Gærdagurinn var stór hér á bæ, Arna og Hafþór gengu í heilagt hjónaband í Fljótshlíðskri sveit. Breiðabólsstaðakirkja er falleg lítil og notaleg kirkja sem tekur 120 manns í sæti. Smæð kirkjunnar skapar meiri nánd en annars og gerir andrúmið heimilislegra og notalegra. Guðni Hjálmarsson gaf þau saman en hann er forstöðumaður Betel í Vestmannaeyjum. Guðni vann hjá mér forðum daga við smíðar svo við þekkjumst líka vel. Hann gerði þetta vel og athöfnin var falleg.
Veislan var svo í Goðalandi á sama punkti og ég sat mín barnaskólaár, reyndar í nýju húsi en gamla Goðaland var rifið og nýtt byggt í staðinn. Ég sakna gamla hússins sem afi byggði, það var fallegt hús með valmaþaki allan hringinn.
Það var svo upplifun að finna baksviðs gamalt skólaborð og stól sem ég sat við forðum á einhverjum tímapunkti, eins voru gömlu kennaraborðin þarna, nostalgían í algleymi við að sjá þetta.
Veislan var skemmtileg og maturinn alveg sérlega góður. Binni kokkur kann sitt fag, lambið var sérdeilis ljúffengt og meðlætið einnig.
Mikið var um ræðuhöld og skemmtiatriði, minni brúðar og brúðguma var skemmtilega framsett í báðum tilfellum. Svo var sungið bæði samsöngur og sérsöngvar.
Brúðhjónin voru falleg og gleðin og hamingjan skein af þeim langar leiðir. Stundum fær maður á tilfinninguna að hlutir séu hannaðir fyrirfram af æðri máttarvöldum. Þannig tilfinningu hef ég fyrir þessum ráðahag.
Það er gott að hafa þessa tilfinningu fyrir börnunum sínum og frábært að sjá hamingjuna skína eins og sól í heiði eins og sjá mátti í gær.
Verum hamingjusöm, eins og Teddi komst svo réttilega að orði.... það er val.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli