Við Erlan sáum þau í gær að snudda í kringum óðalið sitt. Það var alger endurtekning frá því í fyrra. Þau eru yfirveguð og pollróleg, eins og fyrri daginn líkt og enginn sé morgundagurinn. Það gladdi að sjá þau því við vorum ekki viss um framhaldið eftir að þeim mistókst að koma upp ungum í fyrra.
Vorið er góður tími. Það bankar stöðugt í öxlina á mér þegar ég þarf að vera að lesa undir próf á þessum tíma. Sveitamaðurinn í mér vill komast út í vorið.
Ég er að ljúka síðustu fögum námsins. Síðustu önn námsins (fram að jólum) verð ég bara að skrifa mastersritgerðina mína. Það verður léttara að eiga við það en þessi massívu fög.
Ég er núna á kafi í ritgerð sem ég þarf að skila á fimmtudaginn, hún snýst um fyrningarleið stjórnvalda á veiðiheimildum (kvóta), efni sem ég hef ekki haft mikla þekkingu á en það hefur breyst við þessa ritgerðarsmíð. Er bara orðinn nokkuð vel að mér í því.
Við fórum "út að borða" í gærkvöldi. Þannig lagað - inn í stofuna okkar. Það er til siðs á þessum bæ að ef við viljum gera vel við okkur í mat þá förum við þá leið að kaupa gott hráefni og matreiða sjálf. Oft tekst það svo vel til að matsölustaðirnir fá, á okkar skala, ekkert hærri einkunn.
Við höfðum hvítlauksgrillaðan humar í smjöri í forrétt ásamt hvítu brauði og rótsterkri hvítlauksdressingu a´la Erla (12 rif í eina litla skál) og primeribs nautasteik í aðalrétt ásamt smjörsteiktu brokkoli og sveppum og rjómaostasósu og ofnbakaða kartöflubáta í hvítlauk. Með þessu höfðum við svo gott rauðvín. Svona gerum við máltíð sem kostar innan við þriðjung af því sem við myndum borga á veitingastað - og ég veit ekki hvort þeir séu eins flinkir við matseldina hehe ;0)
Svo er það bara staðurinn, það er svo notalegt að búa til svona móment undir árnið og vorhljóðunum sem fylgja ánni. Svo þar að auki erum við hálfgerðir nautnaseggir þegar kemur að mat. Þegar öllu þessu er safnað saman, kemur út..... dekur.
Frúin er að rumska svo ég verð að þykjast vera að skrifa ritgerð. Fór snemma á fætur til þess.
Njótið daganna vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli