þriðjudagur, janúar 31, 2006

Vinsamleg tilmæli:

Ég veit, er ég dey, svo verði ég grátinn,
þar verðurðu eflaust til taks.
En ætlirðu blómsveig að leggja á mig látinn
þá - láttu mig fá hann strax.

Og mig, eins og aðra, sem afbragðsmenn deyja,
í annála skrásetur þú;
og hrós um mig ætlarðu sjálfsagt að segja
en - segðu það heldur nú.

Og vilji menn þökk, mínum verðleikum sýna,
þá verður það eflaust þú,
sem sjóð lætur stofna í minningu mína
en - mér kæmi hann betur nú.

Og mannúðarduluna þekki ég þína,
sem þenurðu dánum í hag.
en ætlirðu að breiða yfir brestina mína,
þá - breiddu yfir þá í dag

Ég veit ekki hver er höfundur þessa texta, hann var settur fram nafnlaust. Mér fannst bara svo góður boðskapur í þessu að ég ákvað að gefa þessu pláss hér á síðunni minni.
Ég held að flestir sjái aðeins sjálfa sig í þessu.

sunnudagur, janúar 29, 2006

Stórir vasar......

Lítil sposk á svip stendur hún hér í gættinni með fjörlegt blik í augum og horfir svolítið spyrjandi á afa sinn. Hún er ekki að átta sig á að nú er afi hættur að leika og dottinn ofan í tölvuna sína.Við erum að “passa” barnabörn núna svo bærinn er líflegur þessa stundina. Minnir á liðna tíð þegar við vorum sjálf í uppeldishlutverkinu þ.e. ungbarna. Sú litla sem stendur hér er Katrín Tara, ótrúlegur orkubolti sem lætur mann finna að hún sé hérna. Þetta afa og ömmu hlutverk er skemmtilegt.
Í gær vorum við í afmæli Birgis sonar Ástu og Kidda. Ég var í samræðum við einhvern þegar ég finn litla hönd setta á fótinn á mér og hrist. Þetta var Danía Rut komin í gegnum mannþröngina til að heilsa afa sínum, hún vildi athyglina sem hún er vön að fá hjá honum, það gekk í þetta skiptið hjá henni…hm..!
Annars heyrði ég einhvern segja þarna: “merkilegt hvað stórir menn komast ofan í litla vasa” veit ekki alveg hvaða þýðingu ég á að leggja í þetta, því svo var bætt við: “Þær erfa þetta frá mæðrum sínum”. Er maður ekki laukur lengur????

Erla er búin að ráða sig í vinnu hjá endurskoðunarskrifstofu. Hún mun vinna sem bókari þar, sinnir sínum kúnnum, með mjög frjálsan mætingatíma. Þetta hentar henni vel og nýr vinnuveitandi mun sjá að hann datt í lukkupottinn þegar hann réði hana til vinnu, því leitun er að samviskusamari starfskrafti. Launin eru góð svo ég get bara haldið áfram minni iðju, að gera ekki neitt….. nema lesa. Til hamingju með þetta ástin mín.
Annars er tíminn minn núna notaður til lestrarskyldunnar, verð að líta á þetta sem vinnuna mína, ekki dugir að drepast nú þegar svo stutt er orðið í útskrift.

Nú var eldri systirin að koma litlu til hjálpar ”afi þú sagðist ætla að koma bráðum fram..!”
Það er rétt, ég sagðist ætla að setjast aðeins við tölvuna og koma svo bráðum fram aftur…..svo nú er pása…..

…Við fengum okkur banana sem var skipt bróðurlega á milli.
En fleiri voru að bætast í hópinn, börn og eldri í heimsókn. Svo ég held ég fari að ljúka skriftum.
Gerið eins og ég, hafið það gott og njótið lífsins…

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Allt tekur enda...!

Ég hef alltaf gaman af veðrinu þegar það lætur illa, eins og í liðinni viku. Það var samt einkar ljúft að lesa um norðangarrann og snjóbyljina hér heima meðan maður dundaði við að kæla sig og sólbrenna ekki á eyjunni grænu.
Það var búið að rigna mikið á undan okkur svo allur gróður var safaríkur og fagurgrænn. Ótrúlegur munur á þessu og skrælnuðum og kyrkingslegum runnum, sem er öllu venjulegra þarna suðurfrá.
Meira að segja nýtýndar appelsínur báru rekjunni vitni, gersamlega að springa af safa. Við vorum samt svo heppin að sólin skein glatt meðan við dvöldum þarna. Hitastigið hærra en við höfum áður kynnst og lygnara.
Þetta var hreinræktuð sólarferð.

Þetta var virkilega gott og endurnærandi að sleikja notalegheitin svona í heila viku, og aðeins að leika sér með bragðlaukana. Þeir kunna ágætlega að steikja naut þarna. Fékk mér einu sinni fisk, túnfisksteik, hélt að það væri miklu betra, þarf ekki að prófa það aftur. Nema kannski ef ég steiki hana sjálfur.
Eins og ég sagði ykkur varð Erla 36+ þarna úti og allir sem hana þekkja vita að meira afmælisbarn er vart að finna, svo við gerðum ýmislegt til dægrastyttingar í tilefni dagsins. Keyrðum víða og skoðuðum margt, fórum í búðir (sem henni þótti skemmtilegast, held ég) Enduðum svo daginn með Hlyn og Gerði á Las Brasas með "T-bone¨ og "lund" að hætti hússins.

Okkur brá svolítið þegar við lentum í Keflavík og föttuðum að við höfðum gleymt Hlyn og Gerði suðurfrá. Þau eru sem sagt enn í sólinni. Ef þið lesið þetta Hlynur og Gerður þá þurfið þið að hringja í okkur því við verðum einhvernveginn að ná ykkur heim. Spáin næstu vikuna var þvílik (svona án gríns) að þau ákváðu að framlengja um eina viku, bara sól í kortunum.

Ég fór auðvitað í skólann í morgun og tók upp þráðinn þar sem frá var horfið. Komst að, mér til gremju, að yfirferðin meðan ég var í burtu var mikil og verð ég því að lesa tvöfalt, eitthvað frameftir.
En það er alltaf gott að koma heim í okkar ísaland, þótt hann blási stundum köldu. Ísland er best í heimi hvernig sem á það er litið.

Ég var að horfa á eftir yngstu dótturinni aka hér út innkeyrsluna... ein í bílnum. Hrund fékk sem sagt bílpróf í dag og þurfti aðeins að snattast fyrir föður sinn. Henni gekk mjög vel bæði í skriflega og verklega prófinu - TIL HAMINGJU Hrundin mín. Guð varðveiti þig og haldi alltaf í stýrið með þér í umferðinni .....!
Við vorum að borða saman stórfjölskyldan. Gott að finna samheldnina og væntumþykjuna hjá fólkinu sínu. Meira að segja minnstu krílin virðast njóta sín umvafin sínu fólki, gaman að sjá hvernig þau samsama sig stórfjölskyldunni og verða hluti af okkur - þetta er mitt fólk.
Það er gott að koma heim í svona ríkidæmi.

Góðir hálsar! Njótið daganna, komið að lestri hjá mér.....!

föstudagur, janúar 13, 2006

Hola....!

Ta erum vid a Kanari og hofum tad med afbrigdum gott. Vorum a strondinni i dag i 28 stiga hita. Vid erum buin ad borda godan mat og erum ad fara ad tygja okkur ut ad borda a eftir. Vid hittum Daniel og Marianne Glad i dag, tad var gaman ad hitta tau. Tau bidja um kvedjur til allra sem tau tekkja.
Erla nýtur sin vel eins og alltaf i solinni enda af spaenskum attum komin. Hun er vist ad verda 36 ara a morgun eins og allir vita. Eg atla ad gera eitthvad skemmtilegt fyrir hana i tilefni dagsins.
Vildi bara lata vita af okkur og hversu vid njotum verunnar her.
Hafid tad gott vinir minir og vandamenn.

ADIOS

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Í fyrramálið leggjum við í langferð.

Stefnan er beint í suður ca. 6000 kílómetra. Þar erum við að nálgast miðbaug og hitastigið ekki sama og hér norðurfrá.
Í dag var 23. gráðu hiti á Kanarí.
Gott að stíga út úr flugvélinni og finna ylvolgan hitann, eins og bróðir minn komst svo skemmtilega að orði.
Við ætlum að þessu sinni að ferðast með Hlyn og Gerði. Ég hef góðar væntingar til ferðarinnar en fyrst og fremst er hugsunin að hvíla sig, njóta sólar og góðs félagsskapar.

Þetta er ströndin á Maspalomas þar sem við verðum. Sandurinn þarna er bróðir sandsins hinum megin við sundið, nákvæmlega sami og á Sahara. Við látum vita af okkur á bloggheimum ef við höfum tækifæri til þess.
Annars, hafið það gott meðan við sleikjum sólina suðurfrá.
Canaria here we coooooome

sunnudagur, janúar 08, 2006

Það má segja að tíminn æðir.


Hún kom hér í heim svo agnarsmá
Í faðmi mömmu fann sig hjá
Með hikandi öðru auga sá
Pabba sinn ofan í sig kjá

Hún óx úr grasi lítið grjón
Lék á flautu fagran tón
Árin sín hún undi vel
Við umhyggju og systraþel
Illa kunni við að þegja
Það var svo margt sem þurfti segja


Nú fullorðinsárum stendur nær
sautján ára yngismær
Bílpróf upp á vasann fær
Okkur öllum er svo kær

Til hamingju með daginn Hrundin mín...!