mánudagur, ágúst 31, 2009

4. fjallið í sumar

Við vorum á Föðurlandi um helgina. Veðrið var snilldargott, miklu líkara júlíveðri en lokágústveðri. Við gengum á Þórólfsfell á laugardaginn. Það var heitt, en sem betur fer strekkings vindur. Útsýnið þarna uppi er alveg stórkostlegt. Við sátum í slakkanum á efsta tindinum sunnan megin með nestið okkar og nutum útsýnisins. Þórsmörk virðist ekki langt í burtu svona ofan frá séð. Eins sáum við inn á Fimmvörðuháls. Jökullónið í enda Gígjökuls sást vel og Eyjafjallajökull var eins og konungur í suðri, Mýrdalsjökull gnæfði í austri og Tindfjallajökull í norðri. Maður fyllist lotningu á svona stundum, sköpunin engu lík. Nesti bragðast líka aldrei eins vel og eftir góða fjallgöngu, það er ég búinn að finna út.

Sunnudagsmorguninn var einstaklega fallegur og hlýr. Algert stillilogn og sól í heiði. Pallurinn varð fyrir valinu þegar við snæddum morgunmat og svo létum við okkur líða vel fram eftir degi, fólk kom til okkar og við heimsóttum fólk í næstu bústöðum... indælt og gott.
Við eigum allavega eina fjallgöngu eftir þetta sumar. Það er nágranni okkar Ingólfsfjall. Næsta góðviðrisdag sem við erum heima verður lagt í hann.
Hafið það gott vinir.

1 ummæli:

Karlott sagði...

Glæsilegt hjá ykkur!

Karlott