miðvikudagur, apríl 30, 2008

Sterkur af norðan

Það tekur á að hjóla móti sterkum hliðarvindi. Var að koma úr bænum hjólandi í þessu norðanbáli. Merkilegt hvað maður finnur meira fyrir vindinum á hjóli miðað við bíl. Hviðurnar erfiðar sérstaklega. Ég finn sterkt til ábyrgðar minnar undir hjólastýri. Þau eru orðin of mörg bifhjólaslysin finnst mér. Ég ek varlega og reyni að gera ráð fyrir því að allir í kringum mig séu slakir bílstjórar og geri vitleysur. Held það sé besta forvörnin á hjóli.
Það er einstök tilfinning að hjóla. Með vindinn í fangið, angan af landinu í kring og frelsistilfinningu sem er engu lík. Ég hef gaman að þessu.
Erlan er að renna á rassinn með að taka prófið. Ég er ekkert yfir mig vonsvikinn með það því ég verð að viðurkenna að ég hafði pínu fyrirfram áhyggjur af henni undir stýri. Slysin eru eins og ég sagði, of algeng.
Vil held ég, heldur hafa hana aftan á.

Erla og Hrund eru enn í bænum. Þær eru á samkomu í Stangarhylnum en koma bráðum hingað í dýrðina, hlakka til að fá þær heim.
Ég er að vinna á morgun upp á Laugarvatni. Ég ætlaði að láta mannskapinn vera að vinna á Laugavegi á morgun, þangað til ég fattaði að það er kannski ekki mjög móralskt eða þjóðlegt að vera með vinnandi menn við hliðina á kröfugöngunni (skrúðgöngunni). Svo þeir verða með mér á Laugarvatni.

Annars, gleðilega hátíð á morgun.... þið sem haldið upp á daginn.

sunnudagur, apríl 27, 2008

Veisla og heimasíða

Okkur var boðið til veislu í gærkvöldi. Tilefnið var formleg opnun nýju kirkjunnar, Mozaik. Eins og lesendur síðunnar vita ákváðum við Erla að taka okkur far með henni þar sem við höfum "ferðast á puttanum" um nokkurra ára skeið.
Eftir að leiðir okkar og Fíladelfíu kirkjunnar lágu sundur, höfum við ekki sótt kirkju. Það eru orðin nokkur ár síðan. Það mál er eins og kirkjan sú, dautt, og verður ekki rætt frekar af okkar hálfu.
Ég er hæstánægður með framtakið. Eins og lesendum síðunnar er kunnugt höfum við hjónin verið talsmenn stofnunar nýrra kirkna, enda felst kristniboðsskipunin í því að ná til sem flestra.
Það má undra sig á Hvítasunnukirkjunni á Íslandi hversvegna þetta er ekki árviss atburður. Veldur hver á heldur.
Ég ber góðar væntingar til þessarar kirkju. Hverjum einum sem tekur trú vegna tilurðar þessarar kirkju fylgir meiri fögnuður á himnum, en yfir hundrað "réttlátum" eins og segir í ritningunni.
Ég sannast sagna veit ekki hvern sektarskala þeir bera sem stöðva framgang af þessu tagi. Get bara sagt að ég vildi ekkert endilega vera í þeirra sporum.

Nýja heimasíðan http://www.mozaik.is/ er flott og hefur verið vel til hennar vandað. Hvet ykkur lesendur góðir til að skoða hana og býð ykkur hér með einnig að kíkja við í Stangarhyl 3 á miðvikudagskvöldið næsta, eða næstu, klukkan 20.00.
Get mælt með því sem fram fer þó ég sé þekktur Tómas og jarðfastur í báða fætur.

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Sumarfílingur

Hann var langur og nokkuð strangur á köflum. Nú er hann farinn og ég sé ekkert eftir honum. Þakka ykkur lesendum síðunnar fyrir veturinn og óska ykkur öllum gleðilegs sumars.
Það er bjart núna og hlýtt, 13 gráðu hiti og vor í lofti. Nágrannar okkar “Nína og Geiri” eru mætt.....eða tvífarar þeirra. Tilhugalífið er hafið hjá þeim og vonandi gera þau sér hreiður í hólmanum okkar eins og í fyrra. Ég þarf að fá mér betri kíki eða aðdráttarlinsu á myndavélina. Kannski alveg eins gott að kaupa linsu því það er hægt að horfa gegnum hana eins og kíki og taka myndir að auki...!
Ég vaknaði í nótt við slæmsku í hálsi, er með einhverja lumbru, ég næ því úr mér í dag. Værðarhljóðin í gæsunum í hólmanum bárust til mín um opinn gluggann, það heyrist á þeim að þeim líður vel þarna úti, ekkert áreiti.
Farfuglarnir eru farnir að spila vorsinfóníuna sína. Sérstaklega snemma á morgnana. Eins er þrösturinn svo vinalegur að flytja söngvana sína fyrir mig, hann er reyndar bæði stað- og farfugl.
Vorverkin eru hafin hér í húsinu við ána. Gylfi kom hér í gær og klippti garðinn. Það er ágætt að hafa fagmann í því. Ég á bara eftir að fjarlægja greinarnar, það er slatti. Ég hef verið að kíkja eftir haustlaukunum sem ég setti niður síðasta haust ..... eða réttara sagt snemma í vor! Þeir láta ekki kræla á sér. Kannski þar sé komin ástæðan hversvegna þeir eru kallaðir haustlaukar.

Við Erla erum ennþá í skýjunum með Egyptalandsferðina. Allt við hana var frábært. Kannski helst hættan á að hún gengisfelli aðrar ferðir sem hægt er að fara. Við höfum verið að fara yfir myndirnar úr ferðinni. Það er eitthvað sem við eigum eftir að gera aftur og aftur....og aftur. Mæli með þessari ferð fyrir þá sem vilja gera eitthvað algerlega ógleymanlegt. Er ekki frá því að þessi ferð hafi breytt lífssýn minni á einhvern hátt, á samt erfitt með að koma því í orð því ég veit ekki almennilega hvernig. Hún hefur samt víkkað sjóndeildarhringinn hvað varðar trú, sögu og menningu. Einnig lærðist mér sú lexía hversu ótrúlega landið okkar flýtur í gæðum. Meiri gæðum en maður gerði sér grein fyrir enda ekki hægt að meta hluti út frá neinu öðru en viðmiðum í manns eigin haus. Það er því hollt að fara víðar um heiminn en til Spánar.

Erlan var að koma heim. Hún var í afmæli Elínar Rutar hjá Tedda og Kötu. Það er alltaf jafn gott að fá hana heim, ef hún fer af bæ. Læt þetta gott heita héðan í bili....nú er það límsófinn og kaffibolli, með henni.

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Egyptaland...

...var stórkostlegt ævintýri. Ferðafélagar okkar voru frábærir. Þessi ferð skaust óralangt fram úr væntingum okkar beggja. Upplifunin var meira og minna eins og í “Þúsund og einni nótt”. Að fylgjast með mannlífinu á Nílarbökkum líða framhjá þegar skyggja tók var upplifun sem vart er hægt að koma í orð. Umgjörðin ævintýraleg. Að skoða listaverk, fornminjar, þrjú til fjögur þúsund ára gömul, stráheil eins og þau hefðu verið gerð í gær er svo magnað að langan tíma tekur að melta, þó ekki sé nema að hluta. Sagan er allsstaðar, hún er kynngimögnuð. Að standa inni í grafhvelfingu pýramída er ekki bara sjónræn upplifun heldur tilfinningaleg, þar er sagan áþreifanleg, liggur í loftinu og maður finnur fyrir henni eins og hún hafi anda og sál.
Að kyssa sjálfan Sfinxinn hlýtur að teljast afrek.
Að sjá andstæðurnar þar sem eyðimörkin mætir iðjagrænum lendum lífæðar Egyptalands, Nílar, sýnir manni hversu óendanlegur lífgjafi vatnið er.
Að upplifa skráfþurran og brennandi hita eyðimerkursólarinnar er upplifun og kennir manni hversu sögurnar um þyrsta ráfandi eyðimerkurfara er mikil dauðans alvara.
Að vera gestur í íslömsku ríki er reynsla útaf fyrir sig. Það er óraunverulegt að horfa yfir Kaíróborg meðan bænaköllin fara fram. Öll borgin, þessi þriðja stærsta borg veraldar, bergmálar endanna á milli. Það er skrítið að sjá menn og konur biðja á götum úti þar sem þau eru stödd, leigubílstjóra stíga út úr bíl sínum, leggja teppisbút á götuna og hefja tilbeiðslu sína.
Upplýst fjöll sem hýsa fjölda grafhýsa er tignarleg sjón.
Þarna er mikil stéttaskipting, 50% ólæsi og fátækt. Umferðin er sérkapituli...... en meira um þetta allt síðar. Mögnuð ferð....!

Best var þó að koma heim. Okkar fólk tók á móti okkur heima hjá Írisi og Karlott með samfélagi og veislu, Þar með fullkomnaðist ferðin.Við Erla héldum sitthvora dagbókina til að sjá muninn á hvernig við upplifum hlutina. Ætlunin er að gera úr því eina dagbók, blanda upplifunum okkar saman og setja upp link á hana hér á síðunum okkar. Þetta verður um leið og hægist um hjá okkur.

Þangað til... njótið daganna.