Það er engu líkara en að hér sé komið sumar. Ógnarbirta, rétt eins og sólin sé hátt á lofti (held jafnvel að þetta sé hún) og hitastigið er um 16 gráður. Ég hef ekki séð þetta hér í langan tíma. Meira að segja grasið á lóðinni er farið að teygja úr sér og hugsanlegt að hægt sé að slá efstu toppana af því. Kannski er von á viðskiptavinum í ísbúðina ef þetta helst út daginn, það væri skemmtileg nýbreytni.
Það á að heita bæjarhátíð hér en hitastigið heldur fólki heima hjá sér. Þó margt hafi verið um manninn um miðjan daginn í gær þá var hér hálftómur bær í gærkvöldi. Við kíktum aðeins á tjaldstæðin og þar var ekki margt um manninn enda hitinn ekkert sérstaklega til þess fallinn að kveikja löngun til að sofa í tjaldi.
Það er samt alltaf gott þegar sést til sólar eins og nú. Það gefur fyrirheit um léttari lund landans og kveikir hugmyndir um að hægt sé að vera annarsstaðar en innan við gluggaboruna og horfa á hvítan Esjutind eða Ingólfsfjall.
Ég ætla að gá hvort ekki sé hægt að særa aðeins toppana á grasinu hér fyrir utan svo ég geti allavega sagt að ég sé búinnn að slá einu sinni þetta sumarið.
Njótið dagsins vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli