sunnudagur, maí 29, 2005

Ísland í bítið....

Ísland er land þitt, því aldrei skalt gleyma.... Eftir annasaman dag í gær við flísalagnir og málningarvinnu, fékk ég símtal frá Hlyn bróður mínum. Hann var að fara í eggjaleiðangur og bauð mér með. Við höfum gert þetta árlega í mörg ár. Afraksturinn var góður og verður nú eggjaveisla næstu daga á mínum bæ. Þessi egg eru ekki eins og venjuleg hænuegg, heldur miklu bragðmeiri og betri. Er t.d. núna í þessum skrifuðu orðum að sjóða mér nokkur, þetta er sennilega gamli sveitamaðurinn í mér, eða hellisbúinn.
Ekki var þetta nú öll sagan gærdagsins, því í gærkvöld þegar eggjatúrinn var að klárast, hringdi Danni bróðir minn og dobblaði mig í silungsveiði í nótt. Auðvitað fór ég. Kom heim í morgun með öngulinn í rassinum en ánægður samt. Varð áhorfandi af lífinu eins og það gerist fegurst hér á jörð.
Iðandi líf vorsins við sólarupprás á svona morgni er ótrúleg sinfónía. Eldrauðir geislar morgunsólarinnar fylla austurhiminninn og spegla vatnsflötinn sem tvöfaldar þannig iðandi flóruna sem allsstaðar sér.
Að horfa á eftir andahóp fljúga inní morgunroðann yfir spegilsléttum fletinum er ekki neinu líkt. Þetta er eins og að horfa á eitthvað Guðlegt, það er eins og þær fljúgi inn um dyr Paradísar, yfirnáttúruleg umgjörð sem maður hefur ekki orðaforða til að lýsa. Á svona augnablikum mætti tíminn doka ögn við og gefa manni færi á að njóta lengur. Hér er ekki pólitík, hér er ekki verið að takast á um þýðingar, merkingar eða túlkanir á Guði, það þarf ekki. Hér er það sköpunin sjálf sem auðmjúk lofar skaparann, án alls, en samt með allt. Án bókvits, en veit samt miklu meira en við.

Svona stundir eru heilagar í mínum huga. Sköpunin að flytja óð skapara sínum, tón- og myndverk sem manninum mun aldrei takast að herma.
Á svona hegistund er ekki pláss fyrir annað en auðmýkt. Maður stendur bara opinmynntur, hlustar þegjandi, tekur ofan hattinn sinn og leyfir sér að bráðna saman við náttúruna og verða hluti af þessu öllu saman.

Það var gott að koma heim. Þar er best. Það var eins og Erlan mín skynjaði að ég væri kominn, því um leið og ég lagðist út af, skreið hún sofandi í fangið á mér, án þess að vakna.....
Hún er yndigull.

föstudagur, maí 27, 2005

X-D

Ég hef haldið því fram að hækkandi fasteignaverð sé ekki bara á kostnað hækkaðra lána á íbúðamarkaði heldur á R-listinn þar einnig nokkra sök.
Þeir lögðu grunninn að þessu strax og þeir komust til valda í borginni fyrir alltof mörgum árum síðan. Þá var ákveðið að það væri of dýrt fyrir borgina að gera ný hverfi því það þyrfti nýja skóla og alla þjónustu sem væri allt of dýrt (tilvitnun í Ingibjörgu Sólrúnu í sjónvarpinu).
Framsýnir sveitarstjórnarmenn í nágrannabyggðalögunum stukku þá af stað t.d. í Kópavogi og mokuðu út lóðum í svangan byggingamarkaðinn.
Ávöxturinn af þeirri framsýni er mjög áþreifanlegur í dag. Gríðarlega öflugt sveitarfélag með alla þjónustu sem krafist er í dag, og miklu fleiri sem borga útsvarið. Ávöxturinn af þröngsýni R-listans er jafn áþreifanlegur. Algjört lóðarhallæri sem kemur niður á fasteignaverði og skapar fólksflótta úr borginni til annarra sveitarfélaga.
Þó vitanlega megi benda á góða hluti framkvæmda í tíð R-listans, þá er þetta svo stór skuggablettur að hann skyggir á nánast allt annað.
Það sætir furðu að svona þröngsýni skuli fá brautargengi í nútíma. Enn furðulegra er að Ingibjörg (höfundur lóðarhallærisins) skuli fá þennan byr í seglin sem raun bar vitni í síðustu formannskosningum Samfylkingarinnar. Það er greinilega nóg að vera sterkur leiðtogi. Verkin þurfa ekki að tala. Ótrúlegt hvað margir láta teyma sig á asnaeyrunum og lötra eins og sauðir á eftir þeim sem hefur hæst.
Ég las í Mogganum í morgun að Sjálfstæðismenn eru með áætlanir á prjónunum um að byggja eyjarnar hér í kringum borgina. Loksins! Þetta er nákvæmlega það sem ég hef haldið fram í mörg ár. Afhverju á allt þetta byggingaland að vera varpstöðvar máva og æðarfugla þegar gott byggingarland er af skornum skammti. Fyrir utan hvað þetta breytti borginni mikið og gerði hana fallegri.
Svo nú veistu hvar x-ið þitt þarf að lenda í næstu kosningum ef þú vilt geta byggt þér hús í Reykjavík í náinni framtíð, án þess að borga 17 milljónir fyrir lóðina.

X-D = Frelsi fyrir Reykjavík.

föstudagur, maí 20, 2005

Hvað ef...?

Kíkti á vefsíðu Krossins. Eins og alþjóð veit fer þar fram kraftmikið starf. Öfgafullt á stundum en stefnufast og kraftmikið engu að síður. Ég er búinn að lesa kaflana sem komnir eru í bók Gunnars. Þar skiptast á sorgir og sigrar. Það er frekar sorgleg lesning hvernig hvítasunnumenn komu fram við hann á fyrstu skrefum hans í þjónustu, fann til með honum. Kirkjupólitík er greinilega ekki ný af nálinni, hún hefur grasserað á þessum tíma eins og í dag.
Mér varð hugsað: Hvað ef menn hefðu tekið höndum saman á þessum tíma? Gengið sömu götuna og látið eiginhagsmuni flakka á kostnað Guðshagsmuna? Krossinn telur nokkur hundruð manns í dag, ekkert svo miklu minna en Fíladelfía.
Hvað ef menn hefðu þarna ákveðið að stofna marga “Krossa”? Ef pólitík hefði hvergi komist að og stefnan sett á útrás, hönd í hönd?
Það er gaman að láta hugann reika og reyna að sjá fyrir sér afleiðingar þess.
Nokkuð er ljóst að meiri líkur en minni eru til þess að það hefði gefið af sér meiri ávöxt og árangur en sjáanlegur er í dag, það er sorgleg niðurstaða.

Gunnar á skilið hrós fyrir eljuna og dugnaðinn sem ber ávöxt í dag eins og Krossinn ber vitni um. Að ganga gegn slíkum mótbyr sem hann gerði er ekki heiglum hent, og standa uppi sem sigurvegari eftir slíka göngu er nafnbót sem ég gjarnan vildi eiga gagnvart Guði þegar sá dagur rennur upp að við gerum reikningsskil gjörða okkar.
Vona jafnframt að ég sé ekki í sporum þeirra sem spyrnt hafa gegn því með ráði og dáð sem Guð hefur talað.
Kannski sannast hér hið fornkveðna: “Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér”
Sorglegust er samt sú staðreynd, að þrátt fyrir þennan skóla eru menn enn við sama heygarðshornið, múlbinda uxann á kostnað akursins.

Spurning hvaða skilgreiningu á að leggja í þetta allt saman. Synd er skv. ræðu forstöðumanns Fíladelfíu s.l. hvítasunnudag, að missa marks, líkt og að hitta ekki skífuna í pílukasti.
Það er varla djúpt í árinni tekið að ætla að þessi partur sögunnar sé allavega stöngin út.... varla mark.
Nema hugsanlega sjálfsmark, spurning undir hvað það flokkast.

Við Erla erum að fara norður.
Njótið helgarinnar

mánudagur, maí 16, 2005

Þeir ríku.......

“þakka þér fyrir að ég er ekki eins og þessi tollheimtumaður”. Sagði Faríseinn.

Ég verð að lýsa undrun minni yfir skrifum Snorra Óskarssonar á Gospel vef Hvítasunnukirkjunnar: http://www.gospel.is/fullpistlar.php?thistown=12&idnews=34 þar sem hann er að skrifa um hina nýju biblíuþýðingu Hins íslenska biblíufélags. Ég er ekki að leggja dóm á hana með þessum pistli því ég get ekki verið meira sammála um að ekki má breyta þýðingunum eftir geðþótta.
Ég hef alltaf talið Snorra vel þenkjandi mann, þó ég sé sjaldnar sammála honum en áður.
Ég rak í rogastans við lestur þessarar greinar hans. Hann fer mörgum orðum um kynvillinga, en þar á hann sér fáa líka (ásamt Gunnari).
Orðrétt tekið úr greininni:
Enginn efi er í mínum huga við hvað postulinn á þegar ég ber saman grískuna og íslenska þýðingu fyrri alda um efnið. Það er því mjög illt þegar nútímaþýðing verður klæðskerasaumuð fyrir einn hópinn sem fram að þessu hefur verið flokkaður kynvilltur.

Að breyta Biblíunni á þennan hátt gæti eins kallað á breytingu fyrir þá nýríku eða peningagráðugu. Það er einnig meiðandi boðskapur fyrir þá í þessu umrædda versi.

En er það ekki deginum ljósara að það er auðveldara fyrir úlfalda að ganga í gegnum nálarauga en ríkan mann inn í himnaríki? Af hverju hvetjum við fólk til ríkidæmis þegar þeir ríku enda í helvíti?
(feitletrun mín) Má vera að þetta teljist of særandi fyrir ríka Íslendinga. Eigum við þá bara ekki að breyta boðskapnum eða Biblíunni og mýkja þýðingarnar fyrir komandi kynslóðir?”

Það var við feitletruðu setninguna sem ég hrökk við og hugsaði: Hvernig er hægt að túlka þennan ritningastað svona bókstaflega? Skyldi þetta nokkuð snúa að þeim sem dýrka auðinn sinn (mammón) framyfir Guð.
Ef þetta hins vegar er túlkað svona, þá vaknar í beinu framhaldi spurningin: Hvenær ferðu þá yfir línuna og verður það ríkur að þú dettir yfir landamærin milli Himnaríkis og helvítis. Er það við eina milljón sléttar eða eina og hálfa milljón eða ofar. Hverslags pæling er þetta?
Hvað með orð Jesú, t.d. í Jóh. 3:16 þegar hann segir: “til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf” Eru þeir ríku (vantar skilgreiningu, hversu ríkir) þá ekki undir þessari náð eins og allir hinir. Hvað með ómálga barn sem fæðist inn í ríka fjölskyldu, er það þá utan náðar? Hvar skilur milli feigs og ófeigs?
Má þá kannski líka fullyrða að bæði Job sem var vellauðugur maður eða Salómon konungur sem var einhver ríkasti maður sem þessi jörð hefur alið, gisti nú helvíti?

Er ekki syndin eina vegabréfið til helvítis? Ef það er synd að eiga peninga ættu menn kannski að snúa sér að þeim ríku í stað samkynhneigðra þar sem það er miklu fjölmennari hópur í samfélaginu.
Þetta er að mínu mati miðaldaboðskapur sem ekki ætti að sjást hjá upplýstum nútíma manni.

"Guð vertu mér syndugum líknsamur", sagði tollheimtumaðurinn.

sunnudagur, maí 15, 2005

Jeppi

til sölu! Íris og Karlott eru að selja eðalpajeroinn sinn. Átti hann sjálfur og get vottað að hann er í sérflokki. Ef þú hefur áhuga á góðum bíl, og minni áhuga á að skulda mikið í bílalán, þá tekur þessi ekki stóran toll af buddunni þinni, get óhikað mælt með honum.

Hafið samband.

föstudagur, maí 13, 2005

Frjálslyndur þingmaður....

Verð að taka undir skoðun Frjálslyndra sem halda því fram að Gunnar Örlygsson sýni lítinn drengskap með flutningi sínum til Sjálfstæðisflokksins.
Hitt sem ég á erfiðara með að kyngja er að þetta skuli vera hægt tæknilega. Ég hef alltaf haldið að fylgi flokkanna sem þeir fá í kosningum ráði fjölda þingsæta flokksins á þingi. Hvernig stendur á því að hægt er með ákvörðun eins þingmanns sem fer í fýlu að breyta valdahlutföllum á þinginu. Ég hefði haldið að Frjálslyndir ættu alltaf sín þingsæti og í stað Gunnars kæmi fyrsti varaþingmaður þeirra inn, fyrst hann ákvað að fara, og að einhver þingmanna Sjálfstæðismanna yrði að víkja af þingi ef þeir vildu að Gunnar kæmi inn.
Ef þetta er leyfilegt þá finnst mér algerlega gengið framhjá kjósendum sem lagt hafa til atkvæði sitt til stuðnings flokki sínum, hrein og klár svik.
Hér þarf Alþingi sjáft að taka til í eigin ranni. Einhver lagabókstafur er þarna á bak við sem þarfnast endurskoðunar þingsins.
Svona ólögum er ekki hægt að vinna eftir.
Allra síst lagasetningarvaldið sjálft.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Komst á öxlina í dag...

Sé orðið glitta í toppinn, markmiðið færist nær. Annað skólaárið endaði í dag með munnlegum málflutningi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Aðdragandinn með prófunum er orðinn nokkuð langur tími og strangur, vinnan hefur verið í tarnadeildinni. Okkur gekk vel, eigum þó eftir að hlýða á dómsuppsögu á föstudaginn.
Þetta er svolítið skrítið, allt í einu er áfanganum náð. Einkunnir gefa tilefni til að fagna, þarf allavega ekki að lesa meira fyrr en næsta haust. Þetta er eins og að lenda allt í einu hlémegin eftir að hafa klifrað í vindinum um lengri tíma. Maður sest niður hallar aftur höfðinu, og hlustar á lognið, og kemst að því að það er gott, áfangasigur í höfn. Þreyttur en ánægður.
Það eru forréttindi að fá að mennta sig.

Svo þarf nú að bretta upp ermarnar og gera allt sem setið hefur á hakanum undanfarnar vikurnar – ekki samt í dag.

Gerum eitthvað skemmtilegt.

sunnudagur, maí 08, 2005

Hún bara dó.....

Þessi síða mín! Source kóðinn hvarf, og engin leið að finna hann aftur. Þá er nú gott að eiga tölvusnilling. Íris mín er að laga hana svo vonandi verður hún aftur eins og hún var. Kunni svo ágætlega við hana þannig.
Ég skrapp með Hlyn bróður mínum í veiði í dag. Vinnufélagar hans höfðu verið að segja veiðisögur úr Skorradalsvatni. Við fundum út að þessar sögur þeirra hafi verið "veiðisögur". Já innan gæsalappa. Ástæðan er sú, að fyrst við komum heim fisklausir, við sjálfir!!!!! geta þessar sögur þeirra ekki verið sannar. Sumt bara passar ekki. Almenn skynsemi segir eftir áralanga hefð að þar sem fiskur er þar veiðum við. Sem sagt, regla númer eitt, ef við fáum ekki fisk, þá fá aðrir ekki fisk.
Erum að skoða hvort við stefnum þeim ekki bara.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Þetta gæti verið ég .....

ef hann slyppi ekki alltaf. Hvernig líst ykkur annars á þennan flotta fluguveiðimann hér efst á síðunni?
Ég verð að segja að ég varð svo hrifinn af honum að ég varð að setja hann hér á síðuna, allavega um stundarsakir, kannski til frambúðar. Fer eftir því hvort hann nær fisknum eða ekki.
Vill ekki hafa veiðiskussa nálægt mér til lengdar.

Heyrði að menn væru farnir að fá'ann í Þingvallavatni. Svo er Þórisvatn handan hornsins.
Svo langar mig að skreppa í Skorradalsvatn.
Já ljúft er að láta sig dreyma.

Enn skylmast þeir

Guðsmennirnir. Á umræðusíðum Moggans eru þeir enn að senda hvor öðrum skeytin Gunnar Þorsteinsson og Bjarni Karlsson. Örvarnar fljúga á víxl. Þeir ásaka hvor annan um fals og rangindi.
Hvor þeirra hefur rétt fyrir sér, það skilur þá haf og himinn. Annar fylgir bókstafnum hinn gefur hugmyndafluginu færi, og túlkar ritninguna, en reynir að hanga í meginboðskapnum. Fólk sem fyrir utan stendur horfir á aðfarirnar í forundran . Eru þetta prestarnir okkar!
Alveg er ég sannfærður um að fátt sé Guði ógeðfelldara en svona skylmingar.
Allavega er nokkuð ljóst að meðan menn eru uppteknir af svona pólitík eru þeir ekki uppteknir við það sem meira skiptir fyrir stöðu þeirra beggja, að vera hendbendi Krists inn í líf fólks með framkomu sinni og orðum. Líkt og Kristur var sjálfur.
Ætli sé líklegt að svona nokkuð fái fólk til fylgis við kristna trú? Er þetta þessi hreini og falslausi náðarboðskapur um kærleik og fyrirgefningu sem Kristur kom með. Svari hver fyrir sig.
Kannski er það einmitt þetta sem gerir að kristni er á miklu undanhaldi. Ætli þessir menn og aðrir í þeirra stöðu, spyrji sig aldrei hverju það sætir. Kristin trú með náðina í fararbroddi er nefnilega gull í gegn í kjarna sínum og eðli. Það má hinsvegar misnota flest.
Ég held ég hrópi húrra fyrir hvorugum, lýsi þess í stað óánægju minni með þessa misnotkun á fagnaðarerindinu. Þeir eru ekki að kristna neinn með þessu. Ég held reyndar að skotin þeirra veiki undirstöður kristninnar í landinu. Á meðan svo er, er bara einn sem skemmtir sér og hlær.
Púkinn á fjósbitanum.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Fimm mínútur í tólf.....

Nýkomin orðsending á netinu að ákveðin skjöl yrðu að fylgja málinu.. og við vorum ekki með þau! ---PANIK---
Ég sá fólk við það að bræða úr sér. Henst var í að gera þessi skjöl sem voru svo tilbúin fimm mínútur í skil. Í HR þýðir að ef þú átt að skila klukkan 12 þá þýðir það ekki eina mínútu yfir, heldur kl 12.00. Það er skilað rafrænt og kerfið lokar klukkan 12.00.
Ekkert hægt að svindla á tíma.
Mest svitnandi við þetta var að þegar klukkan var rétt að verða 12 og aðeins átti eftir að ýta á “send” takkann slökkti ekki hörmungans tölvan á sér, rafmagnslaus...! Ég horfði á hann lyfta hendinni til að ýta á takkann, og sekúndubroti síðar heyrði ég hann hrópa “rafmagnslaus, ég er ekki að djóka”
Í miklu fumi tókst honum að stinga vélinni í samband við rafmagn og ræsa aftur.... Hún virtist vera ótrúlega lengi að ræsa sig í þetta skiptið. Gekk þó að lokum og eigandinn lamdi á “send” takkann... augnabliki síðar sló hún tólf.

Þetta var svona létt stressandi, en stefnan komst inn,
gaman að svona - eftir á.

sunnudagur, maí 01, 2005

Sunnudagseftirmiðdagsþanki.

Skiptir það öllu máli?
Að vera ríkur og eiga mikið af peningum? Það virðist vera að flestir, allavega Íslendingar keppi mjög markvisst að því. Það er kannski ekki skrítið þegar litið er til hversu mikið er lagt uppúr því í allri umræðu, fréttaflutningi, auglýsingum og nánast í allri okkar íslensku veru. Peningamenn eru virtir mikils, peningamenn hafa aðgang þar sem öðrum er hann meinaður. Þeir geta gert nánast það sem þeim lystir.

Við sátum hér í stofunni, ég, Erla og hluti af dætrum okkar og ræddum þetta.
Hvað með önnur gildismöt? Hvað með þá ótal mörgu hæfileika aðra sem fólk ber í kringum okkur?
Hæfileiki til að safna miklu fé, einn og sér, er í raun vindgangur, vegna þess að þegar öllum þörfum einstaklingsins er fullnægt er í raun ekkert sem peningarnir gera meira fyrir viðkomandi. Alveg sama hversu háu fjalli honum tekst að safna.
Þessu má auðveldlega líkja við matarkistu. Ef þú safnar meira í hana en þú torgar, er restin ekkert að gera fyrir þig.

Eftirsóknin eftir peningum er samt sá drifkraftur sem rekur flesta út í vandræði með budduna sína.
Ótrúlega margir vilja sýnast efnameiri en þeir eru. Það er innantómt í góðu falli. Frúr sem labba sér út úr merkjabúðum óskandi sér að einhver sem þær þekkja, sjái sig, eru hjákátlegar þegar buddan sem er að sligast undan neyslunni hefði miklu betra af því að eigandinn legði leið sína í lágvöruverðs verslun og léti sér nægja eins flík, í aðeins ódýrara merki.

Eða karlinn sem finnst hann “stöðu sinnar vegna” verða að aka bíl sem kostar ekki undir einhverju ímynduðu marki, sem mótast oftar en ekki af því hvernig bíl nágranninn ekur. Þannig nauðgar hann svo buddunni sinni að jafnvel hagur heimilisins er að sligast undan greiðslubyrði sem annars þyrfti ekki að vera.

Fólk sem er fast í þessari hringiðu þarf nauðsynlega að brjóta af sér hlekkina, því vissulega er það bundið. Í ímyndarheimi neyslu og snobbs.

Þetta verður eins og tómur pakki, pappír utan um ekkert innihald, lítið meira.
Blákaldur veruleikinn stendur nefnilega alltaf upp úr á bak við hégómann. Hann getur ekki logið. Skuldadagar koma. Veruleikinn býr líka yfir þeirri staðreynd að ekkert af veraldarauðnum fer með okkur lengra en á grafarbakkann. Ekki flottu merkin, ekki dýri bíllinn, ekkert. Aðeins nakin smásál verður eftir sem mokað er yfir, og gleymist.

Ég var ánægður með tengdapabba í vikunni sem leið, hann var að endurnýja leigubílinn sinn. Í stað þess að kaupa nýjan bíl fyrir tæpar þrjár milljónir með tilheyrandi kostnaði, afföllum og vaxtabyrði keypti hann sér notaðan bíl, sömu gerðar og hann átti – en miklu minna ekinn. Með þessu móti fær hann bíl sem gerir allt nákvæmlega sama á götum borgarinnar og þriggja milljóna bíllinn hefði gert. Nema hvað að þessi bíll gerir honum kleyft að fara c.a. tvær sólarlandaferðir á ári - BARA FYRIR VAXTAMUNINN. Þá eru ekki nefnd afföll upp á hundruð þúsunda eða hvað hægt er að gera annað fyrir mismuninn á kaupverðinu sjálfu.
Skynsamlegt vægast sagt. Til hamingju með þetta Biggi.

Það, og vitna ég í fleyg orð "gerir lífið nefnilega svo miklu léttara að sætta sig við það strax, að á endanum eigum við ekkert nema það sem við erum", alveg eins og þegar við komum.

Njótið vikunnar framundan.