þriðjudagur, júní 26, 2007

Alltaf jafngaman....

.....í veiðiferðum okkar frændanna. Þórisvatn er alveg sérstakt vatn að veiða. Auðn, svartur sandur, varla stingandi strá nokkursstaðar. En fallegur fiskur og sá bragðbesti sem ég veit um.
Það veiddist minna en árin á undan. Ég veit ekki ástæðuna. Aðstæður voru eins og best er. Gola, mikill hiti og lítið í vatninu. Ég fékk þó mest að vanda :-)
Ég hafði gaman af óhörðnuðun veiðisálum, sérstaklega fyrri daginn. Heiðar fékk góða byrjun. Gumaði af, enda alls óvanur þess háttar. Hann fékk gott forskot á hina og hefði því átt að fara með flesta fiskana heim. Aflatölurnar enduðu þó ekki fjarri hlutfalli undanfarinna ára. Ég held samt að allir hafi farið sáttir heim. Kannski síst Hlynur þar sem veiðigenin urðu eftir heima svo aflinn hans var ekki alveg skv. hefðinni.

Ferðin var ljúf og góð í alla staði og gott ræktunarstarf fyrir frændgarðinn okkar, einskonar vökvun. Sennilega friðardúfa sem sést á myndinni ef hún er stækkuð.....varla fluga.
Ég er ánægður með þessa hefð okkar að fara svona saman í veiðitúr.



Að öðru, þá var ég með kvikindi í pössun un helgina síðustu. Það var vélfákurinn hans Kidda mágs míns. Ekki að ég sé óánægður með minn eigin, hann er bara allt annars eðlis. Kiddi á stórt mótorhjól sem ég leit eftir meðan hann var í Danmörku. Á sunnudaginn komu hér Baddi og Jakob félagi hans á sínum fákum. Ég slóst í för með þeim. Þingvallahringurinn var þræddur í blíðskaparveðri og góðum félagsskap.




Þetta var stórskemmtilegt og á vonandi eftir að endurtaka sig einhverntíman.




Við sátum hér úti á veröndinni áðan í sól og roki. Hitarinn gerir að verkum að hægt er að sitja úti þótt hitastigið sé ekki svo hátt. Við urðum vör við óvenju mikið af geitungum. Þegar við fylgdumst með þeim kom í ljós að þeir hurfu undir sólpallinn hjá okkur. Kvikindin eru að gera sé bú hér undir pallinum..... hrmpff.
Ég neyðist til að gera ráðstafanir til að drepa þá. Kannski tala ég bara við meindýraeyði, það er auðveldast. Eða set mig í stellingar og geri atlögu að þeim með því að rífa pallinn í fullum herklæðum, og finna búið.
Jú ég hef verið svo kátur með allt lífið hér í kring en geitungar eru illa innrættir. Þeir kunna ekki einu sinni lágmarkssamskipti við fólk.
Það undarlega hefur samt gerst að Erlan mín er hætt að garga þegar hún sér þá, heldur fullri ró sinni og nær í flugnabana. Það er af sem áður var.

Sumarið er tíminn........ sagði veiðimaðurinn
Ég er sammála.

þriðjudagur, júní 12, 2007

Dagarnir eru góðir...

...eins og við er að búast. Ég var að koma úr ferð inn á Uxahryggi. Enn að vinna aðeins fyrir Hjalla bróðir. Það er fallegt á fjöllum því verður ekki neitað. Skjaldbreið, Kvígindisfell og Botnsúlur kölluðust á í góðviðrinu. Það er þessi einstæða fjallakyrrð sem hefur svo róandi áhrif á sálartetrið sem er svo góð.

Þórisvatn er handan hornsins. Þar er fjallakyrrðin áþreifanleg, einstök í þessari svörtu auðn. Það er rétt vika þangað til við förum í frændaferðina, ég, Rúnar, Gylfi, Heiðar og Hlynur.
Þessi ferð verður góð ef að líkum lætur. Í fyrra var þetta einskonar óður til fortíðar. Við vorum nefnilega allir leikfélagar þegar við vorum snáðar. Stóru og litlu strákarnir.
Þeir litlu voru reyndar miklir nördar í augum okkar stóru, eltu okkur á röndum og létu okkur fullorðna fólkið aldrei í friði.
Þeir elta okkur enn. En í dag erum við allir jafnaldrar og munurinn vart sjáanlegur.
Ég hlakka til samfélagsins við þá .......og að halda áfram að kenna þeim undirstöðuatriði veiðinnar og sjá þá ná betri og betri tökum á þessu, já já.

Hér var mikið skvísupartý þegar ég kom heim. Kvennópíur, fjórar skólasystur Erlu, Helga, Elínborg, kölluð Ella, Guðrún og Selma komu hér í heimsókn í húsið við ána. Þær virðast alltaf skemmta sér vel þegar þær hittast, enda alltaf verið vinkonur. Það er gott þegar vinabönd halda þótt fólk fjarlægist með árunum.
Lífið snýst nefnilega um fólk og vináttan er eitt það mikilvægasta sem við eignumst á lífsleiðinni. Hún er alvöruhlutur sem skiptir meira máli en flest annað þegar öllu er á botninn hvolft.

Það er mikið að snúast hjá mér þessa dagana. Ég er að bæta við Pólverjum hjá Lexor. Starfsemin vex þéttingsfast, bæði í byggingunum og lögfræðinni.
Ekkert nema gott mál.

laugardagur, júní 09, 2007

Það er komið sumar

Sólin kannski ekki hér akkúrat núna en þurrt og hlýtt. Ég er þessi lukkunnar pamfíll eins og þið vitið að búa hérna í sælunni, en nú hefur alvara lífsins tekið við. Ég er að taka mótorhjólapróf. Fór í vikunni í bóklega prófið ... og gekk bærilega. Núna í dag er svo verkleg kennsla. Þrír stuttir klukkutímar milli matar og kaffis. Baddi er með mér í þessu.
Miðaldra kallar eru víst uppistaðan í þessu mótorhjólaæði sem nú tröllríður landinu. En strákar eins og við megum líka vera með....
Það verður svo þrautin þyngri að finna hjól sem er nógu stórt fyrir okkur bæði og veskið samþykkir. Oft einhver óþverraskapur í því við okkur.

Erling Elí dafnar vel. Við heimsóttum þau í gær, borðuðum saman pizzu al-a Karlott og mjúkan ís. Það var gaman. Sá stutti líkist móður sinni.... og þar með afa, sem er ekki leiðinlegt. Það styttist í að sýna honum nokkur undirstöðuatriði í veiðinni. Best að byrja snemma þá verður þetta eiginlegra.
Í þessari ætt eru veiðigenin fljótandi í æðum, bæði karla og kvenna.

Það er kominn tími á kaffitár með konunni fyrst hún er vöknuð. Að setjast út á fákinn okkar í góða veðrinu og krúsa austur í sveitir verður að bíða um sinn.
Sjáum til hversu lengi.

sunnudagur, júní 03, 2007

Lítill herramaður fæddur.

Þær fréttir hef ég að færa hér að lítill drengur er fæddur inní okkar ört stækkandi fjölskyldu. Það markar tímamót að drengur fæðist en 9 stúlkur höfðu komið í röð.
Tölfræðin segir að líkurnar á að enn fæddist stúlka væri orðin yfir einn á móti þúsund þótt auðvitað séu líkurnar alltaf 50% við hverja fæðingu.



Afinn er sérlega stoltur því honum veittist sá einstæði heiður að barnið heitir í höfuðið á honum. Hann heitir Erling Elí Karlottsson.
Og það verð ég að segja að meiri heiður hefur mér ekki hlotnast á minni löngu ævi.
Ég er þakklátur maður fyrir þá auðlegð sem mér er færð og finn mig lítils verðugan slíkra gjafa.



Stóru systur lítla bróður voru hjá afanum og ömmunni í dag og fóru með okkur áðan að kíkja á nýja snáðann. Hann er kröftugur og myndarlegur og sver sig í ættina með sóma.





Eins og ég hef sagt ykkur áður, við Erla erum rík.... moldrík.