tekinn við þegar hann er búinn.
Þetta hlýtur að skrifast á hraðann sem er í þjóðfélaginu. Tölvuöld með netið í fararbroddi gæti verið hluti ástæðunnar. Allar upplýsingar sem manni vantar sækir maður á augabragði og miklu meiri upplýsingar en maður notar í raun.

Það er því tímahægjandi að skyggnast aðeins til fortíðar. Ég hef verið að lesa bækur sem gætu upplýst mig aðeins nánar um forfeður mína að vestan. Það er gaman að lesa bækurnar hans Guðmundar G. Hagalín því hann skrifar mikið af samtímalýsingum, bæði mannlýsingum og umhverfi sem og orðfæri manna frá þeim tíma sem forfeður mínir voru uppi.
Þetta tekur tíma og hann er af frekar skornum skammti þessi misserin. Ég er á kafi í stóru verkefni sem sér reyndar fyrir endann á, ég á til dæmis að vera að vinna núna þó ég stelist í að skrifa niður smá hugrenningar.

Maður má reyndar ekki vera svo fastur í vinnu að það verði út undan sem mikilvægast er, það er að njóta lífsins og lifa því lifandi. Ég er að gæla við að komast til Grænlands í sumar í veiðiferð með sama hópi veiðikalla og fóru með mér í Vatnamót síðasta haust. Grænland hefur verið draumur minn um árabil og mjög ofarlega á bucket listanum. Það væri draumur í dollu að framkvæma það loksins.

Talandi um bucket lista þá þýðir það auðvitað listi yfir það sem manni dreymir um að koma í verk á ævinni. Oftast eitthvað fjarlægt ævintýri sem stefnan er tekin á að láta rætast áður en það verður of seint.
Grænland er í mínum huga land ævintýranna, þar eru ótrúlegar víðáttur, þar er hafís inni á öllum fjörðum, menn ferðast um á bátum, náttúrufegurð með ólíkindum og þar er veitt... og veitt... og veitt... já svona er ég ruglaður, kannski eru þetta genin hans afa sem hræra svona í hausnum á mér.

En nú er tíminn farinn að banka og skyldan að gaspra í eyrað á mér. Ég verð að hlýða þessum hörðu húsbændum og sökkva mér ofan í vinnuskjöl. Ótækt hvað vinnan slítur alltaf í sundur dagana.
Ætla að skella í einn kaffibolla og lofa honum að veita mér félagsskap í vinnunni og njóta útsýnisins út um gluggann minn, ekkert amalegt við það eins og sést hér efst í pistlinum. (tekin fyrir nokkrum dögum).
Njótið dagsins.

Engin ummæli: