föstudagur, mars 30, 2007

Tilveran

Náttúran ber ekki með sér mörg hljóð yfir vetrartímann önnur en ýlfur norðanvindsins og kuldalegt marr í frosnum snjó, annars er veturinn hljóður tími, svefntími náttúrunnar.
Ég hef oftsinnis vaknað um miðjar nætur í vetur við þessi kuldalegu hljóð þar sem ég sef alltaf við opinn glugga hvernig sem viðrar. Ég kom með þessa kuldaþörf inn í hjónabandið fyrir bráðum þrjátíu árum. Erlan mín er löngu orðið jafnháð þessu og ég.

Síðustu nótt vaknaði ég við gamalkunnugt og yljandi hljóð. Vorboðandi hljóð. Tjaldurinn er kominn og farinn að stíga í vænginn við verðandi spúsu sína með tilheyrandi hvellum hljóðum.
Ég hugsaði til baka til bernskunnar en þessi hljóð voru alltaf fyrstu boðberar vorkomunnar í sveitinni. Alltaf á undan Lóunni.
Fleiri góð hljóð heyrði ég. Gæsin er mætt í hólmann. Værðarleg hljóðin í litlum hóp sem hvíldi lúin bein eftir erfitt flug frá Bretlandi.
Þetta eru forréttindi. Ég er slíkur náttúruunnandi að ég naut þessara hljóða með bros á vör um miðja nótt. Fuglarnir eru vinir mínir. Ég er farinn að hlakka til að komast í kofann á Fitinni. Þar er fuglalíf með því mesta sem gerist. Mögnuð sinfónía á björtum vornóttum sem hljómar eins og fegursti lofsöngur til landsins og þess sem skóp það

Að allt öðru. Ég sagði ykkur frá því síðastliðið vor meðan á ritgerðasmíðum stóð að ég hitti nefnd sem vann að undirbúningi nýs frumvarps til byggingalaga. Þar ræddi ég nokkra punkta úr ritgerðinni minni varðandi byggingarstjóra sem virtist ekki hafa verið til umræðu hjá nefndinni.
Nú í vikunni fékk ég það skemmtilega hlutverk að fá frumvarpið í hendur frá Meistarafélagi húsasmiða í Reykjavík til yfirlestrar, en það er nú komið í hendur alþingismanna. Í framhaldi af því fékk ég tækifæri til að hitta nokkra alþingismenn til ábendinga og skrafs og ráðagerða.
Það skemmtilegasta sem mér fannst, var samt sú uppgötvun mín að fundirnir með nefndinni höfðu skilað einhverju. Fingraförin mín voru þarna.

Hef átt betri dag en þennan sem nú er að renna skeiðið. Ég léttist í dag um nokkur grömm. Þrír endajaxlar dregnir úr mér með tilheyrandi pínu og kvöl. Dagurinn hefur þó verið bærilegur utan nokkurra klukkutíma eftir aðgerðina, þökk sé sterkum verkjalyfjum sem tannsi var svo vænn að senda með mér heim og frábæru mæðgunum sem búa með mér og dekra mig oftast meira en hollt er.
Morgundagurinn verður samt betri í munni.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Mottó

Molarnir eru líka brauð.......!

laugardagur, mars 24, 2007

Pólitíkin.... þessi tík

bylur á okkur þessa dagana. Nú nálgast kosningar og pólitíkusar gerast sýnilegri. Loforð um hitt og þetta sem þeir halda að lokki atkvæði úr hugarfylgsnum kjósenda er mottóið í dag, hvað sem um efndirnar verður, enda er það síðari tíma vandamál eins og oft hefur sýnt sig og kannski ekki frágangssök þó eitthvað vanti upp á.

Skoðanakannanir sýna nú það sem blasti við sæmilega skynugu fólki að Samfylkingin átti ekki von með stóryrta Ingibjörgu á stýrinu. Stóru mistökin þeirra voru að skipta um kallinn í brúnni. Ég er viss um að staða þeirra væri önnur ef Össur hefði verið látinn í friði.
Pólitík snýst um “trú” og slóð Ingibjargar er akkilesarhæll Samfylkingarinnar. Má segja að ef Halldór var að grafa gröf Framsóknar og þurfti að hætta þess vegna, þá er Ingibjörg tilbúin með holu Samfylkingarinnar og ætti að hafa vit á að draga sig í hlé eins og hann. Fólk kýs það sem er trúverðugt.

Það má Steingrímur græni eiga að hann baðar sig uppúr trúverðugleika. Og er að uppskera eftir því. Oft réttsýnn og alltaf sannfærandi. Þyrfti bara aðeins að pússa af honum nokkur smáhorn til að ég kysi hann og hans slekti. Of afturhaldssamur samt á landsins gæði. Hann virðist halda að þjóðin lifi á fjallasýn einni saman.

Frjálslyndi er afar ósannfærandi flokkur.

Íslandshreyfingin getur fengið nokkuð fylgi, það eru svo margir sem vilja ekki nýta auðlindir landsins. Það á bara að horfa á gullæðarnar á Íslandi, ekki nýta þær. Ég hef sjálfur farið víða um hálendið og séð virkjanirnar þar. Þar sem áður voru svartar auðnir er nú gróið land. Þúsundir hektara sem Landsvirkjun hefur grætt upp af örfoka landi. Þetta er bara staðreynd sem blasir við þeim sem um landið fara með opin augun.

Framsókn er svona, jæja.... Jón kemur samt sterkur inn á hliðarlínuna eins og einhver sagði. Þeir töldu sig vera að sækja styrk í trúfélag, við mikinn fögnuð forkólfa trúfélagsins en illu heilli fyrir fylgi flokksins hjá almenningi, enda trúariðkun og pólitík eins og olía og vatn.

Sjálfstæðisflokkurinn er eins og kletturinn í hafinu. Baðar sig í góðum ávöxtum undanfarinna ára og siglir seglum þöndum. Trúverðugleikinn uppmálaður enda endar x-ið mitt gjarnan við nafn þeirra. Það var jú einu sinni D fyrir Drottinn.
Kosningarnar verða forvitnilegar þetta árið og ekki á vísan að róa.

miðvikudagur, mars 14, 2007

Frændi minn heitinn....

...Kristján Magnússon móðurbróðir var góður hagyrðingur og sérlega mikill vinur mömmu. Hann orti þetta ljóð fyrir allnokkrum árum. Mér þótti vænna um hann en marga aðra vegna þess hversu góður hann var alltaf við mömmu. Mér er minnisstætt þegar ljóðið var frumflutt á ættarmóti árið 1992 að mig minnir, því mamma táraðist undir flutningnum.
Hjásetubörnin sem ljóðið fjallar m.a. um, eru nefnilega hún og Stjáni. Þau sátu yfir ánum kornung börn allan liðlangan daginn hvernig sem viðraði. Þegar lak var breytt út á barð við bæinn, máttu þau koma heim með ærnar. Já það eru breyttir tímar.

Ljóðið er fallegur óður til látinnar móður og tregafull nostalgía.

Mamma og minningarnar

Rödd sem á undirrót innra
-óskir sem kalla á svör-
Er löngun að minnast þín mamma,
þó málfarið stirðni á vör,
ylsins frá ástríki þínu,
ævilöng minninga sýn.
Með þér í ljúfsárum ljóma
leikvangur bernskunnar skín.

Í birkiskóg söngfugla sveimur,
sólskin um sumartíð.
Fannir blika í fjöllum
fossar duna í hlíð.
Og aðeins utan við túnið,
ofan við smálæk og tjörn
léttstíg í laufgrænni brekku
leika sér hlæjandi börn.

Þar undu þau, byggðu sér bæi
og bjástruðu um móa og grjót
og óvart vildu þá verða
með votan og óhreinan fót.
Þau vissu þó vöknaði fótur
og vildu ekki koma heim
að í bænum var fyrir þeim beðið
og beðið eftir þeim.

Hún situr í huganum sagan,
sungin af minninga raust.
Um systkin sem sátu hjá ánum
á sumrin fram undir haust.
Hvern dag eftir miðjan morgun
var mjaltað og allt haft til
og svo var haldið með hópinn
í hagann um dagmálabil.

Og daglangt þau dvöldu og léku
í dældum við lyngmó og tjörn
og fjölskrúðugt fjörulífið
-tvö forvitin hjásetubörn-
Við landsteina fleyttu þau fjöðrum
og fjaran var úthafsströnd
og sigldu fannhvítum fleyjum
í fjarlæg ónumin lönd.

Af fjallsbrún um friðsælar hlíðar
lagði forsælan skuggatjöld
og kvíaærnar hópuðust saman
heimfúsar undir kvöld.
Þegar breitt var á holtabarðið
birti yfir systkinum tveim
það var merki um mjaltatíma
þá máttu þau koma heim.

Hver ævi er sem leikþáttur lítill
í lífsins eilífu duld.
Þar yrkja vor örlagahlutverk
Urður, Verðandi og Skuld.
En dulræð er kúnst þeirra kvæða
hvort kjósa á þetta eða hitt
og margir sem tekst ekki að túlka
tilkveðna hlutverkið sitt.

Það gleymdist sem mætast var, mamma,
og margt hefur glapið sýn
og því verður óskrifuð ævi-
afrekaskráin mín.
Af dáðum í draumum þínum
sem drýgja þú ætlaðir mér
hef ég aðeins af mistökum mínum
myndir að sýna þér.

Þegar forsælan færist á bæinn
sker fjallskugginn miðjan dal.
Þá fer hjásetu loksins að ljúka,
ég legg saman tóman mal.
Í lognværum síðkvöldsins svala,
sáttur við liðinn dag
sveimar í huganum söngur,
seiður frá ókunnum brag.

Í kyrrðinni er líður á kvöldið
hverfur það allt sem brást.
Mér finnst eins og fram undan bíði
þín fórnandi móðurást.
Nú veit ég þú breiðir bráðum
á barðið þitt hvíta lín,
þá heldur þinn hjásetudrengur
heimleiðis aftur til þín.

Kristján Magnússon frá Langabotni, Geirþjófsfirði

mánudagur, mars 05, 2007

Áttunda undur veraldar...held ég bara

Mér áskotnaðist sá heiður að fá að vera viðstaddur sónarmyndatöku yngsta barnabarnsins (finnst næstum eins og hann sé fæddur) og já ég sagði........ “hann”.
Það er sem sagt áttunda undrið að drengur er á leiðinni í mína ört stækkandi fjölskyldu. Það sætir miklum tíðindum því nú eru stúlkurnar orðnar níu í röð sem er orðið með nokkrum ólíkindum.

Það er því með nokkru stolti og eftirvæntingu að ég tilkynni þetta hér. Það má samt ekki skilja svo að drengur sé velkomnari en stúlka, þær hafa allar komið í heiminn elskaðar allan hringinn, heldur verður þetta öðruvísi og nýtt hvernig sem á það er litið.
Eins og ég sagði þá vorum við Erla viðstödd sónarmyndatöku í dag, og með sanni má segja myndatöku því snáðinn var myndaður í þrívídd fram og til baka. Tæknin er ótrúleg og magnað að sjá lítla krílið hreyfa sig og sjúga puttann.

Ég má til að láta fylgja eina mynd hér, svo allir sjái hvað hann er líkur afa sínum fjallmyndarlegur og efnilegur.
Ehaggibara.

laugardagur, mars 03, 2007

Hamingjan er afleiðing...

...held ég sé rétt. Hamingjan kemur innanfrá. Hún er ekki utanaðkomandi happ sem fellur af himni ofan. Hún byggir ekki á peningum. Fæst ekki keypt og verðmiðinn er innaná. Hún kostar samt vinnu.
Í dag á miðjum aldri blasir þessi mynd við. Væri ekki gott að koma ungdómnum í skilning um þessa einföldu staðreynd.
Ég held að græðgin sem einkennir þjóðfélagið í dag byggi á leit fólks að hamingju. Drifkraftur þeirra sem verja öllum sínum tíma í að verða ríkari í dag en í gær er augljóslega af þeim toga.
Ég þekki nokkur dæmi um menn sem hafa lagt allt sitt í að verða ríkir. Sumum hefur tekist það – en eru ekkert hamingjusamari, bara stressaðri og fjölskyldan veikari.

Reynsla áranna hefur kennt mér að nota tímann vel. Lífið er ófyrirsjáanlegt eins og atvikið með Frikka bróðir Sigrúnar sannar. Einn daginn leikur allt í lyndi, næsti dagur ber með sér áfall sem ekki sér fyrir endann á.
Heilsan er stærsta gjöf sem við eigum. Þegar hún brestur, breytist allt.

Það er nauðsynlegt að taka til í garðinum sínum, rækta heilsuna, fólkið sitt og.... vera hamingjsamur.

föstudagur, mars 02, 2007

Og enn afmæli

Það er þannig í stórum fjölskyldum að afmælin koma oftar en í litlum. Eygló og Arna eru 26 ára í dag. Ótrúlegt en satt. Tíminn líður svona hratt. Þegar litið er til baka yfir farinn veg er svo stutt síðan þær litu sinn fyrsta dag með fjögurra mínútna millibili.
Þær eru dugnaðurinn uppmálaður eins og mamma þeirra. Okkur til sóma. Til hamingju með daginn elskurnar mínar.