föstudagur, júní 24, 2011

Kaffið er best að sötra heitt

Ég man þá tíð þegar það var enginn dónaskapur að sötra. Það var meira að segja alltaf gert. Pabbi sötraði kaffið og mamma líka og flest eldra fólk. Mér datt þetta allt í einu í hug, sitjandi með sjóðheitan kaffibollann minn, einn í hádegismat á Föðurlandi og ég sötraði. Úps eins gott að enginn heyrði þetta... maður sötrar ekki!
Hvað um það, hér heyrir enginn í mér hvort sem er.
Kannski er það hugmynd að innleiða aftur þennan gamla góða sið og sötra almennilega. Sé mig í anda með humarsúpu í flottri veislu..... og upplitið á Erlunni :-)

sunnudagur, júní 19, 2011

Skorradalur

Á sínum tíma þegar við Erla vorum að hefja okkar búskap fórum við oft í Skorradalinn en þar áttu tengdaforeldrarnir sumarbústað í samfloti með nokkrum öðrum. Það var á þeim tíma þegar trén voru ekki orðin hærri en svo að ef maður týndist í skóginum var nóg að standa upp og þá sá maður hvar maður var. Trén hafa teygt úr sér síðan þá og nú dugir ekki lengur að standa upp. Í Skorradal er orðinn mikill skógur og jafnvel svo að það er farið að nytja hann. Allavega voru stórar stæður af gildum trjábolum sem var búið að saga í stærðir og tilbúnar til flutninga, minnti mjög á danska grund.
Það er gaman að sjá hvernig landið okkar hefur klæðst skógi undanfarin ár í meira mæli en nokkru sinni áður, það sjá allir sem ferðast um landið.

Heimsóknin í Skorradalinn í gær var skemmtileg. Þetta var ættarmót í föðurætt Erlu þ.e. frá afa hennar og ömmu, en amma hennar Sigga (Sigríður Sigurðardóttir) hefði orðið hundrað ára á árinu. Gæti verið um 50 manna hópur. Sólin skein á okkur og Kári sá um að flugan yrði ekki óbærileg. Ég var ánægður með Kára vin minn að sjá um þann þátt en var þó með varann á um að hann stæði kannski ekki við sinn part svo ég keypti flugunet fyrir ferðina.

Nú er veðrið eins og best gerist. Þegar ég vaknaði í morgun var glaðasólskin og er enn, sól og logn. Hvað dettur manni þá fyrst af öllu í hug? ÍÍÍÍS að sjálfsögðu ;-)
Það verður líkast til vitlaust að gera í ísbúðinni í dag en salan þar lætur vel að stjórn veðurs eins og vindhani í vindi.

Það er sunnudagur og því tími til að gera eitthvað skemmtilegt. Pallurinn hér fyrir utan getur orðið eins og Mallorca í besta skapi ef vel liggur á Kára. Hann er núna víðsfjarri svo ætli pallurinn verði ekki fyrir valinu í dag. Það er gott að eiga rólegheitadag hér heima.
Njótið hans, eins og ég.

föstudagur, júní 17, 2011

17. júní

Regnið lemur gluggann minn og vindurinn sveiflar trjánum til og frá eins og hér sé heill dansflokkur í garðinum. Undarleg veðrátta sem þetta sumar ætlar að geyma. Enn skrítnara finnst mér hvað veðurspámönnum er að förlast, það er engu líkara en að spár verði ónákvæmari eftir því sem tækninni fleygir fram, ótrúlegt. Veðurstofan var búin að gefa út að veður yrði með miklum ágætum á þjóðhátíðardaginn, þeir hafa kannski verið að meina ágætis óveður. En jæja, ég nenni ekki að vera að pirra mig á veðrinu, svona er Ísland, þetta hljóta að vera blessunardaggir.

Mér eins og svo mörgum ofbýður algerlega allt sem upp er að koma um hvernig prestar og aðrir hafa hagað sér gagnvart saklausum börnum með kynferðislegum hrottaskap. Ég var að lesa um enn eitt málið sem sneri að kaþólskum presti og skólastjóra og kvenkyns kennara sem nýddust á litlum dreng. Hvernig stendur á því að þetta loðir svona við kirkjunnar fólk. Ég get ekki skilið þetta og hef megna óbeit á þessu fólki, þetta eru RÆFLAR af verstu sort, lægra verður ekki lagst.

Lífið hér við ána er samt eins og fyrri daginn ljúft og gott, þótt hann blási. Hér eiga að vera heilmikil hátíðarhöld í tilefni dagsins svo vonandi styttir bara upp svo skipuleggjendur dagsins uppskeri í takt við vinnuna sína.
Við Erlan ætlum að fara brosandi út í daginn enda frúin vöknuð og var að tipla niður stigann.
Gerið endilaga það sama vinir, njótið lífsins. Ég ætla að fara og mala kaffi í rjúkandi bolla... og annan fyrir mig.

sunnudagur, júní 12, 2011

Sumar eða hvað?

Það er engu líkara en að hér sé komið sumar. Ógnarbirta, rétt eins og sólin sé hátt á lofti (held jafnvel að þetta sé hún) og hitastigið er um 16 gráður. Ég hef ekki séð þetta hér í langan tíma. Meira að segja grasið á lóðinni er farið að teygja úr sér og hugsanlegt að hægt sé að slá efstu toppana af því. Kannski er von á viðskiptavinum í ísbúðina ef þetta helst út daginn, það væri skemmtileg nýbreytni.
Það á að heita bæjarhátíð hér en hitastigið heldur fólki heima hjá sér. Þó margt hafi verið um manninn um miðjan daginn í gær þá var hér hálftómur bær í gærkvöldi. Við kíktum aðeins á tjaldstæðin og þar var ekki margt um manninn enda hitinn ekkert sérstaklega til þess fallinn að kveikja löngun til að sofa í tjaldi.

Það er samt alltaf gott þegar sést til sólar eins og nú. Það gefur fyrirheit um léttari lund landans og kveikir hugmyndir um að hægt sé að vera annarsstaðar en innan við gluggaboruna og horfa á hvítan Esjutind eða Ingólfsfjall.

Ég ætla að gá hvort ekki sé hægt að særa aðeins toppana á grasinu hér fyrir utan svo ég geti allavega sagt að ég sé búinnn að slá einu sinni þetta sumarið.

Njótið dagsins vinir.

miðvikudagur, júní 08, 2011

"Eldhúsdagsumræður"

Var spurður að þvi í dag hvort ég vissi hvað það orð þýddi. Ég varð að viðurkenna að ég hef aldrei leitt hugann að því. Ég er samt nógu forvitinn um íslenskt mál til að kanna það aðeins.

Í Orðabók háskólans er að finna ýmislegt misgagnlegt. Þar var þetta m.a. að finna um eldhúsdagsumræður:
það þekktist hér áður fyrr að taka sér eða gera sér eldhúsdag og var sá dagur þá nýttur til þess að gera hreint í eldhúsinu, en einnig í yfirfærðri merkingu um tiltektir almennt, að ganga frá ýmsu sem dregist hafði að koma fyrir. Sú merking kemur ágætlega fram í frásögn af Guðmundi Árnasyni (Gvendi dúllara) í Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar (1969): "Hjálmar tók nú að færa það í tal við Guðmund, að þeir ættu að hreinsa þessa skildinga úr frakkanum og leggja þá í bankabókina. En Guðmundur hafði megnustu óbeit á slíkri yfirfærslu og vildi ekki láta sér skiljast, að bankaræfillinn væri tryggari geymslustaður en frakkinn. Þó fékk Hjálmar því seint og um síðir áorkað, að Guðmundur leyfði honum að gera eldhúsdag í frakkanum."

Af þessari ofangreindri merkingu er dregin sú yfirfærða notkun sem tíðkast m.a. á Alþingi sem eldhúsdagsumræður, en á þeim degi flytur forsætisráðherra eldhúsdagsræðu sína og fram fara sérstakar umræður í þinginu, eldhúsdagsumræður, þar sem farið er yfir stefnu ríkisstjórnar, fjármál og störf Alþingis.

Þá vitum við það...

þriðjudagur, júní 07, 2011

Jákvæðnin smitar...

... nú er búið að sanna það. Vísindamenn við Harvard-háskóla í Boston og háskólann í San Diego í Kaliforníu hafa sýnt fram á að jákvæðni og bjartsýni séu bráðsmitandi.
Þetta kemur fram í grein sem birt er í læknatímaritinu British Medical Journal (og í Viðskiptablaðinu þar sem ég las þetta) en þar kemur fram að sá sem horfir á hinar björtu hliðar tilverunnar auki um 15% líkurnar á því að vinur hans geri slíkt hið sama, hjá vinum þess vinar aukast líkurnar um 10% og í „þriðja lið“ aukast þær um 7%.
Niðurstöðurnar eru byggðar á hinni viðamiklu Framingham-rannsókn. Segja má að hér sé komin sönnun á lífsspeki Pollýönnu og einnig að Einar Benediktsson hafi haft nokkuð til síns máls þegar hann sagði: Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

Ég hef lengi haft þessa skoðun á jákvæðni, allavega að hún sé snöggtum skárri en neikvæðni. Líkar raunar best við raunsæi, þar sem rökhyggjan ræður för en þar einhversstaðar liggur oftast blákaldur veruleikinn.