laugardagur, apríl 24, 2010

Öskufall

Eldgosafréttir eru víst orðnar hversdagslegar hjá okkur hér á Fróni. Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá er ég samt ekki enn orðinn þreyttur á þeim og sýg í mig hverja nýja vitneskju. Við höfum sloppið ótrúlega vel hér vestan við gosstöðvarnar. Ríkjandi sunnan- og suðaustan áttin sem er hér alla jafna var greinilega upptekin í einhverju öðru meðan mesti öskumökkurinn streymdi upp úr toppgýgnum á Eyjafjallajökli, til ama fyrir Eyfellinga sem hafa þurft að hýrast í híbýlum sínum í svartamyrkri um miðjan dag vegna öskunnar.

Ég komst að því í gærkvöldi hversu ótrúlega lánsöm við erum hérna megin fjallsins. Austlæga áttin er komin úr fríinu sínu og blés yfir okkur mekkinum hérna megin. Til allrar lukku stendur mökkurinn varla undir nafni lengur og því var öskufallið bara smá sáldur.... en nóg fyrir mig til að sjá hvað þetta er mikill skemmdarvargur, smýgur allsstaðar, mjög fínkornótt.

Ég er sem sagt á Föðurlandi þessa stundina. Það er enginn vandi að detta inn í heimspekilegan þankagang um lífsins veg sitjandi hér inni við arineld í austanvindi og öskufalli. Hér innandyra er rólegheita andrúm. Ég sötra morgunkaffið mitt sokkinn í sófann og hlusta á vindinn og leyfi gömlu klukkunni minni að trekkja upp nostalgískar minningar um líf í sveit þar sem tíminn er afstæður og veröldin falleg og umfaðmandi. Ég virði fyrir mér hálffullt glas af ösku sem ég tók af rúðinni á bílnum mínum. Þessi fínkornótti sandur sem á eftir að verða söluvara fyrir túrista sem vilja taka með sér smá minningarbrot með sér heim eftir Íslandsdvöl. Kannski verður hægt að breyta sandinum í gull. Það væri svolítið skemmtileg uppskrift.

Ég sat í síðasta fyrirlestri laganámsins í gær. Það var svolítið skrítin tilfinning að labba út úr skólanum vitandi að ég á ekki eftir að sitja fleiri fyrirlestra þar. Tilfinningin er svolítið eins og ég sé að klára námið en það er þó ekki svo. Ég á eftir að skrifa mastersritgerðarskömmina. Ég er að vona að ég geti byrjað á henni í sumar því þá verður auðveldara að vinna með henni næsta vetur.

Ég ætla að nota helgina hér til að lesa undir prófin sem eru framundan.... og njóta tilverunnar í leiðinni.
Skora á þig..... gjör slíkt hið sama!

fimmtudagur, apríl 22, 2010

Fraus saman

Ég var kominn á ról upp úr klukkan sjö í morgun. Svo sem ekki nýtt að gamli fari snemma á fætur, morgun gen sem valda því. Það hjálpar reyndar til að ég er að vinna verkefni í "kaup- og sölu fyrirtækja" og það er að hrella mig hvað ég á mikið eftir - á að skila því á morgun. Vel á minnst á morgun er síðasti kennsludagur minn í þessu námi mínu. Ekki þannig þó að ég sé búinn eins og ég sagði ykkur í síðasta pistli, ég á eftir að skrifa ritgerðina mína en öll fög verða búin eftir morgundaginn, bara próftörn eftir.

Nú er komið sumar. Veturinn er liðinn og orðið bjart langt fram á nætur. Sumarið verður gott, annasamt og skemmtilegt.
Eftir síðasta próf verð ég að leggja nótt við dag til að opna ísbúðina. Það er verið að vinna við húsnæðið og ég hef verið að vinna að ýmsum málum varðandi undirbúning með skólanum. Allt er á áætlun. Erla er líka á fullu í þessu enda verður hún rekstrarstjórinn, hún er sérstaklega að skoða minjagripabúðina. Það verður að vera svolítil breidd í því.

Gosið... ég þarf ekki að segja ykkur neitt um það sem þið vitið ekki nema kannski að það var svolítið sérstakt að vera í Fljótshíðinni í kofanum á laugardaginn var, þegar gosið var í sem mestum ham og allt var lokað. Við fórum í bíltúr inn að Fljótsdal og skoðuðum verksummerkin eftir flóðið. Þar sá ég hvað fréttaflutningur er bæði ónákvæmur og ýktur á köflum. Þar sem Háamúlagarðurinn liggur og fréttamenn sögðu að væri við það að gefa undan flóðinu sá ég á verksummerkjum að flóðið var uppi á miðjum garði - ekki meira, sem getur vel gerst í venjulegum flóðum í Markarfljóti - þó af stærri gerðinni.
En það fyrirgefst eins og annað. Við horfðum á gosið af Fitinni í stúkusæti. það var eiginlega engu líkt. Ótrúlegt að sjá þessa krafta hamast þarna við túnfótinn okkar. Þetta fjall sem ásamt öðrum eldfjöllum stóð vörð um æsku mína var allt í einu orðið að forynju sem enginn mannlegur máttur gat haft áhrif á. Svona er lífið margbreytilegt.

Vorhljóðin vekja mig orðið á morgnana. Gæsirnar eru komnar í hólmann, ég heyri það á værðarhljóðunum í þeim á næturnar. Nína og Geiri líka, þau eru búin að snurfusa hreiðrið sitt frá í fyrra. Við urðum aftur vitni að því þegar þau kíktu á hvernig þetta kæmi undan vetri, munaði einum degi, já þau eru nákvæm. Eg sagði ykkur frá þessu í fyrra, það má kíkja á það hér. Það er gaman að þessu. Núna horfi ég út um gluggann minn á skrifstofunni og sé bara friðsæld og ró. Áin er sallaróleg og sólin skín í heiði. Sakleysislegur gosstrókur upp úr fjalli í fjarska, snjóhvítur og fallegur eins og í ævintýrunum - en ekki allur sem hann er séður.... Það er vorlegt yfir að líta. Það er bara hitamælirinn minn sem mótmælir þessum vorhugleiðingum mínum, hann segir að það sé fjögurra gráðu frost. Það er allt í lagi með það, það er rétt hjá honum en það veit á gott eftir gömlu þjóðtrúnni. Ég hef nú kannski ekki mjög mælanlega trú í þeim efnum en er bjartsýnn á snjólétt sumar.

Gleðilegt sumar vinir mínir, gerið eins og ég og njótið þess út í æsar

sunnudagur, apríl 11, 2010

Nína og Geiri og fleiri skemmtilegheit

Við Erlan sáum þau í gær að snudda í kringum óðalið sitt. Það var alger endurtekning frá því í fyrra. Þau eru yfirveguð og pollróleg, eins og fyrri daginn líkt og enginn sé morgundagurinn. Það gladdi að sjá þau því við vorum ekki viss um framhaldið eftir að þeim mistókst að koma upp ungum í fyrra.
Vorið er góður tími. Það bankar stöðugt í öxlina á mér þegar ég þarf að vera að lesa undir próf á þessum tíma. Sveitamaðurinn í mér vill komast út í vorið.
Ég er að ljúka síðustu fögum námsins. Síðustu önn námsins (fram að jólum) verð ég bara að skrifa mastersritgerðina mína. Það verður léttara að eiga við það en þessi massívu fög.
Ég er núna á kafi í ritgerð sem ég þarf að skila á fimmtudaginn, hún snýst um fyrningarleið stjórnvalda á veiðiheimildum (kvóta), efni sem ég hef ekki haft mikla þekkingu á en það hefur breyst við þessa ritgerðarsmíð. Er bara orðinn nokkuð vel að mér í því.

Við fórum "út að borða" í gærkvöldi. Þannig lagað - inn í stofuna okkar. Það er til siðs á þessum bæ að ef við viljum gera vel við okkur í mat þá förum við þá leið að kaupa gott hráefni og matreiða sjálf. Oft tekst það svo vel til að matsölustaðirnir fá, á okkar skala, ekkert hærri einkunn.
Við höfðum hvítlauksgrillaðan humar í smjöri í forrétt ásamt hvítu brauði og rótsterkri hvítlauksdressingu a´la Erla (12 rif í eina litla skál) og primeribs nautasteik í aðalrétt ásamt smjörsteiktu brokkoli og sveppum og rjómaostasósu og ofnbakaða kartöflubáta í hvítlauk. Með þessu höfðum við svo gott rauðvín. Svona gerum við máltíð sem kostar innan við þriðjung af því sem við myndum borga á veitingastað - og ég veit ekki hvort þeir séu eins flinkir við matseldina hehe ;0)
Svo er það bara staðurinn, það er svo notalegt að búa til svona móment undir árnið og vorhljóðunum sem fylgja ánni. Svo þar að auki erum við hálfgerðir nautnaseggir þegar kemur að mat. Þegar öllu þessu er safnað saman, kemur út..... dekur.

Frúin er að rumska svo ég verð að þykjast vera að skrifa ritgerð. Fór snemma á fætur til þess.
Njótið daganna vinir.

mánudagur, apríl 05, 2010

Vindgnauð á glugga

Veðrið um páskahelgina hefur verið rólegt ef frá er talið augnablikin sem við vorum uppi á Mýrdalsjökli. Við höfum verið í sveitinni í kofanum okkar alla helgina og notið í æsar rólegheitanna hér. Kamínan hefur haft nóg að gera allan tímann. Hún hefur verið tendruð á morgnana og ekki fengið frí fyrr en hún hefur lognast út af eftir miðnættið.
Helgin var viðburðarík. Við erum búin að fara tvisvar að Einhyrningi, einu sinni í flug yfir gosstöðvarnar (ég, Íris og Karlott) og svo fórum við í jeppaferð yfir Mýrdalsjökul að gosstöðvunum. Veðurspáin var mjög góð fyrir svæðið nánast logn og létt yfir. Ég skrifa ekki undir að við höfum farið óvarlega og ekki skoðað verðurspá, hún einfaldlega stóðst ekki spáin. Við sáum gosið í ljósaskiptunum sem var mikið sjónarspil og tignarlegt að sjá. Við hrepptum svo, þrátt fyrir góða veðurspá, versta veður á jöklinum á heimleið svo við snerum við, keyrðum til baka að gosstöðvunum og fengum leyfi til að fara Fimmvörðuhálsinn til baka niður að Skógum. Erlan komst að því eftir ferðina að hún væri búin að yfirvinna goshræðsluna sem hefur hrjáð hana frá því 1980 - veit ekki afhverju? Svo nú langar hana aftur á gosstöðvarnar, yfir jökul og allt (og brosir nú kallinn breitt).

Við fórum í heimsóknir til vina og ættingja í sveitinni og fengum einnig góðar heimsóknir.
Fjölskyldan hittist svo öll hér í kofanum nema Eygló, Bjössi, Erla Rakel og Örnudætur og við borðuðum saman grillað páskalamb. Hrund var líka auðvitað fjarverandi en við heyrðum í henni á páskadag frá Vatikaninu í Róm þar sem hún var að hlusta á Páfann flytja páskamessuna sína.

Núna erum við hér ein eftir Erlan og ég á Fitinni og það er byrjað að hvessa. Það er bara notalegra hér innan dyra ef veðrið byrstir sig eitthvað. Vindgnauðið róar. Erlan er niðursokkin í bók og vellíðanin skín af henni eins og sólin í heiði. Kamínan sér um að halda heitu og ferst það verk vel úr hendi. Klukkan gamla vinnur sitt verk líka vel. Hún býr til sérlega gamaldagsrólegheitamóment sem ég held að séu alltof hverfandi gæði.
Það er til þess vinnandi að skapa sér svona umhverfi til að stilla taktinn annað slagið. Það eru lífsgæði.
Ég þakka öllum fyrir komuna um helgina og gott samfélag - og frábærar gosferðir.