föstudagur, maí 20, 2005

Hvað ef...?

Kíkti á vefsíðu Krossins. Eins og alþjóð veit fer þar fram kraftmikið starf. Öfgafullt á stundum en stefnufast og kraftmikið engu að síður. Ég er búinn að lesa kaflana sem komnir eru í bók Gunnars. Þar skiptast á sorgir og sigrar. Það er frekar sorgleg lesning hvernig hvítasunnumenn komu fram við hann á fyrstu skrefum hans í þjónustu, fann til með honum. Kirkjupólitík er greinilega ekki ný af nálinni, hún hefur grasserað á þessum tíma eins og í dag.
Mér varð hugsað: Hvað ef menn hefðu tekið höndum saman á þessum tíma? Gengið sömu götuna og látið eiginhagsmuni flakka á kostnað Guðshagsmuna? Krossinn telur nokkur hundruð manns í dag, ekkert svo miklu minna en Fíladelfía.
Hvað ef menn hefðu þarna ákveðið að stofna marga “Krossa”? Ef pólitík hefði hvergi komist að og stefnan sett á útrás, hönd í hönd?
Það er gaman að láta hugann reika og reyna að sjá fyrir sér afleiðingar þess.
Nokkuð er ljóst að meiri líkur en minni eru til þess að það hefði gefið af sér meiri ávöxt og árangur en sjáanlegur er í dag, það er sorgleg niðurstaða.

Gunnar á skilið hrós fyrir eljuna og dugnaðinn sem ber ávöxt í dag eins og Krossinn ber vitni um. Að ganga gegn slíkum mótbyr sem hann gerði er ekki heiglum hent, og standa uppi sem sigurvegari eftir slíka göngu er nafnbót sem ég gjarnan vildi eiga gagnvart Guði þegar sá dagur rennur upp að við gerum reikningsskil gjörða okkar.
Vona jafnframt að ég sé ekki í sporum þeirra sem spyrnt hafa gegn því með ráði og dáð sem Guð hefur talað.
Kannski sannast hér hið fornkveðna: “Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér”
Sorglegust er samt sú staðreynd, að þrátt fyrir þennan skóla eru menn enn við sama heygarðshornið, múlbinda uxann á kostnað akursins.

Spurning hvaða skilgreiningu á að leggja í þetta allt saman. Synd er skv. ræðu forstöðumanns Fíladelfíu s.l. hvítasunnudag, að missa marks, líkt og að hitta ekki skífuna í pílukasti.
Það er varla djúpt í árinni tekið að ætla að þessi partur sögunnar sé allavega stöngin út.... varla mark.
Nema hugsanlega sjálfsmark, spurning undir hvað það flokkast.

Við Erla erum að fara norður.
Njótið helgarinnar

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já hvað ef....

Og þar sem þögnin er rofin - það er að segja að ég er hættur "tjá mig ekki" um málefni kirkjunnar sem ég tilheyrði í svo mörg ár - langar mig að koma með eina hvað ef spurningu í viðbót.

Hvað ef Óli Ágústsson - sem með mikilli elju og dugnaði - byggði Samhjálp upp í það sem við þekkjum í dag hefði verið elskaður og virtur með kostum og göllum af foringjum kirkjunnar. Hverju hefði það getað skilað inní bæði Samhjálp og kirkjuna. Það fór svolítið öðruvísi en æskilegt var og sennilega aldrei hægt að mæla tjónið sem af því hefur hlotist.

Já hvað ef....

Íris sagði...

Jæja, ég er alltaf að kíkja og aldrei komið nýtt blogg :( Á ekkert að bæta úr því?? ;)

Nafnlaus sagði...

Og ég beið og beið og beið og beið ...innsog.... og beið og beið og beið... sakna þess líka að fá ekkert að lesa hérna :)
kv. habbidu

Íris sagði...

Ég held að þetta hafi verið í ca 10 skiptið sem ég kíki hér í dag ;) Held ég eigi svoldið margar heimsóknir á teljaranum ;)