föstudagur, júní 17, 2011

17. júní

Regnið lemur gluggann minn og vindurinn sveiflar trjánum til og frá eins og hér sé heill dansflokkur í garðinum. Undarleg veðrátta sem þetta sumar ætlar að geyma. Enn skrítnara finnst mér hvað veðurspámönnum er að förlast, það er engu líkara en að spár verði ónákvæmari eftir því sem tækninni fleygir fram, ótrúlegt. Veðurstofan var búin að gefa út að veður yrði með miklum ágætum á þjóðhátíðardaginn, þeir hafa kannski verið að meina ágætis óveður. En jæja, ég nenni ekki að vera að pirra mig á veðrinu, svona er Ísland, þetta hljóta að vera blessunardaggir.

Mér eins og svo mörgum ofbýður algerlega allt sem upp er að koma um hvernig prestar og aðrir hafa hagað sér gagnvart saklausum börnum með kynferðislegum hrottaskap. Ég var að lesa um enn eitt málið sem sneri að kaþólskum presti og skólastjóra og kvenkyns kennara sem nýddust á litlum dreng. Hvernig stendur á því að þetta loðir svona við kirkjunnar fólk. Ég get ekki skilið þetta og hef megna óbeit á þessu fólki, þetta eru RÆFLAR af verstu sort, lægra verður ekki lagst.

Lífið hér við ána er samt eins og fyrri daginn ljúft og gott, þótt hann blási. Hér eiga að vera heilmikil hátíðarhöld í tilefni dagsins svo vonandi styttir bara upp svo skipuleggjendur dagsins uppskeri í takt við vinnuna sína.
Við Erlan ætlum að fara brosandi út í daginn enda frúin vöknuð og var að tipla niður stigann.
Gerið endilaga það sama vinir, njótið lífsins. Ég ætla að fara og mala kaffi í rjúkandi bolla... og annan fyrir mig.

Engin ummæli: