föstudagur, janúar 25, 2013

Það tiklar í....


... prjónum í bland við hávaðann utan frá en Kári er að ybba sig eitthvað núna þó hann hafi nú verið ótrúlega til friðs það sem af er vetri, hér sunnanlands allavega. Tækniöld og gamli tíminn takast á hér á þessum bæ. Tölvutæknin hefur algerlega tröllriðið þessu heimili síðustu misserin. Það má best sjá af þvi hvernig við eyðum tímanum þetta augnablik í stofunni okkar sem ég skrifa þessar línur því tiklið í prjónunum hljóðnar annað slagið, frúin fylgist vel með og kíkir reglulega í spjaldtölvuna sína og tékkar á fólkinu sínu og vinum meðan ég sit hér hinum megin með tölvuna í fanginu og lappir upp á brík og þykist skrifa eitthvað merkilegt. Hinsvegar er svo vinalega gamla tikkið og slátturinn í gömlu klukkunni sem á ekkert skylt við tölvur eða nútímann.
Það getur vel verið að það falli ekki að lífsskoðun allra að eyða heilum degi í svona leti (þessi partur pistilsins er skrifaður á sunnudegi) en einhvern veginn virðast svona dagar fylla á batteríin og gefa nauðsynlega orku fyrir störf vikunnar framundan.
Í helgri bók segir að maður skuli taka hvíldardag og gera ekki neitt. Það eru gild sannindi líkt og í svo mörgu öðru í þeirri bók.

það er mér hugleikið að skoða hagi fólks hér á árum áður, hvernig forfeður okkar og mæður höfðu það. Ég hef því stundum lesið mér til um hagi fólks í kreppunni sem var hér á öndverðri 20 öld eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þá var ekki til eldsneyti í landinu, kuldinn var að drepa fólk, atvinnuleysi mun alvarlegra en nú, byggingarefni ekki til og óðaverðbólga í ofanálag. Frostaveturinn mikli 1918 og spænska veikin lögðust svo ofan á þetta allt. Sem dæmi um ástandið stóð til að loka barnaskóla í Reykjavík en við það var hætt því það var eini tími sólarhringsins sem börn gátu ornað sér við heita ofna.
Þá var einnig sett á laggirnar svokölluð dýrtíðarnefnd sem átti að finna út úr þvi hvernig útvega mætti fólki soðfisk á lágu verði.
Úr varð nokkurskonar mæðrastyrksnefnd sem úthlutaði ódýrum fisk og mjólkurseðlum til barnafjölskyldna.
Kaffi t.d. var lúxus sem fáir gátu veitt sér.

Ég geri ekki lítið úr örlögum þeirra sem ekki hafa í sig og á í dag en ég held eftir að hafa skoðað kjör fólks í gömlu kreppunni þá sé núverandi kreppa barnaleikur.
Ég nefni þetta krepputal sennilega vegna þess hversu mér finnst oft við hafa það gott í dag í okkar heitu húsum, með rjúkandi kaffibolla  án þess svo mikið sem detta í hug að það hafi einhverntíman flokkast sem lúxus eða svo margt annað sem við erum hætt að taka eftir, skreppa bæjarferð í heitum lúxus á hálftíma, eða bara skrúfa frá "sjálfrennandi vatni inn fyrir vegg" eins og afi sagði það.

Að allt öðru, þá styttist í dómsdag. Vonandi ekki endadægur en samt dómur sem skiptir okkur Íslendinga miklu máli hvernig fellur. Icesave dómurinn verður kveðinn upp á mánudaginn. Ég verð að segja að ég hef ekki mikla trú á að hann falli okkur í vil. Vonandi samt, þó það þýði að ég hafi haft rangt fyrir mér.
Ef hann hinsvegar fellur eins og ég óttast þá er ég að hugsa um hvort ekki sé hægt að láta þann meirihluta sem kaus (ekki meirihluta þjóðarinnar) að hafna samningum taka á sig skrekkinn ef illa fer :-) Það er jú á ábyrgð þeirra sem höfnuðu samningum með forsetann í fararbroddi að þetta er komið til dóms.
Það er reyndar best að sjá hvernig fer áður en maður heggur mann og annan.

Njótið daganna.