laugardagur, febrúar 24, 2007

Enn einu sinni...

...komin helgi og vikan samt nýbyrjuð.
Ég veit ekki hvað hefur komið tímanum til að fara svona miklu hraðar en hann gerði hér áður fyrr, snýst jörðin hraðar eða hvað? Kannski er til einhver einföld skýring á þessu.
Besta skýringin sem ég hef heyrt er sú að eftir því sem aldurinn færist ofar þá sé hver dagur alltaf að verða hlutfallslega minni, sem er auðvitað rétt því einn dagur getur verið öll ævin á fyrstu metrunum. En þegar börnin manns tala um það sama, gengisfellur sú kenning nokkuð.
Líklega hefur þetta þó að gera með hugarástand. Ef hugurinn er upptekinn við viðfangsefni daganna þá gefst líklega minni tími til að gaumgæfa tímann.
Hallast að því helst.

Ég ætlaði að vera í vinnu í dag en ákvað svo að hjálpa konunni við undirbúning síðbúins þorrablóts sem verður hér á herragarðinum í kvöld. Eiginlega ætti að kalla þetta góugleði þar sem þorrinn hefur verið þreyður þetta árið og góan tekin við með hækkandi sól.

Það er bjartur dagur og sólin skín glatt og speglast í ánni, nágrannanum okkar síbreytilega. Það hljómar kannski orðið klisjukennt að minnast á hana en hún er endalaus gleðigjafi hér í húsinu við ána eins og lesendur síðunnar hafa orðið varir við.

Daginn lengir hratt. Við sjáum muninn svo vel því við erum á ferðinni alla morgna á sama tíma. Gaman það því.

Ég hef nú setið hér niðri í bráðum tvo tíma einn með sjálfum mér, án þess að leiðast. Ég kann svona vel við mig.
Erlan var að koma niður rétt í þessu. Hún hélt að hún væri ein í húsinu en komst að öðru sér til óblandinnar ánægju þegar hún sá mig. Ég held hún kunni næstum jafn vel við mig og ég sjálfur, og er þá mikið sagt.
En þar sem ég hef nú fengið þann félagsskap sem ég met jafnvel enn meira en minn eigin, ætla ég að láta staðar numið hér.
Eigið góðan dag.

laugardagur, febrúar 17, 2007

Annríki...

.....þessa dagana má segja. Lexor er að brölta á lappirnar. Nóg að gera eins og íslenskir karlmenn vilja hafa það. Og karlmennska er það, allavega samkvæmt ritúalinu.

Ég hef samt lært eina mikilvæga lexíu. Hún snýr að vinnu v.s. leik. Vinnan göfgar manninn eins og segir í máltækinu. Ég er sammála því en hallast orðið meira að því að hún megi ekki fara út í öfga, sem er leikur einn í því brjálaða þjóðfélagi sem við búum.
Það verða allir að hafa tíma til að leika sér. Leikur stendur hjartanu næst. Hann er það sem viðheldur eldinum sem hamaðist innra með okkur öllum þegar við vorum börn og nutum lífsins til ítrasta. Ég vil halda í þann hluta af mér.
Það er líka í lagi að láta sér dreyma um hluti sem eru bara til að leika sér að. Það er meira að segja á sínum stað að gera draumana að veruleika.
Kiddi vinur minn og mágur lét drauminn rætast nýverið og keypti sér stórt mótorhjól til að leika sér á. Ég verð að segja að mér líst afar vel á þetta þar sem hann hefur látið sig dreyma um þetta lengi. Til hamingju gamli.
Ég á mér sama draum og Kiddi. Líklega mun eldri draumur mín megin, enda er ég aðeins eldri en hann .....þó það auðvitað sjáist ekki.
En ég á það til að láta leik-draumana sitja á hakanum. Sérstaklega ef þeir kosta peninga.
Átæðan er fyrst og fremst sú að reynslan hefur kennt mér að fara varlega í fjármálum, kviksyndi geta leynst víða á þeim lendum og erfitt að lenda í slíku, þau hafa þann eiginleika að gleypa menn lifandi. Ég sé of marga í dag dansa tangó á barmi þessara kviksynda, það er sorglegt (ég er ekki að tala um Kidda hér)
Ég hef lært að setja mér markmið og framkvæma það sem þarf þangað til þeim er náð. Ég hef tamið mér sjálfsaga, sett hendur á stýri og ræð hvert ég stefni. Ég framkvæmi eftir þessari hugmyndafræði.
Framkvæmd er nauðsynleg, hún er nefnilega týndi hlekkurinn milli langana og árangurs. Framkvæmd skilur milli þeirra sem tala bara um hlutina og þeirra sem ná markmiðum sínum.
Það er dagljós staðreynd að án framkvæmda gerist..... ekkert.

Ég er farinn að hugsa alvarlega um að eignast mótorhjól einn góðan dag..... fyndið og alls ekki háleitt markmið, finnst mér sjálfum.
Sjáum hvað setur.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Afmæli í fjölskyldunni


Hún á afmæli í dag, litla skvísan hún Sara Ísold hennar Örnu. Þriggja ára daman og nýtur þess að eiga afmæli eins og flestir meðlimir þessarar fjölskyldu.
Til hamingju með daginn elsku litla afastelpan mín.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Iðrun...

...er stórt orð sem fólk lætur skipta sköpum þegar það fyrirgefur öðrum. Ég rak tána svo illa í að lá við að ég missti fótana þegar það hljómaði til mín á öldum ljósvakans að Guðmundur í Byrginu “iðraðist einskis”.
Það má eiginlega segja að ég hafi tekið upp steininn aftur. Það er okkur öllum sameiginlegt að gera mistök. Auðvitað mis alvarleg og afleiðingarnar þ.a.l. líka mis alvarlegar.
En þegar menn misnota aðstöðu sína svona gróflega og níðast á þeim sem minna mega sín eins og raunin virðist með Guðmund og hans preláta, þá krefst ég iðrunar til að sleppa steininum mínum aftur.
Enda má segja að iðrunin sé það eina sem getur skotið Guðmundi undir réttlætingu náðarinnar svona ef maður fer í andlegu deildina.

Kannski Byrgismenn flokki þetta undir tæknileg mistök eins og Árni Johnsen sem uppskar reiði almennings fyrir.

Allt að einu finnst mér grafalvarlegt mál ef hann iðrast einskis, horfandi á illar afleiðingar gjörða sinna. Verst fyrir hann sjálfan þar sem hann þarf virkilega á fyrirgefningu að halda, þjóðarinnar allrar og ekki síst þessara vesalings fórnarlamba sem urðu fyrir barðinu á honum.
Nema hann sé kannski svona yfirmáta óheppin í hausnum og siðblindur að hann skorti dómgreind til að sjá helkaldan raunveruleikann í þessu máli. Heimsku er stundum hægt að fyrirgefa, jafnvel yfirmáta heimsku, á þeirri forsendu að enginn gefur sér vitið sjálfur.
Kannski er það málið, allavega ljómaði manndómsviskan ekkert af honum, þannig að maður fengi ofbirtu í augun, meðan náðist í hann.

Að jákvæðari nótunum.... þá vorum við Erla á árshátíð Samhjálpar í gærkvöldi. Það var virkilega vel heppnuð hátíð með ýmsum uppákomum. Þjóðkirkjuprestur séra Karl Matthíasson var veislustjóri, fór á kostum. Valgeir Guðjónsson tróð upp, flott. Hluti “vinir Dóra” fluttu blús, snillingar þar á ferð. Guðni Már og félagi hans Freyr sungu og töluðu söngva, sérstakt og flott hjá þeim. Þollý blúsaði, svo var málverkauppboð o.fl.
Flott kvöld. Við skemmtum okkur vel.
Erlan var að koma niður fyrst núna. Ég er búinn að eyða morgninum hér niðri eins og vanalega, í kyrrð og rómantískri fegurð út um gluggann minn.
Ég virkilega nýt lífsins.

laugardagur, febrúar 10, 2007

Hver er sinnar gæfu smiður.

Sé þetta skýrar eftir því sem ævina lengir. Auglýsing þar sem segir “ekki gera ekki neitt” þar sem vísað er í fjármál í óefnum, á ekki bara við um fjármál.
Fólk sem er að dansa tangóinn sinn, en nær ekki að dansa í takt, þarf að stoppa við og læra sporin upp á nýtt svo dansinn verði eitthvað í ætt við það sem kallað er tangó.

Ég heyrði einu sinni konu kvarta sáran yfir manni sínum. Hún kallaði hann jeppa á stórum dekkjum, en hún væri smábíll. Samlíkingin hennar gekk út á að hann krafðist af henni að hún elti hann á smábílnum sínum um ófærur lífsins, í jeppaförunum hans. Munurinn var bara sá að hún sat föst eftir. Hann spændi upp drulluna, yfir smábílinn hennar.
Mér þótti samlíkingin góð. Þarna voru hjón sem ekki dönsuðu í takt, það sást langar leiðir að þau voru ekki hamingjusöm.

Þetta er sorglegt dæmi um ljótan tangó. Best er ef takturinn verður svo fullkominn að hægt er að stíga sporin sem einn maður. Þá er hægt að vanga.
Og lífið sjálft hlær með.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Mætti góðum vini í dag....

á leiðinni austur í Kot. Kastaði ekki á hann kveðju en hugsaði hlýlega til hans um leið og ég rauk framhjá. Hugsa alltaf hlýlega til hans þegar ég minnist hans, sérstaklega þegar ég mæti honum á förnum vegi. Hann þekkir mig ekkert enda hugsunarlaus með öllu. Mjór og renglulegur stendur hann samt alltaf sína vakt og sinnir starfi sínu hvern einasta dag af mikilli trúfesti.
Hann er kaldur eins og járn og harður eins og steinn...enda úr járni. Hann heitir því virðulega nafni “venjulegur ljósastaur” og stendur alltaf við eystri brúarendann á Ytri Rangá.
Þið getið séð hann þegar þið keyrið austur, fyrsti staur austan við brú.

Hann bjargaði lífi mínu einu sinni. Þessvegna hugsa ég alltaf svona hýlega til hans.

....Ég var á leið í bæinn eftir vinnudag fyrir austan. Það var janúar og mikið frost. Vegurinn var algjörlega þakinn niðurpressuðum snjó, svo ekki sást á dökkan blett.
Á undan mér ók Lada sport jeppi á sama hraða og ég, tæplega hundrað. Þegar við komum að Hellu var lítið hægt á enda engir bílar á götunum.
Gott bil var milli okkar svo þegar ég sá að hann ætlaði að beygja inn í kauptúnið til hægri tók ég stefnuna framhjá honum vinstra megin. Skyndilega beygir hann til vinstri, löturhægt, sömu átt og ég ætlaði framhjá....................!
Hálkan var meiri en ég hélt og þótt ég bremsaði hægði lítið ferðina. Ég sá að ég mundi lenda á honum á fullri ferð. Ég tiplaði á bremsunni og reyndi að beygja aftur til hægri til að sleppa við hann.
Ég rétt strauk á honum afturendann, slapp, en var kominn nánast þversum á hálum veginum þegar ég þaut framhjá honum. Mér tókst að snúa stýrinu það hratt að bíllinn réttist við en það gerðist svo hratt að hann fór hálfhring og rann nú á fullri ferð, hliðarskriði, með mína hlið á undan og stefnan, beint á ljósastaur (vin minn) og Rangá ísköld á bakvið hann.
Ég sá fram á stórslys þar sem öxlin á mér stefndi rakleitt á staurinn. Einu augnabliki áður en ég skall á staurnum snarsnerist bíllinn þannig að framendinn fór fremstur,

og KKKKRRAAASSSSSSSSS.....

Þvílíkt höggið!
Hávaði og svo dauðaþögn. Staurinn stóð sjötíu sentimetra inni í vélinni. Ryk í loftinu og ég sitjandi að kanna sjálfan mig hvort ég hefði meitt mig. Ég reyndi að opna hurðina en hún var blýföst. Hurðin farþegamegin opnaðist og ég kom mér út.
Fólk kom hlaupandi úr sjoppunni, hélt að þetta væri stórslys, jafnvel dauðaslys.
Ég var góða stund að sannfæra viðstadda um að ekkert amaði að mér.

Bíllinn var handónýtur, ég stráheill. Staurinn “vinur minn” stoppaði mig í að fljúga út í miðja Rangá, það var sextán stiga frost og ísrek í ánni. Hefði ekki þurft að spyrja um sögulok hefði það gerst.
Sama má segja ef staurinn hefði farið í hliðina á bílnum, eins og hefði átt að gerast, og farið jafnlangt inn í bílinn eins og hann fór inn í framendann þá hefði staurinn staðið uppúr miðju farþegasæti. Þá hefði ekki heldur þurft að skoða sögulok, ég væri ekki að segja þessa sögu núna.

En hver það var sem sneri bílnum rétt áður en ég lenti á staurnum er spurning sem enn er ósvarað, þó ég hafi skoðun á því sjálfur.
Hann var mér hollur sá sem hlífir, fyrir það er ég ævarandi þakklátur.