mánudagur, ágúst 31, 2009

4. fjallið í sumar

Við vorum á Föðurlandi um helgina. Veðrið var snilldargott, miklu líkara júlíveðri en lokágústveðri. Við gengum á Þórólfsfell á laugardaginn. Það var heitt, en sem betur fer strekkings vindur. Útsýnið þarna uppi er alveg stórkostlegt. Við sátum í slakkanum á efsta tindinum sunnan megin með nestið okkar og nutum útsýnisins. Þórsmörk virðist ekki langt í burtu svona ofan frá séð. Eins sáum við inn á Fimmvörðuháls. Jökullónið í enda Gígjökuls sást vel og Eyjafjallajökull var eins og konungur í suðri, Mýrdalsjökull gnæfði í austri og Tindfjallajökull í norðri. Maður fyllist lotningu á svona stundum, sköpunin engu lík. Nesti bragðast líka aldrei eins vel og eftir góða fjallgöngu, það er ég búinn að finna út.

Sunnudagsmorguninn var einstaklega fallegur og hlýr. Algert stillilogn og sól í heiði. Pallurinn varð fyrir valinu þegar við snæddum morgunmat og svo létum við okkur líða vel fram eftir degi, fólk kom til okkar og við heimsóttum fólk í næstu bústöðum... indælt og gott.
Við eigum allavega eina fjallgöngu eftir þetta sumar. Það er nágranni okkar Ingólfsfjall. Næsta góðviðrisdag sem við erum heima verður lagt í hann.
Hafið það gott vinir.

þriðjudagur, ágúst 18, 2009

Að fjallabaki og fleira

Það líður að skóla. Morgundagurinn í vinnu og svo hefst maraþonið enn einu sinni. Það vill til að tíminn líður hratt þegar mikið er að gera. það verður komið vor aftur áður en maður getur snúið sér við. Ég skal hins vegar viðurkenna fúslega að ég hlakka til þegar ég verð fullnuma með ML gráðu.
Það sem ég ætlaði að gera með þessum pistli er að efna loforð síðasta pistils. Við fórum í dagsferð um fjallabak. Fjallabaksleiðirnar eru tvær, nyrðri og syðri. Við slógum tvær flugur í einu höggi og fórum báðar. Fyrst keyrðum við um Dómadalsleið til Landmannalauga. Við skoðuðum Landmannahelli og Ljótapoll á þeirri leið ásamt endalausri fegurð íslenskra fjalla.

Landmannalaugar skörtuðu sínu fegursta. Litirnir þar eru engu líkir. Það er eins og skaparinn
hafi úthlutað þessu svæði litadýrð og náttúrufegurð af meiri rausn en annarsstaðar, og er þó af miklu að taka.
Þaðan fórum við að Eldgjá og gengum inn að Ófærufossi. Þeim sama og ég málaði mynd af fyrir 30 árum og hefur hangið í stofunni okkar, alla okkar búskapartíð.
Það var virkilega gaman að koma þangað og líta fossinn augum.
Umhverfið var aðeins öðruvísi en ég gerði ráð fyrir. Ekki að það væri ljótara heldur kom á óvart að fossinn væri ekki í enda Eldgjár heldur kemur hann þvert á gjána. Verst að steinboginn skyldi hrynja, það er sjónarsviptir af honum. Samt gríðarlega falleg náttúrusmíð.







Svo fórum við áleiðis í Skáftártungu en ákváðum á leiðinni þangað að fara Álftavatnaleið inná syðri fjallabaksleið. Það er 20 km. vegalengd og yfir eitt djúpt vað að fara, Syðri ófæru. Það gekk allt vel og við komum niður á syðri leiðina við Hólmsá sem er annað djúpt vað. Þaðan fórum við svo yfir Mælifellssand um endalausar jökulsársprænur því það var orðið áliðið, en þá hækkar í öllum jökulám. Þar er ekið eftir stikum um sandinn til að forðast sandbleytur.
Niður í Emstrur komum við svo, þar fórum við yfir Bláfjallakvísl sem var orðin þó nokkuð fljót. Svo komum við niður í Fljótshlíð klukkan að ganga tíu. Gilsáin var þá bara eftir sem okkur þótti eiginlega barnaleikur eftir hinar árnar.
Hér er Erlan við bílinn eftir svaðilfarir dagsins. Bláfjallakvíslin náði upp að listum á hurðunum.

Við vorum himinlifandi með ferðina enda bæði forfallnir ferðaidjótar, sérstaklega um fjalllendi. Svo ánægð að við tókum þá ákvörðun að endurtaka þessa ferð að ári og bjóða þeim sem hafa áhuga á, að slást í för með okkur. Eina sem til þarf er áhugi og jeppi......!
Oft varð okkur að orði þegar fegurð fjallanna snerti innra með okkur viðkvæma föðurlandsstrengi, hvort eitthvað væri til fallegra en landið okkar.

Ég set smá myndasýnishorn hér inn, en við tókum á fjórða hundrað myndir :0)
Svo eru nokkrar komnar inn á Flickr....

föstudagur, ágúst 14, 2009

Tæknivæðing

Hún ríður ekki við einteyming tæknin. Ég sit hér í bústaðnum og var að skoða veðurlýsingar á veraldarvefnum af leiðinni sem við förum í dag, Landmannalaugar og svæðið þar í kring. Við erum að tygja okkur af stað og munum eyða deginum í ferðalag um hálendið. Ég á von á skemmtilegum degi. Hendi inn myndum þegar tækifæri gefst.

laugardagur, ágúst 08, 2009

Frí...

Vikulangt frí er framundan hjá okkur Erlunni. Við ætlum að eiga náðuga daga hér heima og í kofanum. Það er bæjarhátíð hér á Selfossi í dag og á morgun "Sumar á Selfossi". Ýmislegt forvitnilegt sem við ætlum að sjá og taka þátt í m.a. listflug, götugrill, útimessa, kraftakeppni sterkustu manna íslands (ég tek auðvitað þátt), sléttusöngur (Árni Johnsen) flugeldasýning o.fl. Einnig er hugmyndin að skreppa upp í Sólheima í Grímsnesi á markað sem íbúar þar halda. Þar er til sölu allskyns grænmeti ræktað á staðnum og handavinna íbúanna sem flestir eru fatlaðir. Þetta verður svona letidagur með ýmsum uppákomum.

Svo tók ég villigæs úr frystinum til að elda í kvöld. Okkur áskotnuðust nokkrar gæsir frá einum af viðskiptavinum bókhaldsstofunnar sem Erla vinnur hjá. Ekki amalegt það. Villigæs er eitt það besta sem inn fyrir mínar varir kemur. Ætla að reyna að vanda mig við matseldina.

Einhverntíman í vikunni ætlum við svo að fara í ferðalag austur að Jökulsárlóni og hugsanlega gista í Skaftafelli.... í tjaldi. Það höfum við ekki gert í mörg ár. Veðrið ræður deginum sem við förum, svoleiðis er Ísland.
Það er góð tilhugsun að eiga þessa daga framundan.

Rétt að athuga hvort Erlan sé ekkert að rumska á þessum fallega en blauta laugardagmorgni. Nýmalað kaffi hlýtur að hafa vekjandi áhrif.

Þetta var örfrétt héðan af árbakkanum.
Njótið daganna gott fólk.

miðvikudagur, ágúst 05, 2009

Verslunarmannahelgin.....

Þá finnst manni alltaf að sumarið sé á lokasprettinum og haustið handan hornsins. Enda er það víst svo, allavega eru ekki nema tvær vikur þangað til að ég sest á skólabekkinn einu sinni enn.
Við áttum afar góða helgi í faðmi fjölskyldu og vina. Dæturnar og þeirra fólk var með okkur á Föðurlandi allan tímann.

Á laugardagseftirmiðdaginn og fram á nótt var haldið ættargrill hjá okkur. Það var fjölmennt, flestir komu þrátt fyrir tilkynningar okkar um að hugsanlega gætu nokkrar litlar dömur verið svínaflesnusmitberar. Flestir létu sér fátt um finnast og mættu í grillið, enda hægt að smitast hvar sem er ef því er að skipta. Snúllurnar eru ekki enn veikar svo hugsanleg hræðsla var óþörf.
Pallurinn milli húsanna sem ég hafði tjaldað yfir rúmaði nánast allan hópinn sem var snilld því nándin þjappaði fólkinu saman. Eftir matinn kveiktum við svo lítinn varðeld í lautinni fyrir framan húsin. Þar voru svo sungin ættjarðarlög fram á nótt við harmoniku undirleik Sigga hennar Gerðu. Þetta var notalegt og nærandi samfélag.

Á sunnudeginum kom svo ættleggur Erlu. Tilefnið var að kveðja Tedda og Kötu sem eru að flytja til Danmerkur. Þar grillaði hver með sínu nefi, afraksturinn lagður á stórt borð og svo fékk fólk sér það sem því leist best á. Þessi grillveisla stóð styttra en kvöldið áður enda fólkið upptekið á Kotmóti og tilefnið annað.

Mánudagurinn var líka góður. Þá var keyrt inn í Fljótshlíð með nesti og nýja skó. Við stoppuðum víða, skoðuðum Gluggafoss og fleiri staði. Enduðum svo í Þorsteinslundi þar sem farið var í leiki með yngsta fólkinu og borðað nesti.
Það eru forréttindi að geta átt svona gott og gefandi samfélag við fólkið sitt. Ég lít á það sem mín mestu auðævi.

Við kíktum á Kotmót. Það fangaði athygli mína að flytja átti sögu kotmóta í máli og myndum. Það var virkilega skemmtilegt að sjá og heyra. Afi og amma eru frumkvöðlar að því starfi sem fer fram í Kotinu. Sagan var lifandi og skemmtileg.
Góð helgi að baki - vinna framundan - smá frí, og svo.....skólinn.