Veðrið um páskahelgina hefur verið rólegt ef frá er talið augnablikin sem við vorum uppi á Mýrdalsjökli. Við höfum verið í sveitinni í kofanum okkar alla helgina og notið í æsar rólegheitanna hér. Kamínan hefur haft nóg að gera allan tímann. Hún hefur verið tendruð á morgnana og ekki fengið frí fyrr en hún hefur lognast út af eftir miðnættið.
Helgin var viðburðarík. Við erum búin að fara tvisvar að Einhyrningi, einu sinni í flug yfir gosstöðvarnar (ég, Íris og Karlott) og svo fórum við í jeppaferð yfir Mýrdalsjökul að gosstöðvunum. Veðurspáin var mjög góð fyrir svæðið nánast logn og létt yfir. Ég skrifa ekki undir að við höfum farið óvarlega og ekki skoðað verðurspá, hún einfaldlega stóðst ekki spáin. Við sáum gosið í ljósaskiptunum sem var mikið sjónarspil og tignarlegt að sjá. Við hrepptum svo, þrátt fyrir góða veðurspá, versta veður á jöklinum á heimleið svo við snerum við, keyrðum til baka að gosstöðvunum og fengum leyfi til að fara Fimmvörðuhálsinn til baka niður að Skógum. Erlan komst að því eftir ferðina að hún væri búin að yfirvinna goshræðsluna sem hefur hrjáð hana frá því 1980 - veit ekki afhverju? Svo nú langar hana aftur á gosstöðvarnar, yfir jökul og allt (og brosir nú kallinn breitt).
Við fórum í heimsóknir til vina og ættingja í sveitinni og fengum einnig góðar heimsóknir.
Fjölskyldan hittist svo öll hér í kofanum nema Eygló, Bjössi, Erla Rakel og Örnudætur og við borðuðum saman grillað páskalamb. Hrund var líka auðvitað fjarverandi en við heyrðum í henni á páskadag frá Vatikaninu í Róm þar sem hún var að hlusta á Páfann flytja páskamessuna sína.
Núna erum við hér ein eftir Erlan og ég á Fitinni og það er byrjað að hvessa. Það er bara notalegra hér innan dyra ef veðrið byrstir sig eitthvað. Vindgnauðið róar. Erlan er niðursokkin í bók og vellíðanin skín af henni eins og sólin í heiði. Kamínan sér um að halda heitu og ferst það verk vel úr hendi. Klukkan gamla vinnur sitt verk líka vel. Hún býr til sérlega gamaldagsrólegheitamóment sem ég held að séu alltof hverfandi gæði.
Það er til þess vinnandi að skapa sér svona umhverfi til að stilla taktinn annað slagið. Það eru lífsgæði.
Ég þakka öllum fyrir komuna um helgina og gott samfélag - og frábærar gosferðir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli