föstudagur, október 07, 2005

Annir.

Dottinn í miðannarprófin og varla viðræðuhæfur. Það er góður kostur hvað tíminnn líður hratt á gervihnattaöld, allavega hvað skólann varðar, það er nefnilega svo gott þegar vorið kemur og prófin að baki.

Mér finnst skondið að fylgjast með hrokagikknum Hannesi Hómsteini reyna að koma eignum sínum undan. Jón Ólafsson á svo sem ekkert inni hjá honum að mínu mati. Það er bara svo pínlegt fyrir Hannes að vera að gera tilraun til undanskots á svona augljóslega aulalegan hátt.

Baugsfrasinn hljóðnar í rólegheitunum enda búið að segja allt sem hægt er að segja um það mál. Nú er bara að bíða eftir hvaða lokaorð Hæstiréttur hefur um málið. Ýmsir aukafarþegar hafa flotið með í þessari umræðu. Allskyns óþverri og hnýsni í persónulega hagi fólks og birting persónulegra samskipta þeirra hefur gert þetta mál að sora sem á sér fáa líka í sögunni ef nokkra. “Apaspil” sögðu feðgarnir, ætli þeir hafi gleymt hverjir eru aðalleikararnir í apaspilinu.
Samt sem áður verður fróðlegt að skoða lyktir málsins og hvaða lærdóm má svo
draga af þessu öllu. Eitt er víst, að þetta mál verður í kennslubókum lagadeilda í framtíðinni.

Það var líkt Dabba kóngi að hætta á tindinum. Honum tekst einhvernveginn að tímasetja hlutina vel og oft betur en aðrir sem gjarnan verða þaulsetnir og detta í þá gryfju að halda að þeir séu ómissandi. Yfirseðlabankastjóri er feit staða á hliðarlínunni, sjálfstæði stöðunnar er mikið, nánast eins og dómarasæti og þess eðlis að hún þarf ekki að hlusta á pólitíkusa. Dabbi kóngur ræður því áfram.
Þetta er nútímasinfónía. En svona er Ísland í dag.

Ég ætla að eyða helginni við bókalestur.

Engin ummæli: