föstudagur, október 30, 2009

Afmæli o.fl.

Já nú er ég orðinn 50 ára. það er aldrei, hefði mamma sagt. Ég er himinlifandi með það, eiginlega í orðsins fyllstu. Það voru nú engar flugeldasýningar á afmælisdaginn. Það var mér að kenna þar sem ég vildi ekkert tilstand þótt tilefnið gæfi kannski ástæðu til þess. Við ætlum nefnilega að halda smá veislu núna í nóvember fyrir okkur bæði. Það hentar vel - ein veisla/tvöfaldar gjafir :0) En svona án gríns þá er stefnan að vera einhversstaðar á erlendri grund á afmælisdaginn hennar Erlu. Verst samt hvað henni leiðist alltaf svoleiðis.

Skólinn er alveg að kæfa mig núna. Endalaus verkefnavinna. Mál tekin fyrir sem eru í deiglunni hverju sinni. Búinn að taka fyrir sr. Gunnars málið, myntkörfulánin, morðmálið í Hafnarfirði í haust ofl ofl. Þetta gengur samt vel og ég er sáttur við að hafa drifið mig í mastersnámið í kreppunni.

Kreppan já, hún snertir víst flesta. það er dýrara að lifa, dýrara að greiða af lánum, keyra bílinn sinn o.fl. Hún bankar víða.
Ég er samt bjartsýnn. Mér finnst þeir menn sem smíðuðu þennan Icesavemonster nálgast að vera landráðamenn. Og ég er alls ekki sáttur við framgang þeirra sem núna stýra þjóðarskútunni. Icesave átti að fara fyrir dóm. Svo finnst mér algerlega ótækt að ríkisstjórnin skuli semja um greiðslu á þessari óráðsíu án þess að gæta til ítrasta, lagalegs réttar þjóðarinnar að þjóðarrétti. Þann rétt er búið að semja frá okkur. Það var hetjulegt.

Við Erlan njótum samt sem áður daganna. Þeir eru góðir.

þriðjudagur, október 13, 2009

Ekkert volæði núna

Ég var í Vola í gær ásamt Bjössa og Karlott. Nú veiddist..... setti smá pistil í veiðihornið hjá mér.

sunnudagur, október 11, 2009

Tilveran...

...er eins og veðrið. Það þjóta krappar lægðir yfir með stormum og stórsjóum... svo lygnir...!

sunnudagur, október 04, 2009

Allt fram streymir....

... endalaust, ár og dagar líða, nú er komið hrímkalt haust, horfin sumarblíða. Mér finnst nú frysta full fljótt þetta árið verð ég að segja. Við erum búin að fara einu sinni í bæinn í vetrarófærð.
Ég sem á eftir að fara í allavega eina veiðiferð. Ég er að vona að ég fái góðan dag í veiðina en sæmilegt hitastig getur gert útslagið.
Hvað sem haustinu líður þá fer vel um okkur hér í húsinu við ána. Það má segja að hver árstíð gæli við okkur á sinn hátt. Núna eru litir haustsins gríðarlega fallegir þó það verði fljótt að breytast héðan í frá. Veturinn fer að taka yfir.

Hér verður mikið líf og fjör í dag. Sláturdagurinn mikli er í dag. Ég keypti 20 slátur í fyrradag fyrir okkur og stelpurnar. Nú á að reyna að finna réttu samsetninguna með uppskrift sem ég fékk hjá Gerðu systir sem kemst sennilega næst því hvernig mamma gerði slátrið. Mamma var einstaklega lunkin við að gera bragðgóðan mat. Það var eins og hún hefði sérstakt innsæi í það hvernig blanda ætti saman hráefninu til að það bragðaðist vel.
Er ekki alveg frá því að það eymi af þeim hæfileika í genabankanum okkar systkinanna. Allavega eru systur mínar snjallir kokkar.
Ég hlakka til í kvöld en þá verður auðvitað sett upp slátur í pott og haldin uppskeruveisla.
Njótið daganna gott fólk.....