laugardagur, október 29, 2005

Vetur kóngur.

Hann blés norðangarranum yfir okkur með tilheyrandi snjófjúki og kulda í gærkvöldi. Það er ekki laust við að manni finnist hann banka uppá full snemma þetta árið.
Það fylgir þó vetrarkomunni einhver notalegheit. Það verður svo augljóst hvað það er gott að eiga hlýtt og notalegt heimili þegar vindurinn þýtur yfir frostbitna mela og snjórinn safnast í grjótharða skafla upp við húsvegginn og fyllir hverja laut.

Núna er frost, það hefur lægt og snjórinn liggur yfir jörðinni eins og nýlagt teppi, allt er svo hreint og svalt. Frábært gluggaveður. Fjölskyldan innandyra og lætur sér líða vel. Notaleg öryggistilfinning sem allir finna fyrir. Erla notaleg í sófanum og dæturnar njóta friðhelgi heimilisins í botn. Ekki er laust við að eitthvað minni á jólin í þessari stemningu. Ekkert kallar á veiðimanninn í mér núna, - nema kannski fjöllin og Rjúpan.

Hugurinn hvarflar til baka, svo stutt er síðan ég gekk fram á árbakkana í sumarblíðu. Árnar glitrandi fallega innan um blómstrandi blágresi og ilmandi sumargróður. Laxáin í Aðaldalnum kemur lygn og falleg upp í hugann. Þar var sumartilfinningin yfirþyrmandi Mýflugan ætlaði að éta mig lifandi og hefði klárað það verk ef ég hefði ekki notað nýjustu varnir gegn henni. Það var logn og sól. Bændur voru í fjarska að snúa skrjáfþurru heyi í blíðunni. Maður heyrði samskiptin þeirra á milli, svo mikið var lognið. Fuglar flugu um loftin og maður var þáttakandi í íslenskri sumarflóru eins og hún verður fegurst. Þetta var falleg mynd af lífinu sjálfu, eins og þegar það gælir mest og best við mann.

Þessi kalda hvíta fegurð núna er öðruvísi en græn tilveran í sumar. Hún kallar fram í manni lotningu fyrir fjölbreytileika lífsins og minnir mann á hversu fallvölt og breytileg tilveran er. Ekkert er varanlegt. Allt er breytingum háð. Lífið gefur og tekur. Nýir einstaklingar koma fram og aðrir kveðja. Rétt eins og sumarið með allt sitt iðandi líf og svo veturinn sem tekur við með sitt frosna þel og fölnuð lauf.

Þrátt fyrir kuldalega ásýnd þá ber þessi tími með sér fögur fyrirheit. Um betri tíð, blóm í haga og glitrandi fallegar veiðiár með silfurgjljáandi lax og silung, nýgengnum úr hafi til þess eins að fjölga kyni sínu, og leyfa mér að veiða sig....!
Er ekki sköpunin yndisleg.

fimmtudagur, október 27, 2005

Maður er manns gaman!

Það sannaðist einu sinni enn í mínu lífi í gærkvöldi þegar vinir og vandamenn kíktu til mín í tilefni þess að ég fyllti eitt árið í viðbót.
Vinir eru Guðsgjöf. Það er gott að finna sig hluta af heild. Gott að telja sér trú um að maður sé samþykktur eins og maður er í góðra vina hópi.

Eyland í mannlegum samskiptum er óspennandi hlutskipti. Það er nokkuð sem maður skildi forðast. Það brýtur á einni eyju í hafi, það er ekkert sem hlífir, enginn skerjagarður, engar aðrar eyjar sem taka á móti úthafsöldunni með þér. Þannig sé ég vini. Þeir eru skerjagarður.

Ég á nógu langa ævi að baki til að hafa lært þá lexíu að gera greinarmun á vinum og “vinum” innan gæsalappa. Þar er reynslan ólygnust eins og máltækið segir.
Vinir ganga með þér alla leið, en “vinir” hverfa gjarnan af veginum þegar hvessir.
Árin hafa kennt mér að meta alvöru vináttu meira en flest annað. Það er blankur maður sem ekki kann það .
Já maður er manns gaman.
Ég naut gærkvöldsins.
Takk fyrir komuna öll.

mánudagur, október 24, 2005

Ekki meira..

Enga kvennafrídaga meira takk. Þetta nær engri átt. Konur að taka sér frí á miðjum degi bara til að minna á launamun í þjóðfélaginu. Hversvegna í ósköpunum látum við þær þurfa að vera að kvarta þessar elskur. Þær hófu þessa baráttu fyrir óteljandi mörgum árum síðan. Voru kallaðar rauðsokkur og litnar hornauga þegar ég var lítill.
Þessi barátta, jafnmikið réttlætismál og hér er á ferðinni, ætti að vera löngu unnin. Þær ættu ekki að þurfa að halda sérstakan kvennafrídag í dag til að minna á sig einu sinni enn.
Það er skammarlegt ráðandi karlaheimi að þær þurfi enn að vera að atast í þessu. Konur eiga auðvitað að vera með sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Ég skil að þetta var tíðarandinn á síðustu öld þegar karllægur hugsanagangur réð algerlega ríkjum. En í dag í upplýstu samfélagi okkar, ætti þetta ekki að finnast.
Ég vona að þetta verði í síðasta sinn sem konur þurfa að minna okkur á þetta ranglæti.
Ég vil jafnræði í launum - alvöru.

laugardagur, október 22, 2005

Laugardagsþanki

Mikið geta helgar verið yndislegar. Yngsta dótturdóttirin heimsótti afa sinn og ömmu í fyrsta skipti í morgun ásamt sinni frábæru fjölskyldu. Það var gaman að fá þau í heimsókn....... ætlaði að segja litlu fjölskylduna, en hún er svo sem ekkert svo lítil lengur.
Við vorum svo á ferðinni í dag, frúin og ég. Fórum meðal annars á Lindarmarkaðinn. Þar kennir ýmissa grasa. Við keyptum ljós í verðandi kofann okkar. Gamaldags inniljós og tvö útiljós á veröndina, samanlagt á 3000 kall. Ekki svo íþyngjandi það. Kofinn á nefnilega að verða gamaldags.
Við keyrðum svo um borgina, kíktum eftir verslunarhúsnæði, svona ef okkur dytti eitthvað sniðugt í hug. Keyptum ís og áttum virkilega notalegt spjall um lífsins gang og nauðsynjar.

Við vorum í smá heimspekilegum vangaveltum meðan við bræddum ísinn og rúntuðum. Við vorum að velta fyrir okkur þeim hópi fólks sem er sífellt að leita leiða til að “vera eitthvað”.
Þetta er óskýrt hugtak en er oft mjög áberandi í fari sumra. Þetta er væntanlega sprottið uppúr jarðvegi minnimáttarkenndar, allavega öryggisleysis.
Það er eitthvað dapurlegt við þetta. Þetta er eitthvað ímyndað kapphlaup við ósýnilega keppendur. Þetta eru þeir sem ekki hafa náð að greina kjarnann frá hisminu í lífinu, hvað er ekta og hvað ekki.

Er slæmt hlutskipti að vera bara “maður sjálfur” án jólaskrauts og grímu?. Er nauðsyn að keppa að því að vera eitthvað annað. Er ekki sóun á tíma og tækifærum að ríghalda í einhverja óskilgreinda stöðu, ímyndaðs virðingarstiga, sem veitir einungis fróun þránni til að vera eitthvað. Leitun á viðurkenningu.
Það er ömurlegt hlutskipti að vera að eltast við eitthvað sem er ekki. Sýnast fyrir einhverjum sem skiptir ekki máli. Þrá eitthvað sem maður veit ekki. Látast vera eitthvað annað en maður er. Þóknast einhverjum í von um stundarupphefð og lifa þannig tvöföldu lífi, í gerviheimi, innantómum og leiðinlegum.
“Smásálir”, passar einkar vel við þennan hóp.
Eru þetta örlög?
Nei ákvörðun.
Ég held það sé þetta sem höfundurinn meinti í hnotskurn með orðunum “eftirsókn eftir vindi”

Svo sjáum við hinn hópinn. Sem “er eitthvað” bara vegna þess sem þeir fæddust með úr egginu. Þeir eru ekkert að reyna að geðjast eða samsama sig við aðra. Þeir bara “eru” rétt si sona.

Við vorum sammála hjónin, að fyrrgreindi hópurinn er fyrirferðameiri, enda er það prinsippið í þeim hópi.
Það er góð uppskrift að vera maður sjálfur - án skrauts og grímu.

Njótið lífsins vinir - á ykkar eigin forsendum.

fimmtudagur, október 20, 2005

Nú verður

aðeins andað léttar. Miðannarprófin búin. Nokkrar einkunnir komnar og minn bara kátur. Erlan mín er ekki heima, fór út að borða með móður sinni, systrum og nokkrum frænkum. Þær eru góðar í að finna sér eitthvað til að hefða þessar skvísur. Eitt skipti er nóg, þá er komin hefð, t.d. á næsta ári :-s
Við feðginin Eygló og Hrund ætlum að hafa það gott og skemmta okkur yfir gömlum myndböndum úr fjölskylduferðum. Ýmislegt skondið lókal þar. Er ekki viss um að öllum þætti þetta eins fyndið og okkur. En hláturinn lengir lífið, nema maður kafni úr honum auðvitað.
Ekkert leserí í kvöld.

miðvikudagur, október 19, 2005

LABRÚMMMM.

Ég var á leið í próf, ók eftir Bústaðaveginum, nokkuð yfirvegaður eftir lesturinn undanfarna daga. Kominn að Borgarspítalanum vakti eitthvað óeðlilegt athygli mína. Kranabóma. Hreyfing bómunnar var öðruvísi. Það er talað um að fella bómuna þegar menn láta hana síga, þessi var að falla of hratt. Ég gleymdi augnablik að ég var að fara í próf og var kominn á staðinn augnabliki eftir að bóman féll. Kranamaðurinn var heill á húfi og, Guðsmildi, bóman lenti ekki á neinum. Þetta var bílkrani af stærri gerðinni og var að hífa kranabómu á byggingakrana, það féllu því tvær bómur til jarðar, yfir Háaleitisbrautina að bílastæðunum við Borgarspítalann. Það var hálfgerður skrekkur í mér þegar ég gekki inn í prófið, ég er búinn að umgangast svona verkfæri á tvo áratugi. Ég sem sagt horfði á þetta í beinni....úr stúku. Þetta hefði getað farið verr.
Hann er hollur sá er hlífir.

mánudagur, október 17, 2005

Til hamingju.....!

Fimmta dótturdóttirin er fædd. Hún fæddist í nótt. Það er orðið nokkuð öruggt að giska á stelpu, fæðist barn í minni ætt. Það væri gaman að reikna tölfræðileg líkindi þess að kasta krónu níu sinnum og fá sömu hliðina upp í öll skiptin.
Afinn er kátur með þetta og syngur núna hástöfum "Ég er umvafinn kvenfólki það get ég svarið"
og finnst hann vera lukkunnar pamfíll svei mér þá.

Hér er stóra systirin Danía Rut með glænýja systur í fanginu.
Innilega til hamingju með litlu rúsluna, Arna mín og Davíð.
Guð blessi allt hennar líf.

fimmtudagur, október 13, 2005

Ætti ég....

að fara í verkfræði.......? Ég var á kynningu á valgreinum fyrir 6. og síðustu önnina. Margt sniðugt í boði. Ég hef tekið ákvörðun um að skrifa BA ritgerð og taka vinnurétt og kauparétt. Svo hef ég val um að taka enskt lagamál (veitir sennilega ekki af, líkist meira golfrönsku en ensku) eða jafnvel kúrs í verkfræðideild sem heitir rekstrar-verkfræði, fæ það metið beint í laganámið. Mér sýnist að sá kúrs komi vel til álita. Hann snýst um að greina fyrirtæki, kaupa fyrirtæki í rekstri, stofna ný fyrirtæki og rekstur þeirra. Mér sýnist síðasta önnin verða nokkuð spennandi. Ég hef reyndar líka tekið ákvörðun um að taka masterinn í beinu framhaldi á næsta ári.
Annars er ég að klára miðannarprófin núna, næst síðasta próf í fyrramálið. Þetta er tarnavinna sem gengur yfir.

Blessuð.

þriðjudagur, október 11, 2005

Frelsi

Það er gaman að skoða sumarmyndir þegar kólnar
og vetur konungur leggst yfir hér á norðurhjara.
Sumarið er tíminn sem við njótum bestu gæða landsins
okkar.

Sumar fyrir vestan.
Við búum vel,

að eiga svona land,

ósnortið og fallegt.

Móðurástin söm við sig! Teygir
sig út yfir gröf og dauða.

mánudagur, október 10, 2005

Ég er......

yfir mig rasandi, á tíðindunum úr Hæstarétti.

sunnudagur, október 09, 2005

Fyndið...!

Kona ein var á gangi seint um kvöld þegar hún gekk framhjá Geðsjúkrahúsi. Þar sér hún nakinn mann birtast hjá spítalanum og án þess að hugsa sig um þá tekur hún til fótanna og hleypur eins og hún mögulega getur. Hún sér að maðurinn tekur á rás líka og hleypur á eftir henni! Hún er orðin dauðþreytt og kemur í húsasund þar sem hún er innilokuð og sér manninn ganga að sér kviknakinn. Hún leggst skelfingu lostin á götuna og hugsar að það sé best að gera allt sem hann segir. “Ekki meiða mig, ég skal gera allt sem þú vilt,” segir hún gráti næst og vonar það besta. “Allt sem mig langar til,” segir karlinn og hnyklar brýrnar um leið og hann hallar sér að henni. Konan dregur veskið sitt að sér og hniprar sig saman þegar maðurinn segir, “Klukk...þú ert hann og nú átt þú að elta mig!”

Já, ekki er alltaf allt eins og sýnist í þessari veröld.

Njótið dagsins.

föstudagur, október 07, 2005

Annir.

Dottinn í miðannarprófin og varla viðræðuhæfur. Það er góður kostur hvað tíminnn líður hratt á gervihnattaöld, allavega hvað skólann varðar, það er nefnilega svo gott þegar vorið kemur og prófin að baki.

Mér finnst skondið að fylgjast með hrokagikknum Hannesi Hómsteini reyna að koma eignum sínum undan. Jón Ólafsson á svo sem ekkert inni hjá honum að mínu mati. Það er bara svo pínlegt fyrir Hannes að vera að gera tilraun til undanskots á svona augljóslega aulalegan hátt.

Baugsfrasinn hljóðnar í rólegheitunum enda búið að segja allt sem hægt er að segja um það mál. Nú er bara að bíða eftir hvaða lokaorð Hæstiréttur hefur um málið. Ýmsir aukafarþegar hafa flotið með í þessari umræðu. Allskyns óþverri og hnýsni í persónulega hagi fólks og birting persónulegra samskipta þeirra hefur gert þetta mál að sora sem á sér fáa líka í sögunni ef nokkra. “Apaspil” sögðu feðgarnir, ætli þeir hafi gleymt hverjir eru aðalleikararnir í apaspilinu.
Samt sem áður verður fróðlegt að skoða lyktir málsins og hvaða lærdóm má svo
draga af þessu öllu. Eitt er víst, að þetta mál verður í kennslubókum lagadeilda í framtíðinni.

Það var líkt Dabba kóngi að hætta á tindinum. Honum tekst einhvernveginn að tímasetja hlutina vel og oft betur en aðrir sem gjarnan verða þaulsetnir og detta í þá gryfju að halda að þeir séu ómissandi. Yfirseðlabankastjóri er feit staða á hliðarlínunni, sjálfstæði stöðunnar er mikið, nánast eins og dómarasæti og þess eðlis að hún þarf ekki að hlusta á pólitíkusa. Dabbi kóngur ræður því áfram.
Þetta er nútímasinfónía. En svona er Ísland í dag.

Ég ætla að eyða helginni við bókalestur.

miðvikudagur, október 05, 2005

Fé leg sending..

í orðsins fyllstu.
Fékk þetta sent í morgun. Finnst þetta reyndar svo fyndið að ég má til með að deila þessu með ykkur.

Að bera fé: Afklæða kind
Aflafé: Kindur sem stunda veiðiskap
Áhættufé: Fífldjarfar sauðkindur
Eigið fé: Kindur sem maður á sjálfur
Fégirnd: Afbrigðileg kynhneygð (Að girnast sauðfé)
Fégræðgi: Að vera einstaklega sólginn í sauðaket
Féhirðir: Smali
Félag: Lag sem samið er um sauðfé
Félagi: Sá sem leggur lag sitt við sauðfé
Félegur: Eins og sauður
Féleysi: Þegar skorið hefur verið niður vegna riðuveiki
Fjárdráttur: Samræði við kind
Fjárhagur: Einhver sem er afar laginn við sauðfé
Fjárhirslur: Geymslur fyrir sauðfé
Fjárlög: Mörg lög sem samin eru um sauðfé
Fjármagn: Þegar margar ær koma saman
Fjármál: Tungumál sauðkinda/jarm -Tóndæmi (muna að kveikja á hátölurum)
Fjármálaráðherra: Yfirsmali
Fjármunir: Lausamunir í eigu sauðkinda
Fjárnám: Skóli fyrir kindur
Fjárplógsstarfsemi: Jarðyrkja þar sem sauðfé er beytt fyrir plóg
Fjársöfnun: Smalamennska
Fjárútlát: Þegar ærnar eru settar út á vorin
Fjárvarsla: Það að geyma kindur
Fjárveitingar: Þegar boðið er upp á sauðaket í matarboðum
Fjáröflun: Smalamennska
Fundið fé: Kindur sem búið er að smala
Glatað fé: Fé sem ekki hefur komið aftur af fjalli
Grímsá: Kind í eigu Gríms
Handbært fé frá rekstri: Kindur sem menn hafa gefist upp á að reka og ákveðið að bera á höndum sér
Hlutafé: Súpukjöt
Langá: Einstaklega löng kind
Lausafé: Kindur sem eru lausar á afréttinum
Norðurá: Kind að norðan
Opnibert fé: Fé í eigu ríkisins
Sauðburður: Þegar handbært fé er borið að á milli staða
Sparifé: Kindur sem ekki eru notaðar hversdags
Stofnfé: Fyrstu kindurnar sem maður eignast
Tryggingafé: Öruggt sauðfé
Veltufé: Afvelta kindur
Þjórfé: Drykkfelldar ær
Þverá: Þrjósk kind

Meeeeeeeee eeeeð ólíkindum skondið.

sunnudagur, október 02, 2005

Helgin góð...

Angan af gamalkunnri sveitalykt fyllti húsið okkar þennan morguninn. Erla og dæturnar tóku slátur í gær, ég var afar ánægður með þetta framtak þeirra, dugnaðarforkar. Afraksturinn kraumaði í potti og skapaði þennan ágæta ilm núna í morgunsárið.
Þetta er ódýr og afskaplega góður matur. Erlu fannst reyndar sviðin ekki fögur þó þau brostu sínu fegursta upp úr pottunum í gærkvöldi. Allt verður þetta samt dýrindisfæða.
Veit ekki hvort ég eigi að segja frá því en..... ég skrapp aðeins í veiði í gær, setti inn nokkrar myndir á http://veidimadurinn.blogspot.com/.
Laganámið gengur vel, er núna á kafi í verkefni í verðbréfamarkaðsrétti. Einkunnir eru ásættanlegar, ef allt gengur að óskum verð ég á endanum lögfræðingur.
Ég verð bara að segja að ég er ánægður með lífið eins og það er.