sunnudagur, maí 04, 2008

Hvunndagshetja...

...heldur upp á afmælið sitt í dag þótt hún fylli ekki árið fyrr en á miðvikudaginn næsta 7. maí.
Móðir mín verður 87 ára. Hún er nú á hjúkrunarheimilinu á Vífilsstöðum. Þar hefur hún dvalið undanfarin ár. Henni líður vel þar enda vel um hana hugsað. Hún er með alsheimer sjúkdóminn sem smátt og smátt dregur hana fjær raunveruleikanum og býr henni til nýjan veruleika, eigin hugarheim. Hún á til að þekkja ekki fólkið sitt þó ég hafi ekki lent í því sjálfur ennþá. Oftast er hún kát og hress og syngur mikið.
Ég lít til hennar sem hetju. Lífið hefur sýnt henni á sér tvær hliðar. Önnur er hrjúf og óblíð, krappra kjara og mikils vinnuálags, hin vafin fallegum minningum sveitarómantíkurinnar, bæði í vestfirskri bernsku hennar og svo á góðum stundum í Kotinu þar sem hún naut vina og vandamanna. Oftast þó þjónandi öllum.
Hún kom okkur á legg, átta einstaklingum, við bágan fjárhag og kröpp kjör, oftast. Að auki tók hún oft, ásamt pabba, einstaklinga inn á heimilið. Einstaklinga sem áttu um sárt að binda, gjarnan fjötraðir í áfengi og afbrot.
Aldrei man ég eftir að hafa heyrt hana minnast á þessa hluti eða finnast hún hafa skilað góðu dagsverki.
Þessvegna minnist ég á þetta hér. Hvunndagshetjur eru þessarar gerðar.
Mamma er ein þeirra. Ég setti saman kvæðisstúf fyrir nokkrum árum sem lýsir mömmu vel, hann má finna á þessari slóð: http://erlingm.blogspot.com/search?q=sokka

Ég óska henni til hamingju með afmælið og bið Guð um sérstaka blessun yfir hana.

2 ummæli:

Íris sagði...

Já hún amma er sko hetja! Alveg ótrúlegt hvernig lífi hún hefur þurft að lifa þarna í gamla daga!
Svo var rosa gaman að koma í afmælið hennar í dag. Gaman að geta sýnt henni Erling Elí og geta tekið myndir af henni með hann.
Svo var rosa gaman að hitta ykkur stórfjölskylduna mína því það er alltof langt síðan síðast :)
Þín elsta dóttir
Íris

Nafnlaus sagði...

maður fær tár í augun þegar maður hugsar til þessara hetja sem hafa borið uppi svo margt í fortíðinni sem blessar okkur í dag..
guð blessi hana mömmu þína og til hamingju með hana..

ég sakna minnar mömmu..

árný jóhanns