Ég var kominn á ról upp úr klukkan sjö í morgun. Svo sem ekki nýtt að gamli fari snemma á fætur, morgun gen sem valda því. Það hjálpar reyndar til að ég er að vinna verkefni í "kaup- og sölu fyrirtækja" og það er að hrella mig hvað ég á mikið eftir - á að skila því á morgun. Vel á minnst á morgun er síðasti kennsludagur minn í þessu námi mínu. Ekki þannig þó að ég sé búinn eins og ég sagði ykkur í síðasta pistli, ég á eftir að skrifa ritgerðina mína en öll fög verða búin eftir morgundaginn, bara próftörn eftir.
Nú er komið sumar. Veturinn er liðinn og orðið bjart langt fram á nætur. Sumarið verður gott, annasamt og skemmtilegt.
Eftir síðasta próf verð ég að leggja nótt við dag til að opna ísbúðina. Það er verið að vinna við húsnæðið og ég hef verið að vinna að ýmsum málum varðandi undirbúning með skólanum. Allt er á áætlun. Erla er líka á fullu í þessu enda verður hún rekstrarstjórinn, hún er sérstaklega að skoða minjagripabúðina. Það verður að vera svolítil breidd í því.
Gosið... ég þarf ekki að segja ykkur neitt um það sem þið vitið ekki nema kannski að það var svolítið sérstakt að vera í Fljótshíðinni í kofanum á laugardaginn var, þegar gosið var í sem mestum ham og allt var lokað. Við fórum í bíltúr inn að Fljótsdal og skoðuðum verksummerkin eftir flóðið. Þar sá ég hvað fréttaflutningur er bæði ónákvæmur og ýktur á köflum. Þar sem Háamúlagarðurinn liggur og fréttamenn sögðu að væri við það að gefa undan flóðinu sá ég á verksummerkjum að flóðið var uppi á miðjum garði - ekki meira, sem getur vel gerst í venjulegum flóðum í Markarfljóti - þó af stærri gerðinni.
En það fyrirgefst eins og annað. Við horfðum á gosið af Fitinni í stúkusæti. það var eiginlega engu líkt. Ótrúlegt að sjá þessa krafta hamast þarna við túnfótinn okkar. Þetta fjall sem ásamt öðrum eldfjöllum stóð vörð um æsku mína var allt í einu orðið að forynju sem enginn mannlegur máttur gat haft áhrif á. Svona er lífið margbreytilegt.
Vorhljóðin vekja mig orðið á morgnana. Gæsirnar eru komnar í hólmann, ég heyri það á værðarhljóðunum í þeim á næturnar. Nína og Geiri líka, þau eru búin að snurfusa hreiðrið sitt frá í fyrra. Við urðum aftur vitni að því þegar þau kíktu á hvernig þetta kæmi undan vetri, munaði einum degi, já þau eru nákvæm. Eg sagði ykkur frá þessu í fyrra, það má kíkja á það hér. Það er gaman að þessu. Núna horfi ég út um gluggann minn á skrifstofunni og sé bara friðsæld og ró. Áin er sallaróleg og sólin skín í heiði. Sakleysislegur gosstrókur upp úr fjalli í fjarska, snjóhvítur og fallegur eins og í ævintýrunum - en ekki allur sem hann er séður.... Það er vorlegt yfir að líta. Það er bara hitamælirinn minn sem mótmælir þessum vorhugleiðingum mínum, hann segir að það sé fjögurra gráðu frost. Það er allt í lagi með það, það er rétt hjá honum en það veit á gott eftir gömlu þjóðtrúnni. Ég hef nú kannski ekki mjög mælanlega trú í þeim efnum en er bjartsýnn á snjólétt sumar.
Gleðilegt sumar vinir mínir, gerið eins og ég og njótið þess út í æsar
Engin ummæli:
Skrifa ummæli