Ofsaveður.... Þannig var spáin í gær. Ég fór árla á fætur til að fylgjast með ofsanum. Hér er bálhvasst og rignir mikið en það fer lítið fyrir ofsanum. Ofsi þýðir eitthvað brjálað. Ætli maður megi samt ekki vera ánægður með að veðrið er ekki á þeim skalanum því ofsi á það til að skemma hluti. Kári "vinur" minn, sem ég vitna oft í er sjaldan svo kræfur.
Það er samt þannig að ég og veðurhæð erum tengd ósýnilegum tryggðaböndum. Ég veit ekki hvers vegna ég hef svona gaman að veðri þ.e. vondu veðri og fæ sennilega aldrei neinn botn í það. Það er sennilega frummaðurinn í mér. Tilfinningin að eiga sér skjól fyrir látunum, hafa fjölskylduna sofandi inni í skjólinu og vera sjálfur á kíkkinu að allt sé í stakasta lagi. Gamli hellisbúinn líklega...!
Hér sit ég með rjúkandi kaffibolla við skrifborðið mitt og rýni út í sortann, réttu megin við glerið, og hlusta á regnið berja rúðurnar og vindinn rífa í húsið án þess að verða nokkuð ágengt... og hugurinn fer á flug.
Mikið á ég gott.
Að hafa fæðst í þessu landi sem ber í sér öll þessi lífsgæði. Íslensk hús eru sterkbyggð og hlý og allir, eða því sem næst, hafa húsaskjól. Langflestir eiga í sig og á. Flestir eiga farartæki sem ber þá um landið í hlýju og notalegheitum, það er ekki lengur vosbúð að ferðast milli staða. Landið er fljótandi af gæðum, heitt vatn, nægt ferskvatn, fiskur í sjónum, gríðarleg orka, náttúrufegurð, hreint loft, byggingarefni og góð hús. Nýjasta tækni á öllum sviðum.
Hér sit ég og set niður þankagang minn á skjá sem von bráðar verður sýnilegur þeim sem vilja, sendibréf... hvað var það nú aftur.
Gæðin eru yfirþyrmandi. Samt held ég að hvorki ég né aðrir núlifandi Íslendingar gerum okkur grein fyrir hversu gott við höfum það. Þetta segi ég þrátt fyrir matargjafir og annað sem viðgengst í dag sem margir frussa út úr sér að sé yfirmáta sorglegt og argast yfir því hvað allt sé hér ömurlegt en gleyma í leiðinni að við erum að rísa úr öskustó allsherjarhruns. Það út af fyrir sig eru gæði að matur sé til. Allavega miðað við milljónirnar úti í heimi sem eru deyjandi vegna matarskorts og myndu ekki víla fyrir sér að standa í röð ef matur væri á hinum endanum. Ég get ekki tekið undir að hér sé allt á vonarvöl. Við erum nálægt toppnum hvað lífsgæði varðar í samfélagi þjóðanna.
Fyrir það ættum við að vera þakklát og hætta öllu víli.
Við Kári höfum átt fínasta samfélag þennan morguninn en Ofsi... hann lét ekki sjá sig.
Eigið góðan dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli