Á sínum tíma þegar við Erla vorum að hefja okkar búskap fórum við oft í Skorradalinn en þar áttu tengdaforeldrarnir sumarbústað í samfloti með nokkrum öðrum. Það var á þeim tíma þegar trén voru ekki orðin hærri en svo að ef maður týndist í skóginum var nóg að standa upp og þá sá maður hvar maður var. Trén hafa teygt úr sér síðan þá og nú dugir ekki lengur að standa upp. Í Skorradal er orðinn mikill skógur og jafnvel svo að það er farið að nytja hann. Allavega voru stórar stæður af gildum trjábolum sem var búið að saga í stærðir og tilbúnar til flutninga, minnti mjög á danska grund.
Það er gaman að sjá hvernig landið okkar hefur klæðst skógi undanfarin ár í meira mæli en nokkru sinni áður, það sjá allir sem ferðast um landið.
Heimsóknin í Skorradalinn í gær var skemmtileg. Þetta var ættarmót í föðurætt Erlu þ.e. frá afa hennar og ömmu, en amma hennar Sigga (Sigríður Sigurðardóttir) hefði orðið hundrað ára á árinu. Gæti verið um 50 manna hópur. Sólin skein á okkur og Kári sá um að flugan yrði ekki óbærileg. Ég var ánægður með Kára vin minn að sjá um þann þátt en var þó með varann á um að hann stæði kannski ekki við sinn part svo ég keypti flugunet fyrir ferðina.
Nú er veðrið eins og best gerist. Þegar ég vaknaði í morgun var glaðasólskin og er enn, sól og logn. Hvað dettur manni þá fyrst af öllu í hug? ÍÍÍÍS að sjálfsögðu ;-)
Það verður líkast til vitlaust að gera í ísbúðinni í dag en salan þar lætur vel að stjórn veðurs eins og vindhani í vindi.
Það er sunnudagur og því tími til að gera eitthvað skemmtilegt. Pallurinn hér fyrir utan getur orðið eins og Mallorca í besta skapi ef vel liggur á Kára. Hann er núna víðsfjarri svo ætli pallurinn verði ekki fyrir valinu í dag. Það er gott að eiga rólegheitadag hér heima.
Njótið hans, eins og ég.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli