þriðjudagur, júní 23, 2009

Heima

Við erum komin heim eftir tæpa vikuferð í Danmörku. Ferðin var í alla staði góð. Við byrjuðum á Kaupmannahöfn.... það var öðruvísi en venjulega. Reyndar er Köben eins og hún er vön að vera. Við hinsvegar vorum með krónur sem við þurftum að kaupa á uppsprengdu verði. 25 kall fyrir dönsku krónuna er eitthvað sem varla var til í ævintýrabókum fyrir hrun. Hvað þá í veruleikanum. Þetta gerði að verkum að allt var svimandi fáránlega dýrt.

Við svo sem þurftum ekki að kaupa neitt nema eitthvað í magann. Svo buddan fann ekki mikið fyrir því. Það voru ekki mjög fallegar hugsanir sem við sendum landráðamönnunum sem settu landið okkar á hausinn og gerðu þetta að verkum að ekki er hægt að vera þarna lengur.

Dvölin hjá Óla og Annette var góð eins og við var að búast. Við fórum í göngutúra vítt og breytt keyrðum til Skagen sem er nyrsti hluti Jótlands í blíðuveðri. Þar fundum við pálmaströnd.... Við sem héldum að við værum í Danmörku.

Svo heimsóttum við foreldra Annette að Stenum. Pabbi hennar er fárveikur með krabbamein, honum er hjúkrað heima, bæði af þessari dugnaðarkonu mömmu hennar og svo kemur hjúkrunarfólk heim. Krabbamein er óþverrasjúkdómur sem allt of margir falla fyrir.


Þar á bæ fengum við heilan þvottabala af jarðarberjum...... nýtýnd stór og eldrauð.... Það var svo jarðarberjaveisla þegar heim var komið. Ég skil ekki hvers vegna maður fær ekki svona góð jarðarber hér heima. Reyndar verður að segjast eins og er að jarðarberin úr garðinum okkar eru jafngóð á bragðið en ekki eins stór.


Veðrið var líkara Spáni... annað slagið. Við náðum að sólbrenna aðeins, áttum ekki von á svona sólarveðri. Brúni liturinn er annars fljótur að renna af manni í rigningunni.
Danmörk er góð heim að sækja og fólkið okkar þar er enn betra. Það er samt alltaf gott að koma heim. Ég er svoddan þjóðernisremba að í hvert sinn sem ég kem fljúgandi heim frá útlöndum og sé landið mitt, finn ég til einhverrar þjóðerniskenndar sem snertir viðkvæma strengi innra og ég finn hvað landið er mér kært.
Já, Ísland er landið - því aldrei ég gleymi.

föstudagur, júní 19, 2009

God dag

Og nu er vi i Støvring hos Oli og Annette....og höfum það svona stórgott. Það er búið að vera frábært veður í ferðinni. Við löbbuðum mikið í Kaupmannahöfn, fórum á nýja staði sem við höfum ekki komið á áður, mjög gaman. Við flugum hingað yfir til Álaborgar. Það var þægilegt, tók bara 25 mínútur, þotan fór bara upp og strax niður aftur. Við fórum til Silkiborgar í gær með Óla. Hann átti vinnutengt erindi þangað. Við keyrðum svo þar um meðan hann fundaði eitthvað.
Í morgun vöknuðum við við mikinn gauragang, þrumur og eldingar. Ég hafði gaman að því, og ég held Erlan bara líka.
Verðlagið hér er engu líkt. Gengið er 25 krónur á dönsku krónunni. Sem dæmi keypti ég sitthvorn kaffibollann handa okkur fyrir 1250 krónur. Ein pylsa og kók kostar líka 1250 krónur. Það er furðulegt að hafa á tilfinningunni að hafa verið rændur eftir að hafa keypt eina pulsu...

Við ætlum í búðir í dag... :0) Loksins að maður fær að kíkja aðeins í búðarskammirnar.

Hafið það gott vinir mínir heima..... Ég þrauka daginn, það er áralöng reynsla fyrir því.

mánudagur, júní 15, 2009

Danmörk

Það verður flogið til Kongens Köben í fyrramálið. Þetta er ferðin sem við hættum við fyrir jólin í fyrra. Þá var gengið svo svimandi hátt á dönsku krónunni að okkur fannst ekki verjandi að fara. Við áttum flugmiðana áfram og seinkuðum ferðinni fram í júní og vonuðum að gengið yrði skárra. Núna er gengið ennþá hátt, en ferðin endurskipulögð. Við heimsækjum Óla og Annette.
Það er tilhlökkun í okkur. Danmörk hefur alltaf heillað okkur. Það verður gaman að eyða tíma með þeim heiðurshjónum.
Farið vel með ykkur á meðan lesendur góðir.....

laugardagur, júní 13, 2009

Morgunþanki

Yndislegasti tími ársins er runninn upp. Hér sit ég einn og sötra kaffið mitt og horfi út um eldhúsgluggann. Frúin á bænum sefur enn, enda í sumarfríi. Náttúran er iðjagræn og falleg. Ég sat hér, fyrir svo undarlega stuttu síðan og horfði á frostkalda ána bera fram íshröngl og klakastykki og jörðina frosna í frerahrammi. Einstaka hrafn flögrandi framhjá, gargandi og svangur, í leit að æti. Þá hugsaði ég til vorsins með tilhlökkun. Vorsins, þá lifnar allt, þá verður nóg að éta fyrir hrafninn, þá koma Nína og Geiri í hólmann.... Núna finnst mér eins og ég hafi hugsað þetta í gær, tíminn líður afkáralega hratt. Haustið verður komið áður en við verður litið. Þá fer græni liturinn að dofna, laufin að taka á sig annan blæ. Græni liturinn núna, rétt eins eins og haustlitirnir, minna á hið óumflýjanlega, hversu tíminn heldur áfram róli sínu hvað sem öðru líður og hjól endurtekninganna snýst áfram, hring eftir hring. Ævi mannsins er ekki svo margir hringir. Afar mínir og ömmur eru löngu horfin, sömuleiðis pabbi og mamma. Ótrúlega mikið rétt hvað við erum eins og stráið sem vex upp að vori og fellur að hausti.

Að gleðjast yfir lífinu eins og það kemur manni fyrir sjónir er gæfa. Að kunna að sjá fegurðina í kringum mann þrátt fyrir krepputíma, er hamingja. Ég horfði hugfanginn á álftina hér í hólmanum verja óðalið sitt. Náttúran er óvægin. Gæsapar með unga hafði villst inn fyrir landamerkin. Það þýddi árás sem endaði með dauða eins ungans. Stórbrotið og óvægið. Ég tók líka eftir dansi fiðrildanna í blágresinu og fylgdist með suði fiskiflugunnar sem svo gjarnan fylgir heitum sólardögum, þau lifa ekki veturinn. þetta er lífskúnst. Góð tilhugsun að vera ekki fiðrildi, það væri sönn kreppa. Lífið er gott, það er gjöf sem varir of stutt til að láta allt það góða sem við götuna liggur, fram hjá okkur fara.
Annað er aum mistök.