laugardagur, október 22, 2005

Laugardagsþanki

Mikið geta helgar verið yndislegar. Yngsta dótturdóttirin heimsótti afa sinn og ömmu í fyrsta skipti í morgun ásamt sinni frábæru fjölskyldu. Það var gaman að fá þau í heimsókn....... ætlaði að segja litlu fjölskylduna, en hún er svo sem ekkert svo lítil lengur.
Við vorum svo á ferðinni í dag, frúin og ég. Fórum meðal annars á Lindarmarkaðinn. Þar kennir ýmissa grasa. Við keyptum ljós í verðandi kofann okkar. Gamaldags inniljós og tvö útiljós á veröndina, samanlagt á 3000 kall. Ekki svo íþyngjandi það. Kofinn á nefnilega að verða gamaldags.
Við keyrðum svo um borgina, kíktum eftir verslunarhúsnæði, svona ef okkur dytti eitthvað sniðugt í hug. Keyptum ís og áttum virkilega notalegt spjall um lífsins gang og nauðsynjar.

Við vorum í smá heimspekilegum vangaveltum meðan við bræddum ísinn og rúntuðum. Við vorum að velta fyrir okkur þeim hópi fólks sem er sífellt að leita leiða til að “vera eitthvað”.
Þetta er óskýrt hugtak en er oft mjög áberandi í fari sumra. Þetta er væntanlega sprottið uppúr jarðvegi minnimáttarkenndar, allavega öryggisleysis.
Það er eitthvað dapurlegt við þetta. Þetta er eitthvað ímyndað kapphlaup við ósýnilega keppendur. Þetta eru þeir sem ekki hafa náð að greina kjarnann frá hisminu í lífinu, hvað er ekta og hvað ekki.

Er slæmt hlutskipti að vera bara “maður sjálfur” án jólaskrauts og grímu?. Er nauðsyn að keppa að því að vera eitthvað annað. Er ekki sóun á tíma og tækifærum að ríghalda í einhverja óskilgreinda stöðu, ímyndaðs virðingarstiga, sem veitir einungis fróun þránni til að vera eitthvað. Leitun á viðurkenningu.
Það er ömurlegt hlutskipti að vera að eltast við eitthvað sem er ekki. Sýnast fyrir einhverjum sem skiptir ekki máli. Þrá eitthvað sem maður veit ekki. Látast vera eitthvað annað en maður er. Þóknast einhverjum í von um stundarupphefð og lifa þannig tvöföldu lífi, í gerviheimi, innantómum og leiðinlegum.
“Smásálir”, passar einkar vel við þennan hóp.
Eru þetta örlög?
Nei ákvörðun.
Ég held það sé þetta sem höfundurinn meinti í hnotskurn með orðunum “eftirsókn eftir vindi”

Svo sjáum við hinn hópinn. Sem “er eitthvað” bara vegna þess sem þeir fæddust með úr egginu. Þeir eru ekkert að reyna að geðjast eða samsama sig við aðra. Þeir bara “eru” rétt si sona.

Við vorum sammála hjónin, að fyrrgreindi hópurinn er fyrirferðameiri, enda er það prinsippið í þeim hópi.
Það er góð uppskrift að vera maður sjálfur - án skrauts og grímu.

Njótið lífsins vinir - á ykkar eigin forsendum.

4 ummæli:

Kletturinn sagði...

You know it, í hvorum hópnum ert þú? hehehehehe, grunar svo sem svarið þitt en látum á það reyna.

Nafnlaus sagði...

Sæll kæri mágur!

Nú er ég svo sannarlega sammála þér. Vildi að sem flestir létu sér nægja að vera þeir sjálfir...fólk er mun skemmtilegra þegar það er ekki að leika í einhverju "leikriti".

Að lokum ...til hamingju með litlu Þóreyju Erlu sem er bæði falleg og ber fallegt nafn :c)

Erling.... sagði...

Takk fyrir það Sirrý mín, sammála þér.

Kiddi, ég er lítil sál í hörðum heimi að reyna að skilja þessa sinfóníu. Læt liggja milli hluta hvorn hópinn ég fylli enda kannski ekki alltaf skýr mörkin á milli. En ég get alveg sagt þér hvorn þú skipar.

Íris sagði...

Þetta er alveg rétt hjá þér!! Ég held að ég detti nú stundum inní það að leika leikrit en auðvitað er best að vera bara maður sjálfur og vera ánægður með það! Það er nú samt ekki alltaf svo auðvelt en maður reynir!!