föstudagur, febrúar 25, 2011

Basicplus

Það er að síga á seinnihlutann á þessari vinnutörn. Lífið er stundum skondið. Við ákváðum um áramótin síðustu að þetta skyldi verða framkvæmdalítið ár eftir afar annasamt ár í fyrra. það er nú einhvernveginn þannig að maður sér stundum fleyg orð rætast, t.d. þetta að "Mennirnir áætla en Guð ræður" því oft virðist mér að lífið sjálft taki aukaspor í dansinum okkar sem gerir hann skemmtilegri og fjölbreyttari en maður sjálfur hefur ákveðið.
Við opnum Basicplus á mánudaginn með smá foropnun frá klukkan 18 - 20 þar sem (kven)vinum og vandamönnum er boðið að koma og versla meðan allt er fullt út úr dyrum af nýjum vörum.
Stelpur á öllum aldri, þið eruð velkomnar í smá fyrirpartý.

mánudagur, febrúar 21, 2011

Icesave og kosningarnar

Fólk er fífl... segja sumir. Ég er ósammála fullyrðingunni í megindráttum, ég tel frekar að upp til hópa sé fólk ágætlega að sér og alls ekki fífl. Er þá ekki fagnaðarefni að fólk fái að greiða atkvæði um Icesave, er það ekki besta mál? Ég held reyndar að niðurstaðan blasi við fyrirfram og það þurfi nánast ekki að kjósa um þetta mál, hún verður sú sama og síðast nema að framhaldið verður dómstólaleiðin sem verður öllum líkindum farin í þetta sinn. Það er þá vilji fólksins sem ræður, svo hvert er þá vandamálið?
Spurningin hlýtur að snúast um hvort fólk hafi nægar forsendur til að taka afstöðu af einhverju viti. Er það eitthvað til að hræðast?

Afhverju ræður fólk arkitekt og verkfræðing til að teikna hús? Er ekki bara nóg að vera þokkalega ágætur í teikningu og komast bara sjálfur fram úr því? Fólk þekkir reyndar ekki reglugerðina sem þarf að fylgja eftir í þaula eða burðarþolsfræðin svo húsið fjúki ekki í næsta roki eða hristist ekki í sundur í næsta jarðskjálfta, eða eðlisfræðina bakvið þéttingu lofts þar sem kalt og heitt loft mætast og loftunarkröfur til að mæta rakamettuninni sem þá verður óhjákvæmilega – margir vita ekki einu sinni hvað loftun er. Eða kröfur um brunafrágang, hvar þarf eldvarnarveggi eða brunaop, hvað er brunaop? Fjöldinn kann yfir höfuð ekkert um byggingamál.

Icesave snýst um snúin og flókin lögfræðileg álitaefni. Ekki einfaldari en fræðin á bakvið eina húsbyggingu, öðru nær. Við fáum fræðinga til að sjá um húsateikningarnar fyrir okkur en ætlum sjálf að teikna upp bestu lausn í Icesave, því við erum snillingar, eins og best sást þegar við lögðum heiminn að fótum okkar í þenslunni. Málið er svo flókið að hæfustu lögspekingar hafa eytt mánuðum í að kafa í málið til að átta sig á landslaginu og hafa fundið út að vafasamt sé að fara dómstólaleiðina. Hættan er raunveruleg, sú að þjóðin skjóti sig í fótinn og sitji eftir með sárt ennið, margfalda skuld og flekkað mannorð í samfélagi þjóðanna.

Við teiknum húsin okkar ekki sjálf af því við teljum sérfræðingana þekkja betur til verka. Nokkrir okkar hæfustu lögfræðinga hafa gefið út að mjög varasamt sé að láta reyna á dómstólaleiðina. Líkurnar eru okkur ekki hliðhollar. ESA nefndin, með stóð lögfræðimenntaðra sérfræðinga innanborðs hefur komist að þeirri niðurstöðu að okkur beri að borga Icesave kröfur Hollendinga og Breta að lögum hvort sem okkur líkar það betur eða verr. ESA mun sækja mál á okkur fyrir EFTA dómstólnum fyrir samningsrof og síðan munu Bretar og Hollendingar væntanlega sækja skaðabótamál og beita fyrir sig jafnræðisreglunni sem er í fullu gildi og skyldar okkur til að borga erlendum innistæðueigendum á sama hátt og innlendum. Þeir geta einnig notað orð Forsætisráðherra í ríkisstjórn sem lýsti því yfir 2008 að öll skuldin yrði greidd en sú yfirlýsing er væntanlega bindandi að þjóðarrétti. Við höfum innleitt meirihluta regluverks Evrópusambandsins inn í okkar landsrétt í gegnum EES og höfum því ekki val, við lútum þeim reglum.

Hvati þessa pistils er þessi þungi tónn í þjóðfélaginu. Fólk telur sig vita betur en hæfustu lögvitringar, það er tilefni kjánahrolls niður hrygglengjuna að hlusta á slíka einstaklinga, enda.... má segja að ef einhverjir falla undir upphafsorð þessa pistils þá eru það sennilega þessir.

Ég get ekki tekið undir hallelújakórinn í kringum forsetann fyrir að synja lögunum staðfestingar. Þvert á móti tel ég hann vera á harðahlaupum að gambla með fjöregg þjóðarinnar og taka áhættu fyrir okkar hönd langt út fyrir skynsemismörk.
Ég tek undir orð ritstjóra DV í dag (22. feb.)„Þjóðarskútan leggur nú á djúpið þar sem óvissan ein er fararnestið“. Í boði forseta vors, lesandinn athugi það.

Það er ekki víst að við verðum jafn heppin og síðast. Tíminn mun leiða það í ljós. Það er þá alltaf hægt að vera foxillur út í ríkisstjórnina, það er þjóðaríþrótt.

Ég mun segja já í kosningunum.

föstudagur, febrúar 11, 2011

Stóru orðin, sögðu þeir veðurfræðingarnir...

Ofsaveður.... Þannig var spáin í gær. Ég fór árla á fætur til að fylgjast með ofsanum. Hér er bálhvasst og rignir mikið en það fer lítið fyrir ofsanum. Ofsi þýðir eitthvað brjálað. Ætli maður megi samt ekki vera ánægður með að veðrið er ekki á þeim skalanum því ofsi á það til að skemma hluti. Kári "vinur" minn, sem ég vitna oft í er sjaldan svo kræfur.
Það er samt þannig að ég og veðurhæð erum tengd ósýnilegum tryggðaböndum. Ég veit ekki hvers vegna ég hef svona gaman að veðri þ.e. vondu veðri og fæ sennilega aldrei neinn botn í það. Það er sennilega frummaðurinn í mér. Tilfinningin að eiga sér skjól fyrir látunum, hafa fjölskylduna sofandi inni í skjólinu og vera sjálfur á kíkkinu að allt sé í stakasta lagi. Gamli hellisbúinn líklega...!

Hér sit ég með rjúkandi kaffibolla við skrifborðið mitt og rýni út í sortann, réttu megin við glerið, og hlusta á regnið berja rúðurnar og vindinn rífa í húsið án þess að verða nokkuð ágengt... og hugurinn fer á flug.
Mikið á ég gott.
Að hafa fæðst í þessu landi sem ber í sér öll þessi lífsgæði. Íslensk hús eru sterkbyggð og hlý og allir, eða því sem næst, hafa húsaskjól. Langflestir eiga í sig og á. Flestir eiga farartæki sem ber þá um landið í hlýju og notalegheitum, það er ekki lengur vosbúð að ferðast milli staða. Landið er fljótandi af gæðum, heitt vatn, nægt ferskvatn, fiskur í sjónum, gríðarleg orka, náttúrufegurð, hreint loft, byggingarefni og góð hús. Nýjasta tækni á öllum sviðum.
Hér sit ég og set niður þankagang minn á skjá sem von bráðar verður sýnilegur þeim sem vilja, sendibréf... hvað var það nú aftur.

Gæðin eru yfirþyrmandi. Samt held ég að hvorki ég né aðrir núlifandi Íslendingar gerum okkur grein fyrir hversu gott við höfum það. Þetta segi ég þrátt fyrir matargjafir og annað sem viðgengst í dag sem margir frussa út úr sér að sé yfirmáta sorglegt og argast yfir því hvað allt sé hér ömurlegt en gleyma í leiðinni að við erum að rísa úr öskustó allsherjarhruns. Það út af fyrir sig eru gæði að matur sé til. Allavega miðað við milljónirnar úti í heimi sem eru deyjandi vegna matarskorts og myndu ekki víla fyrir sér að standa í röð ef matur væri á hinum endanum. Ég get ekki tekið undir að hér sé allt á vonarvöl. Við erum nálægt toppnum hvað lífsgæði varðar í samfélagi þjóðanna.
Fyrir það ættum við að vera þakklát og hætta öllu víli.

Við Kári höfum átt fínasta samfélag þennan morguninn en Ofsi... hann lét ekki sjá sig.
Eigið góðan dag.

laugardagur, febrúar 05, 2011

Vetur kóngur

Það telst til tíðinda að snjói. Í gærdag snjóaði allan liðlangan daginn svo nú er hér allt á kafi í snjó. Það er eðlilegt, það er febrúar. Það er öllu óvenjulegra að þetta er nánast fyrsti snjór vetrarins. Eitthvað eru veðrakerfin að breytast. Hér á landi til góðs en til hins verra víða annarsstaðar á jarðarkúlunni.
Þótt hann snjói þá er orðið stutt í vorið góða grænt og hlýtt.

Þessa dagana er ég að vinna við að breyta húsnæðinu okkar á Íslandus ísbar. Ég er sem sagt að stúka það í tvennt. Basic plus er að flytja til okkar í þann helming sem minjagripirnir voru. Við verðum eigendur að helming á móti Rakel og Sævari.
Það verður gaman að vinna þetta með þeim og ég hef góðar væntingar.

Í kvöld verður svo þorrablótið okkar systkinanna í 34 skipti held ég. Góður siður sem verður ekki aflagður.

Dagurinn verður góður, njótið hans, það ætla ég að gera.