miðvikudagur, júní 08, 2011

"Eldhúsdagsumræður"

Var spurður að þvi í dag hvort ég vissi hvað það orð þýddi. Ég varð að viðurkenna að ég hef aldrei leitt hugann að því. Ég er samt nógu forvitinn um íslenskt mál til að kanna það aðeins.

Í Orðabók háskólans er að finna ýmislegt misgagnlegt. Þar var þetta m.a. að finna um eldhúsdagsumræður:
það þekktist hér áður fyrr að taka sér eða gera sér eldhúsdag og var sá dagur þá nýttur til þess að gera hreint í eldhúsinu, en einnig í yfirfærðri merkingu um tiltektir almennt, að ganga frá ýmsu sem dregist hafði að koma fyrir. Sú merking kemur ágætlega fram í frásögn af Guðmundi Árnasyni (Gvendi dúllara) í Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar (1969): "Hjálmar tók nú að færa það í tal við Guðmund, að þeir ættu að hreinsa þessa skildinga úr frakkanum og leggja þá í bankabókina. En Guðmundur hafði megnustu óbeit á slíkri yfirfærslu og vildi ekki láta sér skiljast, að bankaræfillinn væri tryggari geymslustaður en frakkinn. Þó fékk Hjálmar því seint og um síðir áorkað, að Guðmundur leyfði honum að gera eldhúsdag í frakkanum."

Af þessari ofangreindri merkingu er dregin sú yfirfærða notkun sem tíðkast m.a. á Alþingi sem eldhúsdagsumræður, en á þeim degi flytur forsætisráðherra eldhúsdagsræðu sína og fram fara sérstakar umræður í þinginu, eldhúsdagsumræður, þar sem farið er yfir stefnu ríkisstjórnar, fjármál og störf Alþingis.

Þá vitum við það...

Engin ummæli: