föstudagur, janúar 25, 2008

Sveitamaður

Ég fylgist vel með veðri. Ég get samt varla státað af því að vera “veðurglöggur” eins og margir mætir menn fortíðar. Forðum daga þótti það góður kostur. Innbyggt veðurinnsæi byggt á reynslu manna af skýjafari og ásýnd himintungla eða morgun og kvöldroða sólarinnar er sennilega hverfandi hæfileiki.
Ég nota aðallega netið til að fylgjast með veðri. Þar hef ég aðgang að nýjustu tækni þar sem allar veðurupplýsingar eru alltaf að verða betri og nákvæmari. Svo ég hlýt að vera allavega "nútímaveðurglöggur"
Það eru nokkrir vefir sem ég nota aðallega. Belgingur er vefur sem veðurstofan rekur en er um margt öðruvísi en veðurstofu vefurinn sjálfur. Þar sé ég veður á hverjum stað klukkustund fyrir klukkustund, úrkomu, vind og hitastig. Oftast mjög nákvæmt hjá þeim. Til að skoða veður og færð nota ég link á vegagerðarvefnum. Þar koma fram upplýsingar sem eru uppfærðar á hálftíma fresti, færð, veður og umferð.
Svo kíki ég alltaf á vefmyndavél sem er staðsett efst á Hellisheiði sem horfir í austur og vestur og beint niður á veg, þar get ég séð umhverfið með eigin augum áður en ég fer af stað. Síðast skoða ég mbl vefinn en þeir eru duglegir að tilkynna um færð og veður ásamt tilkynningum frá lögreglu ef eitthvað er.

Í gærkvöldi snjóaði hraustlega hér. Frost og lítill vindur og snjórinn eins og púður. Ég sagði við Erluna að það liti ekki vel út með morgundaginn. “Belgingur segir að eigi að hvessa”.
Það kom á daginn. Nútíma veðurglöggvi mín sannaði sig....... Ég lagði samt af stað áleiðis í morgun. Sú ferð endaði snubbótt. Ég keyrði einn hring á hringtorginu hér við bæjarmörkinog endaði heima aftur. Vefurinn sagði “þæfingur” á heiðinni en fært. Það var tilkynning frá lögreglunni á Selfossi í útvarpinu í bílnum að heiðin væri að lokast sem fékk mig til að snúa við. Annars værum við Hrund núna uppá Hellisheiði....föst. Við fórum af stað tvö því Erlan er komin með gubbupest og því heima í dag. Óþverrapest.
Myndin hér að ofan er af bílnum okkar hálffenntum í kaf.

Þá er nú betra að sitja hér við skrifborðið og vangavelta veðrinu í notalegheitum.
Ég verð samt að segja að ég kýs heldur milda vetur eins og síðustu nokkrir hafa einkennst af, þó í sjálfu sér kunni ég snjónum ekki illa. Hann bara tefur vinnandi mennina mína og gerir okkur erfiðara fyrir.

Það er ánægjuefni að sjá daginn lengjast. Vorið er handan hornsins. Það verður komið fyrr en varir með sól og grænar grundir og þreytta ferðalanga frá heitari löndum sem staldra hér við til að viðhalda kyni sínu. Merkileg þessi sköpun.

Eigið góðan dag lesendur mínir......Er annað slagið að bæta við ljósmyndum á myndasíðuna ef þið hafið áhuga á þeim.

sunnudagur, janúar 20, 2008

Árlegt þorrablót...

....okkar systkinanna var í gærkvöldi. Að þessu sinni var það haldið hjá Benna og Unu. Þetta var í 31. skiptið sem við hittumst í þessum tilgangi. Kvöldið var ljúft og maturinn góður. Íslenskur, súrsaður og annar gamaldags matur er hafður í hávegum. Hákarlinn var óvenju góður og sama má segja um súra hvalinn. Hvalurinn var frá Hagkaupum en svo vel verkaður að ég ætla að reyna að verða mér úti um stykki, bara svona til að narta í hér heima. Hann líktist súra hvalnum hennar mömmu. Ég man eftir súrum hval á borðum heima í sveitinni. Það voru alvöru stykki, margra kílóa hlunkar. Ekki held ég samt að bragðlaukarnir hafi verið mér eins sammála með bragðið þá og nú, ef ég man það rétt.

Þetta er skemmtilegur siður hjá okkur sem ég vildi ekki fyrir nokkurn mun leggja niður.
Þetta styrkir fjölskylduböndin. Kvöldin hafa tekið breytingum í áranna rás. Þau hafa róast, fágast, við erum að eldast.... Sem betur fer auðvitað.
Á árinu frá því við hittumst síðast hefur tvisvar sinnum hoggið nærri fjölskyldubandi okkar. Hjalli fékk heilablóðfall og Jói hjartaáfall. Báðir gengu þeir óhugnanlega nærri skapadægri sínu. Þetta er okkur áminning um að rækta betur fólkið okkar, með samfélagi við það og hlúa betur hvert að öðru.
Ég var að hugsa um þetta í gærkvöldi í veislunni. Það veit enginn hversu langan þráð hann hefur til umráða né hver lifir hvern.
Gömul kona sagði einu sinni: “Allir ættu að taka lífinu létt, á hverju sem gengur, því við lifum svo skammt en erum dauð svo óralengi.”
Einfaldur vísdómur í þessu, en réttur.

Núna sit ég hér á skrifstofunni minni hugsandi um lífið og tilveruna. Hún er mér ljúf þessa stundina. Ekkert áreiti hér í Húsinu við ána. Áin líður kröpuð hérna framhjá milli skjannahvítra bakka. Sakleysisleg en samt þung. Hún býr yfir ógnarafli hvernig sem hún er stemmd. Hún er samt góður nágranni og gjöfull, aldrei eins, virðist vera matarkista öndum og álftum jafnvel þó hún sé svona kröpuð og ísköld.
Veðrið er stillt þessa stundina. Það er fannfergi og jarðbönn. Snjótittlingarnir þiggja mataraðstoð, ekki árinnar, heldur okkar, og hópast hér fyrir utan gluggann minn, þakklátir litlu skinnin. Það er hörð lífsbaráttan hjá þeim þegar ekki sér á svartan díl. Þetta er ísköld fegurð sem við horfum á og skapar stóíska ró hér innandyra.
Erlan situr hér frammi, notaleg.....Ég er að njóta augnabliksins!

mánudagur, janúar 14, 2008

Afmæli

Betri helmingurinn á afmæli í dag......
Sú manneskja sem ég met mest og virði og dái, kom í þennan heim fyrir 48 árum síðan. Henni var ætlað það hlutverk að verða lífsförunautur minn. Skaparanum hugnaðist að velja mér frábæra konu sem auðvelt yrði að elska og sem dekraði mig meira en ég hmmm.... kannski hef alltaf haft gott af. Hún er besta móðir sem ég veit um og amma líka.
Hér er hún við pönnukökubakstur og tvær litlar ömmustelpur að fylgjast með.

Til hamingju með daginn elskan mín, ég hlakka til áranna með þér framundan og vona að Guð gefi okkur þau mörg, og að við getum gengið í sama góða taktinum þangað til sólin okkar sest.........

sunnudagur, janúar 13, 2008

Föðurland

Það var kalt en stillt. Hitinn var undir frostmarki.....utandyra. Rafmagnið blessað sá okkur fyrir yl innandyra. Við áttum tvo notalega daga þarna í kofanum okkar. Fórum á fimmtudaginn og komum í gær, laugardag.
Við héldum okkur mest innandyra, við lestur og spjall. Eins og ég hef sagt ykkur hefur frúin mín gert þennan litla reit að sælureit með kvenlegu innsæi sínu. Það fór því vel um okkur. Það tilheyrir að elda góðan mat í kofanum og það létum við eftir okkur. Pönnusteikt ærfille að hætti húsbóndans, með tilheyrandi tilbrigðum, kitlaði bragðlaukana á föstudagskvöldið.

Við skruppum tvisvar í Kotið að heimsækja heimamenn. Hansi og Auja buðu okkur að kíkja í kaffi og svo litum við líka til Gylfa og Christinu. Alltaf gaman að hitta sveitafólkið, enda maður manns gaman eins og sagt er.
Ég fór ekkert í veiði.... ekki einu sinni að “bregða” öndum. Þess í stað fór ég aðeins um og skaut nokkrum myndum. Af nógu er að taka enda Fljótshlíðin falleg eins og Gunnar sagði forðum. Setti tvær myndir inná Flickr síðuna áðan. Ég hef gaman að þessu nýja áhugamáli.

Eitthvað angur var samt að trufla mig í gærmorgun. Líklega kominn með streptokokka í hálsinn sem er óþverrapest. Pensilínið, þessi guðsgjöf, virkar vel á þessar agnarómyndir.

Annars er lífið, eins og við vitum, bara gott og um að gera að njóta þess.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Átti gæðastund....

....með dætrum mínum á kaffihúsi í gærkvöldi. Síðustu tvö árin hef ég farið með þeim á kaffihús á aðventunni. Veikindi settu strik í reikninginn þessa aðventuna svo við frestuðum því fram á nýárið. Ég nýt þess að fara með þeim. Þær eru svo stór hluti af sjálfum mér og tilverunni, allir foreldrar vita hvað ég er að tala um hér.....
Litli nafni minn var með í för þetta árið enda svo lítill að hann þarf nærveru mömmu sinnar til að næra sig.
Við skemmtum okkur vel að vanda og rifjuðum upp gamlar góðar minningar frá uppvaxtarárum þeirra. T.d. skemmtum við okkur vel yfir minningunni um gamlárskvöld eitt þegar ég ætlaði að fara að hafa mig til á brennu þegar heyrðist í þeim í kór “ verðum við að fara með þér pabbi”. Ég missti andlitið því ég var búinn að fara í mörg ár með þær á brennu, trúandi að ég væri að gera þetta fyrir ÞÆR en ekki MIG.
Þarna hættu áramótabrennuferðirnar okkar.......
Þriðja árið sem við förum saman á kaffihús og löngu hefðað eins og við er að búast hjá okkur.
Takk fyrir gefandi samveru gullin mín....

Við Erla erum að hafa okkur af stað í kofann okkar. Við ákváðum að taka tveggja daga frí og dvelja þar í rólegheitum. Hansi setti hitann á fyrir mig í gær svo við ættum að koma að heitu húsi.... Myndavélin verður með í för svo kannski verður bætt við myndasíðuna eftir helgina.
Hlakka til að eyða þessum tíma með besta vini mínum og sálufélaga.

Njótið daganna þeir eru góðir......

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Ókey ókey....

......ég læt undan þessum gífurlega þrýstingi. Var einmitt að vona að einhver mótmælti. Ég henti bara "englamyndunum". Ég ætla þá að taka aðeins í lurginn á mér og "öppdeita"......hræðilegt orðskrípi. "Uppfæra" miklu betra orð, veiði- og sælkerasíðurnar reglulega. Ég lagði af stað með þær báðar með fagrar fyrirætlanir. Tíminn er ekki alltaf vinur minn í þessum efnum.
Er að reyna að setja upp slideshow á Flickr myndasíðuna mína en það gengur ekkert of vel hjá mér. Það sem á að virka, gerir það ekki og það pirrar mig.
Annars var bara vinnudagur hjá mér í dag og ekkert annað en gott um það að segja. Nóg komið af áti og afslappelsi.
Nýtt ár með útbreiddan faðminn fullan af fyrirheitum, gæti það verið betra?

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Ég mun....

....henda út "englamyndunum" og hvorttveggja "sælkera" linknum og "veiði" linknum ("krækjunum" á íslensku) innan skamms. Geri ráð fyrir að þeir sem vilja hafi skoðað þetta allt. Myndirnar áttu bara að vera tímabundið. Hinar síðurnar hef ég ekkert hugsað um og þær því óvirkar og til lítils sóma svo mér finnst tímabært að lát þær fjúka.