laugardagur, apríl 24, 2010

Öskufall

Eldgosafréttir eru víst orðnar hversdagslegar hjá okkur hér á Fróni. Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá er ég samt ekki enn orðinn þreyttur á þeim og sýg í mig hverja nýja vitneskju. Við höfum sloppið ótrúlega vel hér vestan við gosstöðvarnar. Ríkjandi sunnan- og suðaustan áttin sem er hér alla jafna var greinilega upptekin í einhverju öðru meðan mesti öskumökkurinn streymdi upp úr toppgýgnum á Eyjafjallajökli, til ama fyrir Eyfellinga sem hafa þurft að hýrast í híbýlum sínum í svartamyrkri um miðjan dag vegna öskunnar.

Ég komst að því í gærkvöldi hversu ótrúlega lánsöm við erum hérna megin fjallsins. Austlæga áttin er komin úr fríinu sínu og blés yfir okkur mekkinum hérna megin. Til allrar lukku stendur mökkurinn varla undir nafni lengur og því var öskufallið bara smá sáldur.... en nóg fyrir mig til að sjá hvað þetta er mikill skemmdarvargur, smýgur allsstaðar, mjög fínkornótt.

Ég er sem sagt á Föðurlandi þessa stundina. Það er enginn vandi að detta inn í heimspekilegan þankagang um lífsins veg sitjandi hér inni við arineld í austanvindi og öskufalli. Hér innandyra er rólegheita andrúm. Ég sötra morgunkaffið mitt sokkinn í sófann og hlusta á vindinn og leyfi gömlu klukkunni minni að trekkja upp nostalgískar minningar um líf í sveit þar sem tíminn er afstæður og veröldin falleg og umfaðmandi. Ég virði fyrir mér hálffullt glas af ösku sem ég tók af rúðinni á bílnum mínum. Þessi fínkornótti sandur sem á eftir að verða söluvara fyrir túrista sem vilja taka með sér smá minningarbrot með sér heim eftir Íslandsdvöl. Kannski verður hægt að breyta sandinum í gull. Það væri svolítið skemmtileg uppskrift.

Ég sat í síðasta fyrirlestri laganámsins í gær. Það var svolítið skrítin tilfinning að labba út úr skólanum vitandi að ég á ekki eftir að sitja fleiri fyrirlestra þar. Tilfinningin er svolítið eins og ég sé að klára námið en það er þó ekki svo. Ég á eftir að skrifa mastersritgerðarskömmina. Ég er að vona að ég geti byrjað á henni í sumar því þá verður auðveldara að vinna með henni næsta vetur.

Ég ætla að nota helgina hér til að lesa undir prófin sem eru framundan.... og njóta tilverunnar í leiðinni.
Skora á þig..... gjör slíkt hið sama!

Engin ummæli: