miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Meiri samsuðan

Hvernig á að vera hægt að bera virðingu fyrir svona fólki. Ætli Steingrími sé ekki bumbult eftir átið á sínum stóru orðum um getuleysi fyrri ríkisstjórnar. Hann talaði um aumingjaskap og undirlægjuhátt fyrrum stjórnar varðandi málaferli gegn bretunum. Slær svo sjálfur af allar hugmyndir um slíkt, þegar hann er loksins kominn í stöðu til að bretta upp ermarnar og framkvæma sjálfur. Það er ótrúlegt að sjá.

Enn ótrúlegra er að sjá þessa minnihlutastjórn klúðra svona tækifæri sínu, rétt fyrir kosningar, til að sýna takta sem fólk myndi kaupa.
Ef þau sneru sér að alvöru málum, fólkinu í landinu sem er að missa allt sitt. Fyrirtækjum sem eru að fara á hausinn og örva atvinnulífið svo fólkið hafi vinnu.
Þess í stað fer öll orkan í að koma Davíð úr Seðlabankanum, sem þau ráða ekki einu sinni við.

Hlustaði á viðtalið við Davíð í tölvunni áðan. Ég verð að segja, eftir hlustunina, og eftir lestur nokkurra bloggfærslna þar sem fólk er æft út í hann, að reiði þjóðfélagsins út í Davíð er fyrst og fremst leit að blóraböggli og hungur í hefnd.
Auðvitað á hann þátt í þessu öllu eins og aðrir stjórnmálamenn sem setið hafa við völd. En eftir því sem meiri viðbjóður kemur í ljós í bankasukkinu, kemst ég nær þeirri hugsun að útrásarvíkingarnir hafi, upp til hópa, verið ótýndir glæpamenn. Það elur af sér pælingar um sekt eða sakleysi yfirvalda. Kannski svipuð pæling og að það verður seint löggunni að kenna þó fólk fremji glæpi.

Kannski var Davíð eins og Derrick, sá ýmislegt og reyndi að tala við yfirlöggurnar en...... Hver veit hvað er satt eða logið?

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Oft hef ég....

.... þrifist vel á því að hafa nóg fyrir stafni. Finnst fátt jafn niðurdrepandi og að hafa lítið að gera. Það leit ekki út fyrir að verða mikið að gera í vetur, svo ég dreif mig í háskólann aftur til að klára mastersnámið. Það lá alltaf fyrir að klára það svo ég er þannig séð að ganga eftir áætluninni sem ég fór af stað með þegar ég byrjaði.
Hinsvegar getur umfang verkefnanna orðið ansi mikið ef þannig verkast. Ég er að koma úr vinnutörn núna sem krafðist eiginlega meira en hollt getur talist. Sérstaklega var einstaklingsverkefni í Auðlindarrétti strembið. Því er lokið sem betur fer...á réttum tíma.
Allt í lagi með það. Var líka í hópaverkefnum í samstarfi við gott og skemmtilegt fólk.
Ég hef samt gaman að þessu. Bætir í sarpinn smátt og smátt.

Hef varla haft tíma til að fylgjast með þjóðmálunum. Sumt fer samt ekki framhjá. Framsókn var að minna á sig. Kannski er það samt þetta sem vantar meira af hjá þingmönnum, svo þingið verði valdameira og skilvirkara. Maður er vanari að þingmenn sitji fast bundnir í sínum flokksböndum og þori ekki að umla sjálfstæða sannfæringu sína. Verð að segja að þetta ýtir aðeins við viðurkenningartakkanum í mér. Næstum sama hvert málefnið væri....þó ekki alveg.
Datt í hug stubbur úr ljóði eftir Árna Grétar Finnson:

Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun.

Er samt ekki að kommenta á málefnið með þessu þar sem ég veit varla um hvað það snýst. Veit þó að þessi gírugi framsóknarmaður Höskuldur Þórhallsson vildi bíða eftir niðurstöðu nefndar Evrópusambandsins um breytingar á regluverki um seðlabanka. Sé ekki að það velti einhverju hlassi, finnst það bara skynsamlegt í ljósi þess að við erum nú þegar aðilar að hluta Evrópusambandsins í gegnum EES. m.a. megninu af regluverkinu þeirra.

Sýnist þessi ríkisstjórn ætla að ná að klúðra þessu einstæða tækifæri til að rústa næstu kosningum. - Fengnir til að bjarga málum - eftir klúður fyrri ríkisstjórnar og ætla að renna á rassinn með flest sem þeir hafa haldið á lofti, digurbarkalega. Það fer ekki mikið fyrir alvöru aðgerðum, verð ég að segja, eða hvað?

Annars erum við í góðum gír hér í húsinu við ána. Erla heldur vinnunni sinni sem betur fer. Vinnur fyrir mér svo ég geti látið skóla mig til.
Ég er farinn að hlakka til vorsins hér. Daginn lengir og tíminn líður hratt. Bráðum kemur betri tíð með vor og yl og angan í haga. Þá verður mótorfákurinn tekinn fram og viðraður.... með Erluna aftan á.

sunnudagur, febrúar 08, 2009

Góðra vina þorrafundur

Þorrablótið árlega hjá okkur systkinunum. Það 32. í röðinni, var haldið hér í Húsinu við ána. Veðrið var gott og allir gátu komið. Að vanda var gaman að hittast. Matnum, sem sumum finnst skemmdur og varla mannamatur, voru gerð góð skil. Hákarlinn var kannski full mildur ef eitthvað er. Annað féll vel í kramið. Ég gerði að gamni mínu að sjóða feitt saltað hrossakjöt og bjóða með hefðbundna þorramatnum. Það féll í góðan jarðveg, enda er saltað hrossakjöt sælkera matur ef það er vel heppnað. Alltaf er það samt samfélagið sem auðgar, þó svo maturinn sé alltaf

mannsins megin. Það er gaman að skiptast á gömlum minningum, segja sögur úr bernsku eða jafnvel rifja upp stundir úr fyrri þorrablótum. Þau eru jú orðin nokkur.

32 ár hafa sett mark á hópinn eins og gengur. Ég set hér inn myndir teknar í gærkvöldi. Efri myndin er af okkur systkinunum, sú neðri af mökum.


Það sést kannski best með samanburði. Þetta er tekið í garðinum Hildar og Jóa í einu af fyrstu þorrablótunum okkar. Gæti verið nálægt 30 ára gömul mynd.
Kannski ekki svo mikill munur? Aðallega háraliturinn :o=)
og motturnar, kannski nokkur kíló líka, sumstaðar allavega.
Gaman að þessu.
Njótið daganna gott fólk......