...komin helgi og vikan samt nýbyrjuð.
Ég veit ekki hvað hefur komið tímanum til að fara svona miklu hraðar en hann gerði hér áður fyrr, snýst jörðin hraðar eða hvað? Kannski er til einhver einföld skýring á þessu.
Besta skýringin sem ég hef heyrt er sú að eftir því sem aldurinn færist ofar þá sé hver dagur alltaf að verða hlutfallslega minni, sem er auðvitað rétt því einn dagur getur verið öll ævin á fyrstu metrunum. En þegar börnin manns tala um það sama, gengisfellur sú kenning nokkuð.
Líklega hefur þetta þó að gera með hugarástand. Ef hugurinn er upptekinn við viðfangsefni daganna þá gefst líklega minni tími til að gaumgæfa tímann.
Hallast að því helst.
Ég ætlaði að vera í vinnu í dag en ákvað svo að hjálpa konunni við undirbúning síðbúins þorrablóts sem verður hér á herragarðinum í kvöld. Eiginlega ætti að kalla þetta góugleði þar sem þorrinn hefur verið þreyður þetta árið og góan tekin við með hækkandi sól.
Það er bjartur dagur og sólin skín glatt og speglast í ánni, nágrannanum okkar síbreytilega. Það hljómar kannski orðið klisjukennt að minnast á hana en hún er endalaus gleðigjafi hér í húsinu við ána eins og lesendur síðunnar hafa orðið varir við.
Daginn lengir hratt. Við sjáum muninn svo vel því við erum á ferðinni alla morgna á sama tíma. Gaman það því.
Ég hef nú setið hér niðri í bráðum tvo tíma einn með sjálfum mér, án þess að leiðast. Ég kann svona vel við mig.
Erlan var að koma niður rétt í þessu. Hún hélt að hún væri ein í húsinu en komst að öðru sér til óblandinnar ánægju þegar hún sá mig. Ég held hún kunni næstum jafn vel við mig og ég sjálfur, og er þá mikið sagt.
En þar sem ég hef nú fengið þann félagsskap sem ég met jafnvel enn meira en minn eigin, ætla ég að láta staðar numið hér.
Eigið góðan dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli