þriðjudagur, apríl 24, 2007

Það er bara þannig...

....að fólk fær misjafnar vöggugjafir. Við vorum á tónleikum hjá Söngskóla Reykjavíkur í kvöld. Meðal annarra var tengdasonur minn Karlott að syngja en hann hefur verið við söngnám í vetur. Ekki að það hafi komið mér á óvart þá söng hann afar vel. Með allri virðingu fyrir hinum sem einnig sungu, þá bar hann af.

Hverjum þykir sinn fugl fagur myndi einhver segja....en, hafandi sjálfur verið í kór til nokkurra ára og hlustað mikið á tónlist í gegnum árin tel ég mig geta lagt nokkuð óháð mat á hver getur sungið og hver ætti að sleppa því - ég til dæmis hætti....!

Vil nota tækifærið hér og óska tengdasyninum til hamingju með flottan söng, klingjandi tenór – flott.

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Fraus saman....!

Það var talið boða gott sumar hér áður fyrr á árunum, ef vetur og sumar frysu saman. Það er komið sumar skv. dagatalinu þó hitastigið sé ekki hátt. Það er líka orðið sumarlegt hér í sveitinni. Farfuglarnir eru farnir að kvaka hér hver í kapp við annan. Sérstaklega á næturnar.

Við hæfi er að þakka lesendum síðunnar fyrir veturinn sem hefur verið viðburðaríkur og góður og óska ykkur gleðilegs sumars.

Ég sit nú við skriftir einu sinni enn. Ástæðan er BA ritgerðin mín. Jú henni var lokið, en ég fékk boð um að birta 6 síðna úrdrátt úr henni í blaði sem Lögrétta er að gefa út í tilefni útskriftar laganema þetta árið. Blaðið er gefið út í 2500 eintökum og verður dreift á flestar lögfræðiskrifstofur landsins og ýmsar biðstofur.
Maður má víst grobba í hófi þá sjaldan að tilefni gefst til þess. En þetta er viðurkenning á ritsmíðunum. Það er ekki auðvelt að fá birtar fræðigreinar í lögfræði almennt. Þær þurfa helst að opna nýja sýn eða vinkil á málefni. Það verður því forvitnilegt að sjá viðbrögðin hjá lögmönnum á markaði.

Ætla að nýta tímann núna fram eftir degi við skriftir og síðan ætlum við að skreppa austur á Föðurland og kíkja aðeins á notalegheitin þar.

Njótið daganna, því þeir eru góðir .......

laugardagur, apríl 14, 2007

Pólitíska landslagið

Þjóðin er ekki vitlaus. Greinilega eru allt of margir með hausinn í lagi fyrir vinstra sullið sem dælt er yfir okkur núna. Skoðanakannanir gefa ákveðna vitneskju um ástandið hér úti á markaðnum. Ef fram fer sem horfir kemst vinstri stjórn ekki að eftir kosningar.
Það væri vel.

Ingibjörg snýst eins og vindhani í íslenskum umhleypingum í kringum hugmyndafræði Samfylkingarinnar meðan fleiri og fleiri brosa út í annað og sannfærast að þessu fólki er ekki hægt að hleypa í bílstjórasætið. Tjái hún sig sem mest, því fylgið virðist hrynja í réttu hlutfalli við það.
Vinstri grænum er líka að fatast flugið. Líklega stóriðjustefnan þeirra. Fólk er almennt ekki asnar.
Frjálslyndir eru ekki búnir að fatta ennþá að við erum hluti af stærri heild og höfum ekki lyklavöldin að fullveldi okkar lengur. Það er margt sem er ákveðið fyrir okkur úti í Brussel. Frjáls för launafólks innan ESB er það sem við búum við og punktur. Meðan atvinnu er að fá getum við ekki stemmt stigu við aðsókn fólks innan ESB á íslanskan markað. Jón Magnússon ætti að vita þetta.
Ómar ætti að halda áfram að vera grínari.... eða er hann kannski bara að grínast. Kannski er Íslandshreyfingin eins og “Hellisbúinn” sprenghlægileg kómedía.

Íslendingar sem horfa á þennan vinstri hræring allan sjá auðvitað hverslags rútubílstjórar eru þarna á ferðinni og hvar það ferðalag myndi enda.
Krossa mig á bak og brjóst við tilhugsunina.

Er nema von að hægri flokkarnir haldi velli?

Njótið helgarinnar.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Alvöru....!

Hver man ekki páskaeggin þegar þau voru búin til úr tveimur helmingum límdum saman með miklu súkkulaði og skreytingarnar voru allskonar súkkulaðiflúr og botninn gerður úr gegnheilum súkkulaðistöpli. Ég er allavega kominn á þann aldur að ég man þau svona. Ég hef oft sagt stelpunum mínum hvernig páskaegg eigi að vera (lýsingin hér á undan). Ekki þetta örþunna skæni sem selt er sem páskaegg í dag.
Nú er sem sé komið að punkti sögunnar.
Mér var fært alvöru páskaegg á páskadagsmorgun. Dæturnar höfðu lagt á sig það erfiða verkefni að búa til páskaegg sem svaraði til lýsingarinnar minnar. Alvöru rjómasúkkulaði steypt í tvo helminga og límt saman með súkkulaði.
Það verð ég að segja að ég hef ekki smakkað betra páskaegg síðan ég var snáði og ekki flottara heldur.
Það svignaði undan eigin þunga svo botninn datt af enda gert úr alvöru súkkulaði en ekki einhverjum glerhörðum kakómassa.

Ég læt fylgja mynd af því áður og eftir að ég gerði því hraustleg skil. Mér fannst hugurinn á bak við samt fallegastur og lang bragðbestur.

Takk yndislegastar.

sunnudagur, apríl 08, 2007

Á páskadagsmorgni

Sem endranær er ég einn kominn á fætur á þessum bæ. Dæturnar hafa erft svefnmengið frá móður sinni og eiga ekki í vandræðum með að sofa fram eftir á morgnana. Ég hef alltaf verið endemis morgunhani, enda einfalt mál í mínum huga, maður sefur á næturnar og vakir á daginn. Það eina sem má deila um er hvenær dagurinn byrjar, en um það eru deildar meiningar á þessum bæ. Erlan mín skilur t.d. ekki hvað ég er að vesenast hér niðri um miðjar nætur.

Páskadagur er samt runninn upp enn einu sinni. Sem minnir mig á hversu tíminn fer hratt. Það er með mestu ólíkindum að ár sé liðið síðan ég faldi páskaeggin síðast, en hér á bæ tíðkast að pabbi felur eggin og skrifar vísbendingar sem vísa hver á aðra þangað til eggið finnst.
Ég hélt að þær yxu upp úr þessu, eeeen, Arna er 26 ára og Hrund 18 og vilja báðar láta fela eggið. Enn ein fjölskylduhefðin sem margar eru viðhafðar hér á bæ.

Þessi dagur er, eins og fólk veit, stærsta hátíð kristinna manna. Flestum finnst jólin vera stærri. En páskar hljóta að bera af, því í þeim liggur kjarni trúarinnar. Upprisan er það sem gerir kristna trú að því sem hún er. Án hennar væri engin kristin trú til. Ef Kristur hefði ekki risið upp frá dauðum hefði sagan líklegast aldrei verið skrifuð. Ef hún hefði samt verið skrifuð hefði hún aldrei orðið merkilegri saga en saga um mikinn heimsspeking, sem lifði og dó. Saga eins og ótal margar eru til um merka menn.
Upprisan er stóra málið. Allt ferlið frá fæðingu Krists til loka andvarpsins á krossinum gekk út á dauða hans og síðan upprisu. Sigra þurfti dauðann til að brúa bilið milli Guðs og manna. Síðustu orð Krists á krossinum “það er fullkomnað” gaf til kynna að áætlunin var að ganga upp, fullkomnuð.
Þessi þrjú orð voru kveikjan að afturhvarfi afa míns til kristinnar trúar og má því segja að þessi sömu orð séu grunnurinn að öllu starfi sem fram hefur farið í Kirkjulækjarkoti.
“Orð til alls fyrst”, sannast hér.

Í dag verður fjölskyldan saman hér í húsinu við ána. Lamb verður á boðstólum sem er gott mótvægi við súkkulaðiát tilheyrandi deginum. Ég hlakka til að fá þau öll hingað, alltaf mikið gaman, mikið fjör.
Dagurinn er fallegur. Ölfusáin liðast framhjá sakleysisleg ásýndar enda ekki í neinum ham þessa dagana, en ber samt með sér þessa ógnarkrafta sem best er að bera mikla virðingu fyrir.
Farfuglarnir eru óðum að koma fleiri og fleiri og gleðja náttúrubarnið í mér. Við vorum í kofanum á Fitinni seinni part skírdags og föstudaginn langa, það var gott. Þar er friður og stóísk ró eins og best verður á kosið. Á samt eftir að finna mér gamla klukku eins og ég á hér heima, sem telur tímann hægt.

Gleðilega hátíð

sunnudagur, apríl 01, 2007

Átti þetta ekki að vera brandari.....?

Margir hafnarfjarðarbrandarar til en þessi slær öllum við, reyndar langt í frá fyndinn, heldur grátlegur. Meðan öll sveitarfélög í landinu keppast við að fá til sín fyrirtæki sem skapa fólki atvinnu, standa Hafnfirðingar í ströngu við að úthýsa því fyrirtæki sem öll sveitarfélög hafa öfundað þá af og vildu hafa innan sinna vébanda.
Rótgróið, vel rekið, arðbært og vaxandi.
Svona sveitarfélagi er ekki viðbjargandi. Kemur enn í ljós hverslags bláskjáir það eru sem stjórna þarna. Samfylkingin er auðvitað höfundur þessa óskunda, eins og þeirra er von. Þeir þorðu ekki að nota umboðið sem kjósendur voru búnir að veita þeim og eru svo vísast á bömmer yfir því hvernig fór. Enda ekki nema svona milljarður á ári sem þeir voru að kasta í ruslatunnuna.

Ég á ekki orð.