mánudagur, september 29, 2008

Fallvaltur auður

Svona eru heimsins gæði. Milljarðar gufa upp eins og vatnsdropi á sjóðheitri pönnu. Ástandið í heiminum (fjármála) er ótrúlegt. Íslenska fjármálakreppan ætlar að verða litríkari en maður hélt. Glitnir á hausinn, hvað næst? Kemst samt ekki hjá þeirri hugsun að ráðstöfun Seðlabankans gæti verið einn á túlann hans Jóns Ásgeirs með kveðju frá Dabba kóngi. Svona rétt til að minna á hver ræður. Jón Ásgeir tapar sennilega mest allra á þessu.
Pólitísk refskák held ég.

sunnudagur, september 21, 2008

Krepputal og fleira

Lífið heldur áfram hjá okkur hér við ána. Litir náttúrunnar bera vitni um árstíðina sem tók við af sumrinu. Haustið hér er fallegt. Græni liturinn er farinn að víkja fyrir gullnum og rauðum litum haustsins. Áin er í nokkrum ham núna enda mikið búið að rigna. Hún gleður alltaf augað, þótt hún skipti skapi.
Rigningin er góð, vatnið er blessun sem við gerum okkur ekki grein fyrir. Það opnaði svolítið fyrir mér augun að koma á skraufþurran stað eins og eyðimörkina Egyptaland og sjá hvað vatnið er ótrúlegur lífgjafi. Stundum finnst manni samt nóg um. Það væri sanngjarnara að blanda þessu svolítið meira, hrista saman veðrakerfin og senda þeim smá gusur suðureftir og fá sólarskammt í staðinn.

Dætur okkar Hrund og Arna eru að leggja land (loft) undir fót. Þær eru á leið til Toronto í Kanada. Þar er kristilegt mót sem þær ætla að dvelja á í vikutíma. Við Erla verðum með litlu dætur Örnu á meðan. Í Toronto eru miklar hræringar í gangi. Hlutir sem margir kristnir (þar á meðal ég) hafa sett spurningamerki við. Ég hef hinsvegar verið að skoða þessa hluti ásamt minni heittelskuðu. Við höfum færst nær einhverri niðurstöðu. Það er greinilega vakning meðal kristinna og nýir vindar blása. Sumt hef ég ekki skýringu á, annað er augljóst t.d. ljósdoppurnar á ljósmyndum, ég næ alls ekki hversvegna því er ekki hent út, heyri marga ennþá tala um þetta sem engla. Ætla ekki að setja á prent hvað mér finnst um það.
Allt um það þá virðist vera hræring í gangi sem er vel þess virði að skoða... vandlega. Kirkjumenning okkar er svo fastmótuð að það getur reynst mörgum erfitt að meðtaka nýja hluti. Þetta fellur sennilega undir dæmisögu Krists um vínið og belgina. Maður setur ekki nýtt vín á gamla belgi því þeir springa.... nýtt vín á nýja belgi segir ritningin...!
Það er svo kannski spurningamerki hver er nýr og hver er gamall belgur. Ég er allavega með belg, svo mikið er víst, þarf bara að finna út hversu mikið er farið að slá í hann.
....Hvað sem um þetta allt má segja hef ég slakað allmikið á handbremsunni, vitandi að Guð er auðvitað miklu stærri en ramminn sem ég hef smíðað kringum hann í huga mínum.

Kreppan margumtalaða sem öllu tröllríður þessa dagana hefur blessunarlega ekki komið mikið við okkur hér við ána. Okkar kreppuár eru vonandi að baki. Sú blessun hefur fallið mér í skaut að hafa nóg að gera, bæði í smíðunum og lögfræðinni. Lexor hefur ekki skort verkefni í einn dag og virðist af nógu að taka þrátt fyrir tal um annað. Sjáum hvað setur.

Ég heyrði útundan mér um daginn að þeir sem ekki tóku þátt í fylleríi þenslunnar séu ekki með krepputimburmenn núna. Fannst þetta athyglisverð setning og verð umhugsunar. Samt blasir við að þó fólk geti sjálfu sér um kennt þá eru sjálfskaparvítin ekkert betri en önnur víti.
Við hjónin höfum hugsað mikið um hvernig hægt sé að hjálpa fólki sem nú er spriklandi í hengingaról mammons. Gríðarleg fjölgun aðfararbeiðna liggja fyrir sýslumönnum og ljóst að fólk og fyrirtæki stefna mörg í gjaldþrot. Við höfum gengið í gegnum þennan dimma dal sem gjaldþrot er og tekið út refsinguna sem samfélagið leggur á mann í kjölfarið, að teljast annars flokks þegn sem ekki er treystandi og vera á svörtum lista lánastofnana. Við finnum því vel fyrir sársaukanum sem fólk engist í þessa dagana.
Ég veit að hvorki við eða einhverjir aðrir eigum einhverja skyndilausn sem bjargar öllu, en kannski eigum við í reynslubankanum innistæðu sem væri lag að taka út núna og leggja á borð fyrir þá sem þurfa á að halda. Það er hugsanlegt að koma megi í veg fyrir gjaldþrot ef nógu snemma er gripið inn í aðstæður. Eins þarf kannski að kenna sumum, ef gjaldþrot er óumflýjanlegt, að það er til líf eftir gjaldþrot.
Bara hugmynd.

Ætlum að skreppa aðeins austur á Föðurland á eftir......