Það tekur á að hjóla móti sterkum hliðarvindi. Var að koma úr bænum hjólandi í þessu norðanbáli. Merkilegt hvað maður finnur meira fyrir vindinum á hjóli miðað við bíl. Hviðurnar erfiðar sérstaklega. Ég finn sterkt til ábyrgðar minnar undir hjólastýri. Þau eru orðin of mörg bifhjólaslysin finnst mér. Ég ek varlega og reyni að gera ráð fyrir því að allir í kringum mig séu slakir bílstjórar og geri vitleysur. Held það sé besta forvörnin á hjóli.
Það er einstök tilfinning að hjóla. Með vindinn í fangið, angan af landinu í kring og frelsistilfinningu sem er engu lík. Ég hef gaman að þessu.
Erlan er að renna á rassinn með að taka prófið. Ég er ekkert yfir mig vonsvikinn með það því ég verð að viðurkenna að ég hafði pínu fyrirfram áhyggjur af henni undir stýri. Slysin eru eins og ég sagði, of algeng.
Vil held ég, heldur hafa hana aftan á.
Erla og Hrund eru enn í bænum. Þær eru á samkomu í Stangarhylnum en koma bráðum hingað í dýrðina, hlakka til að fá þær heim.
Ég er að vinna á morgun upp á Laugarvatni. Ég ætlaði að láta mannskapinn vera að vinna á Laugavegi á morgun, þangað til ég fattaði að það er kannski ekki mjög móralskt eða þjóðlegt að vera með vinnandi menn við hliðina á kröfugöngunni (skrúðgöngunni). Svo þeir verða með mér á Laugarvatni.
Annars, gleðilega hátíð á morgun.... þið sem haldið upp á daginn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli