þriðjudagur, júní 23, 2009

Heima

Við erum komin heim eftir tæpa vikuferð í Danmörku. Ferðin var í alla staði góð. Við byrjuðum á Kaupmannahöfn.... það var öðruvísi en venjulega. Reyndar er Köben eins og hún er vön að vera. Við hinsvegar vorum með krónur sem við þurftum að kaupa á uppsprengdu verði. 25 kall fyrir dönsku krónuna er eitthvað sem varla var til í ævintýrabókum fyrir hrun. Hvað þá í veruleikanum. Þetta gerði að verkum að allt var svimandi fáránlega dýrt.

Við svo sem þurftum ekki að kaupa neitt nema eitthvað í magann. Svo buddan fann ekki mikið fyrir því. Það voru ekki mjög fallegar hugsanir sem við sendum landráðamönnunum sem settu landið okkar á hausinn og gerðu þetta að verkum að ekki er hægt að vera þarna lengur.

Dvölin hjá Óla og Annette var góð eins og við var að búast. Við fórum í göngutúra vítt og breytt keyrðum til Skagen sem er nyrsti hluti Jótlands í blíðuveðri. Þar fundum við pálmaströnd.... Við sem héldum að við værum í Danmörku.

Svo heimsóttum við foreldra Annette að Stenum. Pabbi hennar er fárveikur með krabbamein, honum er hjúkrað heima, bæði af þessari dugnaðarkonu mömmu hennar og svo kemur hjúkrunarfólk heim. Krabbamein er óþverrasjúkdómur sem allt of margir falla fyrir.


Þar á bæ fengum við heilan þvottabala af jarðarberjum...... nýtýnd stór og eldrauð.... Það var svo jarðarberjaveisla þegar heim var komið. Ég skil ekki hvers vegna maður fær ekki svona góð jarðarber hér heima. Reyndar verður að segjast eins og er að jarðarberin úr garðinum okkar eru jafngóð á bragðið en ekki eins stór.


Veðrið var líkara Spáni... annað slagið. Við náðum að sólbrenna aðeins, áttum ekki von á svona sólarveðri. Brúni liturinn er annars fljótur að renna af manni í rigningunni.
Danmörk er góð heim að sækja og fólkið okkar þar er enn betra. Það er samt alltaf gott að koma heim. Ég er svoddan þjóðernisremba að í hvert sinn sem ég kem fljúgandi heim frá útlöndum og sé landið mitt, finn ég til einhverrar þjóðerniskenndar sem snertir viðkvæma strengi innra og ég finn hvað landið er mér kært.
Já, Ísland er landið - því aldrei ég gleymi.

Engin ummæli: