sunnudagur, júlí 05, 2009

Miðsumar á Ölfusárbökkum

Það hefur verið eindæma gott veður undanfarna daga. Hitastigið hefur verið um og yfir 20 stig flesta daga. Hér á bökkum Ölfusár dansar tilveran vangadans við okkur eins og venjulega. Við vorum í sumarfríi vikuna eftir að við komum frá Danmörku. Dvöldum sitt á hvað hér á bökkunum og á Föðurlandi. Ég seldi mótorfákinn norður í land. Það er auðvitað leiðinlegt að geta ekki farið í útreiðatúr á fallegum degi lengur en svona er tilveran. Hjólið verður "borðað" í vetur með skólanum. Þetta er auðvitað einn liður í að fjármagna skólann....meira í veskið og minna að borga...!

Við Erlan erum svo lánsöm að eiga góða og trausta vini. Við eyddum föstudagskvöldinu í góðra matarklúbbs vina hópi. Við erum öll matgæðingar og kunnum vel að njóta góðs matar. Smjörsteiktur humar í hvítlauk og nýbakað brauð með sterkri hvítlaukssósu var frábær forréttur og svo nautalund með öllu tilheyrandi í aðalrétt og karamelluterta í eftirrétt. Svolítið 2007 en samt ekki dýrt þegar bara hráefnið er keypt en ekki er verið að borga fyrir eldamennsku og þjónustu.

Í dag eigum við von á afkomendum okkar hingað í húsið við ána. Dæturnar koma oft hingað með sitt fríða föruneyti. Það er ég ánægður með. Hef enda stefnt að því leynt og ljóst öll árin að heimilið okkar yrði fastur punktur í tilveru afkomenda okkar. Það eru of oft vanmetin gildi að halda fjölskyldunni þétt saman.

Nágrannar okkar Nína og Geiri hafa ekki haft erindi sem erfiði. Varpið misfórst hjá þeim. Ég veit ekki hvað kom fyrir en þau hættu allt í einu að liggja á hreiðrinu án þess að ungar væru komnir út. Í marga daga komu þau samt á hverjum degi undir miðnættið og annað þeirra lagðist á hreiðrið. Þau eru samt ungalaus og virðast frekar friðlaus og sorgmædd greyin.

Erlan er uppi á efri hæðinni að lesa bók. Ég ætla að láta renna í tvo bolla af kaffi og athuga hvort ég næ henni niður.
Límsófinn heillar hana oft, sérstaklega ef ég beiti kaffi á krókinn líka.

Engin ummæli: