Hann var langur og nokkuð strangur á köflum. Nú er hann farinn og ég sé ekkert eftir honum. Þakka ykkur lesendum síðunnar fyrir veturinn og óska ykkur öllum gleðilegs sumars.
Það er bjart núna og hlýtt, 13 gráðu hiti og vor í lofti. Nágrannar okkar “Nína og Geiri” eru mætt.....eða tvífarar þeirra. Tilhugalífið er hafið hjá þeim og vonandi gera þau sér hreiður í hólmanum okkar eins og í fyrra. Ég þarf að fá mér betri kíki eða aðdráttarlinsu á myndavélina. Kannski alveg eins gott að kaupa linsu því það er hægt að horfa gegnum hana eins og kíki og taka myndir að auki...!
Ég vaknaði í nótt við slæmsku í hálsi, er með einhverja lumbru, ég næ því úr mér í dag. Værðarhljóðin í gæsunum í hólmanum bárust til mín um opinn gluggann, það heyrist á þeim að þeim líður vel þarna úti, ekkert áreiti.
Farfuglarnir eru farnir að spila vorsinfóníuna sína. Sérstaklega snemma á morgnana. Eins er þrösturinn svo vinalegur að flytja söngvana sína fyrir mig, hann er reyndar bæði stað- og farfugl.
Vorverkin eru hafin hér í húsinu við ána. Gylfi kom hér í gær og klippti garðinn. Það er ágætt að hafa fagmann í því. Ég á bara eftir að fjarlægja greinarnar, það er slatti. Ég hef verið að kíkja eftir haustlaukunum sem ég setti niður síðasta haust ..... eða réttara sagt snemma í vor! Þeir láta ekki kræla á sér. Kannski þar sé komin ástæðan hversvegna þeir eru kallaðir haustlaukar.
Við Erla erum ennþá í skýjunum með Egyptalandsferðina. Allt við hana var frábært. Kannski helst hættan á að hún gengisfelli aðrar ferðir sem hægt er að fara. Við höfum verið að fara yfir myndirnar úr ferðinni. Það er eitthvað sem við eigum eftir að gera aftur og aftur....og aftur. Mæli með þessari ferð fyrir þá sem vilja gera eitthvað algerlega ógleymanlegt. Er ekki frá því að þessi ferð hafi breytt lífssýn minni á einhvern hátt, á samt erfitt með að koma því í orð því ég veit ekki almennilega hvernig. Hún hefur samt víkkað sjóndeildarhringinn hvað varðar trú, sögu og menningu. Einnig lærðist mér sú lexía hversu ótrúlega landið okkar flýtur í gæðum. Meiri gæðum en maður gerði sér grein fyrir enda ekki hægt að meta hluti út frá neinu öðru en viðmiðum í manns eigin haus. Það er því hollt að fara víðar um heiminn en til Spánar.
Erlan var að koma heim. Hún var í afmæli Elínar Rutar hjá Tedda og Kötu. Það er alltaf jafn gott að fá hana heim, ef hún fer af bæ. Læt þetta gott heita héðan í bili....nú er það límsófinn og kaffibolli, með henni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli