Yndislegasti tími ársins er runninn upp. Hér sit ég einn og sötra kaffið mitt og horfi út um eldhúsgluggann. Frúin á bænum sefur enn, enda í sumarfríi. Náttúran er iðjagræn og falleg. Ég sat hér, fyrir svo undarlega stuttu síðan og horfði á frostkalda ána bera fram íshröngl og klakastykki og jörðina frosna í frerahrammi. Einstaka hrafn flögrandi framhjá, gargandi og svangur, í leit að æti. Þá hugsaði ég til vorsins með tilhlökkun. Vorsins, þá lifnar allt, þá verður nóg að éta fyrir hrafninn, þá koma Nína og Geiri í hólmann.... Núna finnst mér eins og ég hafi hugsað þetta í gær, tíminn líður afkáralega hratt. Haustið verður komið áður en við verður litið. Þá fer græni liturinn að dofna, laufin að taka á sig annan blæ. Græni liturinn núna, rétt eins eins og haustlitirnir, minna á hið óumflýjanlega, hversu tíminn heldur áfram róli sínu hvað sem öðru líður og hjól endurtekninganna snýst áfram, hring eftir hring. Ævi mannsins er ekki svo margir hringir. Afar mínir og ömmur eru löngu horfin, sömuleiðis pabbi og mamma. Ótrúlega mikið rétt hvað við erum eins og stráið sem vex upp að vori og fellur að hausti.
Að gleðjast yfir lífinu eins og það kemur manni fyrir sjónir er gæfa. Að kunna að sjá fegurðina í kringum mann þrátt fyrir krepputíma, er hamingja. Ég horfði hugfanginn á álftina hér í hólmanum verja óðalið sitt. Náttúran er óvægin. Gæsapar með unga hafði villst inn fyrir landamerkin. Það þýddi árás sem endaði með dauða eins ungans. Stórbrotið og óvægið. Ég tók líka eftir dansi fiðrildanna í blágresinu og fylgdist með suði fiskiflugunnar sem svo gjarnan fylgir heitum sólardögum, þau lifa ekki veturinn. þetta er lífskúnst. Góð tilhugsun að vera ekki fiðrildi, það væri sönn kreppa. Lífið er gott, það er gjöf sem varir of stutt til að láta allt það góða sem við götuna liggur, fram hjá okkur fara.
Annað er aum mistök.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli