fimmtudagur, júlí 29, 2010

Verslunarmannahelgi

Hann heitir víst frídagur verslunarmanna þótt rangnefni sé því sennilega er engin starfsstétt vinnusamari um þessa helgi en einmitt verslunarmenn. Það kemur auðvitað til vegna þess hversu landinn er duglegur að skemmta sér þessa helgi og krefst mikillar þjónustu í kringum það.

Of oft hefur þessi helgi verið sá tímapunktur hjá mörgum sem allt breyttist. Of margir hafa séð á eftir ástvinum sem hafa látið lífið á þjóðvegunum, þeir vildu að þessi helgi hafði aldrei runnið upp. Of margir koma heim með tilveruna í molum eftir afleiðingar nauðgana og ofbeldis, þeir vildu líka að þessi helgi hefði aldrei orðið.

Í lífinu gilda hin fornu sannindi "hver er sinnar gæfu smiður". Að hafa vaðið fyrir neðan sig er að gera ráðstafanir fyrirfram. Að láta ekki kringumstæðurnar stýra ferðinni heldur stýra kringumstæðunum sjálfur.

Ég vona að þessi helgi verði góð og laus við vondar fréttir á mánudaginn. Farið varlega með ykkur gott fólk og gangið hægt um gleðinnar dyr.

mánudagur, júlí 26, 2010

Nýtt útlit

Gamla útlitið var orðið þreytt. Hvernig lýst ykkur á þetta?
Ég á kannski eftir að fríska aðeins upp á þetta meira en orðið er. Ég verð að segja eins og er að ég sakna bloggaranna. Það er eins og fésið hafi yfirtekið hug flestra. Þar er samt svo sjaldan eitthvað sagt af viti.
Svona er maður gamaldags....

laugardagur, júlí 24, 2010

Ég auglýsi....

....hér með eftir veiðigenunum mínum. Ég veit ekki hvað varð af þeim en þau eru greinilega ekki þar sem þau eiga að vera. Ef einhver hefur séð þau í reiðuleysi þá vinsamlega látið mig vita. Eins ef þið hafið tekið eftir einhverjum sem allt í einu er farinn að veiða óeðlilega mikið þá gæti sá sami hafa tekið þau ófrjálsri hendi, enda afar eftirsóknarverð - endilega láta vita......!
Takk.

sunnudagur, júlí 18, 2010

Tilveran...

...er góð þessa dagana. það er að vísu mikið að gera en ég er því bara þakklátur. Vinnan göfgar manninn segir einhversstaðar. Það er samt lífið sjálft með öllum sínum fjölbreytileika sem gleður mig þessa dagana. Í gær fórum við í útskriftarveislu Klöru frænku minnar sem verður yngsti háskólastúdent íslandssögunnar - það er afrek sem ekki verður gert nema með miklum dugnaði, flott hjá henni. Ég er líka búinn að skreppa í laxveiði. Við fórum fjórir, Danni bróðir, Bjarki hennar Hildar og Stefán sonur Danna og ég. Það gekk þokkalega við fengum tíu laxa samtals. Ég fékk tvo og missti þrjá, þar af einn tveggja ára lax. Hann sleit girnið þegar við toguðumst á fyrir ofan laxastiga sem hann vildi fara ofan í, ég var hinsvegar á annarri skoðun og reyndi að koma í veg fyrir það með þessum afleiðingum.
Veiðin er alltaf skemmtileg. Ég á svo dag hér í Ölfusá í næstu viku sem ég hlakka til.

Íslandus ísbar er á fljúgandi siglingu. Þar er mikið að gera og oftar en ekki er fullt út úr dyrum. Allar áætlanir sem við gerðum eru að standast og sumsstaðar gott betur.

Á morgun verður fjallaferðin sem við höfum stefnt að í langan tíma. Við förum ásamt fríðum hópi vina og vandamanna. Það er góð veðurspá fyrir morgundaginn og Nyrðri fjallabaksleið ætti að skarta sínu fegursta. Landmannalaugar eru einstök náttúruperla sem verður enn fallegri í veðurblíðu. það verður grillað í Landmannalaugum og svo er ætlunin að stoppa oft, teygja úr skönkum og skoða fallega staði.

Hver á sér fegra föðurland.....? Njótum íslenska sumarsins og landsins sem er engu líkt.

laugardagur, júlí 10, 2010

Veiðin...

...byrjaði seint þetta árið og alls ekki nógu vel heldur. Við Danni fórum í hálendisferð og reyndum að veiða í Kvíslarveitum og fleiri vötnum á hálendinu en afraksturinn var ekki til að hrópa húrra yfir. Þetta var samt skemmtun eins og svona flækingur er alltaf. Núna veit ég t.d. hvernig umhverfið lítur út þarna norðurfrá sem ég vissi ekki áður. Íslensk fjallafegurð er engri lík og jafnast fátt á við íslenskar sumarnætur á hálendinu. Það var reyndar fullhvasst á okkur og má segja að það sem hélt litla kúlutjaldinu frá því að fjúka vorum við sjálfir sofandi í látunum þar sem allar festingar voru búnar að slíta sig lausar.
Afraksturinn voru fimm fiskar..... Jú það er nóg á grillið. Hugmyndin er samt að fara fljótt aftur á veiðar.... þarf að bæta á matarforðann.

Íslandus ísbar hefur farið afar vel af stað. Við nálgumst mánaðarafmælið sem verður á mánudaginn. Það eru spennandi tímar framundan, lífið er skemmtilegt og um að gera að njóta þess, sumarið er stutt og því afar hentugt að nota það vel. Fjallaferð er í pípunum og allskonar aðrir skemmtilegir hlutir.
Njótið daganna gott fólk.

laugardagur, júlí 03, 2010

Jákvæðni er dyggð

Marga hittir maður á lífsgöngunni sem á einhvern veg hitta mann svo þægilega að maður man eftir þeim. Jafnmarga... eða fleiri rekst maður á sem skilja líka eftir sig spor en ekki eins þægileg og jákvæð. Ég hef rekist á hvorttveggja.
Mér finnst miklu betra að umgangast fólk sem er jákvætt og bjartsýnt að eðlisfari en bölsýnisfólk. Það veitir mér innblástur að umgangast fólk sem glitrar af hugmyndaauðgi og framkvæmdakrafti. Á sama hátt dregur það úr mér vígtennurnar að umgangast fólk sem finnur foráttu í öllum hlutum.
Þess vegna er ég svona sérlega ánægður með alla þá sem fyrrtöldu kostina prýða. Þeir eru sem betur fer ófáir.