laugardagur, desember 31, 2011

Gömlu göturnar...

Árið hefur einkennst öðru fremur af neikvæðum fréttaflutningi, af kreppunni margumtöluðu, óráðsíu af ýmsum toga, mótmælum, byltingum, jarðskjálftum og stríði um víða veröld. Oft setur mann hljóðan og maður spyr sig hvert erum við að fara, þó auðvitað sé líka margt jákvætt og gott á ferðinni?

Öll þessi neikvæða umræða grefur um sig í sálartetri þjóðarinnar og bætir ekki ástandið. Mig setur oft hljóðan yfir fréttaflutningi, ekki síst þegar rætt er um stöðu kristinnar trúar og kirkjudeilda í landinu okkar, það heggur nærri mér. Þjóðkirkjan og mörg trúfélög eru í helgreipum orðaskaks og átaka um hluti sem kristin kirkja ætti aldrei að vera bendluð við. Það er svo komið að þjóðin holdgerfir kristni við misnotkun af ýmsum toga, ekki síst gagnvart börnum og það sárasta er að hún á innistæðu fyrir því.

Eins og kjarninn í orðum Krists er gullvægur og góður virðist sem hann sé gufaður upp og heyrist ekki, því hismið og dauðu kvistirnir hylja það góða fagra og fullkomna sem felst í orðum Krists. Innsti kjarni þessara orða, "Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan", fellur siðferðislega og í raun, undir lífsspeki sem allir geta sameinast um, trúaðir eður ei. Þessi orð flísfalla undir "hið góða fagra og fullkomna" sem kristin trú felur í sér.
Það er meira að segja svo að fáir myndu neita því, ekki einu sinni hörðustu trúleysingjar, að Ísland væri betur sett ef þessi kjarnaboðskapur væri í hávegum hafður og ekki síst hjá kirkjunnar þjónum.

Mér flaug í hug hið fornkveðna orð ritningarinnar, "Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld" því mér sýnist einhvernveginn að þessi orð eigi vel við í dag þ.e.a.s. ef ég leyfi mér að kalla orð Krists "gömlu göturnar".
Orðin eru þarna ennþá, gamli stígurinn er þarna enn einhversstaðar undir draslinu.

Græðgisvæðingin hefði varla fengið þennan byr í seglin eins og raunin var ef þessi gömlu sannindi hefðu verið leiðarljós. Þessi kærleiksboðskapur er í eðli sínu hljóðlátur en skín skært þar sem hann er viðhafður, hann felst í hjálp við náungann, virðingu og mannlegri reisn. Það er því sorglegra en tárum taki að það skuli vera tilteknir kirkjunnar þjónar sjálfir, settir boðberar þessa góða boðskapar sem hafa öðrum fremur kaffært hann með illum gjörðum sínum, skólabókardæmi um hvernig skemmt epli eyðileggur allan eplakassann.

Ég vona að kristin trú færist nær kjarna sínum á árinu sem er að heilsa okkur og að þjónar kirkjunnar færist nær hlutverki sínu og verði þeir boðberar ljóss og friðar sem þeim er ætlað að vera.

Ég þakka lesendum mínum fyrir góða samfylgd hér á bloggsíðunni og þakka fyrir heimsóknir ykkar hingað sem eru langleiðina í að vera fimmtíu á dag.
Eigið jákvætt og farsælt ár framundan og... Guðs blessun í ríkum mæli.

mánudagur, desember 26, 2011

"Afi, hvernig er að vera afi"...

...var spurt úr fanginu á mér í gær og spyrjandi og saklaust augnaráð vænti svars. Það er alveg æðislegt því ég á svo mörg yndisleg barnabörn eins og til dæmis þig. Orðalaust fékk ég þétt faðmlag um hálsinn og breitt bros, engin orð.
Ég hef verið að hugsa um þetta í morgun og finn með sjálfum mér hvað ég nýt mikilla forréttinda að fá að lifa það hlutverk að vera afi. Það eru ekki ónýt jól sem ná að fanga hugann með þessum pælingum.

Afahlutverkið er beint framhald af pabbahlutverkinu sem ég hef alltaf notið í æsar og fundist ég ríkur maður þótt veraldlegt ríkidæmi hafi stundum fetað sig framhjá okkur.
Ég skal viðurkenna að ég hugsaði nánast aldrei um afahlutverkið, var of upptekinn af pabbahlutverkinu. Ég gerði mér einhvern veginn aldrei ljósa grein fyrir því að bónusinn fyrir að ala upp stóran barnahóp væri enn miklu stærri afabarnahópur. Samt átti ég mér einhverja óljósa mynd af því að þegar dæturnar flyttu að heiman yrði heimilið okkar alltaf einhverskonar miðstöð fyrir þær og fólkið þeirra.
Árin líða hratt og óljósa myndin mín er orðin kristaltær og afar falleg og prýðir heimilið okkar framar öllu öðru.

Afi, hvernig er að vera afi? Það er lífið sjálft í mínu tilfelli. Það gefur mér þann stað að vera pabbi og tengdapabbi sem enginn annar hefur innan þessa yndislega hóps sem ég á og svo kórónuna sjálfa... að vera afinn sem allur þessi litli barnaskari á. Það gefur svo hlutverkinu aukið vægi og vigt að barnaskarinn virðist hafa ánægju af nærveru minni og ömmunnar sem, eins og allir vita sem til þekkja, er einstakt eintak. Fornafn hennar kalla ég "eðal"... og svo má bæta við mamma, amma, eiginkona, vinkona og svo allt hitt sem ég nefni ekki.

Já, afinn á þessum bæ, pabbinn, eiginmaðurinn, smiðurinn, lögfræðingurinn og allt hitt sem hægt er að skreyta sig með er lukkunnar pamfíll vegna þess að þegar hann lítur um öxl er hann sáttur og ef hann lítur fram á veginn hefur hann ríka ástæðu til að hlakka til því ríkidæmið hans liggur ekki í veraldlegu drasli heldur í fólkinu hans og það er ekkert annað en... fljótandi, fljótandi auðlegð.

laugardagur, desember 24, 2011

♫ ♫ Jólin eru að koma ♫ ♫

Friður sé með þér og fögnuður um jólin. Já jólakveðjurnar og lögin óma um húsið og það er ilmur af jólum því hamborgarhryggurinn mallar á hellunni og gefur fyrirheit um góða samveru við sig um sexleytið. Erlan setti upp grautinn áðan en það er kúnst að hantera hann rétt. Hún hefur alltaf haft það hlutverk að sjá um hann en nú er það ég sem fæ það verkefni því frúin ákvað að hafa opið í Basic plus og Home design í tvo tíma á aðfangadag.

Við verðum fimm hér í kvöld, já þú last rétt, við Erla og Hrund og svo buðum við Önnu sem vinnur hjá okkur í Basic plus að vera hjá okkur ásamt dóttur sinni. Hún er frá Rússlandi og býr ein, það lá því vel við að bjóða henni að vera með okkur.

Það hefur hækkað eitthvað í græjunum hér á bæ, alveg rétt Hrundin er komin heim úr búðinni og syngur hástöfum með eins og henni einni er lagið. Við erum að undirbúa hádegismatinn hér sem verður tilbúinn þegar Erlan kemur úr búðinni, en það er hefð fyrir honum hér eins og flestu öðru um jólin. Laxinn, lifrarkæfan, síldin og allskonar góðmeti er á borðum. Sætindi eru löngu farin af jólaborðum hér og í staðinn erum við með svona gourmet í staðinn, bæði hollara og betra.
Jæja ég ætla að fara og hjálpa Hrundinni að gera klárt.

Ég óska ykkur vinir gleðilegra jóla og njótið daganna framundan.

föstudagur, desember 23, 2011

Þorláksmessu- eða eitthvað annað þetta og hitt

Skötuát á þorláksmessu er eftir því sem ég best veit ekki gamall þjóðlegur siður nema á vestfjörðum þar sem siðurinn er ævaforn, heldur markaðssetning á matvöru sem varð vinsæl á afmörkuðu svæði. Ekki var um að ræða neina munaðarvöru heldur fisk sem hægt var að geyma líkt og siginn fisk. Skötuát á þorláksmessu kemur úr kaþólskum sið því á föstunni mátti ekki borða góðan mat heldur átti það að bíða til jólanna. Skatan veiddist bara á vestfjarðamiðum á þessum tíma hér áður og því kemur siðurinn að vestan, svona fyrir ykkur fróðleiksþyrsta. Sunnanlands var t.d. rýrasti harðfiskurinn soðinn á þorlák.

Ég verð að segja að ég kann mun betur við að endurvekja rammíslenska siði og venjur eins og skötuát frá fyrri tíð heldur en þessar amerísku mýtur sem tröllríða hér annað slagið t.d valentínusardagur, þakkargjörðardagur, hrekkjavöku og allskyns aðrir dagar og siðir sem við erum að eltast við.
Þessir dagar eiga þó það sameiginlegt að verslun með það sem fylgir þessu er drifkrafturinn á bak við markaðssetninguna, það er hægt að græða á þessu.

Það er svo auðvitað val hvað maður setur upp í sig og lætur vel líka. Amerísku mýtunni fylgir yfirleitt eitthvað bragðvond en aftur á móti þeirri íslensku eitthvað gott og kjarnmikið.
Ég er reyndar svolítill villimaður þegar kemur að mat. ég er til dæmis með hrátt hangiketslæri hér á eldhúsborðinu og fæ mér flís annað slagið og þykir það ómótstæðilega gott. Skatan er líka í uppáhaldi hjá mér þó mér finnist gott að hafa hana bara einu sinni á ári. Siginn fiskur er fínn og hákarl er afbragð.

Ég fékk senda skötu að vestan frá fólki sem við kynntumst í Austurríki í sumar. Við hittumst Erlu fjölskylda í dag hjá Sirrý og Guðjóni og snæðum hana saman, það er að segja þeir sem kunna að meta þetta góðgæti.

Jólin á morgun og allt að gerast.
Njótið áfram.

miðvikudagur, desember 14, 2011

Aðventan á fullri ferð

Aðventan held ég sé í hugum flestra tími kertaljósa og huggulegheita og ég held að það sé einmitt formúlan að því að gera þennan tíma að tíma tilhlökkunar og eftirvæntingar eins og hann þarf að vera.
Það hefur oftast verið þannig í mínu lífi að þessi tími hefur verið frekar rólegur miðað við árið í heild, nema síðustu árin sem hafa einkennst af prófatörn á þessum tíma og svo núna er ég á kafi í framkvæmdum svo það fer lítið fyrir rólegheitunum þessa dagana.
Ég ætla samt að taka einn aðventufrídag þar sem við Erlan gerum ekkert nema njóta lífsins og dinglumst í bænum, hittum krakkana og gerum eitthvað úber skemmtilegt, svo maður sletti aðeins.
Vinnudagur í dag og sjáum svo til. Njótið dagsins.

sunnudagur, desember 11, 2011

Skammgóður vermir.

Um leið og hlýnaði fór að snjóa. Ég held að það sé skárra að hafa frostið en snjókomu og skafrenning. Annars er veðrið ekkert að stressa mig þessa dagana, bjart og kalt er ágætis jólamánaðarveður.
Við ætluðum í leikhús í gærkvöldi en hættum við. Það var hvort tveggja snjókoman og væntanlega bylur á heiðinni og svo vorum við frekar lúin eftir törn undanfarinna daga. Það var ágætt að vera bara heima í rólegheitunum og horfa á ræmu.

Það er drifhvít jörð og fallegt að sjá ána á svona rólegheitamorgni, alltaf jafn falleg og friðsæl. Það var einstakt að fylgjast með henni þegar frostið var mest á dögunum því þá gufaði af henni eins og hún væri volg. Hún var það auðvitað ekki en hún var samt heitari en lofthitinn og því rauk svona af henni. Umhverfið fór ekki varhluta af þessu því tré og runnar og raunar allt umhverfið varð loðið af ísnálum þegar ísköld gufan festist á hverju sem er og úr varð mjallhvít mynd af umhverfinu. það var gríðarlega fallegt, dulúðugt meðan gufan læddist um og einkar jólalegt. Eftir snjókomu næturinnar er enn jólalegra hér, snjór á greinum, stafalogn og sólin skín lágt á himni, hún gerir það ekki lengi því það styttist óðum í stysta sólargang.

Frúin mín er loksins komin niður af efri hæðinni, þá fer gamli og skenkir í tvo bolla af rjúkandi kaffi. Það eru lífsgæði að njóta svona morgna saman réttu megin glersins, spjalla um lífsins gang og virða fyrir sér fannhvítt útsýnið og ána mála síbreytilegu málverkin sín.
Hreinasta afbragð.

þriðjudagur, desember 06, 2011

Morgunsnjókoma og Kári

Á svona morgnum þar sem vindurinn ýlfrar á glugganum og þétt snjókoman ýrist niður svo varla sér milli húsa langar manni ekkert sérstaklega að fara út. Þegar hlýjan innandyra umvefur og frúin enn sofandi á efri hæðinni virðist það hreinlega vera fjarstæðukennt, en... er eitthvað spurt að því? Á mínum uppvaxtarárum var það ekki gert.
Í dag á ég til að leyfa mér að fara svolítið seinna af stað ef þannig vill til, ef það kemur ekki niður á neinu sem ég er að gera. Ég flokka það sem hagræðingu á vinnutíma, get ekki viðurkennt að það sé hreinræktuð leti.

Nýja ísbúðin er á dagskrá dagsins þ.e. vinna við innréttingu hennar. Ekkert verður eins og var, allt breytt. Ég mun sakna alls plássins og þess að sjá heilu fjölskyldurnar sitja til borðs og njóta ísréttanna okkar, en þetta er eins og lífið sjálft, allt undirorpið breytingum.

En nú er kominn tími til að taka í hnakkadrambið á sjálfum sér og hespa sér af stað að gera eitthvað af viti... eftir einn kaffibolla.

Njótið dagsins í snjókomunni gott fólk.

laugardagur, desember 03, 2011

Vorhljóðí lofti...

...hreinasatt og engin lygi, næstum að ég finni vorilminn líka. Það er raunar brunafrost og snjór, áin ísköld og freðin. Það má samt láta sig dreyma. Ég er með upptöku í gangi í tölvunni frá því í maí af Fitinni þegar fuglasinfónían var í algleymi. Þetta er voðalega notaleg upptaka og minnir á hlýjar og bjartar vornætur á Föðurlandi. Ég læt mig dreyma um vor og fuglasöng í lofti búandi í mínu hlýja húsi með allt til alls.
Hvernig ætli forfeðrum okkar hafi liðið hugsandi til vorsins, hímandi í dimmum, köldum, óeinangruðum og saggafylltum torfhúsum, þar sem eini ylurinn var af húsdýrum og hlóðunum í eldhúsinu. Það hefur verið köld vist og löng, ég veit ekki hvort hefur verið betra, hörkufrost eða umhleypingar því húsin héldu oft illa vatni og láku meira og minna. Eftirvæntingin eftir vorinu hlýtur að hafa haft aðra og fyllri meiningu þá en nú og tíminn hefur silast áfram.
Tíminn, þetta ólíkindatól silast ekki lengur, hann er eins og við vitum á mikilli hraðferð og það er víst að vorið verður komið áður en við áttum okkur á.

Við Erlan ætlum í bæjarferð á eftir, Katrín Tara á afmæli í dag og við ætlum auðvitað að fara í afmælið, sem minnir aftur á tímann... það er fáránlega stutt síðan við Erla kynntumst, kornung.
Fleygiferð, það er málið, við lifum á fleygiferð.

þriðjudagur, nóvember 29, 2011

Hrafnarnir vinir mínir

Hrafnaklettar heita klettarnir hér beint fyrir ofan húsið. Hrafninum virðist líka vel að vera hér eins og okkur. Frá því að við fluttum hingað hafa alltaf verið hrafnar hér, vetur sumar vor og haust, þeir verpa hér í klettunum og eiga svo vini hér sem gefa þeim æti á veturnar.
Ég hef gaman að þessum blásvörtu nágrönnum okkar og hef oft fylgst með þeim hér út um gluggann, sérstaklega í hávaðaroki, þá leika þeir listir sínar í loftinu. Þeir hafa líka oft vakið mig með hávaðanum í sér hér á þakinu eldsnemma á morgnana.

Það er samt vonandi bara kvef sem hrjáir mig þessa dagana því röddin í mér er orðin jafn rám og þeirra. Hef reynt að heyra ekki í þeim svo ég komist ekki að því að ég skilji allt í einu hvað þeir eru að segja. Einn krunkaði móti mér í morgun þegar ég kom út, ég bauð honum góðan dag á móti jafn rámur og hann og hann skildi mig, ég get svo svarið það...!

Kvef hef ég ekki fengið lengi, þökk sé hvítlauknum... hef ég haldið. Kannski kominn tími á að auka við hvítlauksskammtinn og sjá hvort ég endurheimti ekki röddina, þessa venjulegu, kann betur við hana.

sunnudagur, nóvember 27, 2011

Morgunverðarborðfélagar

Það er svo gott að sitja í þögninni og gera ekkert á svona friðsælum morgnum eins og þessum. Fréttablaðið frá í gær var borðfélaginn minn ásamt kaffibollanum mínum og frú Leti bankaði upp á og ég bauð henni til sætis líka. Ég horfi út á ána úr sætinu mínu, hún verður alltaf hrímuð og köld þegar kólnar svona. Úti er 5 gráðu frost og það ýrir aðeins úr lofti í logninu sem gerir að verkum að útsýnið líkist þoku og hverfur í grámósku í fjarska.
Einhver náungi er að upplifa náttúruna þarna útfrá og situr í snjónum á árbakkanum, hann virðist vera að hugleiða en kannski er hann bara að njóta sama útsýnis og ég.
Það er öllu þægilegra að vera hérna megin glersins núna þótt útiveran sé auðvitað alltaf góð, maður klæðir sig bara eins og þarf. "Það bíður betri tíma" eins og borðfélaginn skaut að mér áðan.

Það liggur fyrir að hengja upp jólaljósin utan á húsið og auðvitað ætti ég að vera farinn út og hespa því af en Letin situr hér til borðs með mér, ég er gestrisinn og félagsskapurinn er of góður til að ég nenni að brjóta hann upp. Það er auðvitað nær að detta aðeins í gamaldags gír og blogga smá um tilveruna á öðrum nótum en búðarframkvæmdahugleiðinganótum eins og undanfarið.

Borðfélaginn stakk því að mér áðan að nota daginn í dag til ýtrasta til að gera ekki neitt og ég er ekki frá því að það sé snilldarhugmynd hjá honum.
Við Leti ætlum því að eyða deginum saman og gera eitthvað sem hæfir hennar félagsskap. Þið hin eruð velkomin í hópinn ef þið viljið.

laugardagur, nóvember 26, 2011

Allt hefur sinn tíma

Að skapa hefur sinn tíma og að hvíla sig hefur sinn tíma. Nú þarf gamli að hvíla sig og fara að sofa eftir törn undanfarinna daga sem stundum hafa verið annasamir úr hófi fram. Uppskeran náðist í hús í dag, búðin opnaði með pomp og prakt klukkan tólf. Erlan og Gulla, stúlka sem við höfum ráðið til að standa vaktina í Home design tóku á móti gestum og gangandi. Það var nokkuð fjölmennt og við fengum mörg afar jákvæð og uppbyggileg kommnent. Það virðist sem Selfyssingar séu ánægðir með framtakið af viðbrögðunum að dæma. Það á svo eftir að koma í ljós hvort það nær til buddunnar einnig.
Ég er sáttur við útkomuna, það er unninn hálfleikur.

föstudagur, nóvember 25, 2011

Allt á fullu allsstaðar...

Bara svo þið haldið ekki að ég sé á meltunni alla daga þá er búðin að verða tilbúin fyrir opnun. Fæ skiltið utan á húsið í dag, allskyns snurfus og vörurnar í hillur fyrir morgundaginn. Opnum svo á morgun klukkan 12.

Þið vinir mínir og velunnarar eruð öll hjartanlega velkomin til að fagna með okkur og vera viðstödd þessa sögulegu stund :-)

sunnudagur, nóvember 20, 2011

To do list

Var að gera verkefnalista fyrir ofhlaðna vikuna framundan og komst að því að ef takast á að opna á laugardaginn næsta verður að halda vel á spöðunum. Stressaukandi listi í vikubyrjun er gott vegarnesti er það ekki? Hann heldur manni allavega við efnið.
Ég er annars að fara á Hótel Borg síðar í dag og hlusta á yngstu dótturina syngja en hún verður með hálftíma prógramm við opnun á einhverjum menningarviðburði svo verður hún með tvö lög á hátíðinni sjálfri.
Hún er búin að vera hér heima að æfa sig og ég get staðfest að hún er að gera góða hluti stelpan mín.
Mun svo bruna strax aftur heim og halda áfram að smíða búðarborð.
Svona er lífið hér við ána, margbreytilegt og skemmtilegt.

laugardagur, nóvember 19, 2011

Grasekkill á haus

Erlan er á Flórída með saumaklúbbsvinkonum. Ég kann þetta ekkert. "Það er einasta bótin" eins og mamma var vön að segja, að ég er upp fyrir haus í verkefnum þessa dagana svo tíminn líður hratt. Verkið gengur vel og ég sé fram á að geta opnað um aðra helgi eins og til hefur staðið.

En lifandis hvað ég hlakka til að fá eitthvað að borða þegar hún kemur heim, hún gleymdi nefnilega að segja mér hvað ég ætti að borða á meðan og skildi ekkert eftir tilbúið handa mér sem ég gæti til dæmis tekið úr frystinum, sett í örbylgjuofninn og hitað.
Algjör svekkur.

laugardagur, nóvember 12, 2011

Sláturdagur og aðrar annir

Allskyns skríkjur, dýrahljóð og brambolt ómar af efri hæðinni, þar er barnaskarinn, og í eldhúsinu er skrafað og hlegið í takt við kveinið í hrærivélinni sem rembist við að hakka lifrar, nýru, þindar og annað tilfallandi sem troðið er ofan í hakkavélina. Sláturdagurinn mikli sem við höldum einu sinni á ári er í dag.
Það er eins og oft áður þegar við komum svona öll saman að ég fæ einhverja nostalgíu og hugurinn rifjar upp gamlar tíðir þegar þessu líkar uppákomur voru í sveitinni minni forðum, sama skvaldrið og lífsgleðin, sem endar með að allir setjast til borðs og njóta afraksturs dagsins.
Slátur er vinsælt hjá mínu fólki þó það sé á undanhaldi hjá ungu fólki í dag. Þetta er kannski ekki hollasta vara sem finnst en samt er þetta það sem hélt lífi í forfeðrum okkar. Uppskrift mömmu er í hávegum höfð en hún hafði sérstaka hæfileika til að blanda hráefnunum rétt saman en það skiptir sköpum að hafa hárrétta bragðið af þessu. Ég er ánægður með að þessi siður helst við í minni ætt.

Þessa vikuna hef ég verið að smíða úti í búð. Opnun nýju búðanna er handan hornsins. Home design búðin verður opnuð á undan ísbúðinni, já Home design er nafnið á henni og vísar til varanna sem verða til sölu. Við erum búin að panta ýmsar vörur sem verða til sölu hjá okkur. Uppistaðan í vöruúrvali verða "Lín design" vörur en við verðum eina búðin á suðurlandi sem selur þær vörur.
Undirbúningur fyrir opnun sjálfsafgreiðslu ísbúðarinnar er líka í fullum gangi. Það er í mörg horn að líta en mér líkar það vel.

Lífið er til að njóta þess, látið það eftir ykkur gott fólk.

miðvikudagur, nóvember 02, 2011

Sagan og tíminn

Það telst ekki í frásögur færandi að ég sé að flækjast um landið. Í veiðiferðinni um síðustu helgi, arkandi lengst uppi á fjöllum rakst ég á klett. Jú fjöllin eru endalausir klettar en þessi ásamt fleirum þarna í kring hafði skrifað sögu, sem ég gat lesið notabene. Auðvitað er náttúran eitt allsherjar sögusafn en það er sjaldnast sem leikmenn eins og ég geta rýnt í það með nokkrum skilningi.
Þessi klettur var slípaður að ofan og rákaður eftir ísaldarjökul og það sem vakti athygli mína og framkallaði ótrúlega mynd í kollinum, í senn ógnvekjandi og óraunverulega, var stefna rákanna. Klettarnir voru í suðurhlíðum Tindfjalla og því hefði verið eðlilegt að rákirnar sneru niður hlíðarnar frá norðri til suðurs en þær sneru allar í vest- suð- vestur þvert á hliðar Tindfjalla.
Myndin sem þessar rúnir kölluðu fram blasti við, þetta mikla landsvæði sem ég horfði yfir, frá Tindfjöllum að Eyjafjallajökli, var einhverntíman sneisafullt af gríðarlegum skriðjökli sem skreið þessa stefnu langt út á haf... og eirði engu, Fljótshlíðinni ekki heldur.

Það stóð ekki skýrum stöfum á klettinum að sagan endurtekur sig. Við vitum það bara af jarðarsögunni að ísaldir koma og fara á nokkurra ártugþúsunda fresti. Ísöld á eftir að færast yfir aftur, og svo enn aftur. Allt sem við höfum fyrir augunum í dag hverfur einn daginn og mannskepnan, sem trúir því að hún stýri veraldarsögunni, hvað verður um hana... ég veit það ekki, allavega verður hún ekki á Íslandi svo mikið er víst.
Við erum víst bara peð á þessu taflborði, agnarlítil peð.

fimmtudagur, október 06, 2011

Voli enn


Já þeir eru oft vænir. Þessi er 7 pund og nýrunninn. Við fórum bræðurnir ég og Hlynur og nú var veiðin meiri en síðast. Nokkrir komu í þessum stærðarflokki ásamt fleirum minni.
Já veiðin er skemmtileg því verður ekki á móti mælt.

þriðjudagur, september 27, 2011

Viðvik

Það má kallaða það. Ég skrapp austur á Föðurland til að loka þakinu á millibyggingunni á kofanum. Ég ætlaði að vera búinn að opna á milli fyrir veturinn en það verður nú ekki svo gott. Ég verð samt að loka þakinu fyrir veturinn því þá get ég notað dauðan tíma í vetur til að skjótast hingað og vinna því þetta verður orðið innandyra þegar þakið er orðið regnhelt. Það rigndi á mig í dag... í meira lagi svo ég gerði ekki eins mikið og ég ætlaði, en svona er bara lífið það skiptast á skin og skúrir, ætla að reyna að klára þetta á morgun.
Ég verð að viðurkenna að það er kósý að krota nokkrar línur um lífsins gang svona undir arineldi eins og gjarnan er hér. Það vantar bara Erluna mína til að fullkomna þetta.

Það eru breytingar í farvatninu varðandi Íslandus ísbar. Við erum að undirbúa að gera þetta að sjálfsafgreiðsluísbar líkt og Yoyo og Joger. Við munum gera þetta í samvinnu við Emmessís undir vörumerkinu Joger. Við munum bjóða áfram upp á rjómaísinn okkar og "gamla ísinn" en að auki verðum við með nýja tegund jógúrt íss með mörgum bragðtegundum sem er að slá í gegn fyrir norðan og reyndar í Kringlunni líka. Þetta er afar ferskur og bragðgóður ís og er hrein hollusta því hann er hvorttveggja sykur- og fitulaus eða því sem næst.
Það verður spennandi að prófa þetta en viðtökurnar norðan heiða gefa okkur ástæðu til að þetta muni falla í geð hjá viðskiptavinum okkar hér sunnan heiða. Við þessar breytingar verður til þriðja verslunarplássið í húsinu því svona fyrirkomulag krefst ekki sama pláss og við notum núna svo við munum skipta upp húsnæðinu. Við erum ekki alveg búin að ákveða hvað verður sett í það pláss en það verður eitthvað sniðugt.

Eldurinn er að kulna í arninum og kominn tími á að skutla sér í koju að sjómannasið... er reyndar eins langt frá því að vera sjómaður og hægt er að komast, ég nota aðrar veiðiaðferðir. Ég ætti frekar að segja að tími sé kominn til að halla sér því morgundagurinn verður tekinn snemma eins og bænda er siður en ég er bóndi eins og allir vita... framleiði og sel mjólkurafurðir, í frosnu formi.

Jæja ég er hættur þessu. Njótið haustsins gott fólk, það er fallegur tími og bráðum kemur vetur, þá er tími kertaljósanna og jólin...! já lífið er gott.

sunnudagur, september 18, 2011

Austurríki Walchsee.

Það er víðar fallegt en á Íslandi, það verður að viðurkennast að Austurríki stendur nær jafnfætis okkur í náttúrufegurð, bara öðruvísi. Við vorum að koma úr vikufríi sem við eyddum þar á vegum Bændaferða.
Landið er eitthvað það fallegasta sem ég hef augum litið og hrikaleikinn í fjöllunum er engu líkur. Við vorum í Tirola héraði Austurríkis þar sem jóðlið og harmonikkan skipa hásæti í tónlistinni. Þó fórum við á tónleika stórsveita þar sem blásturshljóðfærin voru þeytt með snilldartöktum og innfæddir skemmtu sér eins og þeim einum er lagið, spilararnir gengu um á meðal gesta og stukku upp á borð og spiluðu hver í kapp við annan af mikilli innlifun.
Það er ekki hægt annað en að heillast af þessu fólki. Lífsgleðin og kátínan virðist þeim svo eðlileg, svo kunna þeir að drekka bjór sem þeir kneyfa af mikilli list án þess að verða drukknir, en við sáum ekki vín á nokkrum manni.

við Erlan nutum verunnar þarna í botn enda annálaðir náttúrudýrkendur. Við heimsóttum Arnarhreiðrið sem Hitler lét gera árið 1938, það var heilmikil upplifun. Svo tókum við kláf í 2000 metra hæð og þar voru kýr á beit, en merkilegt nokk þá var þarna grösugt og fínt beitarland og útsýnið var stórkostlegt. Myndin er tekin við Arnarhreiðrið.

Kúasmölunarhátíðin, sem er karnival í tilefni þess að bændur koma með kýrnar úr seljum þar sem þær eru hafðar fjóra sumarmánuði á ári, var skemmtileg og mikið fjör.
Tirolatónlistin ómaði og heimamenn og konur í þjóðbúningum settu skemmtilegan svip á hátíðina. Bestu kýrnar komu svo til bæjarins skreyttar með blómum og bjöllum og stoltir eigendur þeirra fylgdu þeim í gegnum bæinn, sumir á ævagömlum traktorum sem voru líka skreyttir. Þetta er sveitafólk sem greinilega ber mikla virðingu fyrir landinu og náttúrunni því snyrtimennskan er ótrúleg allsstaðar. Hvergi að sjá drasl, varla karamellubréf. Húsin þeirra eru flest skreytt með litskrúðugum blómum og eru reisuleg, yfirleitt tveggja til þriggja hæða með stórum svölum og gjarnan útskornum þakköntum, gríðarlega flott.

Það var gaman að upplifa þetta allt og það skemmdi ekkert að við þekktum nokkra í hópnum sem við endurnýjuðum kynni við og kynntumst nýju fólki. Bændaferðir er ferðaskrifstofa sem ég mæli hiklaust með.
Gamall skólabróðir minn, Bjössi í Teigi, var fararstjóri í ferðinni. Hann gerði þetta vel og það var gaman að kynnast honum aftur, ljúflingur þar á ferð.

Mánudagur á morgun og alvaran tekur við á ný.

laugardagur, september 03, 2011

Heiðarvatn og Grímsstaðir á fjöllum.

Fyrir áratug eða svo fórum við Erlan og Hrund í veiðitúr ásamt vinafólki okkar í Heiðarvatn í Mýrdal. Við veiddum engin ósköp en ég hitti þar menn sem voru öllum hnútum kunnugir og þeir sýndu mér veiði sem kveikti rækilega í mér. Stærðar sjóbirtingar 80 - 90 cm. og laxar sem þeir höfðu fengið þá um kvöldið og nóttina. Þeir sögðu mér að vatnið og Vatnsáin sem rennur úr því út í Kerlingardalsá væru veiðiperlur sem of fáir vissu um, líkt og sjá mátti af veiðinni þeirra.
Stuttu seinna fréttist að svissneskur auðmaður hefði keypt þær þrjár jarðir (frekar en tvær minnir mig) sem tilheyra Heiðardalnum og eiga vatnið og ána. Ég hringdi í bóndann á Litlu Heiði sem nú var orðinn leigutaki Svisslendingsins og spurði um veiðileyfi. Hann sagði mér að eigandinn væri búinn að loka fyrir alla veiði og myndi ekki heimila neina veiði í vatninu um nánustu framtíð.
Það þótti mér súrt að erlendur auðmaður gæti keypt svona upp heilt landsvæði og vatnið og ána með og lokað því af því að honum datt það í hug si svona.

Nú vill kínverskur auðmaður kaupa stærstu jörð Íslands sem nær yfir 0.3% af landinu okkar. Hann vill byggja upp atvinnu á þessum landsvæðum og fjárfesta fyrir mikla peninga. Sá þáttur í málinu er góður því okkur vantar peninginn en eignarhaldið er annað mál. Eignarrétturinn er svo ríkur að ef honum sýnist svo þá getur hann lokað þessum parti landsins fyrir almenningi bara ef honum dettur það í hug, rétt eins og þeim svissneska datt í hug að loka Heiðarvatni.
Komið hefur fram að hann á sæg af peningum og hefur þannig enga þörf beinlínis til að þessi fjárfesting skili honum arði. Hann getur m.ö.o. gert þetta að sinni einkaparadís bara ef hann er í þannig skapi einhvern daginn.

Það getur vel verið að mörgum finnist þetta viðkvæmni í mér en það verður að líta til framtíðar og eignarhald er eðlis síns vegna ótímasett. það er ekki víst að barnabörnin okkar kunni okkur miklar þakkir þegar þau fullorðnast og búið er að selja ríkum útlendingum jarðir á kippum á landinu okkar og takmarkanir á nýtingu þess og umferð í samræmi við það.

Í mér er það mikil þjóðremba að ég vil ekki að útlendingar eignist landið og ráðskist með það líkt og Heiðarvatnið, þá er besta forvörnin að hætta áður en við byrjum.

þriðjudagur, ágúst 30, 2011

Baugsstaðaós

Frábær ferð í ósinn. Aðeins um það í veiðihorninu hér til hliðar.

þriðjudagur, ágúst 23, 2011

Veiðin þetta sumarið...

Einn tittur á land í allt sumar er allt og sumt. Það þykir nú ekki í veiðifrásögur færandi, sá fór nánast beint á grillið og var étinn með det samme. En nú styttist í Baugsstaðaósinn hjá mér. Ég sá á fésinu að ég hafði farið í ósinn fyrir nákvæmlega einu ári síðan þ.e á morgun, greinilega þreyttur á þjóðfélagsþrasinu því ég taldi mig heppinn að heyra ekkert af slíku heldur skyldi etja kappi við vatnabúann sem ég og gerði.

Einhvern veginn virðist alltaf vera meira en nóg að sýsla og tími til veiða af skornum skammti. Þórisvatnið sveif framhjá í tíma en ég vil fara þangað snemmsumars en reynslan hefur kennt mér að ef ég fer síðsumars þá er veiðin orðin treg.
Haustið er minn tími í veiðinni bæði í fisk og fugli svo ég er svona við það að fara að bretta upp ermarnar og blása til sóknar.

Best að vera ekki með neinar árangursyfirlýsingar fyrirfram eða eðlislægt grobb, sjáum heldur hvað setur.
sunnudagur, ágúst 21, 2011

Brúðkaup

Gærdagurinn var stór hér á bæ, Arna og Hafþór gengu í heilagt hjónaband í Fljótshlíðskri sveit. Breiðabólsstaðakirkja er falleg lítil og notaleg kirkja sem tekur 120 manns í sæti. Smæð kirkjunnar skapar meiri nánd en annars og gerir andrúmið heimilislegra og notalegra. Guðni Hjálmarsson gaf þau saman en hann er forstöðumaður Betel í Vestmannaeyjum. Guðni vann hjá mér forðum daga við smíðar svo við þekkjumst líka vel. Hann gerði þetta vel og athöfnin var falleg.

Veislan var svo í Goðalandi á sama punkti og ég sat mín barnaskólaár, reyndar í nýju húsi en gamla Goðaland var rifið og nýtt byggt í staðinn. Ég sakna gamla hússins sem afi byggði, það var fallegt hús með valmaþaki allan hringinn.
Það var svo upplifun að finna baksviðs gamalt skólaborð og stól sem ég sat við forðum á einhverjum tímapunkti, eins voru gömlu kennaraborðin þarna, nostalgían í algleymi við að sjá þetta.

Veislan var skemmtileg og maturinn alveg sérlega góður. Binni kokkur kann sitt fag, lambið var sérdeilis ljúffengt og meðlætið einnig.
Mikið var um ræðuhöld og skemmtiatriði, minni brúðar og brúðguma var skemmtilega framsett í báðum tilfellum. Svo var sungið bæði samsöngur og sérsöngvar.

Brúðhjónin voru falleg og gleðin og hamingjan skein af þeim langar leiðir. Stundum fær maður á tilfinninguna að hlutir séu hannaðir fyrirfram af æðri máttarvöldum. Þannig tilfinningu hef ég fyrir þessum ráðahag.
Það er gott að hafa þessa tilfinningu fyrir börnunum sínum og frábært að sjá hamingjuna skína eins og sól í heiði eins og sjá mátti í gær.

Verum hamingjusöm, eins og Teddi komst svo réttilega að orði.... það er val.

fimmtudagur, ágúst 18, 2011

Ég er í formi...!

Um það verður ekki deilt, bara spurningin hvernig formið er í laginu. Eru ekki til kringlótt form? Ég hef í mörg ár unnið hörðum höndum að því að koma mér í það form sem ég er í núna. Ég státa af bumbu sem margur sýslumaðurinn hefði öfundað mig af í gamla daga en nú hefur mér verið ögrað með áskorun um að minnka bumbuna, Burpees skal það vera ekki bumba.
Eins og ég sagði ykkur síðast þá erum við Erlan að gera æfingar sem kallast þessu íðilskemmtilega nafni börpíur í íslenskri þýðingu. Það felst í því að skella sér flötum, taka armbeygju og stökkva svo upp aftur. Þetta er svo byggt upp þannig að fyrsta daginn gerir maður eina æfingu, næsta dag tvær, síðan þrjár og svo framvegis upp í hundrað.
Í morgun voru teknar 18 pörpíur og bumban kvartar sáran enda að henni vegið.

Við vorum annars að koma frá Danmörku þar sem við vorum í brúðkaupi elstu dóttur Óla bróður Erlu. Ferðin var góð í alla staði, veðrið fínt og við okkur stjanað að vanda.

Annað brúðkaup er svo í burðarliðnum. Arna og Hafþór munu gifta sig í Fljótshlíð um helgina. Breiðabólstaðarkirkja varð fyrir valinu hjá þeim og Goðaland fyrir veisluna.
Það fer vel á því þar sem við eigum rætur okkar þarna í Fljótshlíðinni. Í Goðalandi gekk ég í skóla og á margar góðar minningar af staðnum og má því segja að ég sé ánægður með staðarvalið.

Mitt í þessum ánægjulegu viðburðum er maður samt minntur á hverfulleik lífsins þegar skólabróðir minn missti unga konu sína um helgina komna á steypirinn með tvíbura. Án nokkurs fyrirvara var lífið búið, börnunum var bjargað en eru mjög veikburða. Góð áminning um að nota tímann vel og sóa honum ekki í fánýta hluti.

Sólin skín þessa stundina og það spáir vel fyrir helgina. Sumarið er ekkert búið þó kominn sé miður ágúst. Haustið er samt handan hornsins. Það fer vel á því, haustið er góður tími við veiðar og fleiri skemmtilegheit. Dagar í Baugsstaðaós og Vola framundan og kallinn kátur, loksins hægt að viðhalda karlgensskyldunni og veiða fyrir veturinn, safna í sarpinn og heyja harðindin.

Njótum þess að lifa gott fólk meðan tækifærið er til þess.

laugardagur, júlí 30, 2011

Í morgunsárið

Ég skrapp til strandar í morgun. Ástæðan fyrir því er að nú er vatni úr Vola veitt vestur flóann og það skilar sér niður í fjöru á ýmsum stöðum. Ég hafði grun um að þetta aukna vatn gæti freistað sjóbirtings til að ganga á fleiri stöðum en ella svo ég skrapp í læk sem rennur vestan við Stokkseyri til að tékka á þessu. Vatnið er mun meira en venja er en engan sá ég fiskinn. Það var enda von því einhver hefur haft þennan sama grun og ég því búið var að girða fyrir ósinn með neti. Það var því engin furða að ekki sæist fiskur fyrir ofan.

Þessi helgi ætlar að verða blaut eins og flestar aðrar verslunarmannahelgar enda ástæðulaust að vera að bregða út af vananum. Ég hefði þó alveg verið til í sumar og sól.
Við bregðum undir okkur betri fætinum á eftir og skreppum í ættargrillið okkar systkinanna og bætum aðeins á bumbuna. Annars er Íris búin að mana okkur í átak, 100 daga burpees. Það er einhver crossfit æfing sem ég hef grun um að sé ekki mjög bumbuvæn en mín er antik því hún er orðin svo gömul, maður étur þá bara aðeins meira til að varðveita hana ;-)

fimmtudagur, júlí 28, 2011

Einu sinn enn...

Tíminn er ólíkindatól sem maður skilur öngvanveginn hversvegna rennur svona hraðar og hraðar til framtíðar. Verslunarmannahelgin var síðast um daginn en það er samt ár síðan! Það er enda farið að rigna en það virðist orðið lögmál að það rigni um þessa helgi.

Ég man eftir Kotmótum í gamla daga þegar ég var krakki þá var alltaf sól.
Mjólkurbrúsinn sem allir gátu farið í og fengið mjólk var hafður undir norðurveggnum á húsinu afa og ömmu svo sólin skini ekki á hann og hitaði mjólkina.
Þá voru dagarnir langir og mannlífið með rólegra yfirbragði en í dag. Kotmótin snerust um samkomur sem allir fóru á og svo samfélag þess á milli. Það komu kannski um 100 manns sem allir rúmuðust í litlu kirkjunni. Nú er annað yfirbragð og áherslur.

Við Erlan verðum með annan fótinn hér heima og sinnum ísbúskapnum en eins og allir vita eru ísbændur líkt og aðrir bændur bundnir yfir bústofninum sínum. Það þýðir þó ekki að við bregðum okkur ekki af bæ því fararskjótinn okkar verður notaður nokkuð óspart enda ekki langt að fara. Ættargrillið verður á sínum stað og við látum okkur ekki vanta enda annálaðir partígrísir.

Ég hef sagt og segi enn, farið varlega í umferðinni, það er betra að halda lífi en áætlun.

laugardagur, júlí 23, 2011

Norðmenn í sárum.

Það er skelfilegt að fylgjast með fréttum frá Noregi. Ungur norðmaður gerir sjálfan sig að einum versta fjöldamorðingja sögunnar. Flestir þeirra sem létust voru innan við tvítugt.
Hversu ruglaður ætli hægt sé að verða af áróðri og hatri? Nógu ruglaður til að sprengja og myrða nærri hundrað manns - ekki af stofni þeirra sem hann hataði mest heldur af eigin stofni, sitt eigið fólk.
Skömmina tekur úr þegar hann segist vera kristinn maður. Ætli hans sjúka huga detti í hug að morðin á hans eigin fólki geri hann að betri fulltrúa kristinna manna gegn múslimum?
Þetta er óskiljanlegt og djöfullegt.

sunnudagur, júlí 17, 2011

Gott fólk og gifting

Þessa dagana gistir hjá okkur prýðisfólk frá Danmörku. Þau heita Dorthe og Brian ásamt Katrine dóttir þeirra. Þetta ágæta fólk tengdist ættleg Erlu með formlegum hætti í gær þegar þau Thea Theodórsdóttir og Michael sonur Dorthe giftu sig með pompi og prakt. Það var gaman að sjá siðina frá sitthvoru landinu blandað saman í einni athöfn, hvort tveggja í kirkjunni og veislunni þó það væri meira áberandi í veislunni.
Ég hef ekki verið í brúðkaupi þar sem dansað er fram á nótt þegar veisludagskránni lýkur. Íslendingar eru ekki endilega mjög dansglaðir en þó tókst að fá nokkra á gólfið sem skemmtu sér vel, þar á meðal við Erlan.

Það er ekki oft sem ég hitti einstaklinga sem hafa jafnmikinn áhuga á náttúruöflunum eins og Brian. Hann, og raunar þau bæði dreymir um að sjá eldgos með eigin augum eða aðrar hræringar íslenskrar náttúru. Danmörk, jafnágæt og hún er hefur ekki þessa krafta náttúrunnar sem við búum við hér í landi íss og elds. Hér sjáum við frumkraftana sem mynduðu þessa jörð í nærmynd og upplifunin er auðvitað sú að við verðum lítil og smá og getum ekki rönd við reist á nokkurn hátt þrátt fyrir náttúruverndarsjónarmið og strangar leyfisveitingar, við bíðum bara og sjáum til hvernig náttúran ákveður að klára málin sín.

Ég geri ráð fyrir að við förum í stutta fjallaferð með þau áður en þau fara til síns heimalands ef tími vinnst til.
Hellisheiðin er ekki öll sem sýnist. Þar er hægt að fara í "off road" ferðalag og upplifa hvort tveggja jeppafíling og íslenska náttúru sem ekki sést frá þjóðvegi eitt. Ef við förum þá keyrum við upp Hengladalaá upp að Litla Skarðsmýrarfjalli, gegnum Fremstadal og komum niður hjá Skíðaskálanum í Hveradölum.

Þessi fallegi sunnudagur verður bjartur og góður, sólin skín og hitastigið er óvenju hátt á mæli.
Njótið þessa dags vinir, þetta er ekki sófadagur

miðvikudagur, júlí 13, 2011

Sláttur í rigningu

Það hefur ekki verið mikill tími til að slá garðinn það sem af er sumri. Þó hefur hann ekki orðið neitt í líkingu við það sem hann var í fyrrasumar þegar ég þurfti að slá hann allan með orfinu því sláttuvélin réð ekki við hann.
Dagskráin í dag var meðal annars að slá garðinn þar sem hann er orðinn leiðinlega loðinn. Einu vonbrigðin hvað það varðar er að nú er steypiregn og það hefur tíðkast hér að slá í sól en ekki grenjandi rigningu.
Út vil ek samt og sleginn skal garðurinn. Hef annars verið að setja upp smá sólhús við kofann í sveitinni. Glerjaði í gær og það styttist í að ég geti opnað á milli húsanna.
Njótið sumarrigningarinnar gott fólk, ég er farinn út.

föstudagur, júlí 08, 2011

Eitt skref í einu

Þú kemst niður á sama hátt og þú fórst upp... eitt skref í einu, sagði ég við hana stjarfa af hræðslu sitjandi í slakkanum fyrir ofan stigana. Ég sat sjálfur við hliðina á henni og færði mig svo í stigann og lagði af stað afturábak niður. Hún fikraði sig að brúninni og teygði fótinn í átt að stiganum. Er ég komin spurði hún þegar vantaði um það bil meter á að hún kæmi við efstu rimina. Ég brosti inni í mér og sagði henni að færa sig nær áður en hún bakkaði.
Ég get þetta ekki í alvöru sagði hún frosin áður en hún svo mikið sem tommaðist nær stiganum en teygði fótinn aðeins lengra.
Ég tók í fótinn og sagði henni að bakka. Hún lá á maganum og mjakaðist örlítið nær brúninni og teygði fótinn í átt að stiganum. Ég tók í fótinn og setti hann á efstu rimina. Þetta er efsta rimin sagði ég, bakkaðu nú aðeins nær. hún hreyfðist örlítið, ég get þetta ekki endurtók hún. Jú jú þú getur þetta alveg, komdu með hinn fótinn. Enn örlaði á hreyfingu og hinn fóturinn mjakaðist löturhægt nær. Hinn fóturinn fékk festu á riminni og þar stóð hún kyrr. Erling ég get þetta ekki endurtók hún. Ég tók í hinn fótinn og sagði komdu með þennan fót niður á næstu rim og svo stýrði ég honum þangað. Haltu þér svo bara með báðum höndum í efstu rimina meðan fóturinn fer á þarnæstu rim og ekki horfa niður, ég tók í þann fótinn og stýrði honum. Færðu nú hendurnar svo þær verði ekki eftir hérna uppi.
Hún ríghélt í efstu rimina með báðum höndum og vildi ekki sleppa. Ég heyrði hana tauta með sjálfri sér "hvað er ég búin að koma mér í" um leið og hún horfði fast upp á við, "ég skal aaaaaldrei fara hingað upp aftur".

Eftir nokkur þrep með þessum skemmtilegu tilþrifum sá ég tvo útlendinga koma að stiganum ofanfrá, þeir veifuðu og settust svo niður þolinmóðir, sáu augsýnilega hvað við var að fást.
Korteri seinna var næst síðasta þrepið eftir og ég sagði henni að nú væri hún komin niður. NEI sagði hún og ríghélt sér í rimina. Erla það eru 50 sentimetrar eftir. Fóturinn seig ofurrólega á milli þrepanna og niður á fast og enn ríghélt hún í rimina fyrir ofan sig.
ERLA MÍN þú stendur á jörðinni....! Þá fyrst leit hún niður.

Útlendingarnir sem höfðu setið rólegir og fylgst með gengu framhjá sposkir á svip og köstuðu kveðju á okkur. "Bien hecho, la señora" og blikkuðu hana.

þriðjudagur, júlí 05, 2011

Krókur og nýjar leiðir

Við tókum daginn í gær í flandur um sveitina mína. Við skoðuðum ýmislegt, meðal annars fórum við í langan göngutúr vítt og breitt um Tumastaðaskóg. Það var skemmtilegt og gaman að sjá hvað skógurinn er búinn að breiða úr sér og er orðinn stórvaxinn. Fuglalífið þar er gríðarlega fjölbreytt sem skreytir svona göngutúr óneitanlega. Það var ljúft að hvíla sig á brún Klittna og horfa á appelsínumýrarrauða fossana steypast fram af háum klettunum í logni og íslensku sumri eins og það gerist fallegast, landið sem hefur fóstrað okkur í hálfa öld gældi við okkur og staðfesti með okkur að við erum tengd þessu landi órjúfanlegum vináttuböndum sem gerir að verkum að við munum aldrei flytjast héðan búferlum.
Stundum eru svona móment þannig að maður vill ekki að þau hætti og því ákváðum við að halda áfram för upp Vatnsdal og skoða papahellinn þar og jafnvel halda áfram för lengra og skoða hinn papahellinn sem er upp við Krók. Þessir hellar eru afar merkilegir að því leiti að þeir eru handhöggnir í sandsteininn og þarna bjó fólk með börn sín og buru. Það var skrítið að hugsa til þess þekkjandi öll okkar nútímaþægindi sem við kunnum samt svo lítt að meta.

Við skoðuðum Grjóthyl í Fiská en það er staðurinn þaðan sem við Gylfi og Rúnar fórum forðum upp og yfir Þríhyrning norðanfrá. Mér varð hálfflökurt við tilhugsunina um að mín börn (afkomendur) færu þarna upp, ég væri á nálum. Þaðan keyrðum við austan við Öldu eftir troðningi sem ég hef aldrei farið áður enda var það með öllu ófært hér á árum áður og kannski orðum aukið að tala um að það sé fært í dag.
Þegar við nálguðumst Krók komum við að kletti sem skagaði upp úr veginum sem er niðurgrafinn um næstum metra á þessum kafla. Það var engin leið að komast yfir klettinn eða framhjá nema fara í vegarbætur sem við gerðum. Bakkinn á veginum var þannig að það var hægt að brjóta hann niður og hlaða undir bílhjólin og komast þannig yfir klettinn. Þetta gekk upp og var bara gaman.

Í Króki sýndi ég Erlu gömlu réttirnar og staðinn sem við tjölduðum þegar réttirnar voru haldnar þar. Nú er þetta allt löngu aflagt en gaman að skoða gömul ummerki. Papahellirinn þarna er miklu flottari en sá í Vatnsdal og umhverfið er gríðar fallegt. Við löbbuðum langt upp með Fiská og skoðuðum fossa og fallegar jarðmyndanir. Í Króki var bær sem hét Þorleifsstaðir, það var merkilegt að skoða hann eða leifarnar af honum og sjá fyrir sér gamla lífið eins og það var í sveitinni löngu fyrir mína tíð og nánustu forfeðra. Túngarðurinn náði víðan hring í kringum húsin og innan hans var heimatúnið. Við sáum gamla kálgarðinn sem var á öllum bæjum og traðirnar heim að bænum. Allt gróið en mjög sýnilegt. Við sátum góða stund þarna og virtum þetta fyrir okkur og létum hugann fara á flug. Börn að leik, sláttufólk að slá og sinna heyskap, hross í túni, förumenn á ferð ríðandi upp traðirnar, allt iðandi af lífi sem skildi eftir sig þessi glöggu merki sem við vorum að horfa á. Þetta var upplifun eins og myndaskot til fortíðar.
Gríðarlega gott móment sem við nutum bæði til ítrasta.

Það má segja að yndis Reykjavíkurmærin mín hefur lært að meta íslenska náttúru á annan hátt en þegar við kynntumst fyrst. Ísland er einstakt land sem heimurinn á eftir að uppgötva svo það er eins gott að njóta víðáttunnar og hreinleikans meðan allt þetta er til staðar jafn ósnert og það er.

Að lifa lífinu lifandi gott fólk, um það snýst þetta allt saman.

laugardagur, júlí 02, 2011

Morgungestir

Ég fæddist með þeim ósköpum að vera alltaf heitt, eða svona næstum því. Ég er á Föðurlandi að vinna aðeins í kofanum okkar. það er kostur hér að það er auðvelt að hafa nógu kalt á næturnar fyrir minn smekk (og Erlunnar hin síðari ár).
Það kemur þó fyrir að ég gleymi að lækka í ofninum og þá verður hitastigið til þess að ég sef illa. Í nótt vaknaði ég og það var heitt, of heitt svo ég stökk á fætur og opnaði hurðina upp á gátt og sofnaði síðan alsæll við svalann blæinn sem kom inn um hurðina. Jaðrakinn var að vísu svolítið hávær en hann truflaði ekki nóg til að halda mér vakandi.

Það var ekki fyrr en ég heyrði eitthvað hljóð sem ég var ekki vanur, afar lágvært langdregið og ámátlegt gaul, ekki ólíkt falskri nótu í gömlu fótstignu orgeli og virtist vera mjög nálægt mér.
Ég sneri að hurðinni þegar ég opnaði augun varlega. Hljóðið var mjög varfærnislegt og kom úr hænubarka sem teygði hausinn inn um gættina og litaðist um í kofanum mínum.
Ég bauð henni góðan dag en við það brá henni svo svakalega að hún hentist afturábak út með bægslagangi og háværu góli og hljóp langa leið út á tún áður en hún svo mikið sem leit við og ekki nóg með það því vinkonur hennar hlupu með henni. Haninn hinsvegar stóð kyrr og kallaði hetjulega á eftir þeim að allt væri í lagi.

Þetta var brosleg og skemmtileg uppákoma, fín viðbót í flóruna hér, var ég að hugsa þegar laukst upp fyrir mér annar sannleikur varðandi hænsn. Þau skíta, og þau voru á pallinum mínum.

Það vildi til að klukkan var hálf sjö að morgni, veðrið var gott og trén stór því annars hefðu nágrannar mínir séð kallinn á naríunum einum saman á harðahlaupum á eftir hænsnahóp, út úr mínum garði takk hann er ekkert skítapleis.

föstudagur, júlí 01, 2011

Nú er úti veður vott

Ekki það að ég sé einhver rigningarhatari, ég hefði bara þegið að hafa þurrt lengur. Ég er að atast í kofanum, smá breytingar utandyra svo nú get ég nagað mig í handarbökin fyrir að hafa ekki haft vaðið fyrir neðan mig og tekið með regnföt.

"Enginn er verri þó hann vökni" var mamma vön að segja og ég hef sjálfur oft tekið mér þessi orð í munn vegna einhverra vælukjóa svo nú þýðir ekkert að vera að þessu væli sjálfur heldur hundskast út og reyna að gera eitthvað af viti... Hipp hipp þó þetta sé nú enginn smá skúr, það er ekki hundi út sigandi.

Sjitt.

föstudagur, júní 24, 2011

Kaffið er best að sötra heitt

Ég man þá tíð þegar það var enginn dónaskapur að sötra. Það var meira að segja alltaf gert. Pabbi sötraði kaffið og mamma líka og flest eldra fólk. Mér datt þetta allt í einu í hug, sitjandi með sjóðheitan kaffibollann minn, einn í hádegismat á Föðurlandi og ég sötraði. Úps eins gott að enginn heyrði þetta... maður sötrar ekki!
Hvað um það, hér heyrir enginn í mér hvort sem er.
Kannski er það hugmynd að innleiða aftur þennan gamla góða sið og sötra almennilega. Sé mig í anda með humarsúpu í flottri veislu..... og upplitið á Erlunni :-)

sunnudagur, júní 19, 2011

Skorradalur

Á sínum tíma þegar við Erla vorum að hefja okkar búskap fórum við oft í Skorradalinn en þar áttu tengdaforeldrarnir sumarbústað í samfloti með nokkrum öðrum. Það var á þeim tíma þegar trén voru ekki orðin hærri en svo að ef maður týndist í skóginum var nóg að standa upp og þá sá maður hvar maður var. Trén hafa teygt úr sér síðan þá og nú dugir ekki lengur að standa upp. Í Skorradal er orðinn mikill skógur og jafnvel svo að það er farið að nytja hann. Allavega voru stórar stæður af gildum trjábolum sem var búið að saga í stærðir og tilbúnar til flutninga, minnti mjög á danska grund.
Það er gaman að sjá hvernig landið okkar hefur klæðst skógi undanfarin ár í meira mæli en nokkru sinni áður, það sjá allir sem ferðast um landið.

Heimsóknin í Skorradalinn í gær var skemmtileg. Þetta var ættarmót í föðurætt Erlu þ.e. frá afa hennar og ömmu, en amma hennar Sigga (Sigríður Sigurðardóttir) hefði orðið hundrað ára á árinu. Gæti verið um 50 manna hópur. Sólin skein á okkur og Kári sá um að flugan yrði ekki óbærileg. Ég var ánægður með Kára vin minn að sjá um þann þátt en var þó með varann á um að hann stæði kannski ekki við sinn part svo ég keypti flugunet fyrir ferðina.

Nú er veðrið eins og best gerist. Þegar ég vaknaði í morgun var glaðasólskin og er enn, sól og logn. Hvað dettur manni þá fyrst af öllu í hug? ÍÍÍÍS að sjálfsögðu ;-)
Það verður líkast til vitlaust að gera í ísbúðinni í dag en salan þar lætur vel að stjórn veðurs eins og vindhani í vindi.

Það er sunnudagur og því tími til að gera eitthvað skemmtilegt. Pallurinn hér fyrir utan getur orðið eins og Mallorca í besta skapi ef vel liggur á Kára. Hann er núna víðsfjarri svo ætli pallurinn verði ekki fyrir valinu í dag. Það er gott að eiga rólegheitadag hér heima.
Njótið hans, eins og ég.

föstudagur, júní 17, 2011

17. júní

Regnið lemur gluggann minn og vindurinn sveiflar trjánum til og frá eins og hér sé heill dansflokkur í garðinum. Undarleg veðrátta sem þetta sumar ætlar að geyma. Enn skrítnara finnst mér hvað veðurspámönnum er að förlast, það er engu líkara en að spár verði ónákvæmari eftir því sem tækninni fleygir fram, ótrúlegt. Veðurstofan var búin að gefa út að veður yrði með miklum ágætum á þjóðhátíðardaginn, þeir hafa kannski verið að meina ágætis óveður. En jæja, ég nenni ekki að vera að pirra mig á veðrinu, svona er Ísland, þetta hljóta að vera blessunardaggir.

Mér eins og svo mörgum ofbýður algerlega allt sem upp er að koma um hvernig prestar og aðrir hafa hagað sér gagnvart saklausum börnum með kynferðislegum hrottaskap. Ég var að lesa um enn eitt málið sem sneri að kaþólskum presti og skólastjóra og kvenkyns kennara sem nýddust á litlum dreng. Hvernig stendur á því að þetta loðir svona við kirkjunnar fólk. Ég get ekki skilið þetta og hef megna óbeit á þessu fólki, þetta eru RÆFLAR af verstu sort, lægra verður ekki lagst.

Lífið hér við ána er samt eins og fyrri daginn ljúft og gott, þótt hann blási. Hér eiga að vera heilmikil hátíðarhöld í tilefni dagsins svo vonandi styttir bara upp svo skipuleggjendur dagsins uppskeri í takt við vinnuna sína.
Við Erlan ætlum að fara brosandi út í daginn enda frúin vöknuð og var að tipla niður stigann.
Gerið endilaga það sama vinir, njótið lífsins. Ég ætla að fara og mala kaffi í rjúkandi bolla... og annan fyrir mig.

sunnudagur, júní 12, 2011

Sumar eða hvað?

Það er engu líkara en að hér sé komið sumar. Ógnarbirta, rétt eins og sólin sé hátt á lofti (held jafnvel að þetta sé hún) og hitastigið er um 16 gráður. Ég hef ekki séð þetta hér í langan tíma. Meira að segja grasið á lóðinni er farið að teygja úr sér og hugsanlegt að hægt sé að slá efstu toppana af því. Kannski er von á viðskiptavinum í ísbúðina ef þetta helst út daginn, það væri skemmtileg nýbreytni.
Það á að heita bæjarhátíð hér en hitastigið heldur fólki heima hjá sér. Þó margt hafi verið um manninn um miðjan daginn í gær þá var hér hálftómur bær í gærkvöldi. Við kíktum aðeins á tjaldstæðin og þar var ekki margt um manninn enda hitinn ekkert sérstaklega til þess fallinn að kveikja löngun til að sofa í tjaldi.

Það er samt alltaf gott þegar sést til sólar eins og nú. Það gefur fyrirheit um léttari lund landans og kveikir hugmyndir um að hægt sé að vera annarsstaðar en innan við gluggaboruna og horfa á hvítan Esjutind eða Ingólfsfjall.

Ég ætla að gá hvort ekki sé hægt að særa aðeins toppana á grasinu hér fyrir utan svo ég geti allavega sagt að ég sé búinnn að slá einu sinni þetta sumarið.

Njótið dagsins vinir.

miðvikudagur, júní 08, 2011

"Eldhúsdagsumræður"

Var spurður að þvi í dag hvort ég vissi hvað það orð þýddi. Ég varð að viðurkenna að ég hef aldrei leitt hugann að því. Ég er samt nógu forvitinn um íslenskt mál til að kanna það aðeins.

Í Orðabók háskólans er að finna ýmislegt misgagnlegt. Þar var þetta m.a. að finna um eldhúsdagsumræður:
það þekktist hér áður fyrr að taka sér eða gera sér eldhúsdag og var sá dagur þá nýttur til þess að gera hreint í eldhúsinu, en einnig í yfirfærðri merkingu um tiltektir almennt, að ganga frá ýmsu sem dregist hafði að koma fyrir. Sú merking kemur ágætlega fram í frásögn af Guðmundi Árnasyni (Gvendi dúllara) í Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar (1969): "Hjálmar tók nú að færa það í tal við Guðmund, að þeir ættu að hreinsa þessa skildinga úr frakkanum og leggja þá í bankabókina. En Guðmundur hafði megnustu óbeit á slíkri yfirfærslu og vildi ekki láta sér skiljast, að bankaræfillinn væri tryggari geymslustaður en frakkinn. Þó fékk Hjálmar því seint og um síðir áorkað, að Guðmundur leyfði honum að gera eldhúsdag í frakkanum."

Af þessari ofangreindri merkingu er dregin sú yfirfærða notkun sem tíðkast m.a. á Alþingi sem eldhúsdagsumræður, en á þeim degi flytur forsætisráðherra eldhúsdagsræðu sína og fram fara sérstakar umræður í þinginu, eldhúsdagsumræður, þar sem farið er yfir stefnu ríkisstjórnar, fjármál og störf Alþingis.

Þá vitum við það...

þriðjudagur, júní 07, 2011

Jákvæðnin smitar...

... nú er búið að sanna það. Vísindamenn við Harvard-háskóla í Boston og háskólann í San Diego í Kaliforníu hafa sýnt fram á að jákvæðni og bjartsýni séu bráðsmitandi.
Þetta kemur fram í grein sem birt er í læknatímaritinu British Medical Journal (og í Viðskiptablaðinu þar sem ég las þetta) en þar kemur fram að sá sem horfir á hinar björtu hliðar tilverunnar auki um 15% líkurnar á því að vinur hans geri slíkt hið sama, hjá vinum þess vinar aukast líkurnar um 10% og í „þriðja lið“ aukast þær um 7%.
Niðurstöðurnar eru byggðar á hinni viðamiklu Framingham-rannsókn. Segja má að hér sé komin sönnun á lífsspeki Pollýönnu og einnig að Einar Benediktsson hafi haft nokkuð til síns máls þegar hann sagði: Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

Ég hef lengi haft þessa skoðun á jákvæðni, allavega að hún sé snöggtum skárri en neikvæðni. Líkar raunar best við raunsæi, þar sem rökhyggjan ræður för en þar einhversstaðar liggur oftast blákaldur veruleikinn.

sunnudagur, maí 29, 2011

Sinfónían mætt á Föðurland

Við áttum gæðadaga í fljótslíðskri sveit um helgina. Fuglasvermur skreytir tilveruna þar sem endranær á þessum árstíma. Maríuerla virtist nærgöngulli en áður sem gefur fyrirheit um að kannski hefur hún ákveðið að gera mannabústaðinn okkar að íverustað sínum meðan hún fjölgar ættleggnum sínum, það væri gaman. Þrastarsöngurinn ómaði allan daginn enda þrestir orðnir fastagestir hjá okkur. Þeim líkar vel við trén sem við höfum gróðursett undanfarin 23 ár sem eru orðin stór og bústin svo kofinn næstum hverfur í skóginn.
Hann er reyndar ekki stór, allavega ekki á fljótshlíðskan mælikvarða en eins og flestir vita er Fljótshlíðin vinsæl undir sumarhús sem hafa risið hratt á undanförnum árum. Nokkur eru á við stærðar einbýlishús, sum eins og spænskar hallir, önnur eru hóflegri, svo eru nokkur í okkar stíl, fjallakofastílnum.

Allir sem lesa bloggið mitt vita að ég er hæstánægður með kofann minn þó hann sé lítill. Það hefur ekki með stærð að gera hvort hægt sé að finna kyrrð sveitarinnar eða njóta fuglasinfóníunnar og fallegu tónanna hennar. Ég held jafnvel að auðveldara sé að samsama sig náttúrunni ef maður temur sér auðmýkt og nægjusemi sem er ráðandi afl í náttúrunni. Það er bara maðurinn sem hefur sett sig á þann drambsama stall að gera kröfur umfram þarfir sínar.

Við sátum í morgun úti við og nutum verunnar til ítrasta, létum sumarblæinn strjúka vanga og hlustuðum á tindrandi lífið allsstaðar í kringum okkur. Hrossagaukurinn klauf loftið með sínum skemmtilegu víbrandi tónum og Spóinn vall í kapp við hann.
Erla dæsti af ánægju og sagði við mig hægt og hljótt til að trufla ekki mómentið: "Erling þetta er yndislegt" og það er heila málið. Lífið er yndislegt og full ástæða til að njóta þess meðan við höfum heilsu og hvert annað.

Höfum það sem vegarnesti.

fimmtudagur, maí 26, 2011

Öskuillur Kári

Það var gott hjá honum að verða brjálaður. Askan sem féll á suðurlandið, allavega vestanvert hefur fokið á haf út í rokinu sem gerði eftir öskufallið og nú er komin grenjandi rigning. Já við Kári erum vinir. Landið okkar kemur strokið og fínt undan þessum látum. Askan verður fínn áburður á túnin og líklegast er að túristum fjölgi ef eitthvað er. Kannski verður þetta eftir allt túristagos í óeiginlegri merkingu.

Ég skrapp austur í dag með stólana úr Íslandus ísbar. þeir voru að liðast í sundur svo þeir voru teknir til alvarlegrar aðhlynningar, rafsoðnir saman og gegnumboltaðir. Nú mega stórir og smáir setjast í þá án þess að eiga á hættu að þeir brotni undan þeim.
Fljótshlíðin skartaði sínu fegursta, hvergi var ösku að sjá og hunangsflugurnar suðuðu í vorblómguðum brumum. Það var eitthvað svo ánægjulegt að sjá hvernig náttúran sjálf hefur tekið til hendinni í öskumálunum, litlir eftirmálar.

Við hjónin vorum á síðum viðskiptablaðs Moggans í dag. Íslandus ísbar virðist vera sífellt meira að komast á kortið, þeir höfðu einhverja nasasjón af okkur af markaðnum því ekki báðum við um þetta viðtal.

Nú fer vonandi að vora hjá okkur en vorið hefur verið á seinni skipunum þetta árið og kominn tími á betri tíð. Allir sammála því?

Njótið samt tilverunnar því hún er góð og Ísland er besta land í heimi ;-)

sunnudagur, maí 22, 2011

Heimsendir og öskufall

Það mátti litlu muna að við yrðum öskuteppt í danaveldi í þetta sinn. Þremur tímum eftir að við lentum í Keflavík var komið upp stórgos í Grímsvötnum. Tíu sinnum meira en Eyjafjallajökulsgosið var þegar það var mest sem segir að þetta er fítons. Eyjafjallajökull var nógu ófrýnilegur að sjá svo þetta hlýtur að vera ógnarlegt sjónarspil. Enda horfðum við á mökkinn hér út um eldhúsgluggann í gærkvöldi og fylgdumst með eldingunum og ljósaganginum... í 220 kílómetra fjarlægð lesandinn athugi það. Svo miðað við þessa miklu fjarlægð er ótrúlegt að nú skuli vera öskufall hér á Selfossi meira en kom nokkru sinni úr Eyjafjallajökli.

Ég verð samt að segja að ég vona að þetta verði skammvinnt og skaði ekki bændur og búalið eða ferðamennskuna sem á allt undir að fá útlendingana hingað í heimsókn. Mér sýnist samt að fréttaflutningurinn erlendis sé á betri nótum en var þegar gaus í fyrra. Nú virðist enginn hræðsluáróður vera í gangi, reyndar er sú hætta enn fyrir hendi að forsetinn tjái sig í erlendum fjölmiðlum um þetta svo maður veit ekki ennþá hvað verður.
Það er svo magnað að upplifa svona stórgos og sjá hvað við erum smá þegar náttúran byltir sér aðeins. Þetta er samt smágos miðað við alvöru stórgos þegar margir rúmkílómetrar ryðjast upp á yfirborðið. það væru hamfarir sem myndu hafa áhrif á hitastig á jarðarkringlunni næstu árin á eftir með kulda og vosbúð.

Heimsendir var ekki á dagskrá þótt gjósi hraustlega hér, allavega hef ég ekki saknað neinna sem ég þekki og eru þeir þó margir sannkristnir í gegn.

Það besta í stöðunni er að bíða af sér hamfarirnar og halda svo lífinu áfram eins og ekkert hafi í skorist, njóta þess í æsar... og geyma minningarnar í sögur handa barnabörnunum, passlega kryddaðar fyrir svefninn. Svo er rétt að hafa í huga þá einföldu staðreynd að það hefur enginn hugmynd um heimsendi hvað þá dagsetningu á honum, allar slíkar heimsendaspár eru sjúkleg hugvísindi rugludalla.

föstudagur, maí 20, 2011

Hvad er det på dansk.

Nú er það Stövring. Óli og Annette eru söm við sig, gestrisin og góð heim að sækja. Jytte, móðir Annette, dvelur hér en hún er fárveik af krabbameini. Það er gæfa fyrir hana að fá að vera með þeim þennan tíma sem hún á eftir en það er ljóst í hvað stefnir. Annette annast móður sína af einstakri natni og umhyggjusemi.

Dagurinn er ætlaður í snatt sem meðal annars snýst um að skoða ísbúðir. Ekki að við séum svo mikið fyrir ís heldur neyðumst við til að kíkja í nokkrar vegna bisnessferðayfirvarps ferðarinnar... sem var reyndar bara grín, ferðin er hugsuð sem smá afslöppun fyrir annatímann sem er framundan hjá okkur og ísbúðarheimsóknirnar eru bara til að smakka góðan ís.

Við Erlan njótum lífsins eins og það kemur til okkar hvern dag, þannig er jú lífsdansinn, óvæntur og skemmtilegur.

þriðjudagur, maí 17, 2011

Andlátsfregnin var stórlega ýkt...

...en þau voru seint á ferðinni. Nína og Geiri eru mætt í hólmann sinn. Þau láta lítið yfir sér og eru ólík því sem áður hefur verið einkennandi fyrir þau. Þau dansa ekki á vatnsfletinum eins og áður heldur eru þau daufleg og sitja saman þegjandi nálægt óðalinu sínu.
Það er eins og þau séu þreytt enda líklega háöldruð. Hreyfingarnar eru hægar en virðulegar. Það tók þau miklu lengri tíma en áður að komast yfir hafið, sennilega er ellikerling að heimta tollinn sinn og kannski eru þau að fara síðustu ferðina sína til átthaganna.

Ég sagði ykkur að sagan þeirra væri fallegt ævintýri sem gaman hefur verið að fylgjast með og mér segir svo hugur að nú húmi að kveldi hjá þeim. Kannski eru þau að horfa á sólarlagið sitt og stilla taktinn fyrir síðustu skrefin.

Það var samt gaman að sjá þau mæta á staðinn sinn og fylgjast með þeim einu sinni enn og sjá hvernig álftalíf er í raun ekkert síðri framhaldssaga að fylgjast með en annað sem á dagana drífur.

laugardagur, maí 14, 2011

Blessað barnið

Litli Andri Ísak Björnsson verður blessaður í dag. Það er nálega það sama og barnaskírn fyrir þá sem ekki vita, munurinn er sá að það er ekki ausið vatni og það er ekki endilega prestur sem framkvæmir athöfnina. Barnablessunin verður hér í húsinu við ána. Afanum á bænum veitist það skemmtilega hlutverk og heiður að fá að blessa barnið.
Hér verða vinir og ættingjar sem fagna deginum með okkur enda stór dagur fyrir foreldrana og ættlegginn.
Til hamingju með daginn elskurnar.

fimmtudagur, maí 12, 2011

Aktið og eðlið

Það er manninum eðlislægt að líka vel við græna litinn. Það er vafalítið vegna þess að í gegnum árþúsundin höfum við komið okkur upp eðli sem er innbyggt án þess að við séum meðvituð um það. Ég held að þetta sé sama og á við um eld en það er viðurkennt að eldur hefur afar róandi áhrif á mannskepnuna. Eldurinn þýðir yl og öryggi sem á rætur einhversstaðar djúpt inni í sálinni, samansafn reynslu liðinna forfeðra okkar sem ornuðu sér við eld og fældu burt villidýr með honum í leiðinni.

Græni liturinn hefur þessi sömu áhrif á sálina. Róandi áhrif sem ekki er hægt að útskýra á neinn annan hátt en að tilfinningar forfeðranna hafa mótað genin þannig að þegar náttúran er græn þá er nóg að borða og tilveran vænni en um harðavetur.
Af hverju annars ættum við að finna þörf á vorin til að komast út í náttúruna til að baða okkur í græna litnum og sólinni.

Það er ekki bara sveitamaðurinn í mér sem lætur svona. Ég held að þetta eigi sér langtum dýpri og eldri rætur, þetta er frummaðurinn í okkur...
Þá vitið þið það, svona líka vísindalega útpælt...!

Gerið eins og ég krakkar, njótið tilverunnar.

laugardagur, maí 07, 2011

Er hann merkilegri...

... nágranni sem er í flottari stöðu eða á meira ef peningum en hinn sem vinnur láglaunavinnu og keyrir á gömlum bíl sem varla hangir saman?

Ég heyrði einu sinni haft eftir sprenglærðum prófessor sem hafði fjórar háskólagráður í farteski sínu að gráðurnar sínar væru ágætar en hver þeirra væri samt bara eins og hringur á svínsrófu.
Hvað meinti hann eiginlega, hringur á svínsrófu...?
Ég skildi líkinguna þannig að svín er bara svín alveg sama hversu marga hringi þú setur á rófuna á því.
Ég sé betur, eftir því sem árin líða, hvað þetta er rétt. Það verður enginn merkilegri þótt hann bæti við sig lærdómi, eða ef hann kemst í álnir og eignast peninga. Hann verður áfram sama "svínið" og öll hin "svínin"... bara með einn hring í viðbót á rófunni :-)

Mér flaug þetta í hug si svona eftir átök vikunnar en lögfræðin er þannig í eðli sínu að hún er leit að réttlæti og þá vill stundum bregða upp þessari mynd hvað sumir einblína á hringinn á rófunni á sér og bera hann saman við hringlausu rófuna sem er að bögga hann en fatta ekki um leið að þeir eru sama eðlis, bara tvö "svín".

Mannskepnan er þannig innréttuð að hún flokkar fólk í píramída þar sem þessir með skreyttustu rófuna tróna efstir en þeir hringlausu neðstir.
Þetta var mjög áberandi fyrir hrun en þá var peningahringurinn flottastur. Gráðuhringurinn var minna metinn þá en hefur eitthvað vaxið að virðingu eftir hrun.
Þetta er skondið að verða var við, því hvernig sem á allt er litið og hvernig sem við snúum dæminu, þá erum við öll jöfn. Við fæðumst öll jafn nakin og við förum héðan öll eins, eignalaus ofan í holu... og svo er mokað yfir!

Njótið dagsins.

fimmtudagur, maí 05, 2011

Er það forsvaranlegt?

Það heyrast alltaf raddir um að við ættum að fara öðruvísi að þegar ísbirnir ganga á land hér. Ekki drepa þá er krafan. Ég get alveg tekið undir að það væri vissulega gott að hafa aðgerðaráætlun sem gengi út á að bjarga þessum fallegu skepnum til heimahaganna sinna aftur.
Það er þó auðveldara um að tala en í að komast. Ég man þegar björninn kom á Skaga 2008. Þá voru þessar raddir háværar og reyndu yfirvöld að fanga björninn m.a. með deyfibyssu. Það reyndist ekki hægt og varð að skjóta hann á færi.

Það sem stendur uppúr og taka verður tillit til er að þetta eru með hættulegustu skepnum jarðarinnar. Þetta eru engir leikfangabangsar, þeir eru ekki í neinum vandræðum að fella mann og hafa hann í morgunmat ef þannig ber undir.
"Þessi var svo langt frá mannabyggðum" segir fólk. En það var göngufólk yfir í næsta firði og björninn er mjög fljótur í ferðum, "en fólkið var nú látið vita af birninum". Þau rök eru haldlaus því vitneskjan um björn gerir ekkert fyrir óvopnaða göngumenn ef hann ákveður að hafa þá í matinn. Smelltu hér á slóð þar sem sést hvað þessi dýr geta áorkað.

Ég er dýravinur, en ísbirnir eru fyrst og fremst stórhættuleg dýr sem verður að skjóta ef minnsti vafi leikur á að þeir geti komist í tæri við fólk.
Björninn á ekki að njóta vafans.

þriðjudagur, maí 03, 2011

Aðeins að poppa upp útlitið

Langaði að hafa þetta aðeins suðrænna, það er jú komið sumar með sól í heiði og pálmatrén á ströndinni... er það ekki?
Allavega á dagatalinu... og sálinni.

mánudagur, maí 02, 2011

Þar kom það loksins...

...sumarið. Það var eins og við manninn mælt, um leið og hitinn rauk upp fylltist ísbúðin af ísþyrstum frónbúum sem voru meira en til í að hrista af sér vetrarslenið með gómsætum og svalandi ís.
Gærdagurinn var snilld. Við vorum virkir þáttakendur í hátíðarhöldunum sem voru á baklóðinni hjá okkur. Þar var fornbílaklúbburinn með sýningu og svo voru söngatriði og ræður. Við vorum með andlitsmálningu fyrir krakkana sem vakti mikla lukku. Enda var stanslaus biðröð í málunina í nokkra klukkutíma. Sannkölluð karnivalstemning í ísbúðinni.

Forsmekkurinn að sumrinu, það verður mikið að gera. Basicplus er í fínum gír líka, við höfðum opið í gær í nokkra klukkutíma fyrir konurnar sem komu með börnin í málningu, þær voru kátar með það. Konur og föt, að ég tali nú um skó, er einhver blanda sem við karlar ættum ekkert að vera að reyna að skilja.

Njótið frekar góða veðursins, það geri ég.

laugardagur, apríl 30, 2011

Ég er gull og gersemi...

...tautaði hann hokinn í baki um leið og hann hvarf inn um hurð sem lokaðist á eftir honum. hún opnaðist strax aftur, fjóra poka af hvoru sagðirðu?
Ha já... svo hvarf hann aftur. Gull og gersemi hugsaði ég, góður með sig. Ég beið smá stund meðan hann fann til pokana.

Þú ert með þetta allt í kollinum? Já já allt í kollinum sagði hann og tölurnar ultu á blaðið úr pennanum hans.
Ég er gull og gersemi, tautaði hann áfram, gimsteinn elskuríkur.....

Svo leit hann snöggt upp til mín og spurði: Hvort er betra að segja "Ég er gull og gersemi gimsteinn elskuríkur", eða "Ég er djásn og dýrmæti, Drottni sjálfum líkur"...?
Hann beið eftir svarinu annarshugar um leið og hann kláraði að skrifa nótuna. Hvort er betra?
Tja þegar stórt er spurt... svaraði ég, ætli það falli ekki undir guðlast að líkja sér við sjálfan Drottinn.
Hann kláraði nótuna, rétti mér hana og leit fast á mig.
Ég veit það ekki sjálfur... bara veit það ekki... en keyptu alltaf sem allra mest af mér og farðu varlega í umferðinni... og vertu blessaður.

Já, blessaður. Ég bar pokana út og setti þá í skottið á bílnum mínum, settist undir stýri og keyrði burt... ásamt Erlunni

föstudagur, apríl 29, 2011

Lífið er matur

Svo sannarlega má halda því fram. Hann er auðvitað lífsnauðsynlegur eins og best sést á fólki sem ekki hefur neitt að borða. Hann er líka ánægja. Bragðkirtlaríku fólki eins og mér getur fundist það upplifa ákveðna sælutilfinningu við að borða góðan mat, þá á ég við eitthvað sem kætir bragðlaukana meira en annað.
Það fylgir þó böggull skammrifi því mat er hægt að misnota eins og annað. Það er með öðrum orðum hægt að éta sig í gröfina.
Ég var að lesa sögu ungrar konu sem glímdi við átfíkn. Sú fíkn er ekkert skárri en aðrar fíknir, hún veldur sársauka og getur drepið ef ekki er gripið inn í.

Ég er hrifinn af fólki sem lætur hendur standa fram úr ermum, setur sér markmið og framkvæmir síðan það sem þarf til að markmiðið náist.
Sumir setja sér nefnilega markmið en gleyma því nauðsynlegasta... að vinna.
Þar skilur á milli þeirra sem ná árangri og þeirra sem gera það ekki.

Þetta var bara svona smá hint út í loftið...
Eigið góðan dag.

miðvikudagur, apríl 27, 2011

1. maí fjölskylduþema.

Við verðum meiri þáttakendur í 1. maí hátíðarhöldunum næstu en við höfum verið þekkt að áður. 1. maí skrúðgangan byrjar hjá brúnni klukkan 11:00 og gengur Austurveginn að Íslandus ísbar og skrifstofum verkalýðsfélaganna. Hátíðardagskráin verður svo á planinu hjá okkur, fornbílaklúbburinn verður með sýningu á bakvið hús og innandyra verður andlitsmálning fyrir börnin og ístilboð í tilefni dagsins. Svo ætlum við í tilefni dagsins að bjóða fólki að smakka ískaffið okkar frá klukkan 12:00 - 14:00, í boði hússins. Smellið á plakatið til að skoða betur dagskrána.
Það verður bara gaman að taka þátt í bæjarlífinu með þessum nýja hætti. Ég býð hér með vinum mínum sem lesa bloggið mitt eða fésbók að koma við og fá sér hressingu.

mánudagur, apríl 25, 2011

Úti er allltaf að snjóa...

Hér gerast menn langeygir eftir vorinu. Ég horfi á árbakkann sem ætti að vera orðinn grænn af vorbrumum á hverju strái en í staðinn sé ég ...snjó. Hann er ágætur en bara á þeim tímum sem hann er samþykktur. Hann er boðflenna í þessu partíi, þemað átti að vera grænt.
Það verður að hafa það, vorpartíinu verður bara frestað enn um sinn. Við höldum þá bara páskapartí í staðinn.
Ég á von á öllum ættleggnum mínum hingað í dag. Við ætlum að eiga góða samveru og borða hænsnarungabita (færeyska) saman seinni partinn. Það er alltaf gaman að hittast, það telst garðrækt. Garðurinn okkar stendur raunar í blóma því veturinn er liðinn og vorrigningarnar um garð gengnar.... Kurr turtildúfunnar heyrist og hér drýpur hunang af hverju strái. Ég hef sagt ykkur þetta oft, Selfoss rúlar.

Ég hlakka til dagsins og lít björtum augum til framtíðar.

sunnudagur, apríl 24, 2011

Páskar og hret

Það gengur á með éljum. Spáin gerir ráð fyrir suðvestanstormi og varar við ferðalögum. Jafn mikið og tækninni fleygir fram í veðurspám get ég ekki skilið hversvegna það virðst vera minna að marka veðurspár núna en var fyrir nokkrum árum. Ég hef fylgst með veðri undanfarið ár vegna ísbúðarinnar en salan fer mjög eftir veðri og við verðum að skipa vaktirnar eftir því hversu mikið er að gera. Við treystum því á veðurspár en hending virðist ráða hvort þær rætast.
Kannski við ættum bara að fá okkur beina línu á veðurklúbbinn í Dalvík, það er hópur aldinna borgara sem spáir í veðrið eftir gömlum aðferðum. Ætli það sé nokkuð verra. Páskahretið árlega átti þó eftir að koma fram og sennilega er þetta það sem gengur nú yfir. Við ákveðum það allavega og væntum vorsins í framhaldi.

Nú er páskadagur og því fylgir páskaeggjaát... yfirleitt. Hér á bæ eru engin páskaegg þetta árið. Allir eru í aðhaldi við fitupúkann og hann elskar páskaegg og því er honum haldið soltnum þetta árið og sjá til hvort hann hypji sig ekki.

Það er ekki hægt að skrifa um páska án þess að minnast hvaða gildi þeir hafa fyrir kristna trú. Það má segja að ef upprisan hefði aldrei orðið hefði kristin trú aldrei orðið til heldur. Grundvöllur kristninnar er upprisan. Það er því í hæsta máta eðlilegt að þeir sem alls ekki trúa upprisunni, hafni þar með kristninni. Hvaða gildi hefði Kristur annað en að hafa verið merkilegur maður innan um alla hina merkismennina sem fæðst hafa, ef ekki nyti upprisunnar? Hvar væri kristin trú? því er auðsvarað, hún væri ekki til.
Ég hef oft velt því fyrir mér hversvegna páskahátíðin er ekki meiri hátið en hún er í raun. Jólin eru miklu meiri hátíð í augum alls þorra manna, þar á meðal mín. Það er þó á páskum sem grundvöllurinn varð til. Kannski hefur þetta að gera með kúltúr þjóðarinnar, en jólin eiga sér líka rætur aftur í heiðni að því leyti að á þessum tíma var því fagnað að sólin færi að rísa á ný en í kristni þýða þau, eins og allir vita, fæðingu frelsarans. Þessi tvöfalda rót lengst ofan í þjóðarsálinni hefur að líkindum vægi. Páskarnir ættu samt að vera á hærri stalli meðal kristinna þjóða en þeir eru, það er lógísk pæling, svo mikið er víst. Annars virðist ekki þurfa einhverja aldalanga sögu til að festa hátíðir í sessi, verslunarmannahelgin á sér enga svoleiðis sögu en er heilmikil hátíð, innmúruð og naglföst.

Þessi morgunþanki er bara smá hugarflug um tilgang eða tilgangsleysi hlutanna eins og svo sem flest sem ég hendi hér niður. Lítil stórhátíð sem ætti að vera á hærri stalli? Það er bara svo skrítið að eldast og skilja um leið betur og betur hvað við vitum lítið. Það er þó eitt gott við að velta fyrir sér tilgangi hlutanna, það skerpir stundum sýn á hvað er hismi og hvað eru hafrar.

Gleðilega páska vinir mínir, njótið súkkulaðisins - það er gott.

föstudagur, apríl 22, 2011

Allra helgastur...

Þessi dagur ársins er sá allra helgasti í mínum huga. Í sveitinni heima var okkur kennt að þennan dag ætti ekkert að gera nema það allra, allra nauðsynlegasta. Hvað ungur nemur gamall temur, það er merkilegt hvað situr eftir úr uppeldinu kominn yfir fimmtugt. Raunar er það þannig að við mótum okkur auðvitað sjálf þegar foreldrahendinni sleppir. Ég fór ungur að heiman og byrjaði því uppeldishlutverkið á sjálfum mér snemma.
Það er samt þannig að ég hef alltaf haldið við þessari hugsun að föstudagurinn langi, dagurinn sem Jesú var krossfestur, sé sá dagur ársins sem við höldum helgastan. Það mótast af því að krossfestingin eins ljót og hún er, er áhrifavaldurinn sem gerir kristni að því sem hún er. Krossfestingin varð að vera undanfari upprisunnar til að um væri að ræða fórn til friðþægingar mannkyni.
Það er því umhugsunarefni hversvegna svo margir kristnir horfa framhjá þessu verki og predika lögmálskenningar fram í rauðan dauðann. Í mínum huga er það átroðsla og vanvirðing við fagnaðarerindið sem í krossfestingunni og síðan upprisunni felst.

Ég ætla þó ekki að fara að predika heldur geng ég sáttur út í daginn vitandi að orð Krists á krossinum "það er fullkomnað" eru í gildi og ég lifi undir þeirri náð sem í því felst.

Eigið góðan dag og njótið páskanna gott fólk.

fimmtudagur, apríl 21, 2011

Minningargrein

Ég er búinn að bíða eftir þeim um hríð. Ekkert hefur bólað á þeim ennþá en þau ættu að vera komin fyrir þó nokkru síðan. Svæðið þeirra er nú óvarið og grágæsir vappa yfir "heimilið" þeirra til margra ára sem nú er bara lítil óhrjáleg hrúga. Það er eftirsjá í þeim enda skemmtilegir nágrannar. Nína og Geiri eru öll.

Kannski gáfust þau upp yfir hafinu, orðin of lúin til að komast á leiðarenda, eða borið beinin á breskri grund, það væru ill örlög.
Það rann að mér sá grunur í fyrra að þau væru orðin gömul því síðustu tvö ár hafa þau ekki komið upp ungum þó þau hafi mætt á staðinn sinn, gert upp óðalið (flottara orð en dyngja) og tekið þátt í varpi eins og undanfarin ótiltekin árafjöld. Þegar við fluttum hingað fyrir fimm árum átti ég tal við gamla konu sem bjó í húsinu hér fyrir neðan, hana Boggu gömlu, sem dó fyrir tveimur árum. Hún sagði mér að þessar álftir hefðu orpið þarna í fjölda ára áður en við komum hingað.

Álftir maka sig til lífstíðar og halda tryggð við maka sinn ævilangt. Þær eru aldrei langt undan ef eitthvað kemur upp á og verja hvort annað af hörku ef þarf. Það er skemmtilegt umhugsunarefni hvað það er sem stýrir þessu. Er þetta innbyggð eðlisávísun til að viðhalda stofninum eða er þetta trúnaður og traust.... kannski kærleikur? Gæti allavega verið mörgu mannfólkinu til eftirbreytni :-)

Hvað sem ræður för þá er þetta fallegt. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeim koma heim eftir langt flug yfir hafið saman og fylgjast með þeim undirbúa fjölgun ættleggsins síns. Fallegur dansinn þeirra á vatnsfletinum og hljómmikill lúðrablásturinn á björtum sumarnóttum hér við ána ásamt endalausri þolinmæði við útungun eggja og natnina við ungana sem að lokum skriðu út hefur verið falleg ástarsaga að fylgjast með.
Það er söknuður af þeim. Kannski flytja afkomendur þeirra hingað, hver veit?

Njótið dagsins vinir.

mánudagur, apríl 18, 2011

Hér er hávaði og læti...

...og hamagangur á hóli. Rólegheitin sem hér tipla á tám flesta daga hafa yfirgefið húsið og verkefni dagsins verður líklega að hafa ofan af fyrir þremur stelpuskottum sem eru í heimsókn hjá afa sínum og ömmu.
Skilningur minn á forgangsröðun lífsins eykst með árunum og mér er kristalljóst hversvegna skaparinn ákvað að barneignir skyldu vera á ákveðnum fyrriparti ævinnar. Það er auðvitað til þess að maður geti verið afi og amma á síðari helmingnum... ;-)

Það hefur marga augljósa kosti að vera afi og amma. Það væri ábyrgðarlaust af mér að upplýsa foreldra um það hér að uppeldisaðferðir afa og ömmu geta verið frjálslegri en tíðkast í foreldrahlutverki eins og þetta með afanammið og annað en um það ræðum við ekki hér.

Börn eru það yndislegasta sem til er.

sunnudagur, apríl 17, 2011

Stelkurinn, Hrossagaukur...

...og ég vöknuðum árla í morgun. Þeir voru báðir vaknaðir á undan mér en sáu um að ég svæfi ekki yfir mig. Vorið er komið og grundirnar gróa... Dagurinn brosti með mér þegar ég lá og hlustaði á þessa vini mína. Stelkurinn, með sitt hvella hljóð var svo nálægt að hann minnti mig á gamla tíma þegar ég var lítill drengur austur í sveit, fetandi grösugan lækjarbakkann með orm úti, búinn að tendra kveikiþráðinn að veiðidellunni sem síðar varð, vitandi návæmlega punktinn sem silungarnir kæmu undan bakkanum og tækju agnið og Stelkurinn, það fylgdi oftast, lék sér í kringum mig með sínum hvella hávaða. Svona eru minningarbrot bernskunnar, þau brjótast stundum fram og raðast jafnvel í heillega mynd, gjarnan af litlum strák að veiða og veiða meira og veiða enn meira.

Svona fæddist nú veiðidellan. Útiveran og fuglagargið ;-) það er grunnurinn. Hugurinn fer alltaf á flug þegar ég heyri þessi vorhljóð. Ég lá lengi vakandi áður en ég tímdi að fara á fætur. Það er eitthvað svo gott að hlusta á þessa fiðruðu tvífætlinga sem boða manni betri tíð og blóm í haga.

Njótið dagsins vinir.

þriðjudagur, apríl 12, 2011

Við Andrés önd...

...berum báðir þennan sérstaka munnsvip. Það þurfti að skera aðeins í vörina á mér og því er ég svona skemmtilega kyssilegur eins og hann.
Ég er að bíða eftir vorinu eins og þið öll en gullvagninn sem dregur vorið hingað er eitthvað seinn á ferðinni í ár.
Ég sé samt teikn á lofti... farfugla sem eru að týnast hingað. Þeir láta ekki plata sig og koma hvernig sem viðrar.
Annars erum við í góðum gír hjónin, sjáum glasið hálffullt fyrst það er valkostur. Hálftómt glas er eitthvað svo dapurlegt.
Bretar og Hollendingar eru í fýlu út í okkur, við finnum út úr því. ESB líka en við finnum út úr því líka. Við erum enn "best í heimi", við eigum fallegasta kvenfólkið, sterkustu karlmennina og svo erum við klárust.
Hvað sem öllu líður, eins og klettur í hafi og hvernig sem vindurinn blæs er Ísland besta land í veröldinni....!

sunnudagur, apríl 10, 2011

Fæst orð...

... bera minnsta ábyrgð svo ég ætla ekki að taka jafn djúpt í árinni eins og mér er innanbrjósts. Nú liggur fyrir að meirihluti þjóðarinnar sagði nei í kosningunum. það er ekkert við því að gera annað en að sjá hvað verður. Eitt er samt dagljóst, þetta þýðir framlengingu á kreppunni.

Núna finnst mér blasa við það sem ég kastaði fram hér um daginn að málið átti ekkert erindi í þjóðaratkvæði því að allur þorri fólks hefur ekki forsendur til að mynda sér skoðun á málinu af viti, málið er allt of flókið sem sést best á niðurstöðunni, Hættan við svona flólkið lögfræðilegt mál er sú að það sé reynt að klæða það í einfaldan búning, sem það passar ekki í, til að hafa áhrif á hvernig fólk kýs. Það gefur auga leið að það er auðveldara að segja fólki með frösum að það hafi ekki flogið með einkaþotum eða siglt á lystisnekkjum og því eigi það að segja nei. Eða að það eigi ekki að borga fyrir óreiðumenn. Eða að það eigi ekki að láta kúga sig og þar fram eftir götunum, en að segja því að það sé ódýrara og farsælla að semja um málið og snúa sér að uppbyggingu samfélagsins.

Vigdís Finnbogadóttir var góður forseti, hún sagði já vegna þess að það væri farsælla fyrir landið og þjóðina. þar hitti hún naglann á höfuðið með einni setningu.
Það er ekki orði eyðandi á núverandi forseta, sá pólitíkus og skrautfjöður útrásarvíkinganna sem settu okkur á hausinn er sennilega meiri skaðvaldur en víkingarnir sjálfir. Ég sakna Vigdísar, skarpgreindur og hæfur forseti. Við værum ekki að svamla í þessari for ef hún væri við stýrið.

Ég ætla samt ekki að eyða dögunum í pirring yfir þessu floppi okkar heldur lít ég bjartsýnn fram á veginn.
Það er reyndar lengra í sumarið en ég vonaði.

fimmtudagur, mars 17, 2011

Þabbara eins og kominn sé vetur...!

Janúar og mars hafa skipt um hlutverk. Janúar heldur að hann sé vormánuður og mars að hann sé janúar. Virðist vera að koma vetur hér.
Eru ekki allir að gera upp hug sinn varðandi Icesave? Ég vona að allir vinir mínir séu nógu hugsandi til að setja já á kjörseðilinn. Nú er meira að segja nauðsynlegt að mæta á kjörstað með jáið sitt til að minnka hættuna á framhaldskreppu eða jafnvel öðru hruni. Snillingurinn forsetinn sem ýtti okkur út á þennan hála ís hefur aldrei verið vinsælli. Merkilegt hvernig hjarðeðlið getur blindað sýn hugsandi fólks, eða er fólk kannski ekkert að hugsa, annað en það sama og fyrir hrun að við séum mest og best, hinn ósigrandi her. Eins og ég sagði um daginn þá er fólk kannski ekki endilega fífl.... en svakalega eru til margir áhættusæknir kjánar...!

föstudagur, mars 04, 2011

Orð dagsins

Að lifa ánægður við lítinn auð, að sækjast eftir glæsileika í stað glingurs, fágun í stað tískufyrirbæra. Að vera verðugur en ekki aðeins virtur, auðugur en ekki ríkur, að læra mikið, hugsa í hljóði, vera varkár í orðum, heiðarlegur í gjörðum. Að hlusta á stjörnurnar og fuglana, á smábörn jafnt sem stórmenni með opnum huga og opnu hjarta. Að láta lífsgleðina ráða ríkjum og hafa hugrekki til athafna. Að grípa tækifærin þegar þáu gefast, hafa engar áhyggjur...

Uppfyllirðu þetta vinur minn ertu í öllum skilningi... enginn meðalmaður.

William Ellery Channing

þriðjudagur, mars 01, 2011

Formleg opnun Basicplus

Jæja þá er búið að opna búðina. Hún kemur vel út og er bara flott. Það verður gaman að sjá hvernig viðtökurnar verða. Nú er bara að klára það sem eftir er ísbúðarmegin og smíða lagerpláss á bakvið fyrir föt. Það verður gott þegar þetta er allt búið og hægt að snúa sér að öðrum vekefnum.

Svo er nú stórafmæli í fjölskyldunni á morgun. Eygló og Arna verða þrítugar. það er alveg ótrúlegt þegar litið er til þess hvað við erum ung...! Þær sjá um að uppfylla jörðina líkt og við sjálf. Það eru stórkostleg forréttindi að sjá hópinn sinn stækka svona eins og raunin er. Það er alvöru, alvöru, fljótandi auðlegð.

Kallinn er kátur með tilveruna.

föstudagur, febrúar 25, 2011

Basicplus

Það er að síga á seinnihlutann á þessari vinnutörn. Lífið er stundum skondið. Við ákváðum um áramótin síðustu að þetta skyldi verða framkvæmdalítið ár eftir afar annasamt ár í fyrra. það er nú einhvernveginn þannig að maður sér stundum fleyg orð rætast, t.d. þetta að "Mennirnir áætla en Guð ræður" því oft virðist mér að lífið sjálft taki aukaspor í dansinum okkar sem gerir hann skemmtilegri og fjölbreyttari en maður sjálfur hefur ákveðið.
Við opnum Basicplus á mánudaginn með smá foropnun frá klukkan 18 - 20 þar sem (kven)vinum og vandamönnum er boðið að koma og versla meðan allt er fullt út úr dyrum af nýjum vörum.
Stelpur á öllum aldri, þið eruð velkomnar í smá fyrirpartý.

mánudagur, febrúar 21, 2011

Icesave og kosningarnar

Fólk er fífl... segja sumir. Ég er ósammála fullyrðingunni í megindráttum, ég tel frekar að upp til hópa sé fólk ágætlega að sér og alls ekki fífl. Er þá ekki fagnaðarefni að fólk fái að greiða atkvæði um Icesave, er það ekki besta mál? Ég held reyndar að niðurstaðan blasi við fyrirfram og það þurfi nánast ekki að kjósa um þetta mál, hún verður sú sama og síðast nema að framhaldið verður dómstólaleiðin sem verður öllum líkindum farin í þetta sinn. Það er þá vilji fólksins sem ræður, svo hvert er þá vandamálið?
Spurningin hlýtur að snúast um hvort fólk hafi nægar forsendur til að taka afstöðu af einhverju viti. Er það eitthvað til að hræðast?

Afhverju ræður fólk arkitekt og verkfræðing til að teikna hús? Er ekki bara nóg að vera þokkalega ágætur í teikningu og komast bara sjálfur fram úr því? Fólk þekkir reyndar ekki reglugerðina sem þarf að fylgja eftir í þaula eða burðarþolsfræðin svo húsið fjúki ekki í næsta roki eða hristist ekki í sundur í næsta jarðskjálfta, eða eðlisfræðina bakvið þéttingu lofts þar sem kalt og heitt loft mætast og loftunarkröfur til að mæta rakamettuninni sem þá verður óhjákvæmilega – margir vita ekki einu sinni hvað loftun er. Eða kröfur um brunafrágang, hvar þarf eldvarnarveggi eða brunaop, hvað er brunaop? Fjöldinn kann yfir höfuð ekkert um byggingamál.

Icesave snýst um snúin og flókin lögfræðileg álitaefni. Ekki einfaldari en fræðin á bakvið eina húsbyggingu, öðru nær. Við fáum fræðinga til að sjá um húsateikningarnar fyrir okkur en ætlum sjálf að teikna upp bestu lausn í Icesave, því við erum snillingar, eins og best sást þegar við lögðum heiminn að fótum okkar í þenslunni. Málið er svo flókið að hæfustu lögspekingar hafa eytt mánuðum í að kafa í málið til að átta sig á landslaginu og hafa fundið út að vafasamt sé að fara dómstólaleiðina. Hættan er raunveruleg, sú að þjóðin skjóti sig í fótinn og sitji eftir með sárt ennið, margfalda skuld og flekkað mannorð í samfélagi þjóðanna.

Við teiknum húsin okkar ekki sjálf af því við teljum sérfræðingana þekkja betur til verka. Nokkrir okkar hæfustu lögfræðinga hafa gefið út að mjög varasamt sé að láta reyna á dómstólaleiðina. Líkurnar eru okkur ekki hliðhollar. ESA nefndin, með stóð lögfræðimenntaðra sérfræðinga innanborðs hefur komist að þeirri niðurstöðu að okkur beri að borga Icesave kröfur Hollendinga og Breta að lögum hvort sem okkur líkar það betur eða verr. ESA mun sækja mál á okkur fyrir EFTA dómstólnum fyrir samningsrof og síðan munu Bretar og Hollendingar væntanlega sækja skaðabótamál og beita fyrir sig jafnræðisreglunni sem er í fullu gildi og skyldar okkur til að borga erlendum innistæðueigendum á sama hátt og innlendum. Þeir geta einnig notað orð Forsætisráðherra í ríkisstjórn sem lýsti því yfir 2008 að öll skuldin yrði greidd en sú yfirlýsing er væntanlega bindandi að þjóðarrétti. Við höfum innleitt meirihluta regluverks Evrópusambandsins inn í okkar landsrétt í gegnum EES og höfum því ekki val, við lútum þeim reglum.

Hvati þessa pistils er þessi þungi tónn í þjóðfélaginu. Fólk telur sig vita betur en hæfustu lögvitringar, það er tilefni kjánahrolls niður hrygglengjuna að hlusta á slíka einstaklinga, enda.... má segja að ef einhverjir falla undir upphafsorð þessa pistils þá eru það sennilega þessir.

Ég get ekki tekið undir hallelújakórinn í kringum forsetann fyrir að synja lögunum staðfestingar. Þvert á móti tel ég hann vera á harðahlaupum að gambla með fjöregg þjóðarinnar og taka áhættu fyrir okkar hönd langt út fyrir skynsemismörk.
Ég tek undir orð ritstjóra DV í dag (22. feb.)„Þjóðarskútan leggur nú á djúpið þar sem óvissan ein er fararnestið“. Í boði forseta vors, lesandinn athugi það.

Það er ekki víst að við verðum jafn heppin og síðast. Tíminn mun leiða það í ljós. Það er þá alltaf hægt að vera foxillur út í ríkisstjórnina, það er þjóðaríþrótt.

Ég mun segja já í kosningunum.

föstudagur, febrúar 11, 2011

Stóru orðin, sögðu þeir veðurfræðingarnir...

Ofsaveður.... Þannig var spáin í gær. Ég fór árla á fætur til að fylgjast með ofsanum. Hér er bálhvasst og rignir mikið en það fer lítið fyrir ofsanum. Ofsi þýðir eitthvað brjálað. Ætli maður megi samt ekki vera ánægður með að veðrið er ekki á þeim skalanum því ofsi á það til að skemma hluti. Kári "vinur" minn, sem ég vitna oft í er sjaldan svo kræfur.
Það er samt þannig að ég og veðurhæð erum tengd ósýnilegum tryggðaböndum. Ég veit ekki hvers vegna ég hef svona gaman að veðri þ.e. vondu veðri og fæ sennilega aldrei neinn botn í það. Það er sennilega frummaðurinn í mér. Tilfinningin að eiga sér skjól fyrir látunum, hafa fjölskylduna sofandi inni í skjólinu og vera sjálfur á kíkkinu að allt sé í stakasta lagi. Gamli hellisbúinn líklega...!

Hér sit ég með rjúkandi kaffibolla við skrifborðið mitt og rýni út í sortann, réttu megin við glerið, og hlusta á regnið berja rúðurnar og vindinn rífa í húsið án þess að verða nokkuð ágengt... og hugurinn fer á flug.
Mikið á ég gott.
Að hafa fæðst í þessu landi sem ber í sér öll þessi lífsgæði. Íslensk hús eru sterkbyggð og hlý og allir, eða því sem næst, hafa húsaskjól. Langflestir eiga í sig og á. Flestir eiga farartæki sem ber þá um landið í hlýju og notalegheitum, það er ekki lengur vosbúð að ferðast milli staða. Landið er fljótandi af gæðum, heitt vatn, nægt ferskvatn, fiskur í sjónum, gríðarleg orka, náttúrufegurð, hreint loft, byggingarefni og góð hús. Nýjasta tækni á öllum sviðum.
Hér sit ég og set niður þankagang minn á skjá sem von bráðar verður sýnilegur þeim sem vilja, sendibréf... hvað var það nú aftur.

Gæðin eru yfirþyrmandi. Samt held ég að hvorki ég né aðrir núlifandi Íslendingar gerum okkur grein fyrir hversu gott við höfum það. Þetta segi ég þrátt fyrir matargjafir og annað sem viðgengst í dag sem margir frussa út úr sér að sé yfirmáta sorglegt og argast yfir því hvað allt sé hér ömurlegt en gleyma í leiðinni að við erum að rísa úr öskustó allsherjarhruns. Það út af fyrir sig eru gæði að matur sé til. Allavega miðað við milljónirnar úti í heimi sem eru deyjandi vegna matarskorts og myndu ekki víla fyrir sér að standa í röð ef matur væri á hinum endanum. Ég get ekki tekið undir að hér sé allt á vonarvöl. Við erum nálægt toppnum hvað lífsgæði varðar í samfélagi þjóðanna.
Fyrir það ættum við að vera þakklát og hætta öllu víli.

Við Kári höfum átt fínasta samfélag þennan morguninn en Ofsi... hann lét ekki sjá sig.
Eigið góðan dag.

laugardagur, febrúar 05, 2011

Vetur kóngur

Það telst til tíðinda að snjói. Í gærdag snjóaði allan liðlangan daginn svo nú er hér allt á kafi í snjó. Það er eðlilegt, það er febrúar. Það er öllu óvenjulegra að þetta er nánast fyrsti snjór vetrarins. Eitthvað eru veðrakerfin að breytast. Hér á landi til góðs en til hins verra víða annarsstaðar á jarðarkúlunni.
Þótt hann snjói þá er orðið stutt í vorið góða grænt og hlýtt.

Þessa dagana er ég að vinna við að breyta húsnæðinu okkar á Íslandus ísbar. Ég er sem sagt að stúka það í tvennt. Basic plus er að flytja til okkar í þann helming sem minjagripirnir voru. Við verðum eigendur að helming á móti Rakel og Sævari.
Það verður gaman að vinna þetta með þeim og ég hef góðar væntingar.

Í kvöld verður svo þorrablótið okkar systkinanna í 34 skipti held ég. Góður siður sem verður ekki aflagður.

Dagurinn verður góður, njótið hans, það ætla ég að gera.

föstudagur, janúar 14, 2011

Afmælisbarn dagsins

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag, hún á afmæli hún Erla, hún er fimmtíuogeinsárs í dag.
Tíminn æðir á öðru hundraðinu og við hlaupum með. Á sautján ára afmælisdaginn hennar trúlofuðum við okkur. Börn, sögðu sumir, það fannst okkur ekki, endist ekki lengi sögðu aðrir, þið eruð alltof ung.
Tíminn er afstæður og spurning hvað er löng ending. Ég vil frekar kalla þetta farsæla vegferð því árin hafa verið góð þótt auðvitað hafi oft gefið á bátinn, enda má spyrja, hver fer yfir hafið án þess að fá á sig pus annað slagið?

Erlan er persóna sem auðvelt er að umgangast og enn auðveldara að elska. Í mínum augum, gimsteinn sem ber af öðrum gimsteinum, þess vegna passa ég svona upp á hann.
Það eru mín forréttindi að fá að hafa hana sem förunaut í gegnum lífið. Við höfum nú skilað 33 köflum skrifuðum af sögunni okkar, jafnmörgum og Kristur lifði hér á jörð.
Ég vona að við fáum að skrifa söguna okkar áfram á góðu nótunum og sameiginleg ósk okkar um lokakaflann rætist... og þau lifðu hamingjusöm til æviloka og gengu saman inn í sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd...

Það er lýsandi um karakter Erlu að hún gerði orð sveitunga míns Þorsteins Erlingssonar að sínum:

Mig langar að sá
enga lygi þar finni
sem lokar að síðustu
bókinni minni.

Ef þetta er gerlegt er Erla góður kandidat. Elsku Erla mín til hamingju með daginn þinn.

laugardagur, janúar 01, 2011

Hvað boðar nýárs....

blessuð sól, eða dagrenning? Enn einn hringurinn á byrjunarreit og enn eitt óskrifaða blaðið rétt upp í hendur manns. Stærsta óskin mín er að næstu áramót verði jafnmikið þakkarefni og þessi. Ef okkur auðnast að skrifa söguna okkar án stóráfalla, ef hún verður slysalaus, sjúkdómalaus og allir verða hamingjusamir þá erum við á réttri leið. Hamingjan er að hlakka til næsta dags sagði stórskáldið Halldór Laxness. Það er auðvelt að taka undir það. Hver nýr dagur með hversdaginn innanborðs er sumum ævintýr en öðrum víti.
Ég vona að árið gefi okkur hvern einasta dag tilefni til að brosa við tilverunni og hlakka til næsta dags, þá verð ég kátur.

Með þakklæti kveð ég gamla árið og þakka ykkur lesendum síðunnar fyrir samfylgdina á árinu og bið ykkur Guðs blessunar á nýju ári.