sunnudagur, júlí 18, 2010

Tilveran...

...er góð þessa dagana. það er að vísu mikið að gera en ég er því bara þakklátur. Vinnan göfgar manninn segir einhversstaðar. Það er samt lífið sjálft með öllum sínum fjölbreytileika sem gleður mig þessa dagana. Í gær fórum við í útskriftarveislu Klöru frænku minnar sem verður yngsti háskólastúdent íslandssögunnar - það er afrek sem ekki verður gert nema með miklum dugnaði, flott hjá henni. Ég er líka búinn að skreppa í laxveiði. Við fórum fjórir, Danni bróðir, Bjarki hennar Hildar og Stefán sonur Danna og ég. Það gekk þokkalega við fengum tíu laxa samtals. Ég fékk tvo og missti þrjá, þar af einn tveggja ára lax. Hann sleit girnið þegar við toguðumst á fyrir ofan laxastiga sem hann vildi fara ofan í, ég var hinsvegar á annarri skoðun og reyndi að koma í veg fyrir það með þessum afleiðingum.
Veiðin er alltaf skemmtileg. Ég á svo dag hér í Ölfusá í næstu viku sem ég hlakka til.

Íslandus ísbar er á fljúgandi siglingu. Þar er mikið að gera og oftar en ekki er fullt út úr dyrum. Allar áætlanir sem við gerðum eru að standast og sumsstaðar gott betur.

Á morgun verður fjallaferðin sem við höfum stefnt að í langan tíma. Við förum ásamt fríðum hópi vina og vandamanna. Það er góð veðurspá fyrir morgundaginn og Nyrðri fjallabaksleið ætti að skarta sínu fegursta. Landmannalaugar eru einstök náttúruperla sem verður enn fallegri í veðurblíðu. það verður grillað í Landmannalaugum og svo er ætlunin að stoppa oft, teygja úr skönkum og skoða fallega staði.

Hver á sér fegra föðurland.....? Njótum íslenska sumarsins og landsins sem er engu líkt.

Engin ummæli: